Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að auk hæstv. utanrrh., sem ég sé hér í gættinni, verði hæstv. forsrh. einnig viðstaddur þessa umræðu hér. Ef hæstv. ráðherra er hér í húsi óska ég eindregið eftir því að hann sé hér viðstaddur, a.m.k. við upphaf þessarar ræðu. ( Forseti: Hæstv. forsrh. er ekki lengur í húsinu. Ef hv. 2. þm. Austurl. óskar eftir því mun ég gera ráðstafanir til að hann verði látinn vita af því.) Ég tel, virðulegur forseti, ekki þörf á því að kalla forsrh. á vettvang, sé hann ekki í þinghúsi. En ég mun síðar við umræðuna beina orðum mínum til hans í von um að hann verði þá viðlátinn. Ég teldi þó eðlilegt að hæstv. forsrh. sé viðstaddur umræðu um svo mikilvægt mál sem hér er á ferðinni og hefði ekki á móti því að hann yrði látinn vita af þeirri ósk minni, þó ég geri ekki kröfur til þess að hann sé hér viðlátinn umræðuna.
    Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér í upphafi ræðu minnar eru ummæli hæstv. forsrh. hér við umræðuna að hann kannist ekki við ágreining í ríkisstjórn um efni þessarar skýrslu sem hér er framlögð af hæstv. utanrrh. Það mætti halda að skýrsla hæstv. utanrrh. hafi verið borin undir ríkisstjórnina. Ég hef ekki af því heyrt og ég geri ráð fyrir að hæstv. utanrrh. geti gert grein fyrir því hvernig að því máli hefur verið staðið. Mér var ekki kunnugt um efni þessarar skýrslu áður en hún var framlögð hér á Alþingi og veit raunar ekki til þess að það sé venja í sambandi við undirbúning skýrslu að bera hana í einstökum atriðum undir ríkisstjórnina í heild þó vissulega færi vel á því að náið samráð væri haft um þennan mjög mikilvæga málaflokk innan ríkisstjórnar hverju sinni.
    Ég hlýt að geta þess hér og það mun væntanlega koma fram í mínu máli að ég er ósammála mörgum atriðum sem er að finna í þessari skýrslu. Það á vissulega ekki við um allt efni hennar, en mörg veigamikil atriði. Ég undrast því að
hæstv. forsrh. skuli leitast við að undirstrika það að um þessi efni ríki samstaða í ríkisstjórn Íslands, þ.e. í einu og öllu. Það kæmi mér á óvart ef svo væri.
    Sú skýrsla sem við ræðum hér gefur vissulega, nú sem oft áður, kærkomið tilefni til umræðna um utanríkismálin. Það eru tvö atriði, tvö efni sem hlýtur að bera hæst í þessum umræðum og hafa reyndar verið fyrirferðarmest í máli þeirra hv. ræðumanna sem hér hafa talað. Það eru breytingarnar í Evrópu, í pólitísku, efnahagslegu og á hernaðarlegu sviði síðustu missiri. Og í öðru lagi hljótum við að ræða hér áhrif þessara breytinga á utanríkisstefnu Íslendinga.
    Í skýrslu hæstv. utanrrh. er reynt að fara yfir þessi svið. Varðandi almenna lýsingu á þeim breytingum sem orðið hafa í álfunni er hægt að vera ráðherranum sammála um margt. Greiningin á aðstæðum sem þar kemur fram er hins vegar í mörgum atriðum ófullnægjandi og í sumum atriðum röng að mínu mati. Um ályktanir sem dregnar eru af breytingunum, að því er Ísland varðar, bæði varðandi öryggishagsmuni

og efnahagssamvinnu er ég ráðherranum ósammála um margt. Alþb. hefur í þeim efnum allt aðra afstöðu eins og skýrt hefur komið fram nýlega í ályktunum landsfundar Alþb. frá því í nóvember sl. Alþb. er nú sem fyrr andvígt aðild Íslands að hernaðarbandalagi og telur að Íslendingar eigi að segja sig úr NATO. Alþb. er á móti erlendum herstöðvum í landinu og telur að þróunin á alþjóðavettvangi að undanförnu ætti að hafa fært mörgum, sem áður voru hallir undir herstöðvastefnuna, heim sanninn um það að herstöðvar Bandaríkjanna hér á landi eru mikil tímaskekkja og hafa raunar alltaf verið.
    Í utanrmn. Alþingis hef ég nýlega flutt svohljóðandi tillögu, með leyfi forseta:
    ,,Utanríkismálanefnd samþykkir að beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún beiti ákvæðum 7. gr. svokallaðs varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951, sbr. lög nr. 110/1951, og óski eftir endurskoðun og síðan uppsögn samningsins með það að markmiði að erlent herlið hverfi frá Íslandi sem fyrst.``
    Þessi tillaga, sem ég flutti í utanrmn. 19. mars sl., bíður umræðu á þeim vettvangi. Alþb. telur einnig varðandi efnahagssamvinnu í Evrópu að aðild Íslands að Evrópubandalaginu komi ekki til greina. Í þeim efnum kveður Alþb. fastar að orði en ýmsir stjórnmálaflokkar sem segja að aðild sé ekki á dagskrá og virðast þannig ekki útiloka að svo geti orðið innan tíðar. Það kom raunar fram í skýrslu sem lögð var fram á landsfundi Sjálfstfl. sl. haust, svokallaðri aldamótaskýrslu, sem núverandi varaformaður Sjálfstfl. undirbjó sem formaður viðkomandi nefndar, að vel kæmi til greina að leita eftir beinni aðild að Evrópubandalaginu og láta á slíka umsókn um aðild reyna. Mér fannst líka að formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., talaði ekki mjög skýrt í þessum efnum. Mátti vel skilja það á máli hans að hann væri ekkert fjarri þeim hugmyndum sem varaformaður flokksins hefur viðrað á vettvangi Sjálfstfl. Ýmis ummæli forustumanna Alþfl. gefa einnig vísbendingu í þá átt að þó flokkurinn
telji ekki aðild að Evrópubandalaginu vera á dagskrá þá sé ekki ýkja langt í það, ef breyting verður á afstöðu annarra Norðurlanda, að einnig Alþfl. gæti hugsað sér að láta á það reyna með einhverjum hætti. Nú ætla ég ekki að gera forustumönnum Alþfl. upp skoðanir, þeir tala að sjálfsögðu fyrir sig í þeim efnum, en sú eindregna og fyrirvaralitla afstaða sem birtist í sambandi við samninga við Evrópubandalagið um hið svokallaða evrópska efnahagssvæði vísar auðvitað í þessa átt, mjög ákveðið. Ég ætla að vona að það verði bið á því, og hún helst sem lengst, að forustumenn íslenskra stjórnmálaflokka taki ákvarðanir í þá átt að láta reyna á aðild Íslands að Evrópubandalaginu vegna þess hversu háskalegt það væri að mínu mati fyrir íslenska hagsmuni, að ætla sér þar inn og láta á það reyna.
    Þingflokkur Alþb. hefur, eins og landsfundur flokksins, lýst almennum fyrirvara við þátttöku Íslands í samningaviðræðum með öðrum EFTA-ríkjum við

