Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Vegna umræðna um þetta mál þykir mér rétt að upplýsa að fjvn. hefur verið með þetta mál til umfjöllunar og á fundi hennar 24. febr. sl. var óskað eftir fundargestum í sambandi við þetta tiltekna mál í fjáraukalögunum. Þeir gestir voru aðstoðarmaður hæstv. fjmrh., hagsýslustjóri og Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjmrn. Á þessum fundi óskaði nefndin eftir eftirtöldum gögnum um málið:
    1. Samkomulagi núv. menntmrh. við Sturlu Kristjánsson, dags. 13. des. 1988.
    2. Bréfi frá fyrrv. menntmrh., Birgi Ísl. Gunnarssyni, dags. 23. sept. 1988.
    3. Dómi bæjarþings Reykjavíkur eða afriti af honum.
    4. Áliti ríkislögmanns um að draga málið til baka frá Hæstarétti.
    Aðstoðarmaður fjmrh. afhenti fjvn. þessi gögn með minnisblaði sínu dags. 6. mars sl. Fjáraukalög 1988 eru til meðferðar í nefndinni eins og hv. alþm. er kunnugt um. Þar er greiðsla frá skrifstofu menntmrn. á skaðabótum til Sturlu Kristjánssonar, 793 þús. kr. Ég vil geta þess hér í leiðinni að auðvitað gera menn sér grein fyrir því hér á hv. Alþingi, að það er búið að greiða þessa upphæð og hún verður ekki tekin til baka.
    Ég harma að gögn um þetta mál hafa komist í hendur fjölmiðla áður en afgreiðsla fjvn. liggur fyrir, en það er ljóst að nefndin mun ljúka þessu máli mjög fljótlega og þá kemur það að sjálfsögðu aftur hingað inn í deild til lokaafgreiðslu í sambandi við fjáraukalög fyrir árið 1988.
    Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta hér efnislega, en ég taldi það skylt, vegna þess að hér hafa verið nefnd störf fjvn. um þetta mál, að skýra hér frá þessum gangi mála. Fjvn. á eftir, eins og kom hér fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., að ljúka afgreiðslu á frv. til fjáraukalaga 1988 en það verður gert mjög fljótlega.