Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Það hefur tíðkast um nokkurra ára skeið að leggja fram skýrslur frá alþjóðlegum þingmannasamtökum sem við tökum þátt í og ræða þær í tengslum við skýrslu utanrrh. Svo er gert að þessu sinni að því er varðar m.a. skýrslu frá íslensku þingmannanefndinni í Evrópuráðinu.
    Evrópuráðið hefur í 40 ár verið samnefnari þeirra ríkja í álfunni sem haft hafa lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. Evrópuráðið var stofnað að fenginni biturri reynslu af alræðisstefnum, fyrst í heimsstyrjöldinni og síðan eftir heimsstyrjöldina þegar Sovétríkin lögðu undir sig hvert ríkið af öðru og hvert ríkið af öðru í Austur-Evrópu gekk alþjóðakommúnismanum á hönd undir þrýstingi Sovétríkjanna. Andstaða var brotin á bak aftur.
    Það var í þessu andrúmslofti sem Atlantshafsbandalagið var stofnað, fyrir því verður gerð grein hér í kvöld af formanni sendinefndarinnar í þingmannasamtökum þess. Í þessu andrúmslofti var Evrópuráðið líka stofnað. Þar er ekki eins og í Atlantshafsbandalaginu fjallað um varnarmál heldur er í Evrópuráðinu fyrst og fremst fjallað um ýmis atriði sem tengjast löggjöf á sviði mannréttinda, menningar og félagsmála. Starfsemi Evrópuráðsins varðar með einum eða öðrum hætti réttindi einstaklinga, hversdagslíf fólks í aðildarríkjunum.
    Það má nefna í þessu sambandi og í tilefni af því að 40 ár eru síðan þessi stofnun var sett á fót að nokkrar efasemdir voru í hugum sumra Íslendinga um aðild að Evrópuráðinu á sínum tíma. Ríkisstjórn Íslands lagði fram till. til þál. á löggjafarþinginu 1949 um að Ísland tæki þátt í Evrópuráðinu. Í tillgr. sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að veita ríkisstjórninni heimild til að gerast þátttakandi fyrir Íslands hönd í Evrópuráðinu og takast á hendur þær skyldur sem samkvæmt stofnskrá ráðsins eru samfara þátttöku í því.``
    Ég leyfi mér að leggja sérstaka áherslu á orðið ,,skyldur`` í þessu sambandi. Það verður að hafa í huga, þegar við tökum þátt í samstarfi sem þessu og öðrum alþjóðlegum þingmannasamtökum, að við höfum nokkrar skyldur með höndum sem ætlast er til að við sinnum ef við ætlum að hafa einhver áhrif á gang mála og ef við ætlum að láta virða okkar íslenska ríki.
    Nefndin klofnaði á sínum tíma, á þinginu 1949, um aðild Íslands að Evrópuráðinu og svo einkennilegt sem það er að rifja það upp nú höfðu fulltrúar forvera Alþb., þáv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins, uppi efasemdir og réðu frá því að taka þátt í stofnun eins og þessari. Þeir sem þann flokk fylltu síðar og arftakar þess flokks hafa fyrir löngu lagt til hliðar þessa skoðun og hafa á síðari árum tekið þátt í þessu starfi eftir því sem þeir hafa haft fylgi til. En í nál. meiri hl. sagði það sem sannarlega má minna á núna, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það verður að sjálfsögðu ekki um það dæmt á þessu stigi hver verða afdrif Evrópuráðsins en

markmið þess að koma á nánari einingu þátttökuríkjanna til tryggingar friði sem byggist á réttlæti og alþjóðasamvinnu, svo og til þess að stuðla að framförum á sviði efnahags- og félagsmála, hlýtur vissulega að vera í samræmi við utanríkisstefnu íslenska lýðveldisins. Ísland á ekki að sitja hjá í þessu samstarfi lýðræðis- og menningarríkja álfunnar. Er þess og að vænta er stundir líða fram að Evrópuráðið geti orðið öflugt tæki til að greiða fyrir framkvæmd þeirra hugsjóna er það hefur sett sér að markmiði.``
    Þegar ég nefni það nú, frú forseti, að því er spáð fyrir 40 árum að Evrópuráðið geti orðið öflugt tæki til að greiða fyrir framkvæmd þeirra hugsjóna sem það hefur sett sér að markmiði má benda á hver staða þess er nú. Það hefur sjaldan ef nokkurn tíma haft jafnmikla pólitíska þýðingu og einmitt nú vegna þess að þær þjóðir sem um það leyti sem ráðið var stofnað voru að missa sjálfstæði sitt hver af annarri eru núna að sækja fram til aukinna mannréttinda og lýðræðisskipulags, þjóðskipulags laga og réttar, og leita þess
