Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Óhætt er að fullyrða að meiri og stórstígari breytingar hafi átt sér stað á alþjóðavettvangi á sl. ári en nokkru sinni áður undanfarna áratugi á jafnskömmum tíma. Það hafa því sannarlega orðið mjög mikil umskipti í utanríkismálum og þeim viðfangsefnum sem við þurfum að taka afstöðu til frá því að Alþingi ræddi síðast skýrslu utanrrh. Þessar breytingar hafa að verulegu leyti átt sér stað á sl. hálfu ári og hafa gjörbreytt allri stöðu Evrópu og hugmyndafræðilegri baráttu í heiminum.
    Fall sósíalismans í Austur-Evrópu eru mikil umskipti og mikil tíðindi. Hinn sögulegi atburður þegar Berlínarmúrinn féll 9. nóv. sl. hlýtur að verða mönnum lengi í minni. Hann markar sannarlega þáttaskil í baráttu þjóðanna fyrir lýðræði og mannréttindum. Hann opnar nýja möguleika í sambúð og samstarfi þjóða og er táknrænn fyrir þau þáttaskil sem hér hafa orðið. Það er óhætt að fullyrða að með þessum breytingum hafa þau öfl, sem barist hafa fyrir lýðræði, frelsi og markaðsbúskap, unnið mikinn sigur. Hinir, sem um áratugi hafa verið málsvarar sósíalismans sjá nú fram á skipbrot í hugmyndafræði baráttunnar. Það eru þessi tímamót sem orðið hafa og sannarlega ber að fagna þeim.
    Það er óhætt að fullyrða að þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu hefur verið mjög mikilvægur þáttur í því að við getum nú tekið þátt í þessum breytingum og verið hluti þeirra sem fagna sigri. Atlantshafsbandalagið hefur í meira en 40 ár tryggt friðinn í Evrópu. Það hefur með staðfastri stefnu sinni knúið fram þá niðurstöðu sem nú er að verða með hraðari þróun í afvopnun en menn þorðu nokkru sinni að gera sér vonir um og með því að við sjáum nú friðsamlegt fall sósíalismans í Austur-Evrópu. Þáttur Atlantshafsbandalagsins og ákveðinnar og markvissrar stefnu þess er ómetanlegur í þessari þróun og það er ánægjuefni fyrir Íslendinga að hafa getað verið þátttakendur í þeirri baráttu. Það er um leið mikill áfellisdómur auðvitað yfir þeim sem hér hafa
barist gegn þátttöku okkar í þessu varnarbandalagi sem hefur tryggt friðinn og knúið fram þær breytingar sem nú eru að verða. Það er athygli vert og ástæða til að rifja upp hér að fyrir aðeins fáum árum voru hér á Alþingi eins og víða annars staðar í Evrópu harðar deilur á milli þeirra sem vildu fylgja hinni staðföstu en um leið sveigjanlegu stefnu Atlantshafsbandalagsins og hinna sem vildu brjóta þá stefnu niður og m.a. gengu fram undir merkjum svonefndra friðarhreyfinga í þeim tilgangi að knýja fram einhliða ákvarðanir um afvopnun. Og í sumum tilvikum frystingu ástands í vopnaviðbúnaði.
    Málatilbúnaður þessara afla hefur beðið skipbrot. Það hefur komið í ljós að það var hin staðfasta stefna lýðræðisþjóðanna sem knúði fram breytingarnar og var hin rétta. Og það er ástæða til að minna á þetta hér, m.a. vegna þess að hér á Alþingi voru harðir talsmenn þess að við hopuðum og létum undan í þessu efni. Menn geta nú rétt ímyndað sér hvar við stæðum ef

þessi sjónarmið hefðu orðið ofan á hér og annars staðar í Vestur-Evrópu. Þá byggjum við ekki við þann mikla árangur sem við sjáum í afvopnunarmálum og ugglaust hefðum við skotið á frest falli sósíalismans í Austur-Evrópu og möguleikum þeirra þjóða til þess að hraða sér í átt að markaðshagkerfinu.
    Sem betur fer höfðu þjóðir Vestur-Evrópu styrk og þolgæði til þess að brjóta þessi sjónarmið á bak aftur og við sjáum árangurinn nú í þeim miklu umskiptum sem orðið hafa á síðustu mánuðum, þar sem við nánast fáum daglega heimssögulegar fréttir um nýjar aðstæður og hraðfara þróun til betri vegar.
    Það er líka athygli vert að í þeim frjálsu kosningum sem nú fara fram í ríkjum Austur-Evrópu, sem fá okkar hefði dreymt um þegar við síðast ræddum skýrslu utanrrh. að hefðu orðið að veruleika að ári, einmitt í þeim kosningum kemur fram hinn skýri vilji þessara þjóða að varpa af sér oki sósíalismans. Ýmsir höfðu talið að jafnaðarmannaflokkar og miðjuflokkar mundu spretta upp í Austur-Evrópu með auknu afli í kjölfar lýðræðislegra kosninga. Reyndin hefur orðið önnur. Þessar þjóðir hafa í kosningum sýnt að þær vilja ekki einungis varpa af sér fjötrum kommúnismans, losa sig undan sósíalismanum, heldur taka mjög ákveðna og skýra stefnu til þess að taka upp virkan markaðsbúskap og hafa kosið þá flokka sem líklegastir eru til að tryggja þá þróun. Það hafa þess vegna orðið ýmsum vonbrigði, forustumönnum jafnaðarmanna á Vesturlöndum og miðjuflokka af ýmsu tagi, að þróunin hefur orðið og er að verða þessi í Austur-Evrópu.
    Ýmsir þessara manna töldu að þeir fengju í frjálsum kosningum í Austur-Evrópuríkjum nýjan stuðning við fallandi gengi eigin málstaðar en reyndin sýnist ætla að verða á allt annan veg, þar sem þessar þjóðir taka mjög ákveðna stefnu til markaðsbúskapar.
    Auðvitað mun þetta umrót og þessar breytingar hafa margvísleg áhrif á stöðu Íslands og afstöðu þess til utanríkis- og varnarmála og jafnframt á stöðu stjórnmála hér heima. Auðvitað leiða þessi miklu umskipti til þess að við þurfum að meta upp á nýtt stöðu okkar í Evrópu. Við þurfum að skoða hlutverk varnarliðsins í nýju ljósi, við þurfum að horfa til samninganna við Evrópubandalagið í ljósi breyttra aðstæðna og hjá því fer ekki að þeir flokkar
sem hér hafa barist áratugum saman undir merkjum sósíalismans þurfa að horfast í augu við nýjar aðstæður. Það er ástæðulaust við þetta tækifæri að fara mörgum orðum þar um en það hefur ekki farið fram hjá neinum að þessi umbylting á erlendum vettvangi hefur og er að kippa fótunum undan þeim stjórnmálahreyfingum sem hér hafa gengið fram undir gunnfána sósíalismans á undanförnum áratugum. Sú kreppa sem ríkir í þeim herbúðum á ugglaust eftir að leiða til þess að frjálslynd öfl í þessu þjóðfélagi styrkist og hér verði meiri og traustari samstaða um frjálslynd viðhorf í efnahagsmálum og traust sjónarmið í utanríkis- og varnarmálum þannig að við Íslendingar getum hert sókn okkar til bættra lífskjara og þurfum

