Staða íslensks ullariðnaðar
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):
    Hæstv. forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til iðnrh. sem hljóðar þannig: ,,Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til þess að tryggja stöðu íslensks ullariðnaðar?``
    Þetta mál hefur verið mjög í brennidepli undanfarið og er komið á borð ríkisstjórnarinnar. Málið er enda stjórnvöldum mjög skylt þar sem á fastgengisárunum 1983--1988 blæddi þessari atvinnugrein út. Á þessum tíma versnuðu starfsskilyrði útflutningsiðnaðar um 30% og eru enn þann dag í dag 20% lakari en starfsskilyrði sjávarútvegs sem stóðu nokkuð á jöfnu árið 1984. Á þessum málum var ekki tekið fyrr en á árinu 1988 þegar fastgengisstefnan var mjög farin að þrengja að sjávarútveginum. Ég spyr þess vegna iðnrh.: Hvernig verður brugðist við þessum málum nú þegar við eygjum aftur bata í okkar aðalatvinnuvegi, þ.e. sjávarútveginum? Ef þar verður farið að eins og gert hefur verið á undanförnum árum og áratugum, að gengisstefnan verði látin ráðast alfarið af afkomu sjávarútvegsins, líður íslenskur ullariðnaður undir lok og svo mun fara um fleiri greinar iðnaðar. Ég vitna í þessu sambandi í grein eftir ágætan alþýðuflokksmann, Gylfa Þ. Gíslason, í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann dró þessa mynd einmitt mjög skýrt fram.
    Ég ætla að fara nokkrum orðum um afleiðingar þess ef svo fer að íslenskur ullariðnaður líður undir lok. Atvinnulíf okkar mun verða mun fábreyttara og hér verður miklu minna framboð fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Ég vil
nefna það að eingöngu í ullariðnaði eru 600 störf í húfi. Fari svo að Álafoss komist ekki á legg aftur er kastað á glæ margra áratuga starfsemi við það að byggja upp hér iðnaðarhefð og margra áratuga starfsemi í markaðsöflun erlendis. Þannig að ég skora nú á ríkisstjórnina að taka á þessu máli.