Evrópubandalagið. Þingflokkurinn ályktaði 29. nóv. sl. að áður en til þátttöku í beinum og formlegum samningaviðræðum komi verði málið tekið til sérstakrar umfjöllunar og afgreiðslu í ríkisstjórn og stjórnarflokkum. Á þessa fyrirvara Alþb. hlýtur að reyna fljótlega þar eð nú er undirbúningsviðræðum EFTA og Evrópubandalagsins lokið og virðist stefnt að formlegum samningaviðræðum þessara aðila innan skamms.
    Sá sem hér talar hefur ítrekað lýst andstöðu sinni við þann grundvöll sem lagður var með Oslóaryfirlýsingu leiðtoga EFTA-ríkjanna. Þróun mála til þessa dags hefur styrkt þá skoðun mína að sá grundvöllur sé óaðgengilegur fyrir Ísland og íslenska hagsmuni. Ég mun víkja nokkuð nánar að því síðar í ræðu minni.
    Breytingarnar í Evrópu undanfarin missiri eru eðlilega eitt meginefni í umræðum um utanríkismál hér á þjóðþinginu sem annars staðar þar sem þau eru rædd. Nú eru liðin um fimm ár frá því skipti urðu á forustu í Sovétríkjunum og frá því að Gorbatsjov kom þar til valda sem æðsti maður. Á þessu tímabili hafa orðið stórfelldar breytingar í Austur-Evrópu sem margir þakka þessum forustumanni öðrum fremur og kannski með meiri áherslu en ég er reiðubúinn að taka undir. Ég leit svo til og lít svo til að þær breytingar sem þar hafa orðið á áður stöðnuðu og úreltu kerfi, harðstjórnarkerfi, sem ég hef oft og iðulega lýst eindreginni andstöðu við hér á vettvangi Alþingis, hafi orðið meiri en ég batt nokkrar vonir við að gæti átt sér stað með friðsamlegum hætti. Í rauninni taldi ég það borna von, og það fyrir löngu síðan, að kerfið í ríkjum Austur-Evrópu næði að rakna upp og breytast, að þar væri hægt að ná fram breytingum án mjög harðskeyttra átaka í formi byltingar í einhverju formi og vissulega þá með átökum sem gætu kostað verulegar blóðsúthellingar og annað sem slíku fylgir. En sem betur fer hefur það gerst á liðnum áratug að þarna hefur losnað um hlutina. Þarna hefur orðið þróun í lýðræðisátt. Þar er komið upp fjölflokka kerfi í mörgum ríkjum og sjálf Sovétríkin eru að feta sig inn á þá braut einnig. Það er auðvitað mjög ánægjuleg þróun sem þarna hefur átt sér stað og hlýtur að vera fagnaðarefni öllum sem fylgst hafa með henni og ég tala nú ekki um fyrir þjóðirnar sem eru að feta sig þar inn á braut lýðræðis.
    Ég vísa með öllu frá þeim staðhæfingum sem heyrast mjög, m.a. hér úr munni hv. 1. þm. Suðurl., að það kerfi sem í Austur-Evrópu hefur verið við lýði til skamms tíma eigi eitthvað skylt við sósíalisma og sósíalískar hugsjónir. Það hefur kosið sjálft að kalla sig það eða kenna sig við það en það hefur verið jafnóralangt frá því að rísa undir slíku merki eins og dagur er ólíkur nóttu. Þetta hef ég rætt hér áður úr þessum stóli og ætla ekki að ítreka það hér. En við hljótum öll að binda vonir við þessar breytingar og vissulega hafa þær orðið til þess að mikil tíðindi hafa gerst á sviði alþjóðamála á þessu tímabili.
    Ég held að líka sé ástæða til þess, um leið og við virðum þessar breytingar fyrir okkur, að binda vonir

við það að þær hafi náð þeirri rótfestu að þær gangi ekki til baka þótt skipti yrðu á forustumönnum og sviptingar sem slíku kunna að tengjast. Ég les það sem mat margra sem fylgjast náið með sovéskum málefnum, sérfræðinga á Vesturlöndum, að þeir telja að hættan á slíku sé sem betur fer sáralítil. Það þurfi ekki að líta svo mjög til forystu Gorbatsjovs eins eða tengja breytingarnar jafnmikið við hans forustu, a.m.k. ekki nú, vegna þeirra breytinga sem eru komnar á skrið og margir hafa tilhneigingu til að gera.
    Ég held líka að menn hljóti að átta sig á því að svo róttækar breytingar, grundvallarbreytingar, á þjóðfélagsskipan sem þarna eru að verða og afstöðu í mikilsverðum málum eru ekki og geta ekki verið eins manns verk.
    Glasnost og perestrojka, sem hafa þegar skilað verulegu og valdið verulegum breytingum, alveg sérstaklega opnun samfélagsins, hafa auðvitað nú þegar valdið þannig straumhvörfum í þessum löndum að það þyrfti meira en litla harðstjórn til og vafalaust átök til þess að færa þróunina til baka.
    Sovétríkin hafa á þessum árum tekið frumkvæði í afvopnunarmálum. Það frumkvæði sýndu þau á fundi leiðtoga risaveldanna hér í Reykjavík haustið 1986 þannig að eftir var tekið og á árunum á eftir átti Atlantshafsbandalagið í vök
að verjast í sambandi við þær tillögur sem því bárust ein af annarri inn á samningaborðið þar sem fjallað var um afvopnunarmál. Það gerðist m.a. að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið fengu eigin tillögur nánast endurprentaðar inn á borðið og voru þá ekki reiðubúin, a.m.k. ekki á þeim tíma, til þess að taka þær upp eða veita þeim jáyrði. Þar á ég m.a. við hinar svokölluðu núlllausnir í sambandi við kjarnorkuvígbúnað sem menn kannast við.
    Það er líka fróðlegt hér og nú að minnast þess hver staðan var fyrir einu ári síðan á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Það er rétt um það bil ár liðið frá því að Atlantshafsbandalagið hélt upp á 40 ára afmælið og það er að finna sem fskj. í skýrslu utanrrh. yfirlýsingu frá þeim fundi. Eins og menn muna voru harðvítugar deilur í aðdraganda þess fundar milli bandalagsríkjanna um uppsetningu skammdrægra kjarnaflauga í Evrópu, svokallaðra Lance-flauga. Það tókst málamiðlun eftir mikil átök á þessum afmælisfundi í maíbyrjun sl. og þá málamiðlun er að finna í yfirlýsingu fundarins. Við minnumst þess að hæstv. utanrrh. hallaði sér þar að viðhorfum Bandaríkjastjórnar og Margrétar Thatcher í því efni eins og lesa má um í skýrslu hans til Alþingis fyrir ári um utanríkismál. Nú er hins vegar svo komið aðeins tæpu ári seinna að leiðtogar Atlantshafsbandalagsins telja vænlegast að gleyma þessum yfirlýsingum, þeirri málamiðlun sem þarna var gerð og þeim áformum sem því fylgdi að endurskoða ekki síðar en 1992 spurninguna um uppsetningu Lance-eldflauganna í Mið-Evrópu. Enda hefur breytingin orðið slík á þeim tíma sem síðan er liðinn að það er hreinasta fjarstæða, það er algerlega hjákátlegt að hugsa sér það að menn færu að setja

