Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hv. þm. vil ég nú benda honum og öðrum hv. þm. á að forseti vissi ekki fyrr en fyrir nokkrum mínútum að nú færi fram fundur í sameinuðu Alþingi. Er hér um að ræða mjög óvenjulegar kringumstæður. En það er nú einu sinni í valdi forseta að meta hversu mjög brýnar umræður utan dagskrár mega teljast. Það er mat forseta að sú umræða sem hv. 11. þm. Reykn. óskar að fari fram sé vissulega mikilvæg, en ég tel ekki að það skipti miklu máli hvort hún fer fram á morgun eða á mánudag. Ég held að málið verði tvímælalaust eins brýnt þá og nú. Ákvörðun forseta stendur því. Vænti ég nú að sú umræða sem leyfð hefur verið megi fara fram.