Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sjúkraþjálfara í öll fræðsluumdæmi landsins. Flm. auk mín eru aðrar þingkonur Kvennalistans, þær Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Sigríður Lillý Baldursdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að ráðnir verði sjúkraþjálfarar í öllum fræðsluumdæmum landsins.``
    Varla ætti nokkrum manni að blandast hugur um það að velferð barna og unglinga er á ábyrgð allra þeirra sem einhverju geta ráðið um það hvernig búið er að þeim. Þetta á við um uppalendur, skólafólk, starfsfólk heilbrigðisstéttanna og þá sem með fjárveitingar úr okkar sameiginlega sjóði fara. Grunnskólarnir eru fjölmennustu vinnustaðir landsins og stærsti hópurinn, sem þar er við nám og störf, eru skólabörn og unglingar. Þau eyða mörgum klukkustundum á degi hverjum innan veggja skólans og því er mikilvægt að vel sé búið að þeim á vinnustað.
    Á skólaárunum er lagður grunnur að líkamlegri og andlegri velferð barnanna. Líkamlega og andlega velferð er varla hægt að skilja í sundur og raunar má í viðbót nefna félagslega velferð. Það sem við erum í rauninni að segja með því að benda á að tryggja þurfi velferð barna og unglinga er einfalt. Við viljum að börnunum líði vel. Til þess þurfum við að búa þeim góðar ytri aðstæður, hollt mataræði og öruggt húsaskjól, fylgjast með því hvernig þeim líður í hópi skólafélaga og gæta þess að þau njóti góðs atlætis innan skólans sem utan, svo fátt eitt sé nefnt.
    Eitt af því sem gert hefur verið til þess að hlúa vel að skólabörnum er að starfrækja sálfræðiþjónustu í skólum, sums staðar að vísu sárlega undirmannaða. En afstaðan sem tekin var með því að setja hana á laggirnar er ótvíræð. Við viðurkennum að samfélag nútímans og þær aðstæður sem við búum börnum og foreldrum þeirra séu slíkar að þörf á sálfræðilegri ráðgjöf og leiðsögn sé fyrir hendi ef á bjátar. Sálfræðiþjónusta er því góðra gjalda verð og er eðlilegur hluti nýrra áherslna í skólastarfi. En það er mat flestra að ekki skuli setja skörp skil milli líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar velferðar. Því er e.t.v. tímabært að hyggja að fleiru án þess að draga úr því sem þegar er til staðar, þ.e. sálfræðiþjónustunni.
    Það eru fleiri fylgifiskar nútímasamfélags en þær flækjur sem fylgja vinnustreittum og margslungnum þjóðháttum í lok 20. aldarinnar. Vinnuumhverfi hefur breyst, líkamlegt álag er annars konar en var í upphafi þessarar aldar. Það þarf ekki að fara lengra aftur en nokkra áratugi til að skynja miklar breytingar. Kyrrsetuvinna er algengari nú en áður var. Hún er talin óholl fyrir líkamann svo og ýmiss konar ákvæðisvinna, þessi margfrægi bónus t.d. Rétt líkamsbeiting getur skipt sköpum um hvort líkaminn þoli álag eða hreyfingarleysi í misvel hönnuðum

hægindum eða um það hvort fólk fær alvarleg einkenni slitsjúkdóma, jafnvel á unga aldri. Vel þarf að hyggja að því á hvaða grunni börnin okkar byggja þegar þau fara út í atvinnulífið. Verða þau meðvituð um líkama sinn og beitingu hans eða ekki? Hafa þau vanist því að vinna við mannsæmandi vinnuaðstæður eða hefur þeim verið boðið upp á óviðunandi aðbúnað? Brýnt er að tryggja skólabörnum þá sjálfsögðu þjónustu að fylgst sé með velferð þeirra á viðkvæmum uppvaxtarárum.
    Í upphafi skólagöngu eru bein barna ekki fullhörðnuð og samhæfing hreyfinga er einnig á viðkvæmu þroskastigi. Við rangt álag geta bein barna bognað og þroski samhæfinga og hreyfanleika líkamans er háður því að örvun sé við hæfi.
    Börn þurfa, ekki síður en fullorðnir, að búa við góða vinnuaðstöðu og viðeigandi ráðgjöf og kennslu til að tryggja eðlilega líkamsbeitingu, samhæfingu og hreyfanleika. Í því skyni er hér lagt til að komið verði á fót stöðu sjúkraþjálfara í öllum fræðsluumdæmum landsins. Þar sem ekki væri kostur á sjúkraþjálfara í fast starf yrði fenginn sjúkraþjálfari af öðru svæði er veitti þá þjónustu, sem hægt væri, í hlutastarfi. Hlutverk sjúkraþjálfara væri fjórþætt:
    1. Að fylgjast með vinnuaðstöðu skólabarna og veita ráðgjöf við innkaup á húsgögnum.
    2. Að leiðbeina kennurum og nemendum um rétta líkamsbeitingu barna og unglinga.
    3. Að tengjast heilsugæslu skólabarna, t.d. með því að taka þátt í skólaskoðun ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi eða skoða einstaka hópa skólabarna.
