Ferð varðskipsins Týs til Norfolk
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð ljóst af svari hæstv. ráðherra að tilgangur fyrirhugaðrar ferðar er svo sem harla lítill. Hvaða erindi varðskip á á þessa hátíð í stað herskips er vandséð. Ég get ekki að því gert að mér kemur í huga að þegar maður var á þeim aldri að maður var enn úti við leiki á góðum og fallegum kvöldum þá voru yngri krakkarnir hafðir með í leikjunum og kallaðir ,,rjómabollur`` eða eitthvað álíka. Ég held að í þessari miklu flotastöð og starfsemi sem þarna er hljóti varðskipið Týr að verða hálfgerð ,,rjómabolla``.
    Það virðist næstum því vera af því gróði að skipið sé fjarverandi, sé fjarri störfum og taki þátt í hátíðum utan lands. Ég verð að segja að ég á bágt með að skilja forsendur þessa útreiknings. Þetta munu vera um þrisvar sinnum fleiri sjómílur sem sigldar verða en venjulega er og því vandséð hvernig eldsneytiskostnaður verður einungis örlítið meiri. Laun eru áætluð þau sömu. Á þessu 30 daga tímabili hefði skipið a.m.k. legið fimm daga í landi, sem mun vera gert til þess að ekki komi til yfirgreiðslu eða frídagavinnu. Það hlýtur að bætast ofan á þessi laun. Það að skipið er úr höfn samfellt í 30 daga --- ja, ég ætla ekki að rengja útreikninga ráðherrans en eitthvað finnst mér það koma undarlega fyrir sjónir.
    Ef kostnaður er svona óskaplega lítill og enginn skaði skeður þótt skipið sé fjarverandi þá er kannski ekkert athugavert við það að Landhelgisgæslan greiði umræddan bækling. En það er ekki hægt að leggja að jöfnu fjarveru skipsins á þessum tíma eða um mitt sumar því, eins og ég tók fram áðan, enn þá er á þessum tíma allra veðra von á Íslandsmiðum og því ekki ástæða til að draga úr öryggi.
    Allt finnst mér þetta svar bera vott um að verið sé að reyna að réttlæta þessa ferð sem á sér engan tilgang annan en sýndarmennsku og það að þykjast vera herþjóð þegar við erum það ekki og ættum ekki að vera það.