Fjárveitingar til Rannsóknasjóðs
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Á ráðstefnu Bandalags háskólamanna, 9. mars sl., um tengsl háskólamanna við Evrópubandalagið komu fram miklar áhyggjur manna vegna minnkandi fjárframlaga af hálfu ríkisins til rannsókna- og þróunarstarfsemi. Rannsóknasjóður hefur frá því hann var stofnaður 1985 verið sá sjóður sem fyrst og fremst hefur skapað íslenskum stofnunum og fyrirtækjum grundvöll til þess að fara út í ýmsar mikilvægar rannsóknir. Ekki síst rannsóknir á nýjum og framsæknum tæknisviðum sem helst eiga erindi í alþjóðasamstarf. Í máli framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs ríkisins, Vilhjálms Lúðvíkssonar, kom m.a. fram að einmitt fyrir tilstilli sjóðsins hefðu Íslendingar orðið samstarfshæfir á norrænum vettvangi nú síðustu árin. Nú er gjarnan talað um samstarf í stærra samhengi, hinu evrópska samhengi. Á þeim vettvangi standa Íslendingar höllum fæti því hlutfallslega verjum við mun minna fé til rannsókna en flest lönd Evrópubandalagsins.
    Á ráðstefnu BHM kom fram að í viðræðum við fulltrúa EB um undirbúning rammasamnings á sviði rannsókna og þróunar hafa fulltrúar gagnrýnt þetta og látið í veðri vaka að samstarf við Íslendinga væri vart áhugavert fyrir EB. Nú blasir við sú staðreynd að ofan á skerðingu fjárframlaga í nýsamþykktum fjárlögum hefur ríkisstjórnin ákveðið að skera framlög til Rannsóknasjóðs niður um 10 millj.
Burt séð frá möguleikum okkar til samstarfs við aðrar þjóðir á sviði rannsókna er nauðsynlegt að Rannsóknasjóður geti komið til móts við þann áhuga og óskir sem greinilega eru á sviði rannsókna hér innan lands.
    Í fréttatilkynningu Rannsóknaráðs frá 13. mars sl. kemur fram að mikill áhugi er hér á landi fyrir að fara út í rannsóknir. Rannsóknasjóður stendur nú frammi fyrir þeim vanda að hafa í höndunum 147 umsóknir og hafa þær aldrei verið fleiri. Kostnaður við fyrirhuguð rannsóknaefni eru 732 millj. og eru umsækjendur reiðubúnir til að leggja fram 407 millj. kr. af þeirri upphæð. En það segir sig sjálft að miðað við þær upphæðir dugar ríkisframlag upp á 85 millj. kr. skammt.
    Í lögunum um Rannsóknasjóð segir, með leyfi forseta: ,,Hlutverk Rannsóknasjóðs er að efla hagnýtar rannsóknir og þróunarstarfsemi til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi.`` Hæstv. ríkisstjórn hefur á ferli sínum einkum einbeitt sér að því að fá hingað til lands erlenda stóriðjuhölda og virðist sjá stóriðju sem hina einu lausn á vanda þjóðarinnar í atvinnumálum. Einstaka sinnum á meðan setið er og beðið eftir nýju álveri og deilt um hvar það skuli vera heyrist þó minnst á íslenskt hugvit en skilningur á nauðsyn rannsókna og þróunar í því sambandi virðist ekki ná langt.
    Ég deili þessum áhyggjum með þeim sem töluðu á ráðstefnu Bandalags háskólamanna 9. mars sl. og því hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 730 til hæstv. menntmrh. um fjárveitingar til Rannsóknasjóðs

og vísindastefnu ríkisstjórnarinnar.