Rannsóknir og vísindastarfsemi
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Ég þakka hæstv. forseta góðvild í þessum efnum. Tilefni mitt til að koma í ræðustólinn voru orð hv. 7. þm. Reykv. sem var innanbúðarmaður í menntmrn. ( Gripið fram í: 2. þm. Reykv.) Já, ég hélt það líka, ég fékk rangar upplýsingar, ég hélt að það væri 2. þm. Reykv. sem var um tíma innanbúðarmaður í menntmrn. og ætti því manna best að vita að það er rétt sem kom fram í svari hæstv. núv. menntmrh. Ég veit ekki hvort hann heyrði alla fyrirspurnina hér áðan en það er í raun og veru einungis eitt af fjórum borðshornum eins manns sem er lagt undir afgreiðslu og umsýslu vísinda- og rannsóknastarfsemi í landinu öllu. Og það var það sem ég var að varpa ljósi á og það var það sem ég var að gagnrýna og það var það sem ég tel ekki við hæfi. Ábyrgð stjórnsýslunnar og hlutverk í þessum efnum er allt annað en stofnana úti í þjóðfélaginu, eins og Háskólans. Auðvitað var ég ekki að stinga upp á miðstýrðri, sérstakri deild í þessum efnum, heldur auknum mannafla til að betur mætti fara með málin innan stjórnsýslunnar.