Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi var talan 350 millj. kr. fengin hjá hæstv. fjmrh. en 390 millj. kr. er rétt tala, ég tek undir það.
    Í öðru lagi upplýsist það hér að 500 millj. kr. nást inn á gjaldinu samkvæmt fjárlögum og þær renna í ríkissjóð án þess að nokkur hluti þeirra gangi til að greiða uppsafnaðan söluskatt frá fyrra ári. Ég tek fram að þrátt fyrir það sem hæstv. ráðherra sagði, að það hefði ætíð verið svo, er það ljóst, og það vita allir jafn vel og ég, hæstv. ráðherra, að það hefur verið undirskilið að á móti færu út fjármunir til þess að standa undir greiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Það hefur ávallt verið gert.
    Þetta er nauðsynlegt að komi fram, virðulegur forseti, því ef það er rétt að 170 millj. vanti á að endar nái saman til að greiða uppsafnaðan söluskatt, þá ber auðvitað hæstv. ríkisstjórn að greiða þá fjármuni þar sem enn er verið að heimta inn þetta gjald.
    Þá vil ég að lokum, vegna upplýsinga sem komu fram hjá ráðherra um að hugsanlegt sé að halda áfram að heimta inn gjaldið, segja frá því að slíkt er brot, að mínu áliti, á eðlilegum starfsháttum löggjafans miðað við þær umræður sem fóru fram fyrir jólin. Og ef það er ætlun hæstv. ríkisstjórnar að halda þessu áfram allt árið og ná inn einum milljarði í stað þess að ná inn 500 millj. þá verður að krefjast þess að slíkt mál fari inn á borð alþingismanna öðruvísi en með fjáraukalögum sem koma miklu síðar.
    Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram við þessa umræðu. Ég tek það fram að ég tel það skyldu hæstv. ríkisstjórnar að greiða þessar 170 millj. af þeim 500 millj. sem munu innheimtast á fyrstu sex mánuðum þessa árs.