Bifreiðastyrkir til fatlaðra
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svör hans og fagna þeim tillögum sem hafa borist ráðherra frá úthlutunarnefndinni og vænti þess að tekið verði fullt tillit til þeirra. Það er ekkert víst að breyting á úthlutunarreglunum þyrfti endilega að hafa í för með sér hærri heildarupphæð en fer til þessara mála í dag því að það má t.d. færa á milli, fjölga þeim sem fá hærri styrkina en fækka þeim lægri. Því að eftir þeim upplýsingum sem ég hef hefur heildartalan yfirleitt reynst fullnægjandi og mætti breyta þarna sem sagt innan þeirra marka sem í dag eru. En það eru þá fyrst og fremst þær tölur sem snúa að fjölda styrkjanna sem þyrftu að breytast, en e.t.v. ekki heildarupphæðin.
    Hvað varðar b-lið fyrirspurnarinnar, þá ítreka ég aðeins nauðsyn þess að skoða hvort ekki megi heimila styrki til kaupa á notuðum bifreiðum sem uppfylla kröfur sem setja mætti í reglugerð.
    Ég ítreka svo þakkir mínar til ráðherra og treysti á góðan vilja hans í þessum málum.