ekki að eyða jafnmiklu púðri í deilur um afstöðu okkar til annarra þjóða og hvernig við gætum öryggishagsmuna okkar eins og við höfum þó þurft þrátt fyrir mikla samstöðu á undanförnum árum. Þannig munu þessar breytingar einnig hafa jákvæð og heillavænleg áhrif á þróun mála innan lands hjá okkur á næstu árum. Og það er auðvitað sérstakt fagnaðarefni.
    Um þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram er það að segja að hún er ítarleg og í flestum efnum ágæt greinargerð. Hún felur í sér að stærstum hluta til hlutlausa embættismannafrásögn án skýrrar stefnumörkunar. En á ákveðnum sviðum kemur þó fram alveg ljós og skýr stefna sem sérstök ástæða er til að benda á og fagna. Ég nefni í því sambandi þá afstöðu sem fram kemur í varnar- og öryggismálum og til að mynda þá afstöðu sem kemur fram að því er varðar deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég hefði hins vegar kosið að pólitísk stefnumótun og skýrar pólitískar forsendur hefðu komið fram víðar í þessari skýrslu og tekið til fleiri þátta en þessara. En vil þó leggja á það áherslu að mestu máli skiptir auðvitað að hæstv. utanrrh. hefur gert mjög skýra grein fyrir ábyrgri stefnu í varnar- og öryggismálum að því er öll meginsjónarmið og grundvallaratriði varðar. En víða sakna menn eðlilega stefnumótunar og pólitískra forsendna. Í því sambandi nefni ég m.a. kaflann um samningana við Evrópubandalagið en ætla að víkja að því síðar.
    Þegar skýrsla utanrrh. var til umræðu hér fyrir ári vék ég nokkrum orðum að þeim þætti skýrslunnar sem er prentaður upp úr stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar og ég sé ástæðu til þess að gera það enn á ný nú vegna þess að hæstv. ráðherra hefur kosið að setja í inngang þessarar skýrslu þann hluta úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem fjallar um utanríkismál. Það er óneitanlega mikið áhyggjuefni fyrir íslensku þjóðina að lesa þennan kafla. Það hlýtur að valda miklum vonbrigðum í ljósi þeirra miklu umskipta sem nú eiga sér stað í veröldinni, í ljósi þeirrar frjálsræðisbylgju og þess skilnings á traustri og öruggri stefnu í utanríkis- og öryggismálum sem hvarvetna er að skjóta fastari rótum en áður, að ríkisstjórn Íslands skuli setja fram stefnuyfirlýsingu af því tagi sem hér er greint frá. Það hefði, hæstv. utanrrh., verið meiri sómi að því að stinga þessum hluta stefnuyfirlýsingarinnar undir stól. Það hefði lýst því að hæstv. ríkisstjórn hefði með öruggum hætti og væri sammála um að taka tillit til og viðurkenna raunverulega þau miklu umskipti sem nú eiga sér stað. Ég minni á að í sameiginlegri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ekki vikið einu orði að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það er ekki vikið einu orði að því með hvaða hætti Ísland tryggir varnir sínar og öryggi. Ég hygg að þetta sé einsdæmi í sögu ríkisstjórna í landinu frá því að við gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Og ég hygg að það sé einsdæmi þó við leituðum víða um lönd að ríkisstjórn gæfi út stefnuyfirlýsingu þar sem ekki væri vikið einu orði að grundvallaratriðum og meginþáttum í

utanríkis-, varnar- og öryggismálastefnu þjóðar.
    Ég ætla ekki að lesa hér upp úr þessari stefnuyfirlýsingu. En menn hljóta að gera sér grein fyrir því hversu alvarleg staðan er þegar hæstv. utanrrh. neyðist til þess í ljósi þessara miklu umskipta sem hafa orðið að endurprenta þennan kafla. Það segir okkur aðeins eitt. Innan þessarar ríkisstjórnar er engin samstaða um þessi meginatriði. Við búum við ríkisstjórn sem ekki getur komið sér saman um grundvallaratriði utanríkis- og varnarstefnunnar. Og í raun og veru er varla hægt að finna meiri veikleika hjá einni ríkisstjórn en þegar það gerist að hún getur ekki komið sér saman um þessi efni.
    Ég minni hér til að mynda á, í ljósi þess að hvergi er getið um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu eða með hvaða hætti við tryggjum varnir okkar, að hæstv. ríkisstjórn sér ástæðu til þess að taka það fram sem þungamiðju í stefnu okkar í þessum efnum að hún felist í virkri þátttöku í umræðum um afvopnunarmál og kjarnorkuvopnalaus svæði í okkar heimshluta. En í skýrslu hæstv. utanrrh. kemur á hinn bóginn fram að því er varðar kjarnorkuvopnalaus svæði að þar hefur Ísland í engu hvikað frá sameiginlegum skuldbindingum sínum við Atlantshafsbandalagið. Framkvæmd utanríkisstefnunnar á þessu sviði gengur þess vegna sem betur fer í berhögg við beina yfirlýsingu stjórnarsáttmálans. Og það er auðvitað ástæða til þess að fagna því að framkvæmdin hefur verið með þeim hætti. En það segir okkur um leið á hversu veikum stoðum þessi ríkisstjórn starfar í þessum efnum.
    Það væri líka ástæða til í þessu sambandi að rifja upp að yfirlýsingar hæstv. forsrh. á undanförnum mánuðum hafa í mörgum tilvikum að því er varðar stefnuna í utanríkismálum verið býsna gáleysislegar og ekki í samræmi við þá niðurstöðu sem hæstv. utanrrh. kemst að í skýrslu sinni að því er varðar utanríkis- og varnarmál. Þannig má segja að ríkisstjórnin sé þríklofin í þessu efni. Á einn veginn er Alþb., sem hefur fengið að ráða stefnuyfirlýsingunni. Annar hlutinn er Alþfl., undir forustu hæstv. utanrrh., sem hefur framfylgt óbreyttri stefnu í utanríkis- og varnarmálum og þriðji hlutinn er svo Framsfl., sem hefur sýnt
á sér hefðbundið hentistefnusnið í þessum efnum, þar sem hluti Framsfl. hefur staðið fast og þétt við grundvallaratriði utanríkisstefnunnar eins og hún hefur verið framkvæmd á undanförnum árum en annar hlutinn, undir forustu þingflokksformanns þeirra, hefur daðrað við stefnu Alþb. Og hæstv. forsrh. sýnist hafa hneigst til þess að styðja þann hluta flokksins undanfarna mánuði, hvort sem á því kann nú að verða breyting á næstu mánuðum eða ekki.
    Þetta er sú mynd sem við blasir af ríkisstjórn Íslands þegar horft er á einn veigamesta þáttinn í stjórnarstefnu hverrar ríkisstjórnar, það er þríklofin ríkisstjórn. Af þessu má ráða að sú ábyrga grundvallarstefna í varnar- og öryggismálum sem hæstv. utanrrh. framkvæmir styðst ekki við stjórnarmeirihlutann á Alþingi, hún byggist auðvitað

