Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Mánudaginn 26. mars 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan árétta það sem fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum, nú síðast hjá hv. 2. þm. Reykv., um ýmislegt af því sem fram kemur í þessari skýrslu um starfsemi umboðsmanns Alþingis. Ég held það fari ekki á milli mála að það hafi sannast að rík þörf hefur verið á því að stofna til þessarar starfsemi til þess að ýmis stjórnvöld, ekki einungis ríkisstjórn heldur ýmsar stjórnvaldsstofnanir, fengju það aðhald sem þetta embætti felur í sér. Og einnig til að borgurunum gæfist kostur á að kvarta til þessa embættismanns, umboðsmanns Alþingis, ef þeir telja að á sér sé brotinn réttur. Ég tel einnig ástæðu til að ítreka það og árétta að sá maður sem valinn var til að gegna þessu embætti hafði víðtæka reynslu og var í miklu áliti sem prófessor í lögum. Hann hafði án efa víðtækan stuðning í þjóðfélaginu og hafði það eins og raun varð á hér á hinu háa Alþingi. Það er því fyllsta ástæða til að vænta þess að starf umboðsmannsins geti verið árangursríkt og til þessa starfs sé borið traust.
    Því miður er hægt að lesa það út úr þessari skýrslu, og hefur hér verið dregið fram, m.a. af hv. þm. Jóni Helgasyni sem mælti fyrir skýrslunni, að stjórnvöld hafa tregðast mjög við að svara þeim bréfum sem umboðsmaður hefur sent þeim og gefa þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir. Þetta virðist jafnvel ganga svo langt að væna megi framkvæmdarvaldið um það að vilja brjóta niður starf umboðsmanns Alþingis. Þá er sannarlega illa komið ef forstöðumenn ríkisstofnana og þá fyrst og fremst handhafar framkvæmdarvaldsins, hæstv. ríkisstjórnin sjálf, heldur á málum með þeim hætti að það sé vísvitandi gerð tilraun til þess að brjóta niður starf umboðsmanns Alþingis og leitast við að koma í veg fyrir að það starf gangi með eðlilegum hætti með því að tregðast við að gefa upplýsingar og tregðast við að svara því sem um er spurt. Þetta hefur verið rakið hér nokkuð af fyrri ræðumönnum. En þetta gengur svo langt
eins og fram kemur hér í skýrslunni undir kaflanum 9.1. Fyrirsögnin er: ,,Svör ráðuneyta við erindum, sem þeim berast.`` Þar kemur fram að umboðsmaður Alþingis hefur séð sig knúinn til þess að rita bréf ítrekað til forsrh. landsins til þess að leita liðsinnis hans við að einstakir ráðherrar og einstök ráðuneyti svari því sem um er spurt. Hér segir til að mynda í skýrslu umboðsmanns, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hinn 23. febrúar 1989 ritaði ég forsætisráðherra bréf. Tilefni þess var, að í starfi mínu voru þess nokkur dæmi, að ráðuneyti hefðu dregið úr hófi að verða við tilmælum mínum um upplýsingar eða skýringar vegna kvartana, sem mér höfðu borist, og ekki gert grein fyrir því, af hverju þessi töf stafaði.``
    Þetta ritaði umboðsmaður til forsrh. 23. febr. Þá segir hér áfram: ,,Þann 22. mars 1989 áréttaði ég ósk mína um að upplýst yrði, ,,hvort ráðuneyti fylgi almennt einhverjum reglum um svör við erindum manna, sérstaklega þegar afgreiðsla dregst lengur en

ætla má, að menn geri ráð fyrir.``"
    Enn segir í þessari skýrslu umboðsmanns, með leyfi forseta:
    ,,Ég sendi forsætisráðherra síðan ítrekunarbréf hinn 3. maí 1989. Þar sagði, að ég vænti þess, ,,að tilmæli þau, sem fram komu í bréfi ráðuneytis yðar frá 12. apríl s.l., verði ítrekuð við þau ráðuneyti, sem ekki hafa enn svarað erindinu.``"
    Þetta vísar til þess að hin fyrri kvörtunarbréf umboðsmannsins til forsrh. höfðu orðið til þess að hæstv. forsrh. hafði sent þessi kvörtunarbréf til allra ráðuneyta.
