Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 765 eru þrjár spurningar lagðar fyrir mig um húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi af hv. 5. þm. Vesturl. Ég mun nú leitast við að svara þeim í örfáum orðum.
    Fyrsta spurningin er þessi: ,,Hefur fengist niðurstaða í húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi?``
    Svarið: Því miður hefur það ekki tekist enn.
    Önnur spurning: ,,Hvaða afgreiðslu hefur tilboð einingahúsaverksmiðju á Selfossi um bráðabirgðahúsnæði handa lögreglunni hlotið, sbr. svar ráðherra við fsp. á þskj. 595 22. febr. sl.?``
    Svar: Þá afgreiðslu að það er enn í athugun hvort sá kostur er framkvæmanlegur eða ekki. Til þess að því verði svarað þurfa að liggja fyrir svör frá bæjaryfirvöldum í Stykkishólmi við spurningum sem til þeirra hafa verið sendar í þessu sambandi með bréfum, dags. 19. febr. og 16. mars sl.
    Þriðja spurning: ,,Hefur verið leitað tilboða frá öðrum húsaverksmiðjum í ,,færanlegt einingahús``, t.d. frá heimamönnum? Ef svo er ekki, hvers vegna?``
    Svar: Það hefur ekki verið gert, einfaldlega vegna þess að athugun á þessu eina tilboði í þessu efni sem borist hefur stendur enn yfir.