upp slíkar flaugar sem fyrst og fremst átti að beina á og vera svör við skotmörkum í Austur-Þýskalandi. Þetta með öðru sýnir okkur þær breytingar sem orðið hafa á skemmri tíma en einu ári.
    Vegna þess að ég er að nefna stöðu og samþykktir Atlantshafsbandalagsins þá hvet ég menn til þess að fara yfir yfirlýsingarnar frá afmælisfundinum, m.a. bls. 103 og 104, þar sem er að finna hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins, fælingarstefnuna sem felur í sér m.a. réttinn sem þau ætla sér til þess að beita kjarnavopnum að fyrra bragði. Það er eitt grundvallaratriði í þessari fælingu, atriði sem Ísland sem aðili að þessu hernaðarbandalagi hefur skrifað upp á, réttinn til þess að beita kjarnavopnum að fyrra bragði. Þessi samþykkt stendur því miður enn óhögguð af hálfu Atlantshafsbandalagsins, hefur ekki verið endurskoðuð svo mér sé kunnugt og ég held að það sé ástæða fyrir okkur Íslendinga þegar við virðum fyrir okkur þetta hernaðarbandalag að hafa það í huga á hvaða grunni það er reist og að það hefur ekki séð ástæðu til þess að breyta þessum yfirlýsingum varðandi fælingu og beitingu kjarnavopna.
    Það er mikið fagnaðarefni, virðulegur forseti, að stórfelldur árangur hefur náðst á sviði afvopnunarmála eða er í sjónmáli í framhaldi af samningnum um eyðingu meðaldrægra kjarnaeldflauga sem tókst í desember 1988. Hæstv. utanrrh. nefndi það svo að það mætti kenna það skeið sem nú er runnið upp við afvopnunarkapphlaup og við skulum sannarlega vona að það skorti ekki á þátttöku á vegum Atlantshafsbandalagsins að því kapphlaupi, enda ætti það að vera tiltölulega sjálfsagt mál að einnig Atlantshafsbandalagið væri þar þátttakandi eftir að það er yfirlýst, meira að segja af leyniþjónustu Bandaríkjanna, að óvinurinn sé týndur, óvinurinn sé horfinn. Fækkun langdrægra eldflauga er í sjónmáli, samningur þar að lútandi innan svonefndra START-viðræðna, samkomulag er í mótun um efnavopn, víðtækt samkomulag, og á sviði hefðbundins vopnabúnaðar er unnið að samningsgerð og vonir standa til þess að menn nái þar landi innan þessa árs um mjög mikla fækkun í hefðbundnum herafla á meginlandi álfunnar.
    Sovétríkin stigu það skref sem gerðist með yfirlýsingu Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna, á þingi Sameinuðu þjóðanna að fækka einhliða í herafla sínum, gefa út yfirlýsingu um einhliða fækkun í herafla sínum um ekki minna en 500 þúsund manns. Það munar um minna. Þar er um að ræða herafla sem svarar að mannafla til alls hers Vestur-Þýskalands um það bil og er það þó öflugasti heraflinn á meginlandinu vestan megin sem kunnugt er. Jafnframt fylgdi yfirlýsing af hálfu Sovétríkjanna um fækkun skriðdreka um 10 þúsund. Samkomulag hefur orðið milli risaveldanna um það að fækka verulega í sínum hefðbundna herafla, niður í 195 þúsund manns hjá hvorum og það verði um garð gengið ekki síðar en á árinu 1993 og fram undan er samningur kenndur við Vínarviðræðurnar um stórfelldan niðurskurð í vopnabúnaði. Hæstv. utanrrh. vék einnig að

samningnum um traustvekjandi aðgerðir í Evrópu í 35 ríkja viðræðunum en þar er fundur fram undan síðar á þessu ári sem verulegar vonir eru bundnar við.
    Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. á bls. 24 að það gæti verulegrar tregðu í samningaviðræðunum hjá þeim sem eru að fjalla þar um hinar tæknilegu lausnir og skilgreiningar á einstökum þáttum vopnabúnaðar. Og staðreyndin virðist vera sú að samningamennirnir sem þar eru að verki og tæknimennirnir sem eru að skilgreina hvað er skriðdreki, hvað er orustuþota, þeir eru langt á eftir hinum pólitíska veruleika, langt á eftir hinum pólitíska vilja til þess að stíga ákvarðandi skref til afvopnunar. Þessu ber vissulega að fagna og
vænta þess að stjórnmálamennirnir sjái til þess að þó deilt sé um einstakar tæknilegar útfærslur verði það ekki til þess að tefja samninga. Er ég þó þar með engan veginn að gera lítið úr þýðingu þess að vandlega sé frá gengið í einstökum atriðum, jafnt um einstök samningsákvæði og ekki síður um eftirlit. En það sem munar kannski hvað mestu eða ætti að gera það, litið vestan frá til austurs, er sú staðreynd að Varsjárbandalagið er í reynd úr sögunni. Það er a.m.k. í upplausn og lamað og hefur sjálft staðið að því með eigin ákvörðunum að losa þannig um tengslin einnig á hernaðarsviðinu að Varsjárbandalagið er ekki nema svipur hjá sjón sem hernaðarbandalag frá því sem var fyrir svo sem einu ári síðan. Á þessa staðreynd minnti utanríkisráðherraVestur-Þýskalands, Genscher, nýlega og að þetta hefði gerst án þess að samið hefði verið um að leggja svo mikið sem eina byssu til hliðar. Það munar um minna í sambandi við afvopnunarmálin en þessa staðreynd sem snýr að Varsjárbandalaginu. Á sama tíma hefur það gerst að NATO hefur týnt sínum óvini. Hann er eftirlýstur, hann finnst ekki, meira að segja CIA, bandaríska leyniþjónustan, tilkynnti forseta Bandaríkjanna nýlega eða Bandaríkjastjórn það mat sitt að árásarhættan væri að þeirra mati úr sögunni.
    En hv. 1. þm. Suðurl. finnst ekki nóg að gert. Það mátti nefnilega nema úr máli hv. þm. verulegar áhyggjur af stöðu Atlantshafsbandalagsins. Eins og menn hafa heyrt hér í sölum Alþingis vantar ekki að menn hlaupi hér upp í ræðustól við hin ýmsu tilefni til þess að votta Atlantshafsbandalaginu sérstaka hollustu. Og hv. þm. Þorsteinn Pálsson fann það m.a. að varðandi skýrslu utanrrh. að þar væri ekki kveðið á um afstöðu Íslands til þess, hvort sameinað Þýskaland ætti að vera í Atlantshafsbandalaginu eða ekki, hann lýsti sérstaklega eftir því. Þetta með öðru sýnir þær áhyggjur sem formaður Sjálfstfl. hefur af framtíð Atlantshafsbandalagsins. Ég skil það út af fyrir sig vel eftir að óvinurinn er týndur og fáránleiki þessarar hernaðarmaskínu blasir við hverjum manni.
    Meginatriðin í bakgrunni þessarar þróunar sem ég hef verið að fara hér yfir er fall Brezhnevs-kenningarinnar í austri. Megindrifkrafturinn á bak við þessa öru þróun í Austur-Evrópu, einnig á hernaðarsviðinu, er fall Brezhnev-kenningarinnar og sú yfirlýsing af hálfu forustu Sovétríkjanna að láta hvert land sem áður var austan tjaldsins um sín málefni.