    Ég held að ástæða sé til þess að draga þetta rækilega fram í þessari umræðu um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Enda þótt það komi fram í þessum kafla skýrslunnar að sumar stofnanir og sum ráðuneyti hafi svarað tiltölulega greiðlega því sem um er spurt þá kemur það fram sem rauður þráður í þessari skýrslu um samskipti við framkvæmdarvaldið hversu mikil tregða er á að slík svör berist. Og þó að segi í skýrslunni að að lokum hafi svör borist við flestu eða miklu af því sem um var spurt, þá er þessi tregða jafnaugljós.
    Ég hlýt að spyrja að því hvort það sé raunverulega svo að framkvæmdarvaldið, og hér eru nú ekki aðrir ráðherrar viðstaddir en hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh., hvort framkvæmdarvaldið og hæstv. ríkisstjórn séu vísvitandi að tregðast við að gefa eðlilegar upplýsingar í þeim tilgangi að starf umboðsmanns Alþingis skili ekki þeim árangri sem að er stefnt og þá um leið sé verið að brjóta þetta starf niður. Það væri sannarlega illa farið. --- Hæstv. forsrh. gengur hér í salinn og ég sé það að hæstv. forsrh. hefur ítrekað, eftir beiðni umboðsmanns, sent samráðherrum sínum bréf þess efnis að óskað sé eftir því að þeir svari því sem um er spurt af hálfu umboðsmanns Alþingis. Þrátt fyrir það hefur það gerst að svörin berast svo seint og illa sem fram kemur í þessari skýrslu. Og ég sagði: Það lítur út fyrir það að með þessum hætti sé, jafnvel af ráðnum hug, verið að brjóta niður það starf sem umboðsmaður Alþingis er hér að vinna. Og það er sannarlega illa farið með þetta embætti og þann starfsmann sem því gegnir sem, eins og fram hefur komið
í þessari umræðu, er ekki vitað annað en hafi hið fyllsta traust meðal þjóðarinnar.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, árétta þetta öllu meira vegna þess að þessi atriði hafa einnig komið skýrt fram í máli annarra ræðumanna hér. Var þegar vikið að þeim í máli hv. 2. þm. Suðurl., sem mælti fyrir þessari skýrslu. Ég sé ástæðu til að láta það koma fram að í þessari skýrslu er staðfesting á því sem ég hélt fram hér á hv. Alþingi fyrir um það bil einu ári síðan að væri lögleysa af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þar á ég við hina svokölluðu búfjártalningu sem ákveðin var af hæstv. landbrh. með tilstyrk hæstv. dómsmrh. eða dómsmrn. á fyrri hluta síðasta árs. Hæstv. núv. dómsmrh., sem ég sé að staldrar hér við í salnum, var þá ekki kominn í það embætti. En það leysir ekki dómsmrn. undan því að

það er harla alvarlegt ef tveir af æðstu starfsmönnum þess ráðuneytis gefa út fyrirmæli til allra lögreglustjóra í landinu um tiltekna aðgerð sem ekki styðst við lög. Það er býsna alvarlegt.
    Hitt er einnig alvarlegt þegar tiltekinn fagráðherra gefur út slík fyrirmæli sem snerta einkahagi manna, eins og fram kemur í þessari skýrslu, sem engin lagastoð er fyrir. Nú er sá hæstv. ráðherra hér ekki viðstaddur, hæstv. landbrh. Ég þarf ekki að rekja þetta mál í mörgum atriðum. Ég held ég láti nægja að vísa til þess að umboðsmanni Alþingis barst kvörtun um þetta mál frá tilteknum aðila sem hér er kallaður A, þar sem hann sagði ástæðu kvörtunar sinnar vera þá að hann teldi ákvörðun um sérstaka talningu á öllu búfé í landinu sl. vor hafa skort lagastoð og framkvæmd hinnar sérstöku talningar, m.a. með atbeina lögregluyfirvalda, því verið ólögmæta. Enn segir í skýringum þessa aðila sem kvartaði til umboðsmanns, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel að með öllu hafi skort lagalega heimild til slíkrar sérstakrar talningar og að bændur þurfi ekki frekar en aðrar stéttir þjóðfélagsins að þola slíka aðför að eignarrétti sínum og friðhelgi heimila sinna. Ég tel að til að framkvæma talningu sem þessa þyrfti húsrannsóknarheimild og málið væri þá ekki lengur hluti af starfi framkvæmdarvaldshafa, heldur væri í eðli sínu um að ræða réttarrannsókn.``
    Ég held að það sé ekki ástæða til að rekja fleira úr skýringum þess aðila sem kvartaði til umboðsmanns Alþingis. En ég leyfi mér að lesa hluta af niðurstöðu umboðsmannsins sem staðfestir það að hérna var ekki kvartað að ástæðulausu, og staðfestir það sem ég hélt fram hér á hv. Alþingi þegar fyrir ári síðan, að hér væri um lögleysu að ræða, væri um aðgerð að ræða sem lagastoð skorti fyrir. Og ég endurtek að þó ekki sé hægt að draga úr því að það er býsna alvarlegt þegar fagráðherra leggur í slíka aðgerð án þess að hafa lagaheimild fyrir, er það sýnu forkastanlegra að sjálft dómsmrn., sem á að gæta laga og réttar í landinu, skuli gefa út fyrirmæli til allra lögreglustjóra í landinu, fyrirmæli sem enginn lagastafur er fyrir. Það er mjög alvarlegt. Og þó að þetta sé nú mál sem ýmsir kynnu að telja að væri ekki mjög veigamikið sýnir það að mikil þörf er á því að hér sé embætti umboðsmanns sem aðilar í þjóðfélaginu geta leitað til.
