Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Það er meginefni að þær breytingar sem gerðar eru séu ekki einungis unnar frá skrifborðinu heldur í samvinnu við þá sem hlut eiga að máli. Ég vil undirstrika það mjög hér og einnig það að 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu stendur að allir landsmenn skuli eiga kost á þeirri bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Það kann vel að vera að sumir þeir sjúklingar sem ég hef nefnt geti nýtt sér þjónustu heilsugæslustöðva og það er vel. En þeir sem ekki geta það verða að eiga aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni án þess að þurfa að baka sér verulegt fjárhagslegt tjón með því og í raun greiða fyrir ókeypis læknisþjónustu þeirra sem minna þurfa á henni að halda. Þetta er meginefni, hæstv. ráðherra.