    4. Að eiga samstarf við íþróttakennara vegna barna sem ekki eru í almennri leikfimi.
    Þýðing forvarna og vinnuverndar hefur komið æ betur í ljós á síðari árum. Góðar forvarnir og fræðsla fækka ekki einungis veikindadögum heldur bæta einnig líðan fjölda fólks á vinnustöðum. Einfaldar úrbætur á vinnustað geta þar skipt sköpum. Góð fræðsla um líkamsbeitingu er fjárfesting sem kemur öllum
til góða og minnkar líkur á að leita þurfi dýrra úrræða á sjúkrahúsum síðar meir vegna álagssjúkdóma.
    Skólinn er vinnustaður barna og það fordæmi, sem þar er gefið, er veganesti út í lífið. Forvarnastarf í skólum er því ekki einungis mikilvægt til að hlífa börnum á viðkvæmu þroskaskeiði heldur jafnframt sá grunnur sem vinnuvernd framtíðarinnar byggir á.
    Í allri umræðu um heilbrigðismál hefur mikið verið rætt og ritað um gildi forvarna. Því miður vantar víða mikið á að athafnir fylgi á eftir. Þekking sem gæti verið mikilvæg í forvörnum er oft frekar nýtt í viðgerðarþjónustunni. Ekki þarf að spyrja um það hve miklu æskilegra væri að gripið hefði verið í taumana fyrr, fólki sparaður sársauki, samfélaginu vinnutap og ómældir fjármunir.
    Í greinargerð um sjúkraþjálfun í heilsugæslu sem María H. Þorsteinsdóttir, Kalla Malmqvist, Hulda Ólafsdóttir og Nanna Þ. Hauksdóttir skiluðu til landlæknisembættisins í árslok 1986 koma ýmsar athyglisverðar staðreyndir í ljós. Eitt af því sem

sérstaka athygli vekur er að meginþorri sjúkraþjálfara vinnur við að meðhöndla fólk sem þegar er orðið illa farið af ofálagi, það sem maður kallar oft vinnuslit. Eða þeir fást við að hjálpa fólki sem er illa farið af völdum annarra veikinda og slysa. Forvarnastarf er lítið þrátt fyrir að lög kveði á um hlut sjúkraþjálfara við heilsugæslu. Sjúkraþjálfarar vinna flestir á einkastofum úti í bæ í litlum tengslum við aðra heilsugæslu. Hvað þá að þeir tengist skólaheilsugæslu og íþróttastarfi í skólum, þeim grunni sem skólabörnunum er búinn í líkamsrækt í bernsku. Í greinargerðinni er að finna hugmyndir um á hvern hátt höfundar telja að sjúkraþjálfarar ættu að vinna fyrirbyggjandi starf í skólum. Mig langar að grípa aðeins niður í þessa greinargerð, með leyfi forseta.
    Þar er talað um í fyrsta lagi: ,,Skoðun og skráningu á skólabörnum. Hér mætti hugsa sér að sjúkraþjálfari skoði þá aldurshópa sem ekki fara í hefðbundna læknisskoðun, eða tækju þátt í skoðun ákveðinna aldurshópa með skólalækni og hjúkrunarfræðingi.`` Hér er komið inn á einn þáttinn sem talað er um í þáltill. Og ég held áfram: ,,Markmið með slíkri skoðun er tvíþætt. Að fá yfirlit yfir ástand skólabarnanna með tilliti til hreyfanleika, samhæfingar, styrks, þols og líkamsmeðvitundar. Slík skoðun og skráning mundi vera þýðingarmikil í uppbyggingu markvissrar fræðslu og líkamsþjálfunar skólabarna.`` Auk þess er talað um að uppgötva fyrr frávik og sjúkdóma í hreyfikerfi líkamans. Varðandi kennslu skólabarna segir hér: ,,Sjúkraþjálfarar ættu að taka þátt í kennslu skólabarna um byggingu og starf líkamans og hvernig hægt sé að verja hann ofálagi. Börnin þarf að vekja til vitundar um eigin líkama, mikilvægi réttrar þjálfunar og líkamsbeitingar.``
    Varðandi kennslu og samvinnu við kennara stendur hér: ,,Í almennri kennslu uppgötvar kennarinn oft misbresti í færni barnsins. Í slíkum tilvikum getur sjúkraþjálfari meðal annarra aðstoðað við greiningu vandans og hugsanlega meðferð. Leikfimikennsla í skólum er tilvalinn vettvangur samvinnu. Skráning sjúkraþjálfara á ástandi skólabarna getur skapað grundvöll að því að leikfimikennslan verði markvissari þannig að unnið verði gegn þeim áhættuþáttum sem fundist hafa meðal skólabarnanna. Þetta krefst náinnar samvinnu milli kennara og sjúkraþjálfara. Vinnuvernd skólabarna er einnig mikilvægur þáttur sem sjúkraþjálfarar eiga að sinna. Hafa ber í huga að skólinn er vinnustaður nemendanna og mikilvægt að allur aðbúnaður sé við þeirra hæfi svo sem stólar, borð, lýsing og fleira.`` Hér læt ég tilvitnun lokið þótt í þessari skýrslu komi raunar ýmislegt fleira fram sem ástæða væri til að geta.
