Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir viðbrögð hans vegna minna fyrirspurna hér. Hann hefur heitið þinginu því að kanna þetta mál rækilega. Á því er auðvitað fyllsta nauðsyn.
    Ég harma það jafnframt að það skuli hafa dregið til þeirra umræðna af hálfu sumra hv. alþm. hér í sambandi við þetta mál eins og fyrir liggur. Það er satt að segja með miklum fádæmum að alþingismenn hér, íslenskir alþingismenn, skuli rjúka upp til handa og fóta af þessu tilefni, til þess að bera blak af njósnastarfsemi hugsanlegri hérlendis og hógværum tilmælum um það að farið sé ofan í saumana á þeim efnum. Ég held að hv. alþm. ættu að kynna sér viðbrögð norskra stjórnmálamanna af svipuðu tilefni og raunar sama tilefni vegna hlerunarstarfsemi þessarar sömu njósnastofnunar sem tengist Noregi. Ég held að hv. þm. Karl Steinar Guðnason og hv. þingflokksformaður Eiður Guðnason ættu að lesa viðbrögð varaformanns norska verkamannaflokksins við þeim tíðindum sem komu fram fyrir fáeinum dögum og snúa að Noregi, af svipuðu tilefni. Sá talaði um það að njósnastarfsemi af þessum toga eitraði allt andrúmsloft, einnig milli svokallaðra bandamanna. Og menn ættu að athuga viðbrögð öryggisþjónustu norska atvinnulífsins sem hefur af því miklar áhyggjur, virðulegur forseti, að stundaðar séu iðnaðarnjósnir á vegum þessarar stofnunar. Ég held að menn ættu að fara svolítið ofan í tæknina sem liggur þarna að baki með öllu því gífurlega fjármagni sem þarna er fram reitt.
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða var heimiluð. Hún útilokar væntanlega ekki umræðu um önnur efni sem hljóta að brenna á mönnum í sambandi við alþjóðamál og utanrmn. þingsins hefur m.a. fjallað um undanfarna daga. En einnig þetta er verkefni fyrir utanrmn. þingsins að fara ofan í. Ég spyr hæstv. samgrh.: Hvað ætlar hann að gera í sambandi við þær stofnanir sem undir hann heyra og gætu kannski upplýst eitthvað í sambandi við þessi mál, t.d. Póst og síma? Viðtöl voru við starfsmenn hans í hádegisútvarpi. Ég held að það sé full ástæða fyrir fleiri hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands að leggja lið hæstv. utanrrh. í þeirri könnun sem hann hefur lofað að fram fari.