Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Mánudaginn 26. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu mikið en taldi þó nauðsynlegt að segja hér örfá orð. Í fyrri ræðu minni fór ég þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann gerði nokkra grein fyrir samskiptum sínum við embætti umboðsmanns Alþingis, af gefnu tilefni í þessari skýrslu sem hér er til umræðu. Hæstv. fjmrh. gerði það í allítarlegu máli og ég tel að niðurstaða þessara orðaskipta sé sú, að hafi menn haft einhvern grun um að hæstv. fjmrh. vildi leggja stein í götu umboðsmanns Alþingis, sé það ekki á rökum reist. Hann lýsti alveg sérstaklega áhuga sínum á þessu embætti, bæði í nútíð og fortíð og lét reyndar í ljós undrun yfir því að nokkrum skyldi detta í hug að hann hefði ekki fullan skilning á þessu embætti, miðað við þann áhuga sem hann hefði sýnt þessu máli mörg ár aftur í tímann. Ég kann auðvitað ekki skýringu á því hvers vegna við vitum ekki eða höfum ekki áttað okkur á þessum áhuga hæstv. ráðherra, nema vera kynni að alþekkt hógværð hæstv. ráðherra geri það að verkum að menn hafa hingað til ekki tekið eftir þessum mikla áhuga hans á þessu merka máli. Niðurstaðan er hins vegar sú, samkvæmt hans yfirlýsingu, að hann er eindreginn stuðningsmaður umboðsmanns Alþingis og þeirrar réttarbótar sem felst í því embætti og að það skuli hafa verið sett á laggirnar. Og því ber auðvitað að fagna.
    Hins vegar er það svo að þó að hæstv. ráðherra hafi talið að þær ályktanir sem menn hafa dregið af ýmsu því sem frá honum hefur komið varðandi þetta embætti væru misskilningur er ég auðvitað ánægður yfir því að hann heldur ekki við þær skoðanir, en misskilningurinn átti fullan rétt á sér. Umboðsmaður Alþingis og við aðrir þingmenn sem þetta höfum rætt hér höfðum fulla ástæðu til þess að draga þær ályktanir sem dregnar hafa verið af aðgerðum og orðum hæstv. fjmrh.
    Þegar hæstv. fjmrh. sér ástæðu til þess að ítreka hvað eftir annað að það kosti mikla vinnu í ráðuneytum og stofnunum að svara erindum og vinna upplýsingar sem umboðsmaður Alþingis óskar eftir gefur það auðvitað tilefni til þess að draga ályktanir af því tagi sem gert var. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hæstv. fjmrh. hafi gert allt of mikið úr því í ræðu sinni áðan hversu gríðarleg vinna sé fólgin í því að svara fyrirspurnum sem umboðsmaður Alþingis hefur lagt fyrir ráðuneytið. Og í því sambandi vil ég vitna í það sem umboðsmaður Alþingis segir sjálfur um þetta efni í skýrslu sinni, þar sem hann er að fjalla einmitt um hversu oft það dragist að fá svör við erindum. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Reynsla mín er einnig sú, að yfirleitt sé ekki samhengi milli tafa á svörum og umfangs þess verks, sem þarf til þess að svara fyrirspurnum og gefa nauðsynlegar upplýsingar. Auk þess er ekki mikil fyrirhöfn að gera grein fyrir töfum á svörum, en slíkt er í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og til þess

verður að ætlast, einnig gagnvart embætti umboðsmanns. Á því hefur samt orðið misbrestur í nokkrum tilvikum, þótt ráðuneyti hafi í vaxandi mæli gert grein fyrir ástæðum tafa, a.m.k. eftir á.
    Óskir mínar um öflun upplýsinga hafa yfirleitt ekki haft í för með sér úrvinnslu gagna eða öflun gagna, sem ekki voru tiltæk í viðkomandi ráðuneyti eða stofnun. Greinargerðir ráðuneyta og stofnana varða yfirleitt ákvarðanir, sem þessir aðilar hafa þegar tekið.``
    Með tilliti til þessara orða og reyndar eðlis máls þegar skoðuð er sú skýrsla sem hér liggur fyrir og athuguð þau mál sem þar er gerð grein fyrir held ég að hæstv. fjmrh. hafi miklað mjög fyrir sér umfang þessara verkefna. Og það er auðvitað ekkert nýtt að hér á Alþingi komi upp umræður um umfang fyrirspurna frá einstökum alþingismönnum. Það er mál sem ég minnist að hafi alltaf komið upp af og til síðan ég kom á Alþingi, að ráðherrar og einstök ráðuneyti kvarta yfir því að það fylgi því mikil vinna að útbúa svör við ýmsum fyrirspurnum sem alþingismenn setja fram. En það er auðvitað alveg ófært eins og hæstv. fjmrh. hefur gert að blanda því saman við réttmætar óskir umboðsmanns Alþingis um upplýsingar frá ráðuneytum. Hér er tvennu ólíku saman að jafna.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fjölyrða um þetta frekar. Mér þótti nauðsynlegt að gera þessar athugsemdir við ræðu hæstv. fjmrh. Ég fagna hins vegar því sem fram hefur komið, bæði frá hans hendi og frá hæstv. forsrh., að þeir hafi fullan skilning á embætti umboðsmanns og mikilvægi þess fyrir almenning í landinu og fyrir bætta stjórnsýslu. Ég lít svo á að þessar yfirlýsingar þeirra feli í sér að þeir muni gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að greiða fyrir störfum umboðsmanns með því að láta af hendi upplýsingar og gögn, bæði fljótt og vel. Ef sú er niðurstaðan tel ég að þessi umræða um skýrslu umboðsmanns Alþingis hafi orðið til góðs hér á hv. Alþingi.