Byggingarsjóður ríkisins
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Þegar kallað er eftir meira fjármagni inn í húsnæðiskerfið til að stytta biðtíma eftir lánum, eins og raunar lá í orðum hv. fyrirspyrjanda og í þeim fsp. sem til mín er beint, þá er nauðsynlegt að hv. þm. geri sér grein fyrir nokkrum staðreyndum þessa máls.
    1. Til að eyða biðröðinni og stytta biðtímann niður í það sama og er í húsbréfakerfinu þarf 21 milljarð króna.
    2. Þrátt fyrir gífurlega aukningu á fjármagni inn í Byggingarsjóð ríkisins á undanförnum árum er biðtími sífellt að lengjast. Ég nefni dæmi: Frá 1980 til 1989 hafa útlán Byggingarsjóðs ríkisins aukist um 150% að raungildi. Frá því biðraðakerfið tók gildi 1986 hefur fjármagn til þess aukist að raungildi um 56%. Þrátt fyrir það hefur biðtíminn sífellt verið að lengjast, var t.d. á árinu 1987 um 23 mánuðir fyrir forgangshópa og í júní 1988 var hann kominn í 30 mánuði.
    3. Á Norðurlöndum og raunar víðast hvar á Vesturlöndum er það nánast óþekkt að lánað sé úr opinberum sjóðum til kaupa á notuðum íbúðum. Á Íslandi eru útlán til húsnæðismála úr byggingarsjóðunum þrisvar sinnum meiri en í Noregi sem þó er það Norðurlandanna utan Íslands sem veitir mestu fjármagni til útlána.
    4. Á þessu ári fara 13,4 milljarðar til lánveitinga vegna húsnæðismála. 13,4 milljarðar, hv. þm., til útlána nú í húsnæðismál er svipuð upphæð og fer alls í mennta- og menningarmálin á landinu. Fjármagn til húsnæðismála er t.d. 2,5 milljörðum meira en kostar að reka alla grunnskóla, alla framhaldsskóla landsins ásamt Háskóla Íslands og Lánasjóð ísl. námsmanna. Og fjármagn til húsnæðismála í ár er svipað og kostar að reka öll sjúkrahús og heilsugæslu í landinu.
    Þrátt fyrir þessar staðreyndir sem ég hef hér upp talið, þrátt fyrir gífurlegar fjárhæðir sem til húsnæðismála er varið, erum við með 30 mánaða biðtíma og óleysta þörf samkvæmt biðraðakerfinu upp á 21 milljarð króna. Sýnir okkur nokkuð betur að þetta kerfi sem við höfum búið við, biðraðakerfið, gengur ekki upp? Það vindur sífellt upp á sig og allir fara í biðröðina hvort sem þeir þurfa á því að halda eða ekki. Umsóknir um lán vegna greiðsluerfiðleika sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur verið að fá að undanförnu eru sífellt í auknum mæli frá fólki sem hefur nýlega fengið lán til kaupa á húsnæði úr biðraðakerfinu. Þetta sýnir einna best að biðraðakerfið gengur ekki upp. Með hverju 4 millj. kr. láni úr Byggingarsjóði ríkisins greiðir sjóðurinn um 3,5 millj. í niðurgreiðslur vaxta á lánstímanum. Þetta hafa lántakendur fengið hvort sem þeir hafa þurft á því að halda eða ekki. Fólk fer einfaldlega í biðröðina til að eiga vís niðurgreidd lán ef það þyrfti kannski einhvern tímann, eftir þrjú, fjögur eða fimm ár, að skipta um íbúð eða kannski stækka einbýlishúsið. Síðan hittir biðraðakerfið þá fyrir sem síst skyldi, þá sem eru í brýnni neyð að fá lán til íbúðakaupa. Þetta er kjarni málsins.

    Spyrja má: Er hv. þm. að biðja um meira fjármagn inn í biðraðakerfið sem ekki gengur upp? Og ef svo er, hvar voru hans tillögur í því efni við fjárlagagerðina? Þær voru engar.
    Hvernig á að leysa vandann? spyr hv. þm. Ég bendi á eftirfarandi:
    1. Fjármagn til lánveitinga úr Byggingarsjóði ríkisins hefur aukist um 56% að raungildi frá því biðraðakerfið tók gildi.
    2. Húsbréfakerfið hefur verið lögfest og 2 milljarða húsbréfaflokkur var gefinn út. Fram til 15. maí hafa þeir forgang í það kerfi sem nú eru í biðraðakerfinu. Þeim verður öllum send um næstu mánaðamót tilkynning í pósti og þeir minntir á rétt þeirra í húsbréfakerfinu ef þeir þurfa strax að festa sér íbúð. Þar er biðtíminn þrjár vikur. Greiðslubyrði er um 15% lægri í húsbréfakerfinu en í biðraðakerfinu fyrstu fimm árin miðað við kaup á 6 millj. kr. íbúð.
    3. Fjármagn til Byggingarsjóðs verkamanna hefur aukist um 134% að raungildi frá 1986 sem auðveldað hefur þeim lausn sem ekki hafa getu til að standa undir greiðslubyrði í biðraðakerfinu.
    Ég tel að fyrst og fremst sé skynsamlegt að vinna sig út úr vandanum eftir tveimur leiðum, þ.e. gegnum húsbréfakerfið og að efla félagslega íbúðakerfið. Ég tel að þessar tvær leiðir muni smám saman eyða þeirri biðröð sem er eftir lánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.