Fjárveitingar til Rannsóknasjóðs
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst er spurt: ,,Hver var raunlækkun á fjárveitingum til Rannsóknasjóðs á árunum 1985--1989 miðað við verðlag í mars 1990?``
    Svarið er: Fjárveitingar til Rannsóknasjóðs á árunum 1985--1989 voru sem hér segir: 1985 50 millj. kr., 1986 50 millj. kr., 1987 60 millj. kr., 1988 70 millj. kr., 1989 80 millj. Vísitala framfærslukostnaðar er í mars 1990 142,7 stig en var í mars 1989 117,3 stig. Fjárveitingin 1989, 80 millj., svarar því til 97,3 millj. kr. á verðlagi í mars 1990, en 50 millj. kr. fjárveiting 1985 svarar á sama mælikvarða til 138,8 millj. kr. á árinu 1990. Raunlækkun á milli áranna 1985 og 1989 er samkvæmt því 41,5 millj. kr. eða 29,9%.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Telur ríkisstjórnin að þörfin fyrir rannsóknir og þróunarstarfsemi til nýsköpunar og styrktar íslensku atvinnulífi hafi minnkað?``
    Svarið er auðvitað nei. Sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að stuðla að bættum skilyrðum fyrir vísindarannsóknir og nýsköpunarstarf er óhaggaður þótt erfið staða í fjárlagagerð hafi um sinn bitnað á framlögum til þessara þátta ekki síður en margra annarra þarfra verkefna.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvaða áhrif telur menntmrh. að raunlækkun fjárveitinga til Rannsóknasjóðs á undanförnum árum muni hafa á þróun vísinda og atvinnulíf?``
    Svar: Raunlækkun fjárveitinga til Rannsóknasjóðs dregur að sjálfsögðu úr möguleikum sjóðsins á að sinna mikilvægu hlutverki sínu af þeim þrótti sem æskilegur væri. Einkum er hætt við að samdráttur komi niður á styrkveitingum til nýrra verkefna og þrengi svigrúm til að beina rannsóknum að nýjum áherslusviðum. Jafnframt fækkar kostum til að nýta styrki úr sjóðnum til að stofna til samstarfsverkefna með hlutafjármögnun frá öðrum aðilum, þar á meðal í fjölþjóðlegri samvinnu.
    Í fjórða lagi er spurt: ,,Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin vinna að því markmiði sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum um aukinn stuðning við vísindarannsóknir?``
    Svarið er þetta: Í ágúst sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að fela menntmrh. að hefja undirbúning að tillögum um vísinda- og tæknistefnu á Íslandi. Skyldi samstarfsnefnd Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins falið að gera tillögur um þessa stefnumótun. Í framhaldi af þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar fól menntmrn. samstarfsnefndinni að hefjast handa um þettta verkefni. Þess er vænst að tillögur ásamt greinargerð berist ráðuneytinu nú í vor og að unnt verði eftir umfjöllun í ríkisstjórn að hafa hliðsjón af þeim tillögum við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár.
    Við þetta er svo því að bæta að á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að Íslendingar yrðu aðilar að þremur alþjóðlegum samstarfsverkefnum um vísindi, tækni og rannsóknir. Í fyrsta lagi að svokallaðri SCIENCE-áætlun Evrópubandalagsins, í öðru lagi að

svokallaðri COMETT-áætlun og í þriðja lagi að norrænu samstarfi um vísindi og þróun. Þannig að á þessum málum hefur auðvitað verið tekið og hefur verið reynt að bæta upp það sem hallast hefur á, m.a. með auknu alþjóðlegu samstarfi.
    Það er augljóst mál að það er slæmt að þurfa að skera niður styrki til rannsókna-, vísinda- og þróunarstarfsemi. Það sama má auðvitað segja um fjölmarga aðra þætti. Spurningin sem hv. þm. verða að velta fyrir sér er þessi: Eru þeir tilbúnir til þess að flytja fjármuni til þessa verkefnis, og þá hvaðan? Á sama tíma og það liggur fyrir að ríkissjóður er rekinn með halla upp á 4--5 þús. millj. kr. hljóta menn að sjá að það er ekki einfaldur hlutur heldur flókinn að auka við fjármuni jafnvel til góðra málefna eins og rannsókna- og þróunarstarfsemi.