vegna til Evrópuráðsins um stuðning, um samstarf, um aðild að meira eða minna leyti. Nokkrar Austur-Evrópuþjóðanna hafa þegar fengið svokallaða gestaaðild sem sérstakar reglur voru settar um fyrir ári síðan og tvær hafa sótt um fulla aðild. Það eru Ungverjar og Pólverjar. Pólverjar segjast reyndar ekki vera Austur-Evrópuríki, heldur Mið-Evrópuríki. Það er auðvitað rétt landfræðilega en við höfum kannski vanið okkur á að nota þetta hugtak í nokkuð pólitískri merkingu og höfum þá átt við Sovétríkin og þau Evrópuríki sem hafa verið í mestum pólitískum tengslum við þau.
    Þegar þessa er gætt verður að segjast eins og er að sl. ár hefur verið hlaðið stórviðburðum í starfi Evrópuráðsins. Þá er annað atriði í alþjóðlegu samstarfi eða öllu heldur Evrópusamstarfi sem hefur sett mikinn svip á störf Evrópuráðsins á allra síðustu árum og einkanlega síðasta árið en það eru vaxandi umsvif Evrópubandalagsins og samstarf þess við Evrópuráðið í ýmsum einstökum málaflokkum. Þetta tvennt, samstarfið við Evrópubandalagið, málefni sem eru sameiginleg með hvorum tveggja þessum samtökum, svo og breytingarnar í Austur-Evrópu, hefur leitt til þess að störf Evrópuráðsins hafa orðið enn
pólitískari, ef ég má svo segja, náð yfir fleiri og mikilvægari svið stjórnmálanna en áður hefur verið. Þau hafa krafist þess að til starfsins sé varið meiri tíma og raunar einnig fjármunum, en það atriði er e.t.v. fremur fram undan en liðið. Mikil áhersla er á það lögð við ráðherranefndina að þingi Evrópuráðsins verði gert kleift að sinna hinum nýju skyldum sem þessi þróun í álfunni hefur haft í för með sér fyrir það.
    Það segir sig sjálft að ýmis störf hafa sérstaklega komið til bæði endurskoðunar og athugunar í tengslum við uppbyggingu Evrópubandalagsins og aukið afl þess í álfunni. Nokkuð er það að Evrópubandalagið hefur tekið upp sérstakt samstarf meðal aðildarríkja sinna á

ýmsum málefnasviðum sem unnið hefur verið að og gerðir sáttmálar um, jafnvel fyrir áratugum, á vegum Evrópuráðsins.
    Evrópuráðsmenn hafa haft af því nokkrar áhyggjur og margir þingmenn að með þessu nýtist e.t.v. ekki sem skyldi öll sú sérfræðiþekking og sú vinna sem þegar hefur verið lögð í undirbúning mála og sáttmála líka á ýmsum sviðum, bæði menntamála, rannsókna og félagsmála. Við getum nefnt sem dæmi jafnstórt verkefni eins og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Í hinum stóra félagsmálasáttmála Evrópu, sem að stofni til er orðinn yfir 30 ára gamall, er vikið að ýmsum þeim grundvallaratriðum sem nú eru talin mikilvægust í sambandi við réttindi fólks á vinnumarkaði, umhverfi á vinnumarkaði, réttindi í sambandi við almannatryggingar og heilsu- og heilbrigðismál hvers konar. Ástæðan til þess að samstarf Evrópuráðsins og Evrópubandalagsins hefur aukist á þessu sviði hefur einmitt verið það sem hæstv. utanrrh. kallar stundum fjórfrelsi Evrópubandalagsins eða öllu heldur frelsi á fjórum sviðum sem stefnt er að í Evrópubandalaginu og væntanlega á hinu evrópska efnahagssvæði ef af því verður. Eitt af þessum sviðum er einmitt félagsmálasviðið eða hin svokallaða ,,félagsmálavídd`` svo að þýtt sé orðrétt upp úr stofnanaskjölum Evrópubandalagins. Þetta hefur orðið til þess að mikil vinna hefur verið lögð í það að aðlaga þær hugmyndir sem Evrópubandalagsmenn hafa haft að félagsmálasáttmála Evrópu þannig að Evrópubandalagið sem slíkt gæti orðið aðili að honum, en þegar eru fjölmörg aðildarríki Evrópubandalagsins að sjálfsögðu aðilar að þessum sáttmála.
