Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Jóhann A. Jónsson:
    Virðulegi forseti. Í skýrslu hæstv. utanrrh. eru mörg stór og mikilvæg málefni og þarfnast hún því gaumgæfilegrar umræðu sem ekki gefst mikill tími til hér. Varðandi samninga þá sem eru nú við Efnahagsbandalag tel ég að við eigum lítið erindi í beinar viðræður, í beina samninga við Efnahagsbandalagið. Það sýnir okkur best að í skýrslu utanrrh. á bls. 71 er tíundað hvaða styrkjum sjávarútvegsstefna bandalagsins hefur yfir að ráða. Ég held að óhætt sé að segja að við höfum þar lítil áhrif og hætt við því að við fengjum lítið út úr þeim samningum fyrir mikið. Við hjá Samtökum jafnréttis og félagshyggju styðjum því þær samningsumræður sem staðið hafa yfir á vegum EFTA og sjáum raunar ekki aðra færa leið að svo stöddu. Samt sem áður leggjum við mikla áherslu á það að hæstv. utanrrh. láti þingheim fylgjast vel með gangi mála þar sem um svo mikilvægt mál er að ræða.
    Í skýrslu utanrrh. á bls. 72 er kafli sem heitir ,,Hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti (GATT)``. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Norðurlöndin hafa í tillögu sinni haft hliðsjón af þeim samningsramma, sem náðist samkomulag um á fundi háttsettra embættismanna í apríl sl. hvað varðar langtímamarkmið og heilbrigðisreglur, en telja að tillit verði að taka til sjónarmiða um félagslegt, þjóðfélagslegt og umhverfislegt hlutverk landbúnaðar. Í tillögunni lýsa Norðurlöndin sig fylgjandi því að dregið verði úr stuðningi við landbúnað, og benda á að sérstök áhersla skuli lögð á að afnema þær aðgerðir sem feli í sér mestu viðskiptahindranir. Norðurlöndin segjast tilbúin að stefna að afnámi flestra útflutningsbóta sinna. Sem meginregla skuli innflutningshöft ekki vera í formi magntakmarkana, nema í sérstökum afmörkuðum tilvikum. Sem lið í afnámi hafta mætti breyta þeim yfir í tolla. Heimilt eigi að vera að hafa verulega háa tolla. Fulltrúi
landbúnaðarráðuneytisins hefur sótt fundi GATT og norræna undirbúningsfundi á sviði landbúnaðarmála.
    Upphaf skammtímaaðgerða miðast við apríl 1989 og eiga þær að standa til loka árs 1990. Um er að ræða svonefnda ,,frystingu`` styrkja innanlands og til útflutnings, ,,frystingu`` verndaraðgerða, þ.e. tolla og innflutningstakmarkana, og ,,frystingu`` á verðákvörðunum stjórnvalda, en heimild er til gengisaðlögunar vegna mikillar verðbólgu.``
    Þýðir þetta að innflutningur á landbúnaðarafurðum til landsins verði frjáls og að útflutningsbótum á landbúnaðarframleiðslu verði hætt? Það væri fróðlegt að fá um það svör frá utanrrh. og eins hvort um það sé samstaða í ríkisstjórn að svona skuli hagað málum.
    Á bls. 56, í VIII. kafla, er fjallað um Vatnsveitu Suðurnesja og skýrt frá mengun á vatnsbólum Keflavíkur og Njarðvíkur. Okkur er í fersku minni olíulekinn og olíumengun á Bolafjalli í nóv. sl. Í febrúar var hér á Alþingi tekin fyrir fsp. frá hv. 7. þm. Norðurl. e. um mengunarvarnir á Gunnólfsvíkurfjalli. En þá hafði erindum heimamanna

um málið ekki verið svarað af skrifstofu varnarmála og/eða utanrrn. Nú virðist eitt málið enn vera í uppsiglingu því í frétt í Dagblaðinu í dag segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Belgísk mengunarvarnastofnun um sorpgryfjuna á Heiðarfjalli. Undrast svo stórt mengunarvandamál á Íslandi --- talið líklegt að fjöldinn allur af eiturefnum sé í gryfjunni. Fyrstu viðbrögð okkar voru undrun yfir að jafnvel Ísland ætti við umtalsvert mengunarvandamál að stríða að því er virðist vegna óstjórnar í sorphirðu á undanförnum áratugum.``
    Öll mengunarmál sem upp koma á landi sem byggir lífsafkomu sína á matvælaframleiðslu eru mjög alvarlegs eðlis og geta skaðað þá ímynd sem við byggjum okkar lífsafkomu á. Samkvæmt frétt Dagblaðsins er hér á ferðinni mál sem getur skaðað mjög ímynd landsins í þessum efnum. Því vil ég hvetja hæstv. ráðherra umhverfis- og utanríkismála að taka þessi mál mjög föstum tökum svo að ekki hljótist af þessu frekara tjón eins og þessi umræða er að þróast og hefur verið að þróast.