Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja það að ég tel fulla ástæðu til þess að hv. 2. þm. Reykv. taki upp þetta mál miðað við hans aðild að málinu á undanförnum árum, svo og annarra ráðherra Sjálfstfl. á árunum 1983--1988. Væri út af fyrir sig hægt að hafa um það býsna mörg orð og ítarleg og væri full ástæða til þess að rekja þann slóða í heild. Ég vil hins vegar biðja hv. 2. þm. Reykv. velvirðingar á því að hafa orðað hann við mannleg viðbrögð í þessum málum og ég skal aldrei gera það aftur vegna eindreginna tilmæla hans. Ég taldi hins vegar og tel að hann hafi sýnt Sturlu Kristjánssyni og niðurstöðu þessa máls í heild mannlega afstöðu sem birtist með margvíslegum hætti í embættisverkum hans sem honum tekst ekki að þvo af sér, jafnvel þó að hann haldi hér margar ræður utan dagskrár á hinu virðulega Alþingi.
    Hvað er það sem liggur fyrir í þessu máli? Fyrst þetta: Öll fræðsluumdæmi landsins fóru fram úr áætlun samkvæmt útskrift ríkisbókhalds á árinu 1986, því ári sem hér um ræðir. Öll umdæmi og mest fræðsluumdæmi Reykjavíkur. Fræðsluumdæmi Norðurlands eystra var langt frá því að vera hæst í þeim efnum.
    Í öðru lagi liggur það fyrir að deilur stóðu yfir, langtíma deilur milli þáv. menntmrh. og fræðslustjórans í Norðurlandi eystra um ýmis mál, um hin margvíslegustu mál. Niðurstaðan varð sú að menntmrh. rekur þennan fræðslustjóra úr starfi, harkalega að mati bæjarþings Reykjavíkur sem dæmdi menntmrh. í þessu máli. Sverrir Hermannsson var dæmdur fyrir embættisafglöp í þessu máli. Maðurinn er rekinn. Hvað gerist síðan? Upp hefjast deilur og umræður, m.a. hér á hv. Alþingi. Nýr menntmrh. tekur við á árinu 1987. Hvað gerir hann? Hann gerir allt sem í hans valdi stendur til þess að reyna að leysa þetta mál án þess að meiða um leið flokksbróður sinn, Sverri Hermannsson. Sýnir honum hlífisemi til hins ýtrasta. Út af fyrir sig er ég
ekkert að láta í ljós undrun yfir því, miðað við þá stöðu sem forveri minn var í í þessu efni. Hvað gerir hann? Hann ákveður í fyrsta lagi að reyna að bæta um í málinu með því að taka á leigu sérstakt húsnæði, skrifstofuhúsnæði fyrir Sturlu Kristjánsson sem þó var brott rekinn sem fræðslustjóri. Í öðru lagi gengur hann frá því að Sturla Kristjánsson verði ráðinn til starfa við Kennaraháskóla Íslands við tiltekin verkefni sem voru rakin hér áðan. Og í þriðja lagi ákveður hann, eftir að þessi tími í Kennaraháskólanum er runninn út, að bæta við tveimur árum með bréfi sem er skrifað 23. sept. 1988, daginn eftir sjónvarpsþáttinn fræga sem þeir áttu, formenn þáverandi stjórnarflokka. Það var talið einna brýnast áður en forveri minn færi úr menntmrn. að ganga frá tveggja ára fræðslustjórakaupi með 40 tímum í yfirvinnu handa Sturlu Kristjánssyni. Þetta er það sem liggur fyrir í hinum embættislegu pappírum Birgis Ísl. Gunnarssonar, fyrrv. hæstv. menntmrh. Þannig liggur það mál.

