Staða íslensks ullariðnaðar
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka iðnrh. svörin og treysti því að ríkisstjórnin vinni að lausn þessa máls af fullri einurð.
    En aðeins út af tilvitnun minni í grein Gylfa Þ. Gíslasonar. Ég var nú ekki beint að taka undir þann hluta greinarinnar sem fjallaði um auðlindaskatt. Ég tel reyndar að þær sveiflur sem eru í sjávarútveginum getum við kannski alveg eins jafnað út með virkri verðjöfnun og ég ætla ekki að fara lengra út í það hér því það væri langt mál.
    En aðeins varðandi þá aðstoð sem hæstv. iðnrh. sagði að hefði komið til á síðasta ári. Ég rengi ekki að þar hafi verið létt af skuldum og komið til víkjandi lán upp á 209 millj. kr. En ég held að það þurfi að telja í mörgum hundruðum milljóna til þess að tíunda það sem var fært frá þessum greinum á fastgengistímanum. Þannig að það sem hér hefur verið komið með til baka eru einungis smáaurar miðað við það sem hefur blætt út úr þessari starfsgrein.
    Og að lokum til að undirstrika það hvað hér er í húfi. Frá íslenskum ullariðnaði kemur 1,3% af okkar landsframleiðslu, og það er ekkert lítið. Þarna er um að ræða 1% af vinnuafli í landinu í dag og það munar um minna þegar atvinnuástand er ótryggt. Það vill svo til að þessi tala, 600 störf í ullariðnaði, er einmitt sú tala sem menn tala um að mundi vinna í nýju álveri á Íslandi. Ég geri ekki lítið úr því að hér takist að reisa orkufrekan iðnað og hef lagt mitt lóð á þá vogarskál að svo megi verða. En við megum heldur ekki missa sjónar á því sem við höfum núna og höfum verið að byggja upp í tímanna rás.