á því, hér eftir sem hingað til, að Sjálfstfl. hefur mótað og fylgt og framkvæmt skýra stefnu í þessum efnum. Og það er á þeim grundvelli sem hæstv. utanrrh. getur fylgt þeirri stefnu eftir sem hann lýsir svo í skýrslunni. Á bak við ríkisstjórnina sjálfa eru ekki nægjanlega sterkar stoðir til þess.
    Ég ætla síðan að víkja að nokkrum atriðum sem fram koma í þessari skýrslu. Það er fjallað hér um samskipti austurs og vesturs í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað. Ég ætla ekki að fara mörgum fleiri orðum um það en ég hef þegar gert. Ég vil þó vekja athygli á því að bæði í skýrslunni, til að mynda á bls. 8, og eins í ræðu hæstv. utanrrh. er fjallað um þá nýju stöðu sem nú er komin upp, að allt bendir til þess að sameining þýsku ríkjanna verði miklu fyrr en menn áður töldu í kjölfar þess að Berlínarmúrinn féll. Ég sakna þess hins vegar að það kemur ekki með skýrum hætti fram í þessari skýrslu, né í ræðu hæstv. ráðherra, hver afstaða hans er í þessu efni. Ýmis ríki í Evrópu, bæði austan- og vestanmegin við gamla járntjaldið hafa lýst skoðunum sínum í því efni. Og þá skiptir auðvitað mestu máli að hverju menn vilja stefna að því er varðar þátttöku hins nýja sameinaða Þýskalands í varnarsamstarfi Evrópuríkjanna. Jafnvel af hálfu Pólverja hafa þau sjónarmið komið fram að eðlilegt væri að sameinað Þýskaland yrði aðili að Atlantshafsbandalaginu. Ég hefði gjarnan kosið að sú afstaða kæmi fram með skýrum hætti í þessari skýrslu og ég efast ekkert um hug utanrrh. í þeim efnum. En vænti þess að hann síðar í þessari umræðu geri þá nánari grein fyrir stefnu sinni í þessu efni og árétti það að Ísland telji eðlilegt og sjálfsagt að sameinað Þýskaland verði aðili að Atlantshafsbandalaginu.
    Í kaflanum um öryggis- og varnarmál kemur mjög skýrlega fram að í framkvæmd hefur utanríkisstefnan þrátt fyrir sameiginlega stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar byggst á mjög ábyrgri afstöðu. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir mikinn niðurskurð í vopnabúnaði verða hervarnir eftir sem áður veigamikill þáttur í öryggiskerfi ríkja Evrópu.``
    Ég vil leggja á það áherslu að auðvitað verða menn að gæta að því í þessari öru þróun að raska ekki því jafnvægi sem tryggt hefur friðinn og huga að því að við verðum á hverjum tíma að gæta að öryggi okkar þó að dregið hafi mjög verulega úr þeirri ógn sem mest hefur verið undanfarna áratugi. Enn er mjög margt óvíst um hver þróunin verður og því ekki tímabært að taka neinar þær ákvarðanir sem veikt geta stöðu okkar og bandamanna okkar í þessu efni. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. hefur með ótvíræðum hætti tekið af skarið að því er þetta varðar.
    Hæstv. ráðherra fjallar eðlilega allmikið um stöðuna í Sovétríkjunum. Auðvitað hefur þróun mála þar mjög veigamikil áhrif á allar þær breytingar sem nú eiga sér stað þó segja megi að önnur ríki Austur-Evrópu hafi tekið frumkvæðið síðustu mánuði. Ég verð þó að segja að mér finnst hæstv. ráðherra ofmeta um sumt forustuhlutverk núverandi leiðtoga Sovétríkjanna. Frá mínum bæjardyrum séð er ekki um það að ræða að hann hafi haft frumkvæði að einhverjum nýjungum.

Hann fann ekki upp markaðsbúskapinn, hann fann ekki upp fjölflokkakerfi, hann fann ekki upp lýðræðislegt skipulag. Hann stóð hins vegar frammi fyrir því að sósíalisminn og áætlunarbúskapur sósíalismans og einræðiskerfi kommúnismans var hrunið. Hann hefur af mikilli reisn og skörungsskap leitt undanhald þessa kerfis og vonandi á þann veg að það geti orðið öllum þjóðum í Evrópu til framdráttar og dragi úr spennu og bæti sambúð þjóða. Þess vegna tek ég auðvitað undir að það er mikilvægt að ríki Vestur-Evrópu styðji þá umbótaviðleitni sem þarna á sér stað en menn verða að gera sér grein fyrir því að hér er þjóð á undanhaldi en ekki þjóð sem er að taka frumkvæði. Og enn á ýmislegt eftir að koma í ljós hvað verður í
Sovétríkjunum. Enn hafa ekki gerst þær breytingar þar á efnahagssviðinu sem menn hafa vænst og hlýtur að vera forsenda fyrir því að árangur náist. Leiðtogi Sovétríkjanna hefur ekki treyst sér til þess að marki að fara út á það svið, enn sem komið er, og það hlýtur að vekja nokkurn ugg að þróunin upp á síðkastið hefur verið sú að þjappa saman valdi á nýjan leik.
    Enn fremur vekja atburðirnir í Litáen nokkurn ugg og sýna mönnum fram á að allt getur enn gerst í Sovétríkjunum. Staðreyndin er sú að Litáum hefur verið ógnað með hervaldi. Það ætti að vekja menn til umhugsunar um það sem er að gerast í Sovétríkjunum og um það að ekki er allt sem sýnist í þessu efni og full ástæða er til að fara varlega og gæta að sér þegar ákvarðanir eru teknar í utanríkis- og öryggismálum.
    Ég ætla þá að ræða aðeins afstöðu Íslendinga til Eystrasaltsríkjanna og þeirra atburða sem þar hafa átt sér stað síðustu daga og vikur. Ég efa ekki að hæstv. ríkisstjórn styður þá ákvörðun Litáa að slíta sig úr sovéska ríkjasambandinu og endurreisa sjálfstætt fullvalda ríki. Sambærileg viðleitni er fyrir hendi í öðrum ríkjum við Eystrasalt, sem innlimuð voru í Sovétríkin á sínum tíma. Alþingi Íslendinga, eins og mönnum er kunnugt, tók af skarið í þessu efni með þeirri ályktun sem samþykkt var á dögunum og hæstv. utanrrh. beindi eðlilegum tilmælum til leiðtoga Sovétríkjanna fyrir skömmu síðan vegna þeirrar hernaðarógnunar sem fram kom af hálfu Sovétstjórnarinnar.
    Að mínu mati eiga Íslendingar að taka með mjög ótvíræðum hætti af skarið í þessu efni. Ég lít svo á að það standi Norðurlandaþjóðunum næst að sýna þessum þjóðum fyllsta stuðning, allan þann stuðning, þann mesta stuðning sem mögulegur er, engum öðrum þjóðum stendur það nær. Það hlýtur að höfða til okkar Íslendinga sérstaklega, með tilliti til þess að við fengum fullveldi á sama tíma og þessar þjóðir fengu sjálfstæði. Það hlýtur að höfða til okkar vegna þess að við fengum og tókum við lýðveldi og urðum fullkomið sjálfstætt ríki við þær aðstæður að styrjöld geisaði í heiminum. Í þessu ljósi hljóta tilfinningar okkar að vera mjög sterkar til þessara þjóða.
    Hæstv. utanrrh. hefur haldið því fram, og það kemur fram hér í skýrslunni, að nægjanlegt sé af

