Tilhögun þingfundar
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil gjarnan taka það fram að ég tel að það séu eðlileg sjónarmið sem fram koma hjá hv. 5. þm. Vesturl. um að það sé nú naumast fært að halda þessum fundi áfram fram á nótt og tek undir það sjónarmið með honum. Ég vil einnig láta þess getið hér undir þessari umræðu um þingsköp, vegna þess að hæstv. forseti var ekki hér í forsetastól þegar ég hóf mál mitt í gær, að ég tel það óviðunandi að ræða hin þýðingarmestu mál í alvarlegum umræðum hér á hv. Alþingi undir þeim kringumstæðum að þar séu naumast nokkrir þingmenn í sætum sínum eða í þingsal. Hér eru nú staddir tveir hæstv. ráðherrar og er það framför frá því í gær. Hér eru tveir hv. þm. stjórnarliðsins og fjölgar nú um einn, auk hæstv. forseta. En ég tel það alveg óviðunandi, t.d. með tilliti til hinnar vönduðu og yfirgripsmiklu ræðu sem hv. 5. þm. Vesturl. flutti hér í gær, þá voru þetta einn og tveir og þrír þingmenn í þingsalnum og ég vænti þess að hæstv. forseti, sem hefur sýnt þann myndarskap af sér að vekja athygli á slælegri mætingu hv. alþm. til funda, að hann taki tillit til þess og beiti áhrifum sínum til þess að þingfundir séu sæmilega sóttir þegar hin merkustu mál eru rædd.