Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fróðlegu umræðu um leið og ég tek undir það sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér áðan að það er nú kannski ekki nein sérstök ástæða til þess, vegna málsaðila, að við séum að hnotabítast um þetta mál út um víðan völl, eins og hv. 1. þm. Suðurl. gerði hér áðan og hann er vanur. Það liggur einnig fyrir að frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988 kemur hér til umræðu. Þá er hægt að ræða þetta ef menn vilja. Hins vegar vildi ég nefna það við starfandi formann fjvn. að það eru nokkur skjöl sem fjvn. hefur bersýnilega láðst að panta í þessu máli og mun ég gera ráðstafanir til þess að koma þeim til nefndarinnar.