Þetta hefur staðist í reynd varðandi ríki utan Sovétríkjanna sjálfra. Það var þess vegna að þeir atburðir gerðust, sem enginn taldi sig hafa séð fyrir, þ.e. fall múrsins í Berlín sl. haust.
    Þetta er vissulega mikið fagnaðarefni, virðulegur forseti, en við skulum ekki gleyma því að ekki aðeins þessi afstaða Sovétríkjanna breytti hlutunum heldur almenningur í löndunum sem þyrptist út á götur borganna og rak valdhafa út úr musterum þeirra með eigin friðsamlegu afli, lýðræðishreyfing sem ekki hefur sést í Evrópu af viðlíka krafti og í slíkum mæli um langt skeið og minnir kannski helst á friðarhreyfingarnar í Vestur-Þýskalandi sem létu verulega að sér kveða fyrir nokkrum árum þegar almenningur þar sýndi mjög verulega andstöðu við uppsetningu kjarnavopna þar í landi. Ég er ekki að jafna því saman. Það voru aðrar kringumstæður, en þarna var þó um mjög öfluga, friðsama byltingu fólksins sjálfs að ræða.
    Endursameining Þýskalands breytir vissulega mjög stöðunni í Mið-Evrópu, gerir það í grundvallaratriðum, og það er ekkert óeðlilegt að spurt sé: Hvernig skipast mál sameinaðs Þýskalands? Hver verður afstaða þess ríkis? Hvernig verður frá þeim málum gengið með samkomulagi við fjórveldin sem bera nokkra ábyrgð á málefnum Þýskalands? Þessi sameining er í sjónmáli og herirnir sem áður stóðu gráir hvor frammi fyrir öðrum sitt hvoru megin járntjalds, standa þar nú nánast eins og nátttröll. Óvinurinn er horfinn af sviðinu. Það er erfitt að halda uppi aga í slíkum her, enda lesum við um það í tímaritum og frásögnum hvernig gengur beggja vegna að fá menn til þess að lúta heraga. Hvert eigum við að beina spjótum okkar, spyrja menn beggja vegna í hinum þýsku ríkjum. Fyrir aðeins einu ári síðan gerðist það að yfirherstjórn Atlantshafsbandalagsins sviðsetti stjórnkerfisæfingu sem kennd var við Wintex Cimex og endaði með því að vestur-þýsk stjórnvöld lýstu sig algerlega frá því sem þar var á ferðinni, en það fólst m.a. í því ítrekað að beita kjarnavopnum að fyrra bragði. Í ljósi þessara grundvallarbreytinga í málefnum Evrópu einnig á hernaðarsviðinu eru niðurstöður hæstv. utanrrh. að því er Ísland varðar, varðandi hlutverk landsins og áframhaldandi aðild að NATO og herstöðvarnar hér á landi ótrúlega forneskjulegar. Við getum gripið niður í skýrslu hæstv. utanrrh., t.d. á bls. 10, þar sem fjallað er um öryggis- og varnarmál. Þar segir m.a.: ,,Hnattstaða Íslands gerir það að verkum að við niðurskurð og samdrátt í herafla Atlantshafsbandalagsins á meginlandi Evrópu kann mikilvægi liðsaukaflutninga frá Bandaríkjunum og Kanada á hættu- og ófriðartímum að aukast vegna landfræðilegs mismunar á bandalögunum tveimur. Staða Íslands og hernaðarlegt mikilvægi ræðst að miklu leyti af mikilvægi flutningaleiðanna.`` Svipað má lesa víðar í skýrslu utanrrh., t.d. á bls. 47, þar sem segir m.a:
    ,,Atlantshafsbandalagsríkin eru mun háðari höfunum en Sovétríkin sem eru fyrst og fremst landveldi. Norður-Atlantshafið tengir Bandaríkin og Kanada við

ríki Vestur-Evrópu. Flutningaleiðir yfir hafið þjóna því svipuðum tilgangi fyrir Atlantshafsbandalagið og vega- og járnbrautakerfi fyrir Sovétríkin. Afleiðing þessara landfræðilegu staðreynda er sú, að Atlantshafsbandalaginu er nauðsyn að halda uppi herstyrk sem tryggt getur flutningaleiðirnar milli Norður-Ameríku og Evrópu. Þá ber jafnframt að gæta þess að höfin eru alþjóðlegt hafsvæði og þar ráða ekki landamæri til um pólitísk áhrif heldur getur herstyrkur skipt miklu þar um.``
    Og áfram er fjallað í svipuðum dúr um þessi efni á bls. 48 og 49 í skýrslu hæstv. ráherra. Þar segir t.d.:
    ,,Höfuðástæða þess að Íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið og gerðu varnarsamninginn við bandalagið var sú, að þeir gerðu sér grein fyrir að landið hafði öðlast hernaðarlegt mikilvægi sem ekki var hægt að sniðganga. Einhver veigamesti þáttur þessa mikilvægis var staða landsins gagnvart flutningaleiðunum yfir Atlantshafið. Aðstaða hér á landi er áhrifamikil, hvort sem er til varnar flutningaleiðunum eða sóknar gegn þeim. Á þessu hefur engin breyting orðið.``
    Einna fróðlegast er að sjá skilgreiningarnar á bls. 50. Var það ekki bls. 50 sem hv. 1. þm. Suðurl. nefndi sérstaklega og beindi til forsrh. hvort hann væri sammála því mati sem þar kæmi fram. Þar segir m.a. í beinu framhaldi af því sem ég las áðan:
    ,,Staða Íslands og hernaðarlegt mikilvægi ræðst því að miklu leyti af mikilvægi flutningaleiðanna. Vegna mikilvægis liðs- og birgðaflutninga frá Norður-Ameríku til Evrópu á hættu- eða ófriðartímum eru flutningaleiðirnar lífæð Atlantshafsbandalagsins.`` Og áfram kemur þessi stjörnuspeki:
    ,,Hnattstaða Íslands gerir það að verkum, að við niðurskurð og samdrátt í herafla Atlantshafsbandalagsins á meginlandi Evrópu kann mikilvægui liðsaukaflutninga frá Bandaríkjunum og Kanada á hættu- og ófriðartímum að aukast vegna hins landfræðilega mismunar á bandalögunum tveimur. Frá landamærum Sovétríkjanna`` --- takið eftir kennslustundinni sem við erum tekin í hér --- ,,eru nokkur hundruð kílómetrar til Vestur-Evrópu. Frá austurströnd Bandaríkjanna til Evrópu skipta þeir nokkrum þúsundum.``
    Ég hleyp hér yfir merkan kafla á bls. 50, en þessu lýkur þar með eftirfarandi:
    ,,Af ofangreindu má ráða að þær breytingar, sem orðið hafa og eru um það bil að eiga sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu, gefi Íslendingum ekki tilefni til að hrófla við því fyrirkomulagi, sem þeir hafa stuðst við í öryggis- og varnarmálum undanfarna áratugi.``
    Um ,,varnarstöð Atlantshafsbandalagsins`` er síðan fjallað í kafla þar á eftir.
    Hvað er hér á ferðinni? Jú, hæstv. utanrrh. fjallar á mörgum síðum um hinar stórfelldu breytingar í Evrópu á öllum öryggismálum álfunnar en kemst síðan að þeirri sérkennilegu niðurstöðu að vegna landfræðilegra aðstæðna og vegna þeirrar þýðingar