    Ég nefni þetta, frú forseti, sem dæmi um það að með nánu samstarfi á nokkrum málefnasviðum getum við dregið úr skriffinnsku m.a. með því að forðast tvíverknað. Það er e.t.v. eðlilegt að til tvíverknaðar geti komið á sumum sviðum því að í annarri stofnuninni vinna þingmenn, þ.e. þeir sem sitja þjóðþing sinna heimalanda, en í hinni stofnuninni eru menn kosnir beinum kosningum, og yfirleitt ekki þingmenn á eigin þjóðþingi. Þess vegna er það svo að þeir sem sitja á Evrópuþinginu frá ríkjunum 12, sem þar eiga aðild, hafa ekki sama baksvið, ef svo má segja, og sömu tök á því að hafa fylgst með þeim málum sem verið hafa til umfjöllunar í Evrópuráðinu.
    Það yrði of langt mál að fara út í einstök atriði á þessu sviði. Ég nefni þó annað málefnasvið rétt til að skýra þetta betur því að það er afar nærtækt fyrir Íslendinga, en það er gagnkvæm viðurkenning prófskírteina, aðgangur að framhaldsnámi í aðildarríkjunum með því að prófskírteini sé í einhverju aðildarríkjanna viðurkennt jafngilt og í heimalandinu. Þetta skiptir miklu máli, ekki síst fyrir okkur sem þurfum að sækja um margs konar framhaldsnám til annarra ríkja. Þess vegna skiptir það miklu að standa vel í ístaðinu þegar verið er að leggja drög að því að herða þann ramma sem utan um þessi samskipti er, milli 12 aðildarríkja Evrópubandalagsins, og að reyna að halda honum svo að hann nái til Evrópuráðsins alls

eins og unnið hefur verið að.
    Ég vil nefna eitt atriði enn varðandi samstarf Evrópuráðsins og Evrópubandalagsins. Það má kalla það jaðarmálefni þess vegna því að það varðar ekki einungis samstarf þessara tveggja bandalaga, heldur standa að því öll Evrópuríkin 38, sem aðild eiga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, en þar eiga Austur-Evrópuríkin líka hlut að máli. Það málefnasvið sem ég ætla að nefna með þessum formála hefur verið hv. alþm. afar hugleikið nú um nokkurra vikna skeið en það eru umhverfismálin. Það er málefni sem er dæmigert viðfangsefni þeirra samtaka sem eru víðari en 12 Evrópubandalagsríki og raunar nauðsynlegt að þar standi öll Evrópa að málum. Þess vegna er það að þessi ríki vinna að því sameiginlega að gera evrópskan umhverfissáttmála. Drög að honum voru þegar samþykkt á ráðherrafundi Evrópuríkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar nú í vetur með því lykilfororði að umhverfismálin og mikilvægasti hluti þeirra væri sá þáttur sem vissi að mannlegri heilbrigði. Þess vegna væru það fyrst og fremst heilbrigðisráðherrarnir sem þar ættu hlut að máli, svo og umhverfisráðherrar þar sem þeim var til að dreifa. En aðalatriðið var heilbrigðisþátturinn í þessu máli.
    Nú heldur frú forseti e.t.v. að ég ætli að fara að ræða um títtnefnt umhverfismálafrv. en það ætla ég ekki að gera. Ég vildi nefna þetta sem verkefni sem alveg liggur í augum uppi að vera þarf víðtækt Evrópusamstarf um og þar er byggt á víðtækri reynslu í sérfræðilegu samstarfi á
heilbrigðissviðinu sem fram hefur farið í ríkjum Evrópuráðsins, hinna 23 ríkja, og á sumum sviðum áratugum saman.
