Samningur menntamálaráðherra við Sturlu
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram og ítreka þakkir mínar til hæstv. forseta að hafa leyft hana og þá þolinmæði sem hún hefur sýnt.
    Ég vil enn leiðrétta það sem hæstv. menntmrh. ítrekar hér, bæði úr ræðustól og í frammíköllum, að ég hafi verið búinn að fallast á fræðslustjóralaun til handa Sturlu Kristjánssyni. Það er rangt. Það sér hæstv. ráðherra auðvitað ef hann les það bréf sem hann er með í höndunum að þar er talað um næstu tvö ár með sambærilegum launakjörum og verið hefur. Og þau launakjör voru lektorslaun hjá Kennaraháskólanum sem voru og eru mun lægri en fræðslustjóralaun þannig að ég vonast til þess að hæstv. ráðherra endurtaki ekki þessi ósannindi meir.
    Allur málflutningur hæstv. fjmrh. í þessu máli er auðvitað til að slá ryki í augu fólks. Málið snýst ekkert hér og nú um það hvort aðrar ríkisstofnanir hafi farið fram úr fjárlögum þetta tiltekna ár. Það er mál sem við höfum rætt hér ítarlega á hv. Alþingi í tengslum við málið þegar það var hér til umræðu. Og það er auðvitað mál sem m.a. kom til meðferðar í bæjarþingi Reykjavíkur sem ein af málsvörnum Sturlu Kristjánssonar hversu mikið ætti að taka tillit til þess. Og það var auðvitað það mál sem Hæstiréttur átti m.a. að taka afstöðu til, hvort það væri vörn í því að aðrar ríkisstofnanir hefðu farið fram úr. Ég skal ekkert fjalla um ávirðingar þessa ágæta embættismanns nú.
    Meginatriði málsins er hins vegar þetta, að hæstv. ráðherrar tóku þetta mál úr höndum Hæstaréttar þegar því hafði verið áfrýjað þangað og þeir ákváðu að greiða mun hærri bætur en bæjarþing hafði ákveðið. Ríkislögmaður tapaði málinu, sagði hæstv. fjmrh. Ég dreg það mjög í efa að hægt sé að nota það orð að tapa þessu máli. Það var farið fram á af hálfu Sturlu Kristjánssonar 6 millj. kr. í skaðabætur. Honum voru dæmd 900 þúsund og ástæðan fyrir því var sú að það var talið að ávirðingar hans hefðu verið það miklar að bætur ættu ekki
að vera hærri. Og ef lesnar eru forsendur þessa dóms má sjá að dómurinn veltir því mjög ítarlega fyrir sér hvar sök liggur í þessu máli og kemst að þeirri niðurstöðu að efnislega hafi fræðslustjórinn brotið af sér í starfi, en aðferðin við brottvikninguna hafi ekki verið rétt. Og þess vegna sé ástæða til þess að dæma ákveðnar bætur. En þetta átti auðvitað Hæstiréttur að fjalla um og það er það sem er ávirðing af hálfu hæstv. ráðherra og auðvitað skilur maður að hæstv. ráðherra skuli hafa legið á upplýsingum um þetta mál í heilt ár. Það er upplýst hér af fjárveitinganefndarmönnum að það sé meira en ár síðan beðið var um upplýsingar um þetta mál úr fjmrn. Hvað voru þessir hæstv. ráðherrar að fela? Auðvitað lá það ljóst fyrir að samviska þeirra var ekki góð í þessu máli. Þeir vissu að þeir voru að fara langt umfram eðlilegar heimildir. Þeir vissu að þeir voru að brjóta af sér í starfi, að fremja embættisafglöp með því að gera þennan samning og þess vegna hafa þeir

dregið það í rúmlega ár að gera Alþingi grein fyrir þessu máli. Og enn eru ekki öll kurl komin til grafar, enn hafa þeir ekki lagt fram öll gögn í þessum málum. Þess vegna verður að gera þá kröfu að fjvn. fjalli áfram um þetta mál, fari ítarlega um það höndum og krefjist þeirra gagna sem ekki hafa fengist enn fram og geri tillögu um meðferð málsins hér á hv. Alþingi.