Íslands hálfu að vísa til viðurkenningar Dana á sjálfstæði Litáa frá 1921. Í skýrslunni kemur ekki fram hvort sú yfirlýsing var gefin út fyrir Dani eina eða bæði Dani og Íslendinga. Danir fóru þá með utanríkismálefni Íslendinga en við vorum fullvalda þjóð og slík yfirlýsing er þess vegna ekki gild nema hún hafi alveg skýrlega verið gefin út fyrir hönd beggja þjóðanna. Í skýrslunni kemur ekki fram hvort svo hafi verið. En í sjálfu sér er þetta formsatriði. Meginatriðið er það að við eigum, Íslendingar, að taka með afdráttarlausum hætti af skarið og sýna vilja okkar og samstöðu. Og þess vegna er rétt að við viðurkennum formlega fullveldi Litáens og þá ríkisstjórn sem lýðræðislega kjörið þing hefur sett þar á fót.
    Ég tel að allt annað lýsi veikleika og efasemdum og beri vott um að við séum ekki tilbúnir til þess að veita þeim nægjanlegan stuðning. Auðvitað er eðlilegt að Litáar ræði við Sovétríkin, en þeir þurfa að geta sýnt fram á virkan stuðning. Bandaríkjamenn eiga annarra hagsmuna að gæta um margt en við í þessu efni vegna samskipta sinna við Sovétríkin. Ég er þó þeirrar skoðunar að þeir hafi farið allt of varfærnislega í þessu efni. Mér finnst það gagnrýni vert gagnvart Bandaríkjunum hversu veikur stuðningur þeirra hefur verið fram til þessa. Ég efast ekkert um heilan hug þeirra en þeir hafa greinilega raðað málum í forgangsröð og það hefur dregið úr þeim þunga á bak við stuðninginn við Eystrasaltsríkin sem maður hefði vænst. En frá mínum bæjardyrum séð á þetta ekki að breyta afstöðu okkar Íslendinga. Við höfum enga ástæðu til annars en að sýna fyllsta stuðning í verki. Og það er engin leið að færa fram rök fyrir því að formleg viðurkenning af hálfu Íslendinga muni veikja stöðu Litáa eða kunni að spilla fyrir framgangi mála í samskiptum þeirra við Sovétríkin. Þvert á móti þarf veiki aðilinn í þessari stöðu á stuðningi að halda. Við fundum það þegar aðrar þjóðir viðurkenndu Ísland sem lýðfrjálst sjálfstætt ríki að það var mikils virði og við eigum að sýna öðrum það nú.
    Það er af þessum ástæðum sem ég hef ásamt nokkrum öðrum þingmönnum lagt fram till. til þál. þar sem ríkisstjórninni er falið að viðurkenna formlega sjálfstæði Litáens. Ég vona, þrátt fyrir þá afstöðu sem fram kom hjá hæstv. utanrrh., að um það mál geti tekist breið samstaða hér á Alþingi og að hæstv. ríkisstjórn sjái sér fært að styðja þá tillögu og viðurkenna formlega fullveldi Litáens. Það væri í samræmi við fyrri samþykktir Alþingis. Það væri í samræmi við fyrri afskipti hæstv. utanrrh. af málinu, rökrétt framhald af því sem þegar hefur verið gert. Það mundi hins vegar valda miklum vonbrigðum ef hæstv. ríkisstjórn ætlaði að hika í þessu efni. Það sýndi veikleika, það mundi benda til þess að ef til vill væri ekki í raun sá hugur á bak við afstöðu Íslands sem nú þegar hefur komið fram. Vonandi fer ekki svo að afskipti Sovétríkjanna af máli Litáa leiði til þess að sú breytta heimsmynd sem við horfumst nú í augu við hverfi og við stöndum aftur frammi fyrir þeirri gömlu mynd sem ógnarstjórn Sovétríkjanna áður var. Á þessu

stigi er ekki ástæða til þess að hafa uppi svartsýnisspár í þeim efnum. En atburðir síðustu
daga sýna að það þarf að styrkja þá sem eru minni máttar í þessum átökum og það er okkar skylda. Það þarf að sýna Sovétríkjunum fram á að þau geti ekki hunsað eðlilegar kröfur þessara þjóða til sjálfstæðis. Það þarf að sýna Sovétríkjunum fram á að ef þau ætla að gera það er umbótastefnan brostin og það er þess vegna sem við þurfum að taka ákveðna afstöðu.
    Ástæða hefði verið til þess að fjalla um ástand mála í einstökum ríkjum Austur-Evrópu og þær breytingar sem þar eru að gerast en til þess vinnst ekki tími. Ég hefði þó talið að það væri fróðlegt í þessari umræðu að heyra sjónarmið ráðherra Alþb., varaformanns Alþb., hæstv. samgrh., sérstaklega í tilefni af þeim kafla sem hér er um Rúmeníu. Innan Alþb. hafa á undanförnum mánuðum verið uppi raddir um nauðsyn þess að sá flokkur hreinsaði fortíðina, gerði almenningi grein fyrir samskiptum sínum við ríki kommúnista í Austur-Evrópu sem lengst voru við ógnarstjórnina í Rúmeníu. Kröfur af þessu tagi sýnast ekki hafa fengið hljómgrunn innan Alþb. en það væri sérstakt fagnaðarefni ef varaformaður þess flokks, hæstv. samgrh., mundi í þessum umræðum gera nánari grein fyrir þessu og freista þess að þvo fortíðarrykið af Alþb. svo sem stífar kröfur hafa verið uppi um innan flokksins. Því yrði örugglega fagnað ef hann tæki frumkvæði í því hér á Alþingi að hefja uppgjör og gera hreint fyrir dyrum Alþb. í þeim efnum.
    Í skýrslunni er síðan gerð nokkur grein fyrir ýmsum svæðisbundnum deilumálum í veröldinni sem ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hér. Þar er í flestum efnum um að ræða embættismannafrásögn af ástandi mála nema að því er varðar kaflann um Mið-Austurlönd þar sem kemur fram pólitísk stefnumörkun. Þar segir: ,,Vissrar tilhneigingar hefur gætt til að líta eingöngu á aðra hlið þessa máls, og einfalda það á þann hátt að skella allri ábyrgðinni á Ísraelsmenn. Því hefur verið haldið fram að málið verði leyst á þann hátt eingöngu að Ísraelar yfirgefi herteknu svæðin, Palestína verði viðurkennd sem ríki og Frelsissamtök Palestínumanna sem ríkisstjórn þess. Aðstæður krefjast þess hins vegar að litið sé á málið í víðara samhengi. Vert er að ítreka að Ísrael er umkringt af ríkjum sem ekki viðurkenna tilvistarrétt þess. Sérhver lausn verður því að tryggja öryggi Ísraels.``
    Ég fagna því að þessi afdráttarlausa stefnumörkun skuli koma fram að því er varðar deilumál fyrir botni Miðjarðarhafs. Um margt höfum við söguleg
tengsl við Ísrael og þess vegna er ánægjulegt að þetta skuli koma fram með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess að af hálfu beggja samstarfsflokka hæstv. utanrrh. hafa komið gálausar eða ábyrgðarlausar yfirlýsingar um þessi efni, bæði að því er varðar afstöðu Alþb. og sumar yfirlýsingar hæstv. forsrh. Þess vegna þykir mér ástæða til þess að árétta stuðning við þessa stefnumörkun hæstv. ráðherra.
    Um önnur atriði í þessum kafla ætla ég ekki að fjölyrða. Það hefði verið ástæða til þess ef til vill ef

