Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það var ekki stofnað til þessarar umræðu til þess að ræða rök fyrir því að víkja umræddum manni úr embætti fræðslustjóra í Norðurlandi eystra né heldur mótrök gegn þeirri ákvörðun. Það var stofnað til þessarar umræðu til þess að fjalla um annars vegar ósannindi hæstv. menntmrh. og hins vegar meðferð hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. á þessu máli eftir að dómur hafði fallið í undirrétti. Og það er um þessa málsmeðferð sem hér er verið að fjalla.
    Það liggur nú fyrir og hefur verið leitt í ljós í þessari umræðu að það er rétt sem hv. 2. þm. Reykv. hélt hér fram, að hæstv. menntmrh. fór með rangt mál í fjölmiðlum í gærkvöldi um aðdraganda þessa máls og þeirra ákvarðana sem hann tók eftir að undirréttardómur fellur. Það hefur verið leitt í ljós að hæstv. menntmrh. fór þar með rangt mál.
    Í annan stað liggur fyrir að þessir tveir hæstv. ráðherrar hafa með stjórnvaldsákvörðunum breytt niðurstöðu undirréttardóms og ákveðið meiri greiðslur úr ríkissjóði en kveðið var á um í undirréttardómi. Hygg ég að fá dæmi séu um slíkar ákvarðanir og ærið tilefni til þess að fjalla sérstaklega um slíka málsmeðferð og það fordæmi sem verið er að gefa í stjórnsýslu með vinnubrögðum af því tagi.
    Í þriðja lagi liggur hér fyrir að hæstv. ráðherrar tóku málið úr höndum Hæstaréttar eftir að því hafði verið áfrýjað og það þingfest þar. Og eins og hér hefur komið fram í máli þingmanna eru slík vinnubrögð einsdæmi af hálfu æðstu embættismanna ríkisins. Auðvitað var eðlilegt að Hæstiréttur fjallaði um þetta mál og kvæði upp endanlegan dóm. Málið hafði verið tekið fyrir í undirrétti, því hafði verið áfrýjað en þá komu til sögunnar menn, og það er það sem er einkennandi fyrir þessa umræðu af hálfu hæstv. ráðherra, fulltrúa Alþb. í núv. ríkisstjórn, að þá komu til sögunnar menn sem sögðu: Nú þurfum við
ekkert á dómstólum að halda. Nú erum það við sem höfum völdin. Nú er það okkar að ákveða hvað er rétt dómsniðurstaða og hvað er röng dómsniðurstaða. Við þurfum ekkert á dómstólum að halda. Og við þurfum ekkert að styðjast við dómsniðurstöður þegar ákveða á skaðabætur vegna málaferla í tilefni af málum eins og þessum. Þá getum við tekið lögin í okkar hendur. Það er þessi valdhroki og þessi vanvirða gagnvart lögum og rétti og dómstólum sem einkennir ekki aðeins athafnir þessara hæstv. ráðherra, heldur allan málflutning þeirra hér á Alþingi Íslendinga. Og það var eftir þvi tekið hvernig hæstv. menntmrh. talaði um embætti ríkislögmanns. Ef aðvaranir hans til ráðherra um það hvað eru rétt lög og hvernig rétt er að fara að varðandi stjórnsýsluákvarðanir henta ekki vilja okkar, valdhafanna, þá vísum við slíkum mönnum út í hafsauga, þá höfum við ekkert við þá að gera. Og það er alveg það sama sem er uppi á teningnum í viðhorfi þessara hæstv. ráðherra þegar athugasemdir koma fram af hálfu Ríkisendurskoðunar eða umboðsmanns Alþingis. Þá er því gefið langt nef og því haldið fram

að Ríkisendurskoðun reikni vitlaust eða umboðsmaður Alþingis kunni ekki lög.
    Það er sama hvar borið er niður. Valdhrokinn og fyrirlitningin gegn lögum og reglum og eðlilegum stjórnsýsluvenjum kemur hvarvetna í ljós. Og hið upprunalega eðli og hinn upprunalegi tilgangur með stofnun Alþb. kemur berlega fram. En það eðli hefur nú verið afhjúpað og það stjórnskipulag sem þá dreymdi mest um er nú að hrynja víða. En enn er þetta uppistaðan í hugsunarhætti þeirra, málflutningi og ákvörðunum. Og það er í raun og veru þetta sem eftir stendur og afhjúpar þessa tvo hæstv. ráðherra.