Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands sem er 420. mál á þskj. 732. Á fund nefndarinnar komu háskólarektor, dr. Sigmundur Guðbjarnason, Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Háskólann, og Jónas Fr. Jónsson, formaður stúdentaráðs.
    Á fundum nefndarinnar var ítarlega farið yfir efni frv., m.a. með tilliti til þeirra athugasemda sem fram komu hér í þessari hv. deild. Við 1. umr. málsins komu m.a. fram athugasemdir við stöðunöfn, þ.e. að breyta skyldi þeim nöfnum sem notuð hafa verið til þessa eins og byggingarstjóri sem verða skyldi framkvæmdastjóri byggingar- og tæknisviðs, kennslustjóri sem yrði framkvæmdastjóri kennslusviðs o.s.frv. Þetta ræddu nefndarmenn allítarlega við fulltrúa Háskóla Íslands. Í þeim umræðum kom m.a. fram að hinar gömlu nafngiftir, þó styttri séu og að sumu leyti kannski þjálli í notkun, eiga ekki lengur við, eru að sumu leyti úreltar og að öðru leyti beinlínis rangnefni.
    Nefndarmenn ræddu þennan þátt málsins töluvert við þá háskólamenn sem einnig höfðu í sínum hóp fjallað ítarlega um þetta mál en ekki fundið aðrar lausnir betri en frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að gera þessa menn alla jafnsetta í nafngiftum og kalla þá framkvæmdastjóra vegna þess að það er það sem þeir í eðli sínu eru. Það var fyrst og fremst af sögulegum, og tilfinningalegum ástæðum kannski, sem nafngiftin háskólaritari er látin halda sér yfir framkvæmdastjóra fjármálasviðs. En annars kom fram í umræðunum svo að ég nefni dæmi að kennslustjóri stjórnar ekki kennslu. Byggingarstjóri stjórnar ekki byggingum, hans verksvið er miklu víðtækara. Því var það samdóma niðurstaða í nefndinni að fallast bæri á þessi rök í ljósi þess að okkur brast líka hugmyndaflug eða orðgnótt, orðauðgi til að búa til ný nöfn. Enda held ég að þetta skipti ekki meginmáli.
    Tilgangurinn með þeim almennu breytingum sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og auðvitað eru aðalatriði þessa máls, er að staðfesta í ýmsum greinum fyrirkomulag sem þróast hefur innan Háskólans varðandi stjórnun og skipulag og hefur gefist vel í ljósi reynslunnar. Í öðru lagi að gera deildirnar ábyrgari hverja á sínu sviði. Í þriðja lagi að skapa með ýmsum hætti skýrari verkaskiptingu innan Háskólans og í fjórða lagi að fá stjórnsýslu og kennara til að vinna saman í ríkari mæli en verið hefur til þessa.
    Allar þessar breytingar teljum við í menntmn. til verulegra bóta. Þetta frv. hefur hlotið vandaðan undirbúning og um það ríkir góð samstaða innan Háskólans milli stúdenta, það kom sérstaklega fram á fundinum, stjórnenda og kennara. Við í menntmn. höfum ekki athugasemdir við frv. að gera og leggjum því til, herra forseti, að það verði samþykkt óbreytt.