hæstv. menntmrh. hefði verið viðstaddur að fjalla nokkuð um Níkaragúa en þar vörpuðu menn af sér fyrir skömmu í frjálsum kosningum oki einræðisstjórnar og sósíalisma. Fyrir réttu ári síðan lýsti hæstv. menntmrh. því yfir að hann mundi nota fyrsta tækifærið sem gæfist til þess að fara þangað til þess að berjast með félögunum þar og ef til vill væri ástæða til þess að spyrja hæstv. ríkisstjórn hvort hún ætlaði ekki að gefa hæstv. ráðherra tækifæri til þess að fara þangað hið fyrsta. Ég hygg að það mundi lítinn skaða gera þar niður frá en kannski bæta svolítið stjórnmálaástandið, svo að ég tali ekki um ástandið í menntmrn., hér heima.
    Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að Norðurlandasamvinnu sem er fjallað um í skýrslunni og hæstv. ráðherra fjallaði um. Ég hygg að samvinna Norðurlandaþjóðanna standi um margt á krossgötum um þessar mundir, þarfnist verulegrar endurskipulagningar og endurskoðunar. Að skrifræði þessarar samvinnu sé orðið umfangsmeira en unnt er að réttlæta með þeim markmiðum sem menn hafa sett sér og þeim árangri sem af pólitíska starfinu hlýst. Í því sambandi vil ég minna á að þetta samstarf er orðið að grasrótarsamstarfi. Samstarf þjóðanna er orðið svo þétt riðið á öllum sviðum þjóðfélagsins, bæði á vegum félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana að pólitísk umsjónarstarfsemi er ekki að sama skapi jafnnauðsynleg og áður var þegar samvinnan hófst á þessum vettvangi í öndverðu. Jafnframt er þess að geta að samstarf Norðurlandaþjóðanna á efnahagssviðinu í víðara samhengi innan EFTA og væntanlega í samvinnu við Evrópubandalagið á næstu árum gerbreyta forsendum Norðurlandasamstarfsins á sviði efnahagsmála og þegar af þeirri ástæðu er alger nauðsyn að endurmeta með hvaða hætti það á að fara fram.
    Sérstaklega er fjallað hér um kjarnorkuvopnalaus svæði og þá embættismannanefnd sem unnið hefur að því máli. Í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, sem gerir virka þátttöku í viðræðum um kjarnorkuvopnalaus svæði að meginatriði stefnunnar í utanríkis- og varnarmálum, er ástæða til þess að vekja athygli á því og fagna því að í framkvæmd hefur svo ekki orðið.
    Í skýrslu hæstv. ráðherra segir að í fyrsta lagi sé atburðarásin í alþjóðamálum nú með þeim hætti að erfitt sé að einangra einstök viðfangsefni í öryggismálum og leiða þau til lykta án tillits til pólitískra aðstæðna í
víðara samhengi. Og enn fremur segir þar: ,,Með því að samskipti austurs og vesturs hafa afgerandi áhrif á forsendur kjarnorkuvopnalauss svæðis er augljóslega varhugavert að reyna að draga saman niðurstöður af starfi hópsins fyrr en séð er fyrir endann á þeim miklu breytingum sem nú eru í gerjun.`` Með öðrum orðum, það er stefna ríkisstjórnarinnar að umfjöllun um málið í víðara samhengi með gagnkvæmum samningum sé lykilatriðið, sé sá farvegur sem geti leitt okkur til lausnar á þessu viðfangsefni.
    Í öðru lagi segir hér að skylt sé að taka tillit til

þess að í erindisbréfi hópsins sé kveðið á um að hann skuli í störfum sínum taka mið af skuldbindingum Norðurlandaþjóðanna þriggja í Atlantshafsbandalaginu. Með öðrum orðum, að þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem kynni að miða í aðra átt er hér með ótvíræðum hætti tekið af skarið um að í framkvæmd hefur utanríkisstefnan að þessu leyti byggst á skuldbindingum okkar við Atlantshafsbandalagið. Ég vil sérstaklega fagna því að svo er og kemur fram með svo skýrum og afdráttarlausum hætti þó að enn megi vera ljóst að framkvæmd stefnunnar byggir ekki á meirihlutastuðningi innan hæstv. ríkisstjórnar. Það sýnir enn einu sinni hversu veikburða hún er og hversu varhugavert það er fyrir Íslendinga að sitja uppi með ríkisstjórn af þessu tagi sem hefur ekki traustari stoðir til þess að standa á í þessum mikilvægu málum.
    Þá fjallar hæstv. ráðherra ítarlega um samvinnuna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Það er augljóst að Atlantshafsbandalagið hefur átt mjög veigamikinn þátt í og reyndar mestan þátt í þeim umbreytingum sem orðið hafa og þessi afstaða er með skýrum hætti orðuð í skýrslunni á bls. 45. Jafnframt er hér vakin athygli á yfirlýsingu leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins frá því í maí í fyrra og ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að þar sé um að ræða eitt merkasta skjal sem bandalagið hefur sett fram um langan tíma og þar af leiðandi ein markverðasta stefnumörkun í varnar- og öryggismálum og um þróun Evrópumála nú um stundir og á næstu árum, þar sem lýst er staðfestum vilja bandalagsins til að greiða fyrir og aðlaga sig þeim breytingum sem nú eiga sér stað í austurhluta Evrópu og binda þar með enda á hina óeðlilegu skiptingu álfunnar sem varað hefur frá lokum síðari heimsstyrjaldar eins og þar segir.
    Það er líka ástæða til þess að hnykkja á því sem segir á bls. 50:
    ,,Hnattstaða Íslands gerir það að verkum, að við niðurskurð og samdrátt í herafla Atlantshafsbandalagsins á meginlandi Evrópu kann mikilvægi liðsaukaflutninga frá Bandaríkjunum og Kanada á hættu- og ófriðartímum að aukast vegna hins landfræðilega mismunar á bandalögunum tveimur. Frá landamærum Sovétríkjanna eru nokkur hundruð kílómetrar til Vestur-Evrópu. Frá austurströnd Bandaríkjanna til Evrópu skipta þeir nokkrum þúsundum.`` Og enn fremur segir þar: ,,Af ofangreindu má ráða að þær breytingar, sem orðið hafa og eru um það bil að eiga sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu, gefi Íslendingum ekki tilefni til hrófla við því fyrirkomulagi sem þeir hafa stuðst við í öryggis- og varnarmálum undanfarna áratugi.``
    Þó að ljóst sé að við, eins og aðrar bandalagsþjóðir, þurfum að horfast í augu við breytta tíma og breyttar aðstæður og fögnum þeim breyttu aðstæðum sem eru afleiðing þeirrar stefnu sem við og bandalagsþjóðirnar hafa fylgt og við viljum aðlaga okkur þeim nýju aðstæðum, er ekkert tilefni til þess enn að hvika frá grundvallarþáttum öryggisstefnunnar

