Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 808 frá fjh.- og viðskn. um frv. til laga um ábyrgðadeild fiskeldislána. Þetta mál var rætt á fundi nefndarinnar í gær og voru allir nefndarmenn sammála um afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita allir nefndarmenn.
    Það mál sem hér um ræðir var töluvert ágreiningsmál þegar það kom til umræðu í Nd. Niðurstaðan varð þó sú að menn náðu þar samkomulagi um afgreiðsluna, enda er hér um mjög mikilvægt málefni að ræða. Ætla ég ekki að fjölyrða um það frekar þar sem menn hafa eflaust kynnt sér efni þess.
    Menn eru almennt sammála um nauðsyn þess að flýta afgreiðslu málsins. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um einstaka efnisþætti þess, en legg áherslu á, með tilliti til þeirrar bágu stöðu sem þessi atvinnugrein, fiskeldið, er í, að frv. þetta nái fram að ganga og verði afgreitt eins fljótt úr deildinni og kostur er.