    Þetta var um samstarf Evrópubandalagsins og Evrópuráðsins og það má enda á því að minna enn einu sinni á að þessum stofnunum er oft ruglað saman. Þau hafa ýmis sömu táknin. Evrópubandalagið tók upp hið gamla tákn Evrópuráðsins á sínum tíma, sama merkið, sama fánann, og er sumpart til húsa í sömu byggingum en þó ekki á sama tíma. Mönnum hefur ekki hugkvæmst að nefna þessar tvær stofnanir ólíkari nöfnum enn þá, en eftir því sem hin pólitíska þýðing Evrópuráðsins eykst vegna málefna Austur-Evrópu verður það enn greinilegra að þessar stofnanir gegna alls ekki sama hlutverkinu nema þar sem örfá málefnasvið skarast. Evrópuráðið gegnir hinu víðtækara pólitíska hlutverki sem á að tryggja réttindi manna sem víðast í löndum sínum, réttindi manna í hversdagslífi og starfi. Í Evrópuráðinu eru nú 23 ríki sem eiga fulla aðild og væntanlega bætast fljótlega við bæði Pólland og Ungverjaland auk þess sem nokkur Austur-Evrópuríki eiga gestaaðild og Ísrael á frá gamalli tíð áheyrnaraðild. Þetta þýðir að þessi ríki geta einnig átt sæti eða verið áheyrnarfulltrúar á tilteknum nefndafundum eftir því sem nánar er ákveðið.
    Þá vil ég víkja, frú forseti, að þeim þáttum í starfi Evrópuráðsins á síðasta ári sem einkanlega tengjast vaxandi samstarfi við Austur-Evrópu. Það hafði lengi verið boðað, sérstaklega í máli þeirra forustumanna

Evrópuráðsins sem létu af störfum fyrir ári síðan, þeirra Marcelino Oreja, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, og Louis Jung, sem var forseti þingsins, að ráðinu bæri að taka upp miklu nánara samstarf við Austur-Evrópuríkin. Þeir höfðu haldið þessu fram um nokkurt skeið og þess varð óneitanlega vart í ráðinu að ýmsir efuðust um þessar kenningar og töldu að hér væri verið að víkka út verkefni Evrópuráðsins óþarflega. Með þessu væri verið að breyta eðli þess. Það væri ekki lengur verið að tala um samstarf þeirra ríkja einvörðungu sem byggðu á lýðræði, mannréttindum, lögum og rétti. Auk þess hafði skömmu áður verið samþykkt sérstök ályktun um aukið samstarf norðurs og suðurs, sem svo var nefnt, og fól á ýmsan hátt í raun og veru í sér þróunarsamvinnu milli Evrópu og suðlægari ríkja. Hugsunin með því átaki var ekki einungis þróunarhjálp heldur var áherslan á því að þessir heimshlutar gætu ekki komist af hvor án annars þannig að það samstarf byggðist á gagnkvæmni. En það er kunnara en frá þurfi að segja að þróunin varð fljótlega til þess að það lá ljóst fyrir að Oreja og Jung höfðu haft rétt fyrir sér. Það má segja að þeir hafi séð fyrir þá þróun sem síðar varð. Þeir höfðu heimsótt Austur-Evrópuríkin, átt viðtöl þar við ráðamenn, og lögðu á það mikla áherslu að Evrópuráðið yrði með einhverjum hætti opnað betur fyrir samstarfi við þessar þjóðir.
    Á sl. vori fór fram kosning nýrra forustumanna, þ.e. framkvæmdastjóra eða aðalritara, eins og hann er raunar kallaður, og þingforseta. Sem framkvæmdastjóri var valin Catherine Lalumiere sem var franskur þingmaður og hafði verið virk í ráðinu, m.a. talsmaður pólitísku nefndarinnar. Hún er sósíaldemókrati, eða var áður en hún tók við þessu starfi. Mér skilst að í svona starfi sé maður ekkert pólitískur. Hún verður kannski sósíaldemókrati aftur þegar hún hættir að vera framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.
