Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað oft álitamál hvað eru spor í réttlætisátt og menn greinir á um það hér inni á Alþingi eins og úti í þjóðfélaginu hvað teljist spor í réttlætisátt og hvað ekki. Við kvennalistakonur álítum ekki að það sé spor í réttlætisátt að eitt þrep gildi í eignarskatti og teljum réttlátara að þau séu tvö. Við höfum verið fylgjandi fleiri skattþrepum en einu í bæði tekju- og eignarskatti, en þar með er ekki sagt að við höfum verið sammála því hvernig það hefur verið framkvæmt.
    Ef við teldum það spor í réttlætisátt að allir greiddu sama eignarskatt án tillits til eigna mundum við auðvitað greiða atkvæði með því. Eins og ég tók fram í umræðu um þessi mál fyrir jól og geri aftur nú teljum við að það að tekin var upp tekjuviðmiðun líka í álagningu eignarskatts sé til bóta, þannig að fólk greiði ekki háa eignarskatta þó að það kunni að eiga stórar eignir ef það hefur ekki tekjur til að mæta þeim útgjöldum, en við teljum ekki óréttlátt að þeir sem bæði eiga miklar eignir og hafa miklar tekjur greiði meira til samfélagsins en þeir sem minna hafa.
    Ég vil í þessu sambandi minna á að við greiddum ekki atkvæði með tekju- og eignarskattslögunum 1988 og heldur ekki 1989. Og ég tíundaði hér rétt áðan hvernig við lögðum fram tillögur við afgreiðslu þessa máls í desember 1989, þar sem réttur einstaklinga var einmitt gerður meiri í hlutfalli eignarskatts, þ.e. eins og ég sagði áðan að hann skyldi metinn 60% af ígildi hjóna. Það töldum við vissulega spor í réttlætisátt og vil ekki sitja undir því að það sé felldur um það einhver dómsúrskurður hér í ræðustóli hvað sé réttlæti og hvað sé ranglæti með þessum hætti.