Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 804 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 34/1988, um bifreiðagjald. Þetta er álit meiri hl. fjh.- og viðskn.
    Þetta mál var tekið út úr nefndinni í gær eftir nokkrar umræður. Þrátt fyrir það var ákveðið undir lok fundarins að ræða við Guðmund J. Guðmundsson nú í morgun til að fá nánari skýringar og hans álit á því frv. sem hér um ræðir og þá sérstaklega hvaða skoðun Verkamannasamband Íslands hafi á þeim skattalagabreytingum sem hér koma fram. Þetta frv. gerir ráð fyrir hækkun bifreiðagjalds en þó ekki eins mikið og upphaflega stóð til. Upphaflega stóð til að hækka bifreiðagjaldið um 91% á þessu ári. Síðan var horfið frá því í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru í febrúarmánuði sl. þannig að hækkunin er ekki nema upp undir 50% í staðinn fyrir 91% eins og gert var ráð fyrir í frv. eins og það var lagt fyrir í Nd.
    Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að mál þetta verði afgreitt eins og það kom frá Nd. Undir álitið rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson og Eiður Guðnason.