Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég var fjarverandi þegar þetta mál var tekið fyrir í fjh.- og viðskn. og gat þess vegna ekki komið athugasemdum mínum þar á framfæri og vil af því tilefni spyrja formann nefndarinnar, svo og hæstv. fjmrh. hvað átt sé við með orðalagi 4. gr. en þar segir:
    ,,Það er skilyrði fyrir veitingu sjálfskuldarábyrgðar að viðkomandi fiskeldisfyrirtæki fái samningsbundin eldislán frá banka eða öðrum lánastofnunum án ríkisábyrgðar og að fyrirtækið hafi þær tryggingar sem fullnægja skilyrðum lánastofnunarinnar.``
    Nú standa mál svo hér á landi að við erum með tvo ríkisbanka, Búnaðarbanka og Landsbanka, og eru þess vegna eðli sínu samkvæmt með ríkisábyrgð. Sömuleiðis erum við hér með nokkra sjóði sem eru með ríkisábyrgð. Ég get tekið Byggðasjóð sem dæmi. Eins og setningin stendur hér virðast orðin ,,án ríkisábyrgðar`` eiga að gilda jafnt við orðið banki sem aðrar lánastofnanir og auðvitað alveg ljóst eftir orðanna hljóðan að ábyrgðadeildin getur ekki tekist á hendur sjálfskuldarábyrgðir vegna fiskeldisfyrirtækja ef þessu orðalagi verður haldið.
    Það vekur athygli ef athugasemdir við 4. gr. frv. eru lesnar að þar er ekki fjallað um þetta atriði, ,,án ríkisábyrgðar``, og virðist sem þessi orð hafi verið
sett inn í texta frv. eftir að það var samið og alls ekki af þeirri nefnd sem samdi frv. heldur sé það leiðrétting eftir á sem stendur þannig af sér, að hún hlýtur að taka jafnt til banka sem lánastofnana, og verður þá ekki séð annað en fiskeldisfyrirtækin verði að snúa sér til Íslandsbanka eða sparisjóða eða ég veit ekki hvaða lánastofnana annarra, til þess að fá þau samningsbundnu eldislán sem hér er verið að tala um. Þetta er fyrsta athugasemd mín.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. fjmrh. og jafnframt beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvort undirbúningur að reglugerð sé kominn það vel á veg að búast megi við því að hún geti komið út fyrir páska a.m.k., þannig að sjóðurinn geti þegar í stað tekið til starfa. Ég held að það sé nauðsynlegt. Nógu lengi hefur þetta mál verið látið danka.
    En ég ítreka hina fyrri athugasemd mína, eins og textinn er í 4. gr. í þessu frv. og einkanlega þar sem fjh.- og viðskn. hefur ekki fjallað um málið, er óhjákvæmilegt að taka þetta mál til athugunar á nýjan leik í fjh.- og viðskn. Ég óska eftir því að hlé gert verði á þessari umræðu þannig að nefndinni verði gefið tækifæri til þess að taka málið aftur til athugunar með hliðsjón af þeim athugasemdum sem ég hef gert við 4. gr.