Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég kunni ekki við tóninn í formanni fjh.- og viðskn. hér áðan og sé ástæðu til þess að gera athugasemdir við nefndarstörf af því tilefni. Ég gekkst inn á það fyrir áramótin að greiða fyrir málum hér í deildinni og þá var mér heitið því að frv. sem ég á í fjh.- og viðskn. yrði afgreitt strax eftir jólin, eftir hátíðar. Það frv. hefur ekki verið afgreitt enn úr fjh.- og viðskn. Þess vegna skildi ég ekki alveg þá sneið sem hann gaf mér um það að ég hefði komið of seint á fund fjh.- og viðskn. Ég efast um að aðrir þingmenn hafi setið lengur á fundi fjh.- og viðskn. síðan eftir síðustu alþingiskosningar sem þar hafa átt sæti. Ég er ekki viss um að aðrir hafi verið þaulsætnari í þeirri nefnd og tek ég þá formann fjh.- og viðskn. með í þeirri upptalningu.