    Þegar Sturlu Kristjánssyni var vikið frá störfum, því að hér er ekki öll sagan sögð, virðulegi forseti, þá gerist það að kallaður er til annar fræðslustjóri, Ólafur Guðmundsson, skólastjóri á Egilsstöum. Hann er ráðinn til starfa sem fræðslustjóri á Norðurlandi eystra, hrökklast úr því starfi mjög fljótlega og er settur til óljósra verkefna í menntmrn. Sigurður Hallmarsson tekur síðan við af Ólafi. Um skeið í starfstíma fyrrv. hæstv. menntmrh. Birgis Ísl. Gunnarssonar voru því í raun og veru þrír menn skráðir fræðslustjórar í Norðurlandi eystra. Þeir voru þrír. Það var nú allt aðhaldið, sparnaðurinn og ráðdeildin, þeir voru þrír. Það var Ólafur Guðmundsson, sem var í vinnu í menntmrn., það var Sturla Kristjánsson, sem skráður var í vinnu hjá Kennaraháskóla Íslands og það var síðan Sigurður Hallmarsson sem gegndi hinu raunverulega starfi fræðslustjóra.
    Hvað var fyrrv. hæstv. menntmrh. að gera í þessu efni? Hann var að reyna að leysa hnút sem forveri hans hafði hnýtt. Það sem okkur er gefið að sök í þessu efni er svo það að vinna í anda Birgis Ísl. Gunnarssonar, hv. þm. og fyrrv. hæstv. menntmrh., að þessu leytinu til, að reyna að sætta málin. Við losum ríkið út úr þeirri klemmu að þurfa að borga þrenn fræðslustjóralaun. Niðurstaðan er sú að ráðinn hefur verið fræðslustjóri í Norðurlandi eystra og hinir fræðslustjórarnir sem störfuðu eru hættir störfum hjá ríkinu eins og kunnugt er. Okkur er gefið það að sök í þessu efni, af ríkislögmanni rétt eins og hann sé einhver dómstóll, að við höfum rifið málið út úr dómstólameðferð. Málið hafði sætt dómstólameðferð. Það hafði verið dæmt í málinu í bæjarþingi Reykjavíkur. Niðurstaða þess lá fyrir. Það er grundvallarregla í lögum að menn eiga að leita sátta. Og það er ljóst og það er viðurkennt sjónarmið í lögum, og í dómstólameðferð einnig, að málsaðilar geta sæst á niðurstöðu hvenær sem er þó að málið kunni að vera til meðferðar hjá viðkomandi stofnun. Enda er það meginatriði og grundvallaratriði íslenskra laga og íslensks réttar að það á að leita sátta þar sem þess er frekast kostur. Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að hér séu menn í rauninni að reyna af veikum mætti að þyrla upp moldviðri.
    Ég endurtek það hér úr þessum virðulega ræðustól sem ég sagði hér í sjónvarpinu í gærkvöldi, ég tel enga ástæðu til að hrökkva undan áliti ríkislögmanns. Ég vil reyndar segja í þessu efni og láta þá skoðun koma fram sem ég hef áður látið koma fram varðandi ríkislögmann: Ég tel það embætti óþarft. Ég tel að ríkið eigi að leita til lögmanna eins og annarra aðila eftir því sem þörf krefur á hverjum tíma. Og ég tel að þetta bákn, sem Sjálfstfl. bjó til undir forustu hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteins Pálssonar á sínum tíma, ríkislögmannsembættið, sé alger óþarfi í núverandi mynd, alger óþarfi. Hér var verið að leysa tiltekin innanbúðarvandamál í fjmrn. á þeim tíma og búið til apparat fyrir þennan mann til að vinna við. Og ég verð að segja alveg eins og er að þegar farið var yfir þetta mál og forsendur þess skoðaðar ofan í kjölinn sætir það undrum að það skuli vera lögmaður

framarlega í flokki þeirra manna sem starfa hjá ríkinu sem heimtar það af sínum ráðherrum að þeir efni til stríðs en geri ekki samninga eða samkomulag við sína starfsmenn. Það er satt að segja sérkennilegt ráðslag, virðulegi forseti.
    Ég endurtek svo að lokum að ég mun ekki framar freistast til þess að kenna hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson sérstaklega við þetta mál. Ég veit að honum leiðist að vera orðaður við mig. Það er nú ekki endilega gagnkvæmt. Hann hefur margt vel gert, þessi hv. þm. En ég skal hlífa honum við því svona fram eftir eða a.m.k. þangað til ég skrifa ævisögu mína sem verður snemma á næstu öld.