Bifreiðastyrkir til fatlaðra
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. hefur beint til mín fyrirspurn sem hún hefur gert grein fyrir og varðar þátttöku almannatrygginga í bifreiðakaupum fatlaðra. Rétt er að minna á að reglugerðin, sem hér er til vitnað og sett var 1987, breytti fyrirkomulagi um bifreiðakaup fatlaðra þannig að með henni voru bifreiðakaup fatlaðra færð sem hluti styrkja frá almannatryggingum en áður höfðu bifreiðakaup fatlaðra verið afgreidd sem eftirgjöf aðflutningsgjalda skv. tollskrárlögum. Sá fjöldi sem er í reglugerðinni um bifreiðar hefur verið óbreyttur frá því að reglugerðin var sett og er nú þannig að 600 einstaklingar fá styrk að upphæð 180 þús. kr. vegna bifreiðakaupa en 50 einstaklingar fá styrk að upphæð 550 þús. til bifreiðakaupanna.
    Þá er í gildandi reglugerð sett sem skilyrði til úthlutunar styrksins að bifreiðin hafi verið tollafgreidd eftir 1. júní á umsóknarári. Skv. 3. gr. reglugerðarinnar starfar sérstök afgreiðslunefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögur til tryggingaráðs um úthlutun styrkja og skulu tillögur nefndarinnar komnar til tryggingaráðs til afgreiðslu fyrir 1. des. ár hvert vegna úthlutunar komandi árs. Ákvörðun tryggingaráðs og úthlutun skal fara fram fyrir 15. jan. ár hvert vegna yfirstandandi árs og skulu styrkir greiddir út á tímabilinu 1. mars til og með 30. júní. Það er því ljóst að fjárhagsáætlun vegna þessara styrkja var gerð við gerð fjárlaga fyrir árið 1990 og þegar hefur verið úthlutað þeim styrkjum sem koma til úthlutunar á þessu ári.
    Hugsanlegar breytingar á reglugerðinni geta því ekki tekið gildi fyrr en frá og með úthlutun vegna ársins 1991 og í samræmi við fjárveitingar á fjárlögum þess árs. Afgreiðslunefnd bifreiðakaupastyrkja hefur gert tillögu til ráðuneytisins um breytingar á reglugerðinni þannig að styrkjum í efri flokki sé fjölgað úr 50 í 100 á ári vegna þess að mjög fötluðum einstaklingum, sem sækja um bílakaupastyrki, hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Sömuleiðis hefur nefndin lagt til að gerð verði sú breyting að smíðaár eða árgerð bifreiðarinnar sé hin sama og umsóknarárið en ekki eins og fram kom áðan að tollafgreiðslan eigi sér stað á umsóknarári. Hér mun vera reynt að draga það fram að ef aðeins er fjallað um tollafgreiðsluna geti menn verið að flytja inn og kaupa gamla bíla sem ýmsir telja ekki skynsamlegt.
    Ég hef þessar tillögur nefndarinnar til athugunar og mun taka afstöðu til þeirra fyrir næstu úthlutun, þ.e. fyrir eða í tengslum við fjárlagagerð fyrir næsta ár. Jafnframt tel ég eðlilegt að reynt sé að fjölga styrkjum til þeirra einstaklinga sem fá hærri styrkinn. En ég hef meiri efasemdir um hitt, hvort eigi að breyta til og veita styrki út á eldri bifreiðar frekar en miðað sé eingöngu við nýjar og meira að segja gengur tillaga nefndarinnar út á það að það sé tryggt að það séu nýjar bifreiðar en alls ekki gamlar.

    Heildarupphæð styrkja til bifreiðakaupa er á þessu ári áætluð 135 millj. kr. en hefði þurft að vera 163 millj. til þess að hægt væri að úthluta í samræmi við þær tillögur nefndarinnar sem nú liggja fyrir, þ.e. ef bifreiðarnar í hærri flokknum hefðu verið 100 í stað 50, þá hefði upphæðin farið úr 135 í 163 millj.