með varnarsamstarfinu við Bandaríkin og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Og það er enn ástæða til þess að fagna því að um þessi efni hefur hæstv. utanrrh. tekið alveg skýrt af skarið um stefnuna af sinni hálfu.
    En því miður er það svo að forustumenn annarra stjórnarflokka hafa ekki að undanförnu talað með jafnskýrum og ábyrgum hætti. Auðvitað kemur ekki á óvart að talsmenn Alþb. skuli hafna aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Og þó að menn hefðu kannski vænst þess að þeir horfðust í augu við raunveruleikann eftir umskiptin í Evrópu og viðurkenndu nú grundvallaratriði þessarar stefnu og mikilvægi hennar og árangur hefur annað komið á daginn og þeir hafa kosið að daga uppi í fortíðarhyggju sinni. Jafnvel hæstv. fjmrh., formaður flokksins, sem stundum lætur að því liggja að hann sé frjálslyndari og opnari en aðrir forustumenn þess flokks, jafnvel hann sem stundum státar sig af þessu gefur til kynna í yfirlýsingum sínum að hann sé jafnforstokkaður og hinir sem dýpri rætur eiga í þeim flokki. En þetta kemur ekki á óvart og veldur ef til vill ekki verulegum áhyggjum.
    Hitt hefur valdið mér meiri vonbrigðum að hæstv. forsrh. hefur talað um þessi efni af talsverðu gáleysi. Í viðtali við Þjóðviljann 20. febr. leggur hann enn að jöfnu varnarbandalag okkar, Atlantsbandalagið, og Varsjárbandalagið, leggur hann enn að jöfnu þær blokkir sem áður voru í Evrópu austan megin og vestan við járntjaldið. Hann fjallar þar um þá skoðun sína að með því að tvískipting Evrópu sé úrelt séu þar af leiðandi hernaðarbandalögin, eins og hann orðar það, NATO og Varsjárbandalagið orðin úrelt og koma þurfi upp nýju öryggiskerfi í Evrópu. Hér er talað af talsverðu gáleysi. Hér er
talað í allt öðrum tón og með allt öðrum hætti en hæstv. utanrrh. gerir. Og ég hygg að einmitt þessi þáttur veki kannski mestan ugg um raunverulega stöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum.
    Ég veit að meiri hluti Framsfl. stendur heill og óskiptur að baki utanríkisstefnunni og stefnunni í varnar- og öryggismálum. En við þekkjum það af langri sögu að þar innan dyra hafa jafnan verið hópar eða armar sem hafa hneigst til þess að daðra við Alþb. Það vekur áhyggjur og er ástæða til að hafa af því áhyggjur þegar hæstv. forsrh. á þessum tímum virðist halla sér að þeim armi innan Framsfl. Þess vegna vildi ég gjarnan að hæstv. forsrh. gerði grein fyrir afstöðu sinni og skoðunum sínum á skýrslu hæstv. utanrrh. og þeim skýru og ákveðnu niðurstöðum sem hann hefur þar komist að og ég efa ekki að mikill meiri hluti er fyrir á Alþingi og meðal þjóðarinnar. Í ljósi þessara, að mínu mati, ábyrgðarlausu yfirlýsinga óska ég eftir því að hæstv. forsrh. geri hér í umræðunni grein fyrir afstöðu sinni til yfirlýsinga hæstv. utanrrh. Er hann sammála þeirri meginniðurstöðu sem fram kemur í kaflanum um samvinnu á vettvangi Atlantshafsbandalagsins á bls. 50? Það er grundvallaratriði og hefur úrslitaþýðingu

um mat og stöðu þessarar ríkisstjórnar, ekki bara hér heima heldur líka álit hennar á erlendum vettvangi, hvort hæstv. forsrh. getur tekið af skarið í þessu efni, eytt óvissu og lýst yfir fullum stuðningi við lokayfirlýsingu hæstv. utanrrh. á bls. 50. Það væri sannarlega fagnaðarefni ef sú yfirlýsing kæmi fram.
    Frú forseti. Ég vildi þá með örfáum orðum víkja að tveimur atriðum sem beint snerta varnarliðið. Í fyrsta lagi þeim áformum sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt varðandi breytingar á verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Þar höfðum við frá öndverðu búið við einokunarstarfsemi sem var fullkomlega eðlileg á sínum tíma þegar við bjuggum við veikburða verktakastarfsemi hér í landinu og gátum ekki sinnt þessum verkum með öðrum hætti. Nú eigum við fjölmörg öflug og traust verktakafyrirtæki og eðlilegt væri að losa um hömlur á þessu sviði þó að einn aðili mundi með einum eða öðrum hætti annast samninga um þessi efni við bandarísk yfirvöld. Þá hygg ég að það sjónarmið sé almennt ríkjandi í þjóðfélaginu að eðlilegt væri að auka frelsi og samkeppni á þessum vinnumarkaði eins og annars staðar. En hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að fara þveröfuga leið. Nú á að breyta þeirri einokun sem verið hefur, að vísu með þátttöku ríkisins, í algera ríkiseinokun. Ég tel þetta vera spor aftur á bak, í algerri andstöðu við alla þá þróun sem á sér stað, svo að ég tali nú ekki um í fullkominni andstöðu við þá stefnu sem Alþfl. á stundum hefur í frammi og ber sér á brjóst að hann berjist fyrir. Og það vekur auðvitað upp þær spurningar hvort það markmið sé tekið fram yfir önnur að koma þarna á einhverju pólitísku spillingarkerfi. Annað verður í raun og veru ekki séð en að þarna eigi að koma á ríkisframkvæmdum þannig að hæstv. ráðherra geti gaukað verkefnum og atvinnu að vinum og vandamönnum og það eigi að gera menn háða pólitísku valdi í þessu efni. Stefna af þessu tagi er löngu liðin undir lok. Vinnubrögð af þessu tagi heyra fortíðinni til. Þess vegna teldi ég miklu skynsamlegra að Alþfl., í samræmi við þá stefnu sem hann boðar almennt, tæki af skarið í þessu efni og lýsti því yfir að í stað þess að koma hér á ríkiseinokun mundi hann beita sér fyrir því að hér yrði komið á auknu frjálsræði í verktakastarfsemi og nýju skipulagi á grundvelli nýrra hugmynda.
    Ég vil svo í örfáum orðum víkja að varaflugvallarmálinu. Hæstv. utanrrh. hefur lengi lagt á það áherslu að það sé mikilvægt mál og brýnt og um það
þurfi og eigi að taka ákvörðun. Á sl. vori var því hins vegar lýst yfir í Þjóðviljanum að hæstv. utanrrh. hefði verið beygður á bak aftur í þessu efni og ekkert yrði af áformum hans. Í framkvæmd verður ekki annað séð en að Þjóðviljinn hafi haft rétt fyrir sér í þessu efni. Þó liggur fyrir að hér er ekki um ríkisstjórnarmál að ræða þó að Alþb. hafi hótað stjórnarslitum af þessu efni. Hæstv. forsrh. hefur margsinnis lýst því yfir að þetta mál sé einhliða ákvörðunarmál utanrrh. og hann geti einn tekið ákvörðun um þá forkönnun sem hér er verið að fjalla um. Þrátt fyrir að hæstv. forsrh. hafi

