Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Mig langar til þess að gera athugasemd í tilefni þessarar fsp. og hún snertir kynferðisafbrotamál er kærð hafa verið af börnum og unglingum.
    Starfsmenn unglingadeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkur hafa lagt áherslu á að unglingar kæri kynferðislegt ofbeldi sem þau verða fyrir, oft að undangenginni vinnu sérfræðinga, samtölum og meðferð þar sem viðkomandi aðilum er hjálpað til að vinna úr vandamálum sínum. Stór þáttur í þeirri meðferð er að slík afbrot, er ég nefndi hér áðan, séu kærð til viðkomandi yfirvalda og þar sé á þeim tekið af fyllstu alvöru eins og gerist um kæru vegna annarra afbrota svo sem auðgunarbrota, en á þessu virðist hafa orðið nokkur misbrestur þrátt fyrir þá forgangsröð sem hæstv. dómsmrh. gerði hér grein fyrir. Kynferðisafbrot er að vísu oft erfitt að rannsaka og í þessum tilfellum er oft alllangur tími liðinn, en maður hlýtur þó a.m.k. að gera kröfu til þess að leitast sé við að yfirheyra ákærðu en það er alls ekki alltaf. Í einu slíku máli hefur ríkissaksóknari m.a. gefið þessar skýringar, og með leyfi hæstv. forseta vitna ég hér í bréf sérfræðings sem unnið hefur mikið að þessu málum. Þar segir um skýringar saksóknara:
,,a. Vísað er til að sök, ef sönnuð væri, sé fyrnd.
    b. Að ákæruvald metur að framburður stúlkunnar nægi ekki til sakfellis og að frekari rannsókn geti ekki bætt þar úr. Jafnframt kemur fram að ákærði hefur ekki verið yfirheyrður.
    c. Ákæruvald segir þungt á metum hvað langt sé síðan brot hafi átt sér stað, ekki séu vísbendingar að hafa úr læknisrannsókn, vettvangsrannsókn skili engu og vitni verði ekki tilgreind.
    Í bréfi rannsóknarlögreglustjóra kemur fram að Rannsóknarlögregla ríkisins hafi ekki aðrar spurnir af kærða en ,,að hann hafi verið og sé venjulegur maður og ágætur samskiptum``.``
    Að vísu hefur fyrning hér áhrif en þvílík dæmi sýnast kalla á mun meiri áherslu á yfirheyrslur yfir sakborningum en raunin hefur verið sé ekki ætlunin að bera rétt þess er brotið hefur verið á algjörlega fyrir borð. Því má velta fyrir sér hvort staða þess sem brotið er á sé slík að neiti sakborningur sakargiftum sé málið tapað.
    Störf Rannsóknarlögreglunnar og ríkissaksóknara hljóta að miða að því að veita þjóðfélagsþegnum sem besta réttarvernd, sama úr hvaða stétt þeir koma og á hvaða aldri þeir eru og hvet ég hæstv. dómsmrh. til þess að beita sér fyrir úrbótum á þessu sviði. Þetta eru líka mikilvæg mál.