Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli nokkurra þingmanna hér úr stóli í dag hefur fjh.- og viðskn. nú tekið mikinn fjörkipp og tekið til umfjöllunar og afgreiðslu mál sem hafa legið, mánuðum saman sum hver, óbætt hjá garði hjá fjh.- og viðskn. Þannig háttar til að sá þingmaður, hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, sem nú veitir nefndinni forstöðu hefur verið ötull við að halda fundi en það reyndist erfiðara að finna fundartíma sem allir nefndarmenn gátu mætt á í þeim önnum sem nú ríkja. Þegar ákveðið var að halda fund á mánudagsmorgni lá það ljóst fyrir að sú sem hér stendur mundi ekki eiga auðvelt með að koma á þann fund. Að vísu var ekki tilkynnt sérstaklega að þar mundu afgreidd út úr nefndinni mörg mál og því fellur mér nú nokkuð illa að hafa ekki gengið fastar eftir því að annar fundartími yrði fundinn því að ég er búin að sitja undir því nokkrum sinnum í dag að tilkynnt hefur verið að Þórhildur Þorleifsdóttir hafi verið fjarstödd afgreiðslu málsins. Síst hefði ég viljað að mál sem ég flutti ásamt öðrum kvennalistakonum yrði afgreitt út úr nefndinni án þess að ég væri viðstödd. Ég ætla samt ekki að álasa formanni of mikið því að það var vissulega kominn tími til að taka á málum og sjálf hefði ég eflaust átt að sækja það fastar að annar fundartími væri fundinn. En úr því sem komið er liggur málið þannig fyrir að meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Þetta frv. var líka flutt á næsta þingi á undan og fékk þá góðar undirtektir og þó nokkurn skilning, þó ekki nægan til þess að það fengist samþykkt. Ástæða þótti nú samt til þess að flytja það aftur vegna þess áhuga sem kvennalistakonur höfðu vissulega orðið varar við að var á þessu frv., bæði innan þings og utan.
    Í frv. sem var flutt á þinginu á undan var einungis tekið á því að einstæðir foreldrar gætu notað ónýttan persónuafslátt barns sem hjá þeim ætti lögheimili
ef þau teldu fram saman. Auk þess var, þegar frv. var endurflutt í vetur, bætt við ákvæði um það að ónýttan persónuafslátt, sem flytjast mætti milli hjóna og sambúðarfólks og þá með samþykkt þessa frv. milli foreldris og barns líka, mætti flytja að fullu en ekki 80% eins og er í núgildandi lögum.
    Svo að ég víki aðeins að því ákvæði sem tekur til einstæðra foreldra og barna þeirra þykir okkur kvennalistakonum óhæfa að gert sé upp á milli sambúðarforma eins og gert er í núgildandi lögum, þar sem í rauninni aðeins eitt fjölskylduform eða sambúðarform er viðurkennt, þ.e. þar sem karl og kona sem halda heimili saman eiga hlut að máli, hvort sem þau eru hjón eða í óvígðri sambúð. Það eru fjöldamargar aðrar samsetningar sem við þekkjum í þjóðfélaginu og það hefði eflaust mátt bera víðar niður en við ákváðum að stilla þessu í hóf í þetta sinn og leggja einungis til að einstætt foreldri gæti nýtt sér persónuafslátt barns. Ástæðan fyrir því að við leggjum

slíka áherslu á þann hóp er auðvitað að þetta er mjög fjölmennur hópur. Það munu vera um 7500 einstæðir foreldrar í landinu. Þar af eru einstæðar mæður um 7000 og börn á framfæri þessa hóps eru um 10.000 talsins. Sé notaður líkindareikningur má komast að þeirri niðurstöðu að fjöldi unglinga eða ungs fólks, sem stundar hugsanlega nám eins og mjög margir gera nú í þjóðfélaginu eftir grunnskólanám, búi heima hjá einstæðu foreldri. Ef tekinn er fjöldi í hverjum árgangi má reikna með að það séu um 600 börn að meðaltali úr hverjum árgangi sem búa hjá einstæðu foreldri. Þá væru t.d. í hópnum 16--21 árs samtals 3000 einstaklingar sem hefðu alist upp hjá einstæðum foreldrum og sjálfsagt einhver fjöldi þeirra sem býr á heimili foreldris og stundar nám. Þetta er því talsvert stór hópur sem gæti notið góðs af ef þessi breyting næði fram að ganga. Það að einstæðir foreldrar fái rétt til þess að nýta sér ónýttan persónuafslátt á sama hátt og hjón gera er sérstakt réttlætismál vegna þess að sá hópur sem þarna um ræðir er í flestu tilliti einn verst setti hópur landsins. Það þarf ekki annað en að líta á þá staðreynd að þarna er um að ræða 7000 einstæðar mæður í landinu, að konur eru miklu tekjulægri að öllu jöfnu en karlmenn og því má reikna með að fjárhagsleg afkoma heimila þar sem einstæð móðir stendur fyrir heimili sé í flestum tilfellum miklu verri en á heimilum þar sem eru tvær fyrirvinnur. Það að geta stutt sín börn til náms er ákaflega brýnt í dag, þar sem undirstaða velferðar, ekki einungis efnalega heldur hugsanlega andlega líka, er mikið undir þeim undirbúningi komin sem nú er helst að leita í skólum --- í framhaldsnámi.