með þessum ótvíræða hætti lýst því yfir að valdið sé óskorað hjá hæstv. utanrrh. og það sé ekki ríkisstjórnarmál hefur hæstv. utanrrh. bognað fyrir hótunum Alþb., tekið þá hagsmuni að Alþb. fái að sitja áfram í ríkisstjórn fram yfir þá mikilvægari hagsmuni sem hann hefur lýst yfir að væru fyrir hendi í þessu efni. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og sýnir eitt með öðru hversu alvarlegt það er að hafa ríkisstjórn sem byggð er á svona veikum forsendum í utanríkis- og varnarmálum. Þó að það hafi ekki komið að sök í þeim atriðum þar sem um er að ræða grundvallaratriði er augljóst að í þáttum eins og þessum hefur Alþb. náð þeim árangri að beygja hæstv. utanrrh. og auðvitað vita menn aldrei þegar á svona veikum stoðum er byggt hvenær þeir hugsanlega ná þar fastari tökum. Það er athygli vert að þrátt fyrir vandræðaganginn í Alþb., þrátt fyrir upplausnina sem þar á sér stað geta þeir beitt kúgun af þessu tagi.
    Áður en ég hverf frá varnarmálunum vil ég aðeins minnast á þær umræður sem átt hafa sér stað um afvopnun á höfunum og traustvekjandi aðgerðir. Ég hygg að Geir Hallgrímsson, þáv. utanrrh., hafi fyrstur á alþjóðavettvangi minnt á
hagsmuni Íslendinga í þessu efni á Stokkhólmsráðstefnunni á sínum tíma og æ síðan hefur hin sérstaka staða Íslands verið áréttuð af okkar hálfu, bæði innan Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Þegar hæstv. núv. utanrrh. fór að tala um þessi efni í byrjun var augljóst að hann fór þar fram af nokkrum glannaskap og augljóslega í þeim tilgangi að reyna að þóknast með einhverjum hætti viðhorfum Alþb. Þá virtist svo sem hugmyndin væri sú að setja fram tillögur sem rifu þróun afvopnunarviðræðna úr þeirri forgangsröð og því samhengi sem þær eru í dag og ekki yrði tekið tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem auðvitað eru að því er varðar varnarviðbúnað á höfunum. Hæstv. ráðherra sætti eðlilega harðri gagnrýni af þessum sökum. En því ber að fagna að hann hefur tekið tillit til þessarar gagnrýni. Bæði í þessari skýrslu og í ræðu hæstv. ráðherra kemur fram að þær hugmyndir sem nú hafa verið að mótast af hans hálfu byggja í einu og öllu á því að raska í engu því samningaferli um samdrátt í hefðbundnum herafla sem nú á sér stað og að taka fullt tillit til þeirrar sérstöðu Atlantshafsbandalagsins að það byggir í ríkari mæli á varnarviðbúnaði á höfunum en Sovétríkin og enn fremur af tæknilegum ástæðum er varnarviðbúnaður þar með öðrum hætti en á landi og í þriðja lagi meginreglurnar um frjálsar siglingar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur tekið tillit til þessarar gagnrýni og til þessara sjónarmiða og fellt hugmyndir sínar að þeim. Í meginatriðum er ég sammála því sem fram kemur í skýrslunni um þetta efni.
    Þá ætla ég, frú forseti, að víkja nokkrum orðum að viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins. Eðlilega er þar um að ræða eitt viðamesta samningamál okkar á sviði utanríkismála nú um stundir og á næstu árum. Ég sakna þess þó að enn skortir skýra stefnumörkun

af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og að í þessari skýrslu er ekki eytt þeirri óvissu sem verið hefur um stefnu hæstv. ríkisstjórnar, markmið hennar og vilja með þessum samningaviðræðum. Ég vil enn á ný leggja á það áherslu, eins og við sjálfstæðismenn höfum gert, hversu brýnt það er að við gætum að útflutningshagsmunum okkar með sjávarafurðir. Ég hlýt að vekja enn einu sinni athygli á því að þrátt fyrir samkomulagið innan EFTA á Oslóarfundinum í fyrra, um fríverslun með fisk, eru Norðmenn að auka styrki sína á aðlögunartímanum og engar líkur eru taldar á því að Evrópubandalagið falli frá styrkjastefnu sinni. Þess vegna er ekki líklegt að árangur náist í okkar málum á þessum grundvelli. Við verðum eigi að síður að leggja megináherslu á að ná samningum um hindrunarlaus viðskipti. Ég hef margsinnis lýst því yfir að þær tvíhliða könnunarviðræður sem átt hafa sér stað eru mikilvægar og gagnlegar en þeim þarf að fylgja eftir með formlegum viðræðum til þess að tryggja okkar hagsmuni. Ég óttast að ef þeir samningar eru látnir bíða þar til almennu EFTA--EB samningunum er lokið, þá sé óvíst að við höfum sömu stöðu til þess að knýja á um okkar mál. Þetta vildi ég árétta hér eins og jafnan áður.
    Það er ekki nýtt af nálinni að Alþb. hefur haft almenna fyrirvara og sérstakan fyrirvara að því er varðar alla samninga um frjáls gjaldeyrisviðskipti og frjálst flæði fjármagns og fjárfestingu erlendra aðila. Ef taka á slíka fyrirvara alvarlega er ljóst að Alþb. tekur ekki þátt í þeim viðræðum sem fram fara. Hæstv. utanrrh. hefur lýst fyrirvörum sem hann hefur gert fyrir Íslands hönd og eru eðlilegir og sjálfsagðir og lúta að fjárfestingu erlendra aðila í útgerð og fallvötnum og orkulindum landsins. Fyrirvarar Alþb. eru greinilega miklu víðtækari. Fyrir skömmu birti dagblaðið Tíminn, málgagn Framsfl., ítarlega úttekt á þessum málum og skrifaði um þau forustugrein þar sem segir m.a.:
    ,,Í Tímabréfi í dag er fjallað um það sérkenni umræðunnar um Evrópumálefni í íslenskum fjölmiðlum og hagsmunasamtökum að líta á þau sem efnahagsmál og ræða þau þess vegna út frá efnahagslegum rökum og sjónarmiðum nær eingöngu.
    Það er þeim mun undarlegra, að meginumræðan um Evrópumál skuli falla í þennan jarðveg, að hin opinbera stefna í þessu tilfelli er mótuð af pólitískri varfærnisstefnu, þjóðlegu íhaldi í sjálfstæðis- og fullveldismálum, og aðeins við það miðað að ná við hvers konar ,,Evrópubandalög`` skynsamlegum fríverslunarsamningum án þess að skuldbinda þjóðina á neinn hátt pólitískt og reyndar alls ekki fram yfir það sem slíkir samningar fela í sér, sem er ekki annað en að frjáls viðskipti eigi sér stað með útflutningsvörur beggja samningsaðila á gagnkvæmnisgrundvelli.``
    Hér er málgagn Framsfl. að lýsa því yfir að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að fara eingöngu í viðræður við Evrópubandalagið um fríverslun með vörur. Eins og kunnugt er höfum við þegar fríverslunarsamning við Evrópubandalagið, sem að vísu er um margt áfátt

