Ferð varðskipsins Týs til Norfolk
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 18. þm. Reykv. beinir til mín fyrirspurn í fimm meginliðum eins og hún hefur hér kynnt á þskj. 740. Fyrsta spurningin: ,,Hver er tilgangur fyrirhugaðrar ferðar varðskipsins Týs til Norfolk í apríl nk.?``
    Á hverju ári er haldin alþjóðleg svokölluð Aselia-hátíð í Norfolk-borg í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Mun hátíðin sem verður haldin 16.--22. apríl nk. vera sú 37. í röðinni. Tilgangur hátíðarinnar er alhliða menningar- og viðskiptakynning og sækja hana að jafnaði um 250 þúsund manns. Hátíðin er haldin af borgaryfirvöldum í Norfolk og verslunarráði Hampton Roads sem nær til þéttbýlissvæðisins umhverfis Norfolk. Hún er kennd við svokölluð aselia-blóm sem springa út á vorin í suðurhluta Bandaríkjanna.
    Höfuðstöðvar Atlantshafsflota Atlantshafsbandalagsins eru í Norfolk. Hafa borgaryfirvöld boðið einu aðildarríki bandalagsins hverju sinni að nýta sér hátíðarhöldin til að kynna land sitt og þjóð á þann hátt sem viðkomandi þjóð kýs. Íslandi var boðið að vera í heiðurssæti hátíðarinnar í fyrsta sinn í ár og hafa utanrrn. og sendiráð Íslands í Washington unnið að því að samræma þátttöku íslenskra aðila að hátíðinni, svo sem Útflutningsráðs, Ferðamálaráðs og fleiri aðila.
    Venja er að herskip frá viðkomandi bandalagsþjóð taki þátt í hátíðinni í samráði við yfirstjórn Atlantshafsflota bandalagsins að ósk borgaryfirvalda í Norfolk. En þar eð Ísland hefur ekki herskipum á að skipa kom sú ósk fram að sent yrði íslenskt varðskip til þess að taka þátt í hátíðinni og mundi bandaríska strandgæslan taka að sér hlutverk gestgjafa í stað flotastjórnar Atlantshafsbandalagsins. Ákveðið hefur verið að varðskipið Týr verði í Norfolk 17.--23. apríl og mun skipið verða þar til sýnis. Auk þátttöku þess í hátíðinni er gert ráð fyrir að um borð verði móttaka á vegum Útflutningsráðs.
Áhöfn skipsins verður gefinn kostur á að kynnast ýmissi starfsemi bandarísku strandgæslunnar og að hátíð lokinni er gert ráð fyrir tveggja daga samæfingu í ýmsum þáttum björgunaraðgerða með skipi frá strandgæslunni úti fyrir strönd Virginíu.
    Önnur spurningin var: ,,Hvað verður Týr lengi í burtu? Hvað er áætlað að skipið sigli margar sjómílur í þessari ferð?`` Áætlað er að Týr fari frá Reykjavík 5. eða 6. apríl og komi til Portsmouth 16. apríl. Í Portsmouth, sem er gegnt Norfolk við Hampton Roads, er yfirstjórn 5. umdæmis strandgæslunnar. Frá Norfolk fer skipið að morgni 23. apríl, síðan áleiðis til Íslands að æfingum loknum. Ef tími vinnst til er fyrirhugað að láta Tý heimsækja yfirstjórn danska flotans á Grænlandi í Grönnedal en Landhelgisgæslan hefur haft mjög nána og góða samvinnu við dönsku flotastjórnina, sérstaklega varðandi björgunaraðgerðir á hafinu milli Íslands og Grænlands. Áætlað er að varðskipið Týr komi aftur til Íslands 6. maí og hafi skipið þá siglt 5500--6000 sjómílur, sem fer eftir því

hvort ís hindrar siglingu við Nýfundnaland eða ekki. Hraði skipsins miðast við að sem best nýting fáist á eldsneyti og tekur siglingin því tiltölulega langan tíma.
    Þriðja spurning: ,,Hvaða ráðstafanir verða gerðar til að mæta fjarveru Týs af miðunum vegna umræddrar ferðar?`` Á meðan varðskipið Týr fer í þessa ferð verður dregið úr dvöl hinna tveggja varðskipanna í Reykjavíkurhöfn, en að öðru leyti verður útivera varðskipanna á miðunum svipuð og venja er að sumri til þegar hverju varðskipi er lagt í hálfan annan til tvo mánuði, samkvæmt forsendum fjárlaga.
    Fjórða spurning: ,,Hver er heildarkostnaður við þessa ferð? Hvernig er hann sundurliðaður í olíukostnað, laun og annað? Hver hefði rekstrarkostnaður skipsins orðið ef það hefði verið við venjuleg gæslustörf þennan tíma, sundurliðað á sama hátt? Hve margir skipverjar og farþegar verða í ferðinni og hve margir eru um borð við gæslustörf alla jafnan?`` Heildarkostnaður vegna ferðar Týs til Norfolk er áætlaður 7 millj. 803 þús. kr. Rekstrarkostnaður skipsins undir venjulegum kringumstæðum hefði orðið um 7 millj. 125 þús. kr. sem skiptist þannig að eldsneyti miðað við ferðina til Norfolk er 1 millj. 953 þús. en hefði orðið við gæslustörf 1 millj. 625 þús., mismunurinn 328 þús. kr. Laun áhafnar miðað við ferð til Norfolk yrði 3 millj. 650 þús. en við gæslustörf 3 millj. 500 þús. kr., mismunur 150 þús. kr. Annar kostnaður 2 millj. kr. í hvoru tilfelli fyrir sig. En í fjórða lagi er útgáfa kynningarrits, sem er aukakostnaður við Norfolk-ferðina, 200 þús. kr. Samtals er ferðakostnaðurinn til Norfolk 7 millj. 803 þús., kostnaður við gæslustörf 7 millj. 125 þús., mismunur 678 þús. sem sundurliðast eins og áður greindi. Ég vil geta þess að þótt eldsneytiskostnaður skipsins sé áætlaður nær helmingi meiri en á sama tíma við gæslustörf verður heildarkostnaðurinn aðeins 20% meiri vegna lægra olíuverðs miðað við ferðina. Að jafnaði eru 21--22 menn í áhöfn Týs, en í þessari ferð verður bætt við matsveini sem jafnframt mun aðstoða við kynningu á íslenskum sjávarréttum á veitingastöðum í Norfolk. Farþegar verða engir í ferðinni.
    Fimmta spurningin: ,,Hver greiðir kostnaðinn við þessa ferð?`` Umframkostnað vegna þessarar ferðar greiðir Landhelgisgæslan, enda aðeins um að ræða tæplega 1% af heildarrekstrarkostnaði skipsins.