sem liðsflutningar hafi á hugsanlegum hættu- og ófriðartímum fyrir Atlantshafsbandalagið megi ekki við nokkru hrófla í svokölluðum öryggismálum Íslands. Hér skuli herinn blífa, við skulum halda okkur að Atlantshafsbandalaginu eins og það hefur verið, því góða, gamla bandalagi og tryggja nærveru erlends hers í landinu og auka við hann eins og kemur í framhaldinu, í kaflanum um hina svokölluðu varnarstöð Atlantshafsbandalagsins.
    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum þegar ég fór yfir þessi efni í skýrslu hæstv. ráðherra. Það hefur vissulega örlað á skilningi hjá hæstv. utanrrh. á breytingu í sambandi við málefni heimsins og málefni Evrópu, í öryggismálum. Frumkvæði hans og ríkisstjórnarinnar í því að ýta á eftir afvopnun á höfunum bar þess vitni að áhugi væri á því að reyna að taka málin að einhverju leyti nýjum tökum og þess má sjá stað í nokkrum köflum í skýrslu hæstv. ráðherra. Ég tel það gott svo langt sem það nær. Það nær því miður ekki langt. Því hefur ekki verið fylgt eftir af þeirri festu sem ég hefði kosið, en það er þó skref í áttina á þessu sviði. En þegar kemur að skipan mála hér er ástandið gersamlega frosið og er þó hæstv. ráðherra ekki þekktur að því að vera stuðningsmaður ,,frystingar`` eins og hann hefur túlkað það. En hér er allt saman botnfrosið og gaddfreðið. Maður spyr sig, hvað veldur? Hvað veldur? Eru hér pólitísk veðrabrigði á ferðinni?
Er hæstv. utanrrh. að veifa þessu skjali sínu og þessari freðýsu í sambandi við öryggismálin framan í Sjálfstfl. og segja: Ja, ég stend hér traustur eins og nátttröll þrátt fyrir allar breytingar, stend þær allar af mér og mun styðja að hér verði óbreytt ástand, herstöðin blífi. Er þetta ástæðan? Eða eigum við að ætla hæstv. utanrrh. þá sannfæringu að svona skuli þetta vera hér þrátt fyrir allar breytingar og þrátt fyrir það að óvinurinn er týndur að allra mati? Einnig þeirra sem þykjast vera hér til að halda uppi svokölluðum vörnum, gæslu á Norður-Atlantshafi.
    Nokkur orð, virðulegur forseti, um svokallaða varnarstöð Atlantshafsbandalagsins. Það er dálítið athyglisvert að þessi fyrirsögn skuli koma fyrir hér. Ég man ekki hvort hún var í skýrslu ráðherra í fyrra, ég held þó ekki. Hana er alla vega ekki að finna í skýrslum fyrri utanrrh. í sambandi við herstöð Bandaríkjanna hér á landi eða herstöðvar. Er hér einhver tilviljun á ferðinni? Liggur eitthvað að baki því að fara að tengja þessa herstöð sérstaklega við Atlantshafsbandalagið? Það kann að vera, og það væri ekki til þess að syrgja, ef í því fælist að um leið og það bandalag kannski hverfur af sjónarsviðinu, færi svo, væri herstöðin jafnframt horfin og herinn farinn af Íslandi. En ég les svolítið öðruvísi í lögin frá 1951, hinn svokallaða varnarsamning gerðan milli Íslands og Bandaríkjanna. Þó þar sé vísað til Atlantshafsbandalagsins í vissum greinum er þetta tvíhliða samningur gerður milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku. Hvað veldur því að hér er farið að tengja þessa herstöð, hæstv. utanrrh., við

Atlantshafsbandalagið í fyrirsögnum? Það hlýtur að vera verulega djúp hugsun sem hvílir þar að baki, því að þetta er feitletrað. Við hljótum að fá á því skýringar síðar í umræðunni.
    En hvað veldur að skilningarvitin lokast þegar kemur að Íslandi? Það skyldu þó ekki vera samningar sem ýmsir aðilar eiga í sambandi við verktöku í kringum þessa herstöð? Það skyldi þó ekki vera að aronskan sé einhvers staðar í skúmaskotunum á bak við? Hana hefur vissulega borið fyrir í umræðum um þetta efni og ber satt að segja ótrúlega oft við þegar rætt er um málefni herstöðvanna hér og það í auknum mæli. Síðustu vikur og mánuði eftir að óvinurinn týndist er farið að minna á hana í vaxandi mæli. Og það var greinilega mikið áhugaefni hv. 1. þm. Suðurl. að þar kæmust menn að kjötkötlunum. Hann vildi hleypa fleirum að en þar hafa verið og malað gull. Það er sjónarmið út af fyrir sig sem ég ætla ekki að blanda mér í en þetta kemur ótrúlega víða fram og ekki bara um milljarðana sem Íslenskir aðalverktakar velta, heldur niður í minni upphæðir eins og hægt væri að vitna til. Ég leyfi mér að grípa niður í eitt eintak af litla dagblaði hæstv. utanrrh., fréttatilkynningu nr. 29, 19. mars sl. (Gripið fram í.) Hv. þm. Alþfl. hefur áhyggjur af mörgu, nú síðast af málefnum Þjóðviljans, ég skil það vel. En í þessu litla dagblaði hæstv. utanrrh. nr. 29 er greint frá því að samkomulag hafi náðst milli íslenskra stjórnvalda og fulltrúa bandaríska sjóhersins um endurnýjun samnings frá 1987 um kaup varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á íslenskum landbúnaðarafurðum á tímabilinu 1. apríl 1990 til 31. mars 1991 og samkomulagið rakið í einstökum liðum í þessu fréttaskeyti. Það er allt að 32.000 pund af ungnautakjöti. Það er allt að 20.000 pund af kjúklingum og 110.000 pund af eggjum. Síðan segir að samkomulagið verði endurskoðað í lok tímabilsins þannig að menn eiga von á framhaldi. Og síðan er tilgreint, og nú veit ég að hæstv. ráðherra man textann því þar segir: ,,Á síðasta ári hófust viðskipti með nýtt íslenskt grænmeti í verslunum varnarliðsins. Ákveðið hefur verið,,, það er ekki minnst um vert, ,,að varnarliðið selji íslenskar vínarpylsur til reynslu í verslunum á Keflavíkurflugvelli.``
    Þetta er nákvæmlega tíundað og hér erum við kannski stödd einmitt við þau atriði sem skipta ýmsa meiru en spurningin um öryggishagsmuni. Ég er ekkert að lasta það að menn hafi sínar skoðanir þar. En aumt er það þegar málin eru farin að snúast um kaupmennsku af þeim toga sem æ oftar og í vaxandi mæli ber á góma þegar rætt er um stöðu þessa herliðs hér á landi.
    Hæstv. utanrrh. ber mikið traust til yfirmannanna þarna syðra. Hann kvaddi einn sl. vor. Þá vorum við að ræða skýrslu ráðherrans hér á þingi og urðum að gera hlé á fundi vegna þess að ráðherrann var að kveðja McVadon aðmírál. Sá umræddi aðmíráll kunni nú að segja Íslendingum fyrir verkum eins og menn muna. Hann bað menn um að vera góða við dátana og ekki líta á þá sem af annarri þjóð heldur sem

