Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hefur gert ítarlega grein fyrir markmiðum þeirrar reglugerðar sem hér er um að ræða og ákveðnum leiðum til úrbóta. Það er ljóst að greiðslubyrði þeirra sjúklinga sem hér um ræðir, þ.e. með langvinna sjúkdóma, hefur aukist gífurlega. Hér er ekki einungis um að ræða sjúklingana sjálfa heldur einnig aðstandendur þeirra og foreldra barna sem slíkum sjúkdómum eru haldnir. Þar að auki virðist sem verið sé að færa greiðslubyrði þeirra sjúklinga sem nægir að leita til heimilislækna yfir á herðar þeirra sem verða að leita til sérfræðinga og þá ekki síst þeirra sem eru því alfarið háðir eins og sjúklingar með langvinna sjúkdóma.
    Þessir hópar hafa að sjálfsögðu mótmælt þessum breytingum og hef ég reyndar fréttir af fundarhöldum í heilbr.- og trmrn. þess vegna. Þannig að ljóst er að ráðuneytismenn hafa af þessu nokkrar áhyggjur.
    Það er að sjálfsögðu brýn nauðsyn að komið sé til móts við þessa sjúklinga. Hæstv. heilbrrh. nefndi hér áðan atriði í reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í læknishjálp og fleira, sem útgefin var þann 1. febr. sl., þar sem er rætt um elli- og örorkulífeyrisþega, að þeir skuli aldrei greiða hærri fjárhæð en kr. 3000 vegna heimsókna til sérfræðinga, rannsókna og röntgengreininga á hverju almanaksári. Þá má e.t.v. hugsa sér, eins og hæstv. ráðherra talaði um hér áðan, að svipaðar reglur yrðu settar varðandi sjúklinga með langvinna sjúkdóma og e.t.v. má hugsa sér svipað fyrirkomulag og gildir í Noregi þar sem er um að ræða svokölluð fríkort sem sjúklingar geta framvísað til lækna, þannig að þeir greiða aðeins ákveðinn kvóta. En ég fagna því sem sé að hér er verið að leita leiða til úrbóta.