Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. 17. febr. sl. auglýsti heilbrrn. breytingar á reglugerð um greiðslur sjúklinga fyrir læknishjálp og rannsóknir. Með þessari reglugerðarbreytingu gefst almenningi kostur á ókeypis læknishjálp á heilsugæslustöðvum og hjá heimilislæknum, en gjald fyrir hverja komu til sérfræðings hækkar úr 630 kr. í 900 kr. Nú þarf einnig að greiða 300 kr. fyrir hverja blóðtöku eða röntgenmyndatöku en áður voru allar rannsóknir innifaldar í 630 kr. gjaldinu. Þegar reglugerðinni var breytt virðast heilbrigðisyfirvöld hafa gjörsamlega gleymt, eða öllu heldur kosið að líta fram hjá þeim hópi sjúklinga sem hafa langvinna sjúkdóma sem krefjast reglulegs eftirlits af hálfu sérfræðinga. Þessir sjúkdómar krefjast sérhæfðrar meðferðar og eftirlits árum saman, oft ævilangt, og heimilislæknar geta að öllu jöfnu ekki sinnt þeim. Sem dæmi má nefna sjúklinga með langvinna liðagigt og illvíga bandvefssjúkdóma, sykursýki, asma og ofnæmi, fatlaða, ekki síst mikið fötluð börn, en þeir eru fleiri sjúklingahóparnir. Reglubundið og sérhæft eftirlit getur oft sparað sjúkrahúsvist og gert sjúklingum kleift að stunda áfram vinnu sína eða nám þrátt fyrir erfið veikindi. Hækkunin á sérfræðiþjónustunni er um og stundum talsvert yfir 100% fyrir flesta þessa sjúklinga, sem yfirleitt greiða a.m.k. 1200 kr. fyrir komuna, oft meira, og má reikna með því að margir verði að greiða a.m.k. 15.000 kr. á ári í þennan sjúklingaskatt.
    Þessar gífurlegu hækkanir verða á sama tíma og laun og tryggingabætur hækka aðeins um 1,5%. Aðeins lítill hluti þessara sjúklinga eru þó öryrkjar sem fá bótagreiðslur eða ellilífeyrisþegar og möguleikar þeirra til tekjuöflunar eru iðulega skertir enda hafa rannsóknir landlæknis leitt í ljós að sjúklingar með langvinna sjúkdóma verða, sem hópur í þjóðfélaginu, fátækari með hverju árinu sem líður. Það skýtur því skökku við að leggja sérstakan sjúklingaskatt á þá sem síst skyldi og virðist sem hækkunin fyrir sérfræðiþjónustu og greiðslur fyrir rannsóknir eigi að bæta ríkissjóði upp tekjutapið sem hlýst af því að fella niður greiðslur sjúklinga til heimilislækna. Þannig má segja að verið sé að færa kostnaðarhlutdeild vegna læknisþjónustu í ríkara mæli frá þeim sem minna eru veikir til hinna sem meira eru veikir.
    Það virðist augljóst að hér hafa verið gerð mistök og hafa sjúklingar og samtök þeirra sent hæstv. heilbrrh. fjölda áskorana um að endurskoða þessar ráðstafanir. Ég tel því fulla ástæðu til að spyrja hæstv. heilbrrh. hvaða ráðstafanir hann hyggist gera til að mæta aukinni greiðslubyrði sjúklinga sem ekki eru öryrkjar en hafa langvinna sjúkdóma er krefjast reglulegs eftirlits af hálfu sérfræðinga.