sambýlismenn í landinu. Og hann sagði einmitt þetta sem gengur aftur og aftur og aftur hér á síðunum í skýrslu hæstv. utanrrh. varðandi flutningaleiðirnar og fækkunina í Evrópu. Hann sagði: Eftir því sem hermönnum fækkar á meginlandinu eru allar líkur á að herstöðin á Íslandi verði þeim mun mikilvægari. Sem sagt, því friðvænlegra í heiminum, því lengra sem óvinurinn er kominn burt, þeim mun þýðingarmeira er Ísland herfræðilega af því að það er statt þarna á hnettinum, af því að það er þarna komið á hnettinum. Þetta er viskan. Þeir ættu að hlýða á það, þeir hv. alþm. ef þeir mættu nema sem sátu hér á Alþingi Íslendinga fyrir 41 ári, þegar samningur var til umræðu um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, með hörðum átökum hér innan veggja og utan, hvernig mönnum er nú komið. Þeir hinir sömu leiðtogar á Alþingi Íslendinga sem sögðu við þjóð sína: Við förum í þetta hernaðarbandalag af því að við höfum sannfæringu fyrir því að við þurfum að gera það til þess að tryggja öryggi landsins, en við munum aldrei leyfa her á Íslandi á friðartímum.
    Hæstv. utanrrh. var beðinn um það í umræðu utan dagskrár á Alþingi í byrjun vikunnar að kanna meinta njósnastarfsemi sem tengd væri við aðstöðu og búnað suður á Keflavíkurvelli. Hæstv. ráðherra hefur lagt fram í ræðu sinni ákveðið
mat á því máli, greint frá því að hann brást við og sendi menn suður á völl til þess að skoða og tala við yfirmennina þar og sendimennirnir fundu ekkert sem benti til þess að þar gæti verið um óeðlilega starfsemi eða ólöglega að ræða eins og lesa má um í ræðu hæstv. ráðherra og þar með væri málið úr sögunni og afgreitt.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hafa brugðist skjótt við í þessu máli. Ég veit ekki hvernig hann í einstökum atriðum hefur staðið að þessari sendiför, hvort hann var þar á vettvangi sjálfur. Það hygg ég raunar að hafi ekki verið, en þar kemur fram að hann spurði m.a. og byggir mat sitt verulega á svörum varnarliðsins svokallaða sem staðhæfði, eins og segir í ræðu hæstv. ráðherra: ,,Þá hafa yfirmenn varnarliðsins fullvissað mig um það að sú starfsemi sem þar fari fram sé eingöngu til styrktar eftirlitshlutverki varnarliðsins auk þess sem hún getur miðað út og staðsett köll á alþjóðlegri neyðarbylgju. Þá er það undirstrikað að enginn búnaður, hvorki loftnet né önnur tæki sem nota má til hlerana símaþjónustu eða skeytasendinga frá eða til Íslands né heldur innan lands er þarna fyrir hendi, enda samræmist slíkt ekki íslenskum lögum. Af þessu má ráða að hér er um eðlilega og nauðsynlega starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli að ræða í þágu öryggis og varna landsins. Öllum staðhæfingum um ólöglega og óréttmæta starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og öryggisdeildar sjóhersins, Naval Security Group, er því vísað á bug sem órökstuddum og tilhæfulausum.``
    Ég ætla ekki að fara að leggja í þessi orð eitthvað annað en þau segja, en ég hefði talið það nokkra bjartsýni hjá hæstv. utanrrh. ef hann hefði vænst þess

að fá annað mat hjá yfirmönnum varnarliðsins svokallaða en það sem hér kemur fram. Það er nú ekki venja þeirra sem kynnu að standa fyrir starfsemi eins og þarna var til umræðu að viðurkenna slíkt fyrir opnum tjöldum, en ég hef hvorki hér eða nú lagt neitt mat á þetta af minni hálfu, enda ekki á mínu valdi að gera það og vísa aðeins til þess sem hér hefur komið fram, bæði utan dagskrár sl. mánudag og aftur nú í máli hæstv. ráðherra.
    Það kemur hins vegar fram af hálfu norskra aðila, svo sem lesa má um í blöðum þarlendum fyrir nokkrum dögum síðan, að þeir telja að það þurfi að fara betur ofan í hlutina en svo að taka slíkar staðhæfingar góðar og gildar. Það kemur t.d. fram í norskum blöðum, Aftenposten 14. mars, haft eftir yfirmanni öryggisþjónustu hersins í Noregi, Alf Roar Berg, að ekki sé unnt að útiloka að Bandaríkin geti stundað stórfelldar símahleranir í Noregi. Þó er símakerfi Noregs, eftir því sem blaðið hermir, talið öruggara en hjá mörgum þjóðum, m.a. er mikilvægum tengistöðvum komið fyrir í bergi neðan jarðar. Framkvæmdastjóri öryggisráðs norska atvinnulífsins, Helge Störkersen, segir í sama blaði að öll fjarskiptasambönd séu í hættu fyrir hlerun og að ráð hans ráðleggi norsku atvinnulífi að finna aðra möguleika í upplýsingamiðlun en fjarskiptin varðandi það sem þarfnist trúnaðar. Og varaformaður norska verkamannaflokksins sem ég nefndi í umræðunni hér sl. mánudag sagði eitthvað á þá leið: Þetta eitrar allt stjórnmálalegt andrúmsloft. Við verðum að leitast við að þjóðirnar geti lifað í meira trausti hver í annarrar garð svo að við komumst hjá því aftur og aftur að fá staðhæfingar um hleranir og njósnir. Forsætisráðherra Noregs sagði vegna þessa máls að norsk yfirvöld hefðu enga vitneskju um að Bandaríkin hleri samtöl í Noregi og spurði: Hvers vegna ætti svo voldugur bandamaður að stunda slíka hlustun? Rannsóknaraðili við Norsku friðarrannsóknastofnunina í Osló, Nils Petter Gleditsch, sagði af sama tilefni: ,,Ég tel það mjög líklegt að unnt sé að hlera öll fjarskipti milli Noregs og útlanda án þess að norsk stjórnvöld viti um það.`` Þetta nefni ég hér af tilefni þessarar umræðu rétt til þess að menn viti hvernig norskir aðilar hafa hagað sínu máli af svipuðu tilefni.
    Virðulegur forseti. Það væri ástæða til þess að víkja að ýmsum þáttum sem snerta herstöðina í Keflavík og annan herbúnað hér í landinu. Það vekur athygli að þar eru í gangi miklar fjárfestingar, meiri en á síðasta ári í sambandi við uppbyggingu í herstöðinni. Þar er verið að byggja og reisa sprengjuhelda stjórnstöð sem tengja á við hernaðarratsjárstöðvakerfið sem hefur verið komið fyrir á hinum ýmsu landshornum og stöð sem á að þola atómsprengjur í næsta nágrenni. Og þar er verið að reisa í viðbót við það sem komið er 112 íbúðir, nákvæmlega talið samkvæmt skýrslu ráðherrans, fyrir starfsmenn. Þar eru nú ekki biðraðirnar langar eftir íbúðarhúsnæði. Þar er rösklega að verki verið til þess að koma húsum yfir gestina. Þessar framkvæmdir standa auðvitað í augljósri mótsögn við þá þróun sem