    Ég get ekki sleppt því að minnast á að mér þótti, sérstaklega fyrst þegar ég kom á fund í Evrópuráðinu, að þar væri afar grá karlasamkoma, en Catherine Lalumiere var ein af þeim sem forðuðu þeirri samkomu frá því að vera algrá. Bæði hún og svo hinn nýi þingforseti hafa fetað dyggilega í fótspor fyrirrennara sinna og beitt sér af alefli fyrir því að virkja Evrópuráðið sem allra best í hinu nýja pólitíska hlutverki. Hinn nýi þingforseti er hægri maður frá Svíþjóð, Anders Björck, og hann hafði verið formaður hóps íhaldsmanna á Evrópuráðsþinginu. Hann hefur einnig mjög beitt sér í samskiptunum við Austur-Evrópu, m.a. heimsótti hann bæði Ungverjaland og Austur-Þýskaland, svo og Pólland, nú í vetur, á þessu ári, og það liggur fyrir að hann mun heimsækja öll Austur-Evrópuríkin sem hafa leitað eftir samvinnu við Evrópuráðið.
    Þeir atburðir sem sérstaklega mörkuðu spor á þessu sviði og sýndu okkur hver opnun var að verða hófust að segja má í maí sl. á 40 ára afmælisþingi ráðsins þegar Lech Walesa tók við mannréttindaverðlaunum Evrópuráðsins svo og forvígismenn

mannréttindahreyfingarinnar sem kennd er við Helsinkisáttmálann. Bæði Lech Walesa og forustumenn mannréttindahreyfingarinnar áttu viðræðufundi við pólitísku nefnd Evrópuráðsins sem reyndar var ekki aðeins pólitíska nefndin heldur einnig stjórnarnefndin og nefndin sem fer með málefni ríkja utan ráðsins, svo og aðrir þeir þingmenn ráðsins sem vildu vera viðstaddir. Skemmst er frá því að segja, og það veit ég að þeir íslensku þingmenn sem þarna voru bera með mér, að þarna var einhver áhrifaríkasti fundur sem við höfðum setið í langan tíma. Við höfðum á tilfinningunni að þeir gestir okkar sem þarna voru hefðu í huga að þeir væru að heimsækja vini eða ættingja sem þeir hefðu ekki séð áratugum saman ( HJ: Væru komnir heim.) --- væru komnir heim, eins og hv. þm. Hreggviður Jónsson, sem þarna var staddur, segir, og það er rétt.
    Það sem mér er minnisstæðast frá þessum fundi var að Lech Walesa lauk máli sínu á að segja: ,,Ég bið ykkur að hjálpa okkur. Þið megið til að hjálpa okkur. Við þurfum ekki fyrst og fremst efnahagslega aðstoð. Við þurfum pólitískan stuðning ykkar.`` Og það var þetta sem var lykilatriðið. Það var stuðningur í þeirri mannréttindabaráttu sem þessir forvígismenn höfðu staðið í. Það var tákn þessara tíma þegar mannréttindaverðlaunin voru afhent í hinum stóra þingsal Evrópuráðsins og þeir sem verðlaunin hlutu fluttu þar ávarp að fram kom hjá talsmanni mannréttindahreyfingarinnar að ætlunin hafði verið að Václav Havel flytti ávarp fyrir þeirra hönd. Hann varð að útskýra að Havel gæti því miður ekki verið viðstaddur, því að hann sat einmitt þá í fangelsi vegna andófs síns við stjórnvöld í landinu. Og hvern hefði grunað, þegar þetta gerðist, að fáum mánuðum síðar væri sá hinn sami Havel orðinn forseti lands síns? Þetta er e.t.v. það sem mest er lýsandi fyrir það sem gerst hefur á þessu ári.
