Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Mánudaginn 26. mars 1990


     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Það virðist þegar hafa komið í ljós að þær hafi verið mjög gagnlegar og eytt misskilningi sem virðist hafa verið á ferðinni og eigi að stuðla að því að framvegis verði þessi starfsemi auðveldari og skili betri árangri.
    Hv. 6. þm. Reykv. gat þess þegar umræðan hófst sl. fimmtudag að skammur tími væri fyrir þingmenn að fara í gegnum þessa skýrslu þar sem henni var dreift sl. mánudag. Það er rétt að það er ekki langur tími. Hins vegar er þetta fyrirferðarmikil skýrsla sem tók nokkurn tíma að ganga frá og koma til útbýtingar hér. Reynt var að koma þessari umræðu að áður en allt of miklar annir væru í þinginu, þannig að eðlilegt tóm gæfist til umræðna um skýrsluna og lengri tími en varð reyndin á síðasta þingi þegar komið var að þinglokum þegar um skýrsluna var fjallað.
    Ég vildi víkja örfáum orðum sérstaklega að þeim atriðum sem beint var til hæstv. fjmrh. og hann síðan svaraði hér og þá ítreka það sem ég sagði í framsöguræðu minni sl. fimmtudag, að ég tel að starf umboðsmanns sé til leiðbeiningar og aðstoðar fyrir ráðuneytin og þeirra stofnanir til þess að koma starfsháttum í sem best horf. Því sé nauðsynlegt að þar sé gott samstarf og skilningur á milli, eins og mér virðist hafa komið fram í máli þeirra hæstv. ráðherra sem hér hafa talað, að þeir hafa fullan vilja til.
    Varðandi vinnubrögð við undirbúning fjárlaga og hvernig þar eigi að taka tillit til tillagna Alþingis er það rétt að forsetar Alþingis hafa látið í ljós þá skoðun að eðlilegt væri að þær tillögur, sem frá Alþingi koma um fjárveitingar til stofnana þess, yrðu efnislega teknar inn í fjárlagafrv. fjmrh. Að sjálfsögðu verður við undirbúning fjárlagafrv. að fara yfir verðgildi þeirra tillagna og samræma það við aðrar tölur í frv. Forsetar líta svo á að síðan sé það hlutverk fjvn. að fara ofan í tillögurnar að öðru leyti, gagnrýna þær og vega og meta hvað fjvn. leggur til að Alþingi ákveði til þessara starfa, eins og reyndar hæstv. fjmrh. tók fram að væri að sjálfsögðu verkefni fjvn. Þarna er kannski dálítill skoðanamismunur um málsmeðferð þó að í máli hæstv. fjmrh. hafi komið fram að hann er sammála um endanlega niðurstöðu.
    Eins og ég benti á í framsöguræðu minni tel ég að ábendingar umboðsmanns stuðli að því að koma störfum í ráðuneytunum fyrir á þann veg að það eigi að auðvelda ráðuneytunum að sinna sínum verkefnum og ráða við þau. Því að vissulega fer mikill tími í það ef stöðugt þarf að taka á móti fyrirspurnum um hvað málum líði og gefa skýringar á drætti sem verður, ef ekki er nægjanlega skipulega að störfum unnið. Ef mál eru vandlega undirbúin og frá þeim gengið eiga svör við spurningum umboðsmanns mestmegnis eða kannski eingöngu að vera upplýsingar um staðreyndir en ekki undirbúningur máls að öðru leyti.
    Tillaga hæstv. fjmrh. um breytingar á þingsköpum, um umræðuvettvang við umboðsmann Alþingis og

ríkisendurskoðanda er vissulega athyglisverð. Þó held ég að það yrði að skipta henni í tvennt, þ.e. að ríkisendurskoðandi ætti fundi með fjvn. og fjh.- og viðskn. en umboðsmaður Alþingis þá aftur með allshn. bæði sameinaðs þing og deilda, þar sem eðli mála, sem undir þessar nefndir falla, er ólíkt.
    Ég vil svo ítreka þakklæti mitt fyrir umræðuna og lýsa því yfir að forsetar munu reyna að stuðla að því að þróun mála verði svipuð og umboðsmaður hefur mótað með upphafi starfsferils síns. Mér finnst þessi umræða hafa stuðlað að því að draga úr misskilningi þannig að starf umboðsmanns megi verða sem jákvæðast fyrir alla aðila.