á sér stað í Evrópu í sambandi við hernaðarmálefni, þar sem menn eru að vinna að afvopnun, þar sem áhyggjur ýmissa beinast að því að þeir þurfi að leita að nýjum viðfangsefnum. Þar er mikið í gangi, úti á meginlandinu, eðlilega, eins og þyrfti að vera hér á Suðurnesjum í tengslum við þá afvopnun sem þar þyrfti að koma fyrr en seinna.
    Ég vil hér, virðulegur forseti, alveg sérstaklega mótmæla hugmyndum sem gera ráð fyrir því að herstöðinni í Keflavík, NATO-herstöðinni í Keflavík, verði breytt í einhvers konar eftirlitsstöð undir núverandi fyrirkomulagi, undir núverandi samningi, því þannig hefur mátt skilja mál manna. Ég tel þar á
ferðinni mikla fjarstæðu, að hugsa sér að herstöð, rekin af öðru risaveldinu á þess ábyrgð, geti verið eftirlitsstöð í alþjóðlegu afvopnunarstarfi. Hitt er allt annað mál hvað menn telja skynsamlegt og réttmætt að Ísland geri í sambandi við alþjóðlegt eftirlit samkvæmt afvopnunarsamningum á Norður-Atlantshafi. En það kemur ekki þessu máli við, ekki þessari herstöð í Keflavík, sem rekin er með tvíhliða samningi Íslands og Bandaríkjanna. Ég vara sérstaklega við þeim áherslum sem hér má heyra í máli manna að þessu leyti, því þar vakir á bak við viðleitni af hálfu þeirra sem halda vilja umsvifunum hér, hins erlenda hers í landinu, og leitast við að tryggja þau undir breyttum formerkjum í nýrri sauðargæru.
    Það er allt annað mál varðandi hlut Íslands hvað menn teldu réttmætt eftir að tekist hafa afvopnunarsamningar til þess að tryggja framgang þeirra, eftirlit og annað sem þeim tengist. Nákvæmlega sama á við varðandi þá fjarstæðu sem hér er borin fram af hæstv. utanrrh. og tekið undir af einstökum þingmönnum, að fara að koma hér upp nýjum hernaðarflugvelli með fjárstuðningi frá Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Mátti þó heyra hjá hæstv. forsrh. að hann drægi í efa að mikill áhugi væri á því að borga í það púkk úr þeirri átt. Ég undrast að hv. alþm. og hæstv. ráðherrar skuli bera slíkt á borð fyrir þjóðina, að það geti verið eðlileg ráðstöfun af Íslands hálfu á þeim tímum sem
við nú lifum að fara að bæta við nýjum herflugvelli á Íslandi --- ja, þvílíkt. Erum við Íslendingar ekki menn til þess að koma upp okkar samgöngumannvirkjum? Það erum við, við erum að því, við erum að koma upp aðstöðu fyrir eðlilegt, borgaralegt varaflug í landinu sem getur þjónað þeirri umferð sem fer með eðlilegum hætti um hið íslenska flugumsjónarsvæði. Við höfum ekkert við erlendan herflugvöll að gera hér, síst af öllu til viðbótar við þann sem hér er fyrir og sem þyrfti að fá annað hlutverk fyrr en seinna. Við skulum vænta þess að breytingar verði hér fyrr en seinna varðandi stöðu Íslands, hernaðarstöðu Íslands, það hlutverk sem landi okkar hefur verið búið á liðnum áratugum, fyrr en seinna. Kannski er nokkur ástæða til bjartsýni í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á skömmum tíma úti í Evrópu. Það hefur stundum tekið tíma að flytja boðin frá meginlandinu til Íslands í ýmsum

efnum, nýmæli af ýmsum toga og það virðist eiga við í þessu tilviki.
    Virðulegur forseti. Ísland á að leggja sitt af mörkum til þess að hlúa að þeim breytingum, jákvæðu breytingum í lýðræðisátt sem eru að gerast á meginlandi Evrópu, í Mið-Evrópu og í Austur-Evrópu. Við eigum að leggja þjóðum Eystrasaltsríkjanna það lið sem við megnum og höfum trú á að komi þeim til góða í sjálfstæðisbaráttu þeirra nú og á næstunni. Ég tel að allar hugmyndir þar að lútandi þurfi að athuga út frá þessu leiðarljósi, út frá því sjónarmiði að Ísland, sem smáríki, sem smáþjóð, hlýtur að styðja sjálfsstjórnarviðleitni þjóða hvar sem er. Þær þjóðir sem þarna eiga hlut að máli hafa mátt þola ok um langan tíma og við skulum vona að þeim auðnist að ná fullveldi og sjálfstæði á ekki löngum tíma. Ísland á að leggja sitt lóð á þá vogarskál, að sjálfsögðu á þann hátt sem við teljum skynsamlegt að vel yfirveguðu ráði.
    Utanrmn. hefur fjallað um þessi efni fram að þessu og veitt ríkisstjórn ráðgjöf í þessu máli. Mér sýnist ríkisstjórnin sinna málinu af alúð þessa daga. Ég tel það bæði sjálfsagt og raunar ekki þakkarvert sérstaklega, en svo verður væntanlega áfram. Ég tel að tillögur sem fram koma í þessu efni eigi að skoðast með þinglegum hætti og athugast vel. Ég sakna þess nokkuð að við höfum hvorki í þinginu né í utanrmn. fengið greinargerðir varðandi hinar ýmsu hliðar þessara mála en væntanlega verður ráðin bót á því fyrr en seinna til að auðvelda mönnum ákvarðanatöku sem geti orðið að því liði sem ég vænti að allir hafi hug á í þessu máli.
    Ísland á að leitast við að gæta samkvæmni í aðgerðum á alþjóðavettvangi. Ég hlýt að minna á það að á því hefur verið misbrestur. Við erum ekki alltaf samkvæm sjálfum okkur í athöfnum út á við. Ég get ekki annað en lýst miklum áhyggjum út af þeirri afstöðu sem fram kemur hjá hæstv. utanrrh. í skýrslu hans og tekið var undir af hv. 1. þm. Suðurl. í sambandi við málefni palestínsku þjóðarinnar. Ég harma það sérstaklega að hér í þinginu skuli borinn fram málflutningur með þeim hætti sem gefur að líta, að nokkru í skýrslu hæstv. utanrrh. varðandi málefni Ísraels og Palestínu og ekki síður það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Suðurl.
    Ég tek eindregið undir það sem fram kom hjá hv. 12. þm. Reykv. í hennar máli áðan um þessi efni. Ég ætla að spara mér að fara yfir málið í einstökum atriðum og get vísað til þess rökstuðnings sem hv. 12. þm. Reykv. bar hér fram um þetta efni. Það vekur auðvitað athygli að hæstv. utanrrh. nefnir ekki samhljóða þál. Alþingis um deilur Ísraels og Palestínumanna sem gerð var hér á sl. ári og lyktaði með þeim orðum að ,,Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við frelsissamtök Palestínu, PLO,,, og margt fleira sem er stefnumarkandi í þeirri ályktun.
    Ég vek athygli á þeim mannréttindabrotum sem sífellt eru ástunduð af Ísraelsmönnum innan Palestínu gagnvart vopnlausum borgurum. Þar er fjöldi fólks,