    Það er nú svo að þegar leitað er umsagna um mál sem e.t.v. varða konur meira en karla eru afskaplega fáar stofnanir eða félög í landinu sem hægt er að snúa sér til. Því er oft erfitt að fá fram álit á þeim málum sem sérstaklega varða konur. Í þessu tilfelli töldum við ekki ástæðu til þess að leita til annarra en Félags einstæðra foreldra, hefðum auðvitað kosið að það væri í fleiri horn að líta, en svo er nú því miður ekki og það þarf auðvitað ekki að taka það fram að áhugi þess félagsskapar er mjög mikill á þessu máli. Auk þess má benda á að auk þessa frv. sem kvennalistakonur hafa flutt í tvígang hefur Sjálfstfl.
flutt frv. sem hnígur mjög í sömu átt þannig að óhætt er að fullyrða að skilningur ríki á málinu.
    Hvað varðar hinn þátt frv., þ.e. að nýta megi að fullu ónýttan persónuafslátt en ekki einungis 80% hans, er ástæðan auðvitað fyrst og fremst sú að konur kunna því afskaplega illa að vera metnar einungis sem 80% einstaklingar og það er þeim mikið baráttu- og réttlætismál að þetta verði leiðrétt. Því hefur verið borið við sem rökstuðningi fyrir þessu 80% hlutfalli að tekjur sem einn aðili aflaði væru drýgri heimilinu ef húsmóðir á heimili sinnti heimilisstörfum eingöngu og því væri ekki ástæða til fulls réttar til að nýta persónuafslátt. Þetta má auðvitað til sanns vegar færa. En á móti má benda á að það eru eflaust þó nokkrar krónurnar sem þessi sami hópur kvenna sparar þjóðfélaginu og þá má nota jöfnureikning og strika út

báðum megin við merkið þannig að þau rök fyrir 80% hlutfallinu falla í rauninni á jöfnu.
    Ég vil benda á að nýlega hafa verið stofnuð samtök heimavinnandi fólks. Það var settur á stofn starfshópur sem falið var að gera úttekt á réttarstöðu heimavinnandi fólks. Sá hópur hefur nú lokið störfum og eru helstu tillögur hans birtar í febrúarhefti Fréttabréfs félmrn. Þar segir m.a.: ,,Millifærsla ónýtts persónuafsláttar hjóna með börn undir tveggja til þriggja eða jafnvel allt til sjö ára aldurs, verði 100%. Starfshópurinn telur einnig að ónýttan persónuafslátt megi færa að öllu leyti til maka ef það hjóna, sem ekki nýtir sinn afslátt, sannanlega annast sjúka eða aldraða á heimili sínu.`` Þarna er tekið á þessu með aðeins víðara móti en gert er í frv. Kvennalistans. Eins og ég tíundaði bæði í framsöguræðu minni með frv. og tæpti á núna aftur völdum við eftir nokkra íhugun að einbeita okkur að þessum eina hópi. En það sem þarna kemur fram er vissulega eftirtektarvert og má hugleiða fleiri hópa, svo sem systkini sem halda heimili saman og fleira mætti tína til. Á stofnfundi þessara samtaka voru þessi mál mikið rædd og fleira hef ég séð sem hnígur í sömu átt frá Samtökum heimavinnandi fólks þar sem þessi krafa virðist vera ofarlega á baugi.
    Við kvennalistakonur hefðum því talið að það væri grundvöllur fyrir því að afgreiða þetta út úr nefndinni og senda aftur til umfjöllunar þingsins og gerðum okkur jafnvel vonir um að frv. næði fram að ganga í meðförum nefndarinnar en svo var ekki. Úrslitin hafa sem sagt orðið þessi í bili. Við höfum ákveðið að samþykkja þessa tilhögun mála, þ.e. greiða atkvæði með því að frv. verði, úr því sem komið er, vísað til ríkisstjórnarinnar. En við gerum það í trausti þess að ríkisstjórnin bæti fljótt og vel úr og við munum svo
sannarlega fylgjast vel með framgangi málsins og afdrifum þess og ýta þá frekar á með endurflutningi þessa frv. eða ámóta frv. ef okkur þykir lítið að gert.