    Þess má geta að fram kemur í þessari sömu skýrslu að við grunnskólann í Bolungarvík starfaði um tíma sjúkraþjálfari. Starf hans fólst í athugun og þjálfun sex ára barna í nánu samstarfi við heilsugæsluna og kennara. Að öðru leyti hafa sjúkraþjálfarar ekki tengst skólunum nema þar sem fötluð börn stunda nám, svo sem í Öskjuhlíðarskóla og Hlíðaskóla.
    Í skýrslu frá Vinnueftirliti ríkisins eftir Ólöfu A.

Steingrímsdóttur, Villhjálm Rafnsson, Þórunni Sveinsdóttur og Magnús H. Ólafsson um hóprannsókn á einkennum frá hreyfi- og stoðkerfi, en skýrsla þessi birtist í Læknablaðinu árið 1988, kemur fram að einkenni frá hreyfi- og stoðkerfi eru algeng meðal Íslendinga, þessi einkenni sem við tengjum oft við vinnuslit. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Niðurstöður sem hér liggja fyrir eru fengnar úr slembiúrtaki og ættu því að gefa glögga mynd af algengi einkenna frá hreyfi- og stoðkerfi meðal þjóðarinnar. Óþægindi frá hálsi og hnakka, herðum eða öxlum, neðri hluta baks og höfði eru útbreidd. Athygli vekur að meira en 40% kvenna hafa haft óþægindi frá hálsi eða hnakka og herðum eða öxlum síðustu sjö sólarhringana.`` Og nokkru aftar stendur: ,,Óþægindi frá hreyfi- og stoðkerfi virðast hafa veruleg áhrif á vinnufærni Íslendinga. Margir segja að þau komi í veg fyrir að þeir gætu stundað dagleg störf einhvern tíma á síðustu tólf mánuðum.``
    Og loks vil ég vitna í þau orð sem mér þykja allrar athygli verð undir lok skýrslunnar:
    ,,Rannsóknin skýrir ekki ástæður þess að einkennin eru svo algeng meðal Íslendinga, niðurstöðurnar gefa einungis vísbendingu um umfang vandans. Á þessu stigi er aðeins hægt að velta vöngum yfir orsökunum sem sjálfsagt eru margþættar. Leiða má getum að því að langur vinnudagur auki tíðni slíkra einkenna. Því er rétt að hafa í huga að vinnudagurinn er langur hér á landi miðað við annars staðar, þar á meðal í Svíþjóð. Fleiri atriði geta haft áhrif. Sem dæmi má nefna slæmar vinnuaðstæður, streitu og kalda veðráttu. Það eru verðug rannsóknarverkefni að prófa þessar og aðrar tillögur. Síðustu árin hafa umræður um forvarnir aukist bæði innan heilbrigðisstétta og meðal almennings. Árangur forvarnaaðgerða sést ekki alltaf strax á breyttri líðan fólks eða lægri sjúkdómstíðni. Þó má ætla að heppilegra sé að koma í veg fyrir mikil óþægindi en að þjálfa þá sem þegar hafa orðið að þola sársauka og orðið fyrir vinnutapi.`` Ég læt hér lokið tilvitnun minni.
    Ég vil sannarlega gera þessi orð að mínum og þykir raunar hógværlega að orði komist. Og ég vil bæta við: Hvar eru virkar forvarnir betur komnar en í skólum? Okkur er skylt að búa vel að börnunum. Við fáum það margfalt til baka ef okkur tekst að búa þeim gott atlæti í æsku og ala upp kynslóð sem er meðvituð um líkama sinn, rétta líkamsbeitngu og að vinnuvernd er mál sem varðar alla aldurshópa.
    Þessi þáltill. er leið sem vel er fær til að leggja þessu máli lið og því vonast ég til að hún fái góða og skjóta afgreiðslu.
    Að loknum umræðum legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.