Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. utanrrh. verði beðinn um að vera viðstaddur þessa umræðu.
    Hér er kominn á dagskrá, herra forseti, gamall kunningi hv. deildarmanna frá því á sl. vori. Ég hygg að flestum þingdeildarmönnum séu í fersku minni átök sem urðu um þetta mál á síðasta degi þinghaldsins í vor. Þá var hér til meðferðar frv. um heildarlöggjöf um málefni aldraðra sem búið var að lauma inn í með ósvífnum hætti, þannig að lítið bar á, nýrri skattlagningu sem búið var að lofa skattborgurum landsins að væri endanlega niður felld og tekin inn í hið svokallaða staðgreiðslukerfi skatta.
    Þetta hygg ég að sé flestum í fersku minni og jafnframt það að á þessum síðustu klukkutímum þinghaldsins í fyrra tókst að koma í veg fyrir að þessi skattur, nefskattur í Framkvæmdasjóð aldraðra, yrði tekinn upp þegar á síðasta ári eins og til stóð. Það tókst að gera með breytingu sem deildin samþykkti. Þar með var gert ráð fyrir því að þetta gjald kæmi til framkvæmda á árinu 1990.
    Þó er rétt að geta þess að hæstv. utanrrh. sagði, þegar á hann var gengið, að allt þetta mál væri slys frá upphafi til enda og tíminn sem ynnist við það að gjaldtökunni yrði frestað um a.m.k. eitt ár yrði nýttur til þess að halda öðruvísi og með traustari tökum á málinu, eins og hann orðaði það. Tíminn yrði notaður til að leita að annarri leið til að afla tekna fyrir þennan merka og gagnlega sjóð sem Framkvæmdasjóður aldraðra er, og standa engar deilur um það. ( Forseti: Vegna óskar hv. 17. þm. Reykv. um að hæstv. utanrrh. yrði viðstaddur þessa umræðu vill forseti upplýsa að hæstv. utanrrh. situr hér til hliðar við salinn og hlustar á.) Þarna situr hann, já. Það nægir mér alveg, herra forseti.
    Ég var þar kominn í þessari upprifjun að ég gat þess að hæstv. utanrrh. sagðir sjálfur á síðasta degi þingsins í vor að tíminn sem ynnist yrði notaður til að finna aðra lausn á þessu máli. Hann viðurkenndi með öðrum orðum, eins og 1. minni hl. fjh.- og viðskn. gerir í sínu nál., að þetta sé óheillamál og þessi skattur sé vandræðamál. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1990 sem dreift var hér hinn 10. okt. stóð að ríkisstjórnin hefði á prjónunum að gera breytingar á tekjuöflun í Framkvæmdasjóð aldraðra. Aftur á móti hefur ekkert á því borið og ég vildi nota tækifærið, fyrst hæstv. heilbrrh. er hér viðstaddur, og spyrja hvað líði framkvæmd á því fyrirheiti sem gefið er í greinargerð með fjárlögum. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir breytingum á ákvæðum um Framkvæmdasjóð aldraðra að því er varðar álagningu og ráðstöfun tekna.`` En síðan hefur ekkert til þess máls spurst. Og það hefur reyndar ekkert spurst til áforma og fyrirheita og heitstrenginga hæstv. utanrrh. í þessu máli eða flokksmanna hans. En þeir gera sér auðvitað ljóst sem mikilir áhugamenn um staðgreiðslu skatta að þetta fyrirkomulag, sérstakur nefskattur sem allir verða að greiða, 2.500 kr. eða hver sem upphæðin yrði, passar ekki inn í

staðgreiðslukerfi skatta. Það hentar ekki vegna þess að þá er enginn maður lengur skuldlaus við innheimtuaðilann, við gjaldheimtuna, eins og markmið staðgreiðslukerfisins er. Auk þess kallar þetta á sérstakt innheimtufyrirkomulag sem ekki var gert ráð fyrir í staðgreiðslukerfinu.
    En það er ekki nóg með það, herra forseti. Þessi skattur er núna tvítekinn. Hann er tvítekinn af almenningi. Hann er tekinn í formi sérstaks gjalds, ef þetta gjald verður látið koma til framkvæmda óbreytt. Það eru 230 millj. kr. þar. Og hann er líka tekinn í gegnum staðgreiðslukerfi skatta því álagningin var hækkuð á sínum tíma, álagningarhlutfallið, til þess að ná þessum peningum. Það eru aðrar 230 millj. kr. Þetta eru 460 millj. kr., herra forseti, sem lagðar eru á í skjóli þess að þetta sé gott málefni.
    En hvað rennur síðan af þessu í Framkvæmdasjóð aldraðra? Samkvæmt fjárlögum 205 millj., skv. frv. til fjáraukalaga, sem ríkisstjórnin og fjvn. eru núna með til meðferðar, 197 millj. af 460 millj. kr. Þetta er auðvitað ekkert annað en stórkostlegur fjárdráttur í skjóli gamla fólksins í landinu og undir yfirskini góðs málefnis. Það er fjárplógsstarfsemi af versta tagi þegar ríkisstjórnin með ráðherrana alla í broddi fylkingar leyfir sér að innheimta skatt til góðs málefnis tvívegis, en skilar ekki einu sinni helmingnum af peningunum í sjóðinn. ( Forseti: Nú vill forseti spyrja hv. 17. þm. Reykv. hvort hann sé tilbúinn að fresta ræðu sinni því að nú á senn að hefjast fundur í Sþ.) Já, já. Ég hygg að forseta renni í grun að ræðumaður hefur ekki lokið máli sínu og er mjög fús að fresta ræðu sinni. Mætti ræðumaður spyrja hvenær ráðgert væri að halda þessari umræðu áfram. ( Forseti: Forseti getur litla grein gert sér fyrir því á þessari stundu hvenær þessari umræðu verður fram haldið. Hann mun huga að því fram til kl. 8.30 hér í kvöld, að fundi verður fram haldið hér í deildinni.)