Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna frásagnar hv. þm. Pálma Jónssonar vil ég geta þess að við ræddum um það, ég og formaður fjvn., að það væri eðlilegt að þau gögn og upplýsingar sem fjvn. óskaði eftir í þessu máli kæmu til nefndarinnar þegar fjáraukalög fyrir árið 1988 yrðu til meðferðar í nefndinni. Og það var ástæðan fyrir því að beðið var með að leggja fram upplýsingar sem komið var á framfæri munnlega við ráðuneytið í sumar að óskað var eftir. (Gripið fram í.) Það er mér nú ekki kunnugt um, að það sé eitt og hálft ár síðan, vegna þess að ég held að það sé rétt um það bil eitt og hálft ár síðan ég kom í ráðuneytið svo að það hefur þá verið fyrir mína tíð sem hv. þm. bað um einhverjar upplýsingar í málinu. Þær upplýsingar sem hér er verið að tala um eru frá árinu 1989, hv. þm. hlýtur að átta sig á því ef hann hugsar sig betur um. Og bæði mér og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fannst þinglegt og eðlilegt að þetta mál kæmi hér til umfjöllunar í nefndinni þegar grundvöllur málsins, fjáraukalög fyrir árið 1988, væru til meðferðar.
    Ég vil svo að lokum segja það að ríkislögmaður er ekki dómstóll í þessu máli. Hann er bara lögfræðingur ríkisins í málinu, málflytjandi ríkisins, og sú staðreynd sem ég varð að horfa á sem fjmrh. var að ríkislögmaður reyndist hafa haft rangt fyrir sér í málinu. Bæjarþing Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að álit ríkislögmanns um það hvað væri rétt og eðlilegt í málinu væri ekki rétt. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því vegna þess að ég tek eftir því að menn tala stundum eins og álit ríkislögmanns sé úrskurður í málinu. Við búum við lýðræðiskerfi þar sem dómstólarnir eru sjálfstæðir og dómstóllinn í þessu máli komst að þeirri niðurstöðu að álit ríkislögmanns væri rangt.
    Ég ætla svo ekki að ræða hér nánar ummæli 2. þm. Reykv. sem voru auðvitað mjög ósmekkleg því staðreyndin er sú að það var menntmrh. Sjálfstfl. með atfylgi fjmrh. Sjálfstfl., Þorsteins Pálssonar, sem rak mann úr embætti til þess að skapa terror gagnvart öðrum ríkisstarfsmönnum.