vopnlausra Palestínumanna, sem hefur verið drepinn af ísraelsku herliði
líklega komið eitthvað á sjöunda hundrað eða vel það síðan uppreisnin hófst á herteknu svæðunum. Það er sannarlega nöturlegt ef Ísland getur ekki sett sig inn í þær aðstæður sem þessi þjóð býr við og það ofríki sem þar er beitt. Okkar afstaða á ekki að beinast gegn Ísrael sem ríki, það er ekki hugurinn sem býr að baki samþykkt Alþingis og ekki okkar sem flytjum hér mál palestínsku þjóðarinnar með kröfu um að Ísland setji sig inn í aðstæður hennar og leggi sitt lóð á vogarskálina. En við hljótum að geta sameinast um það, eða ættum að geta sameinast um það að rétta okkar hönd til hjálpar í þessu efni með aðgerðum á alþjóðavettvangi og með því að taka upp eðlileg samskipti við málsvara þessarar þjökuðu þjóðar. Ísland ber á þessu talsverða ábyrgð. Það eru ekki aðeins söguleg tengsl við Ísraelsríki, það er jafnframt ábyrgð varðandi aðstæður palestínsku þjóðarinnar nú í dag.
    Það er vert að minnast á það í þessu samhengi að nú er verið að greiða fyrir því með fjárframlögum af hálfu Bandaríkjastjórnar, háum fjárfúlgum, að þeim Ísraelsmönnum fjölgi sem geti tekið sér bólfestu í Ísrael eða á landsvæðum sem lúta þess stjórn. Hvað er verið að gera með slíkum aðgerðum í raun á sama tíma og palestínskum borgurum, landflótta, er meinað að snúa aftur til heimkynna sinna? Er hægt að taka undir afstöðu eins og þessa? Er hún ekki menguð af kynþáttaafstöðu og kynþáttamisrétti? Er það forsvaranlegt fyrir Ísland að taka á þessu máli eins og því miður hefur verið gert til þessa í allt of ríkum mæli? Ég skora á hæstv. utanrrh. að endurskoða afstöðu sína í þessum málum. Hann hefur vissulega breytt afstöðu til betri vegar í ákveðnum tilvikum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég hef heyrt það frá hæstv. ráðherra að hann sé reiðubúinn til þess að eiga vinsamleg, formleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, sé eftir því leitað. Það tel ég að væri gott skref af hálfu hæstv. ráðherra að stuðla að slíkum samskiptum.
    Það væri, virðulegur forseti, ástæða til að víkja hér að fjölmörgum fleiri þáttum varðandi alþjóðleg samskipti Íslands. Ég ætla ekki að eyða löngu máli til viðbótar við umræðuna vegna þess að hér er eðlilegt að við greiðum hvert fyrir öðru um þátttöku í umræðunni. En ég hef væntanlega tækifæri til þess að leggja hér inn fleiri orð í umræðuna þótt síðar verði.
    Ég vil þó aðeins undir lok máls míns víkja að efnahagssamvinnunni og þeim þætti sem hefur verið mjög til umræðu hér í máli manna og kemur vissulega fram í skýrslu hæstv. utanrrh. Það eru samningaviðræðurnar um hið evrópska efnahagssvæði sem hæstv. ráðherra leggur svo ríka áherslu á. Ég hef gert grein fyrir meginafstöðu míns flokks í því efni og fyrirvörum sem þingflokkur Alþb. hefur haft í því máli og hefur enn. Ég minni á afstöðu Alþb. til tvíhliða viðræðna við Evrópubandalagið sem ég tel að þurfi að standa að með miklu ákveðnari hætti en gert hefur verið til þessa af íslenskum stjórnvöldum. Um þau efni ályktaði landsfundur Alþb. sérstaklega og

lagði ríka áherslu á það að teknar yrðu upp formlegar viðræður til þess að ná fram samningum, hagstæðari samningum en nú gilda, við Evrópubandalagið í sambandi við tollamál en einnig varðandi önnur samskipti. Ég tel að þær samningaviðræður, sem hæstv. utanrrh. hefur átt hlut að og verið er að undirbúa fyrir Íslands hönd, stefni í allt aðra átt en æskilegt væri út frá okkar hagsmunum.
    Hæstv. ráðherra leitaðist við í máli sínu hér áðan að koma þeirri skoðun á framfæri að ekki væri um valdaafsal að ræða af Íslands hálfu, ekki væri í raun um það að ræða að Ísland væri að gangast undir yfirþjóðlegt vald með þátttöku í hinu fyrirhugaða evrópska efnahagssvæði. Ég ætla hér ekki að eiga langan orðastað við hæstv. ráðherra um það efni. Við höfum oft rætt það við önnur tilefni hér á Alþingi Íslendinga. En ég leyfi mér að segja að það er furðulegt að hæstv. utanrrh. skuli leggja málið fyrir með þeim hætti sem hann reyndi hér áðan, að draga fjöður yfir það stórfellda valdaafsal sem felst í því fyrir löggjafarvaldið og dómsvaldið á Íslandi að undirgangast þann samning sem hæstv. ráðherra hefur verið að undirbúa fyrir sitt leyti varðandi hin svokölluðu fjögur frelsi.
    Um leið og ég segi þetta og vara við þessari samningsgerð vil ég að fram komi af minni hálfu að ég tel það mjög brýnt fyrir Ísland að leita eftir góðum samskiptum við Evrópubandalagið og tel raunar að taka þurfi þar miklu fastar á og með beinskeyttari hætti en gerst hefur til þessa. Þar eru það sjávarútvegshagmunirnir sem eru númer eitt og númer tvö fyrir Ísland í þeim viðræðum. Við eigum ekki að binda trúss okkar við þjóðir sem hafa í reynd allt annarra hagsmuna að gæta, búa við allt annað atvinnulíf eins og gildir um flestar hinar EFTA-þjóðirnar þar sem við eigum aðeins mjög takmarkaðs stuðnings að vænta við þá hagsmuni sem íslenskir eru í þessu samhengi. Þessi efni eigum við eftir að ræða frekar og ég læt þetta nægja af minni hálfu.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, leggja áherslu á það að við þurfum hér á vettvangi Alþingis að leggja okkur fram af meiri alvöru en hingað til til þess að lýsa inn í samhengi utanríkissamskipta Íslands við aðrar þjóðir. Þetta á jafnt við um öryggismálefni sem um efnahagsleg málefni. Það vantar mjög mikið á það að mínu mati að þingið og þingnefndir sem þar eru til kvaddar taki á þessum málum af þeirri alúð sem skylt ætti að vera. Þó ekki sé ástæða til
þess að gera málefni utanrmn. hér að sérstöku umtalsefni kemst ég ekki hjá að nefna það að ég tel að á þeim vettvangi þyrfti að taka á málum af mun meiri festu og alvöru hvað þessi mál öll snertir. Það gerist allt of oft og allt of mikið að utanrmn. fær ekki þær upplýsingar um mál sem eðlilegt væri til þess að móta afstöðu til mála. Það gildir um upplýsingar sem beðið er um frá framkvæmdarvaldinu og það gildir um þá aðstöðu sem þeirri þýðingarmiklu nefnd þyrfti að vera búin til þess að taka á málum miðað við okkar hagsmuni.

    Um leið og ég þakka samstarfsmönnum í utanrmn. fyrir samstarfið undanfarið og fyrir öll þau ár sem ég hef þar verið þá hvet ég til þess að það verði leitast við að búa þeirri nefnd þau starfsskilyrði sem hún verðskuldar og sem ástæða er til og hér á vettvangi Alþingis verði reynt að taka mun ákveðnar, betur og fastar á því sem tengist utanríkismálum en gert hefur verið þau ár sem ég tel mig vera dómbæran um.