    En undir lok í áliti umboðsmanns Alþingis segir um þetta mál: ,,Eins og áður segir, er ekki heimild af því tagi í búfjárræktarlögum nr. 31/1973 og athugun mín hefur ekki leitt í ljós, að slíka heimild sé að finna í öðrum lögum. Ég tek í því sambandi sérstaklega fram, að heimild til að kveðja lögreglumenn til þátttöku í umræddri búfjártalningu, verður ekki reist á 1. gr. laga nr.
56/1972 um lögreglumenn, þegar af þeirri ástæðu, að ekki eru nein bein lagafyrirmæli um talningu þessa.
    Niðurstaða mín er því sú, að lagaheimild hafi skort til þeirrar ákvörðunar landbúnaðarráðuneytisins að mæla fyrir um sérstaka búfjártalningu samhliða skoðun forðagæslumanna. Ég tel sérstaka ástæðu til að leggja áherslu á, að það leysir ekki undan nauðsyn

lagaheimildar til ráðstafana á vettvangi stjórnsýslu, að um þarfar og nauðsynlegar ráðstafanir er að ræða. Það er hlutverk Alþingis í tilvikum, sem hér um ræðir, að ákveða með hliðsjón af þeim hagsmunum, sem í húfi eru, hvaða úrræði skuli vera stjórnsýslunni tiltæk.``
    Ég hef ekki farið í að rekja þetta mál, vildi aðeins vekja athygli á þessari niðurstöðu umboðsmannsins, sem er algerlega í samræmi við það sem ég hélt fram í umræðum um þetta mál á Alþingi fyrir ári síðan. Ég hef talið ástæðu til að draga fram það úr áliti umboðsmanns, þar sem hann segir að það skipti auðvitað engu máli þótt menn telji að um þarfa aðgerð sé að ræða, frá einhverjum hagsmunum séð, ef lagastoðina skortir. Og það er einmitt það sem hér skortir á í þessu tilliti.
    Ég ætla ekki að hafa eftir að þessu sinni, vegna fjarveru hæstv. landbrh., nokkrar setningar sem hann lét falla um þetta í minni viðurvist, bæði hér á Alþingi og á almennum fundi, en ég taldi ástæðu til þess að draga þetta hér fram þó að fjölmörg önnur mál séu í þessari skýrslu sem ekki eru síður athygli verð, og sanna það, eins og ég hef hér sagt, að það er mikil þörf á starfi umboðsmanns Alþingis. Það væri og mikil nauðsyn á því að handhafar framkvæmdarvaldsins leituðust við að greiða fyrir því að starf umboðsmanns Alþingis gæti gengið fram með sæmilegum hætti en sýndu ekki tregðu svo að það
þarf ítrekað að óska eftir svörum og það þarf ítrekað að beina því til hæstv. forsrh. landsins, að hann beiti áhrifum sínum innan ríkisstjórnar til þess að fá svörin fram. Þetta hlýtur að draga að því hugann að það starf, sem umboðsmaður Alþingis hefur með höndum, sé hæstv. ríkisstjórn eða ýmsum ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar ekki sérlega þóknanlegt.