og þarf að bæta, en hinar almennu EFTA--EB viðræður eru miklum mun víðtækari og almennu vöruviðskiptin eða fríverslun með vöruviðskipti eru aðeins einn hluti þeirra. En hér hefur málgagn Framsfl. lýst því yfir að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að fara í þessar viðræður einvörðungu til þess að semja um fríverslun með vörur og því er lýst yfir að samningum um allt annað hafi verið hafnað og það sé ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar.
    Nú veit ég auðvitað ekkert um það í hvaða umboði ritstjórar Tímans tala eða hvort þeir eru að segja satt og rétt um stefnu Framsfl. og afstöðu hans í hæstv. ríkisstjórn. En ef svo er er hér staðfestur enn einn klofningurinn í þesu máli. Ef svo er er alveg augljóst að hæstv. ríkisstjórn veit ekkert hvað hún vill og getur ekki tekið á þessum málum. Það er þess vegna óhjákvæmilegt í þessari umræðu að hæstv. forsrh. geri ítarlega grein fyrir þessu máli. Er Tíminn að lýsa stefnu Framsfl. og hæstv. ríkisstjórnar eða er hann á einhverjum villigötum í þeim efnum? Þessu verður hæstv. forsrh. að svara í þessari umræðu. Því að það liggur í augum uppi ef hann er á sömu skoðun og Tíminn að hæstv. ríkisstjórn getur ekki tekið á þessum málum, er svo þverklofin að það er útilokað að hún fjalli um þessi viðfangsefni.
    Þess vegna, hæstv. forsrh., vil ég ítreka spurningu mína og hún er þessi: Lýsir þessi tilvitnun í dagblaðið Tímann afstöðu Framsfl. og hæstv. ríkisstjórnar? Er hæstv. forsrh. sammála því sem Tíminn segir eða er hann sammála því sem hæstv. utanrrh. hefur lýst, bæði hér á Alþingi og erlendis, sem stefnu ríkisstjórnarinnar? Hvort fylgir hæstv. forsrh. hæstv. utanrrh. eða þeirri stefnu sem Tíminn hefur lýst að sé stefna Framsfl. og ríkisstjórnarinnar? Um þetta þurfum við að fá skýr svör. Það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu hér á Alþingi í dag án þess að þessari spurningu sé svarað með afdráttarlausum hætti, ekki með því að fara eins og köttur í kringum heitan graut heldur með því að svara skýrt og skorinort. Það á að vera alveg vandalaust. Hvort stendur hæstv. forsrh. með því sem segir í Tímanum um stefnu Framsóknar og hæstv. ríkisstjórnar eða með hæstv. utanrrh.?
    Margt bendir til þess að þær breytingar sem átt hafa sér stað í Evrópu á síðustu mánuðum geti haft áhrif á þessar viðræður og framtíðarsamskipti og framtíðartengsl EFTA-þjóðanna við Evrópubandalagið. Frá mínum bæjardyrum séð hafa viðbrögð hæstv. utanrrh. við greinarskrifum utanríkisráðherra Dana verið allt of ofsafengin. Auðvitað liggur það í augum uppi að við látum hvorki danska utanríkisráðherrann né danskan forsætisráðherra segja okkur fyrir verkum um það hvernig við æskjum að haga samskiptum okkar við Evrópubandalagið eða hvort við sækjum þar um aðild eða ekki. Engum dettur það í hug. En utanríkisráðherrann danski er í sinni grein að vekja athygli á þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. Hann er líka að vekja athygli á þeirri nýju umræðu sem er að hefjast innan EFTA-ríkjanna sem m.a. bendir til þess að mörg þeirra hugsi, þegar til lengri

tíma er litið, til þess að hagsmunir þeirra séu betur tryggir með aðild. Og auðvitað komumst við ekki hjá því að meta þessi breyttu viðhorf sem nú eru augljóslega að ryðja sér til rúms. Það þarf ekki og á auðvitað ekki að breyta ákvörðunum okkar um aðild að sameiginlegu EFTA--EB viðræðunum og engin ástæða til þess. En við verðum að gera okkur grein fyrir að svo kann að fara að niðurstaða þeirra verði ekki hin varanlega skipan á samskiptum EFTA og EB heldur kann svo að vera að þar sé aðeins um að ræða eitt skref í samskiptum þessara aðila og að næsta skref kunni að verða stigið tiltölulega fljótlega eftir að niðurstaða fæst í þessum viðræðum. Og það er fullkomin ástæða fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því að þetta er að gerast og ræða þau viðfangsefni sem af því eðlilega hljótast. Þess vegna er það forpokunarhugsunarháttur sem liggur að baki þeim tilsvörum sem hæstv. utanrrh. hefur gefið í þessu efni. Auðvitað verðum við að ræða nýjustu breytingar, auðvitað verðum við að fjalla um þá umræðu sem er að gerast meðal annarra EFTA-þjóða og þær hugmyndir sem þar eru að vakna og eins innan Evrópubandalagsins. Eftir sem áður höldum við okkar striki, en við verðum að gera okkur grein fyrir breyttum aðstæðum.
    Og hæstv. ríkisstjórn verður auðvitað að fara að gera Alþingi grein fyrir því hvernig hún ætlar að standa að öllum breytingunum sem þessu samstarfi fylgja á hinum fjölmörgu sviðum efnahags- og atvinnumála og allri þeirri löggjöf sem þarf að breyta. Það hefur þegar komið fram að á einu sviði, sviði bankamála, hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún geti ekki tekist á við verkefni af því að stjórnarflokkarnir hafa þar svo ólíkar skoðanir. Þar hefur hæstv. ríkisstjórn lýst því yfir að við verðum að dragast aftur úr og bíða þangað til kjósendur koma hæstv. ríkisstjórn frá í næstu kosningum.
    Auðvitað væri, frú forseti, æskilegt að geta fjallað með miklum mun ítarlegri hætti um þessi stóru viðfangsefni en ég ætla ekki að taka miklu lengri tíma til þess hér og nú en vænti skýrra svara af hálfu hæstv. ráðherra um þau efni sem ég hef spurt um og lýsi enn eftir skýrri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, lýsi enn eftir því að hún komi hér upp með þau viðfangsefni sem Alþingi þarf að takast á við en sópi þeim vandamálum ekki endalaust undir teppið einungis vegna þess að innan hæstv. ríkisstjórnar er sá ágreiningur sem gerir það að verkum að hún getur ekki tekið á málinu. Þjóðin getur ekki beðið eftir því. Alþingi verður þá að taka málið í sínar hendur og það verður að mynda hér á Alþingi meiri hluta um þessi efni. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki útilokað það að Alþingi taki á því verkefni. Reyndar hafa þingmenn Sjálfstfl. flutt hér frumvörp á ýmsum sviðum sem tengjast þessum verkefnum og þá kemur m.a. í ljós vilji þeirra flokka, eins og til að mynda
Alþfl. sem haldið hefur því fram í orði kveðnu að hann vilji standa að skýrri framkvæmd í þessu efni og hvergi hika og hvergi bíða.
    Frú forseti. Að lokum vil ég aðeins árétta það að

í þessari skýrslu er enn einu sinni staðfest að hæstv. ríkisstjórn byggir á veikum grunni, svo að vægt sé til orða tekið, í utanríkis- og öryggismálum. Innan hennar er engin samstaða um þau efni en í meginatriðum hefur hæstv. utanrrh. fylgt ábyrgri stefnu í utanríkis- og varnarmálum.
    Það þarf að eyða óvissu vegna gáleysislegra yfirlýsinga hæstv. forsrh. um afstöðu okkar til Atlantshafsbandalagsins og mikilvægis þess á næstu árum. Það liggur fyrir að við lifum nú mikla breytingatíma, tíma sem kalla á sveigjanleika og ný viðhorf en líka tíma sem krefja menn um árvekni, staðfestu og þrautseigju.