    Það varð skammt til næsta stórviðburðar í samskiptum við menn frá Austur-Evrópu, en það var einmitt að Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, hafði látið það í ljós að hann vildi gjarnan heimsækja Evrópuráðið þegar hann færi í heimsókn til Frakklands. Hann ætlaði að heimsækja starfsbróður sinn Mitterrand og vildi nú koma til Strasborgar í bakaleiðinni. Það var ekki einungis að hann vildi hafa þar eins konar áningarstað heldur flutti Gorbatsjov mikilvæga ræðu á þingi Evrópuráðsins sem var haldið í Strasborg gagngert í þessu tilefni. Raunar hafði á þessum tíma átt að halda sumarþing Evrópuráðsins í Innsbruck í Austurríki en það var flutt til Strasborgar vegna þessa og á fundi í ,,sameinuðu þingi``, ef svo má segja, var ræða hans aðalefnið. Að öðru leyti voru fyrst og fremst nefndafundir í tengslum við þetta þing. Gorbatsjov ræddi í þessari ræðu sinni um framtíðarþátttöku Sovétríkjanna í Evrópuráðinu og hugsanlegt sendiráð þeirra í Strasborg.
    Ég vil ljúka umfjöllun um þetta sumarþing einungis með því að segja að það er von mín að mönnum haldist á þeirri bjartsýni sem þarna vaknaði hjá mönnum.

    Þriðji hluti Evrópuráðsþingsins var haldinn í september sl. Þar bar það til tíðinda að því er varðaði samskiptin við Austur-Evrópu að þingið sátu gestasendinefndir frá Ungverjalandi, Póllandi, Sovétríkjunum og Júgóslavíu. Um sumarið hafði verið samþykkt að koma á fót sérstakri gestaaðild til þess að efla tengsl við þing þessara landa í Mið- og Austur-Evrópu. Eins og hv. þm. vita þurfa ríki, til þess að öðlast aðild til frambúðar, að uppfylla tiltekin skilyrði, m.a. það að lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag sé í landinu, frjálsar leynilegar kosningar og fjölflokkalýðræði.
    Ég mun ekki telja upp, frú forseti, einstakar samþykktir ráðsins, heldur vísa til Evrópuráðsskýrslunnar. Ég mun halda áfram að víkja að því sem ég tel hafa þýðingu í sambandi við samskipti Evrópuráðsins og Austur-Evrópuþjóða, svo og samskipti ráðsins við önnur alþjóðabandalög. Á haustþinginu fluttu ávörp Jacques Delors, títtnefndur formaður ráðherranefndar Evrópubandalagsins, og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, sem var Stoltenberg, utanríkisráðherra Noregs, og einnig títtnefndur og hérverandi hæstv. utanrrh. Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, sem var þáverandi formaður EFTA-ráðsins. Síðan flutti aðalritari OECD, Jean-Claude Payer, ræðu við þetta tækifæri .
    Þess má geta í þessu sambandi, þegar ég nefni OECD, að í raun og veru er þing Evrópuráðsins eina þingmannasamkundan sem er umræðuvettvangur OECD. Þingmenn frá OECD eru áheyrnarfulltrúar og á hverju þingi er rædd skýrsla frá OECD. Það eru því ekki alltaf eingöngu Evrópumenn þegar fulltrúar OECD eiga í hlut. Á þessu haustþingi var að sjálfsögðu einn höfuðviðburður þess talinn vera ræða formanns EFTA-ráðsins. Í framhaldi af því var síðan umfjöllun um samstarf EFTA og Evrópuráðsins, svo og þessara þriggja samtaka, Evrópuráðsins, EFTA og Evrópubandalagsins.
    Fjórði hluti þingsins var svo haldinn í janúar sl. Áður en ég vík að honum langar mig til að skýra frá fundum í sams konar nefndum og ég gat um áðan þegar Walesa kom í heimsókn til ráðsins, fundum þar sem þeir komu til viðræðu við hina pólitísku nefnd ráðsins, einn og einn í senn, utanríkisráðherrar Póllands, Tékkóslóvakíu og Ungverjalands. Þessir fundir áttu það sammerkt með fundinum með Walesa að það kom mjög greinilega fram hve mikið þessum ráðamönnum var í mun að breyta því kerfi hafta og ófrelsis sem þeir bjuggu við, hve mjög þeim var í mun að breyta yfir til meiri mannréttinda og meira frelsis í atvinnumálum og viðskiptum, taka upp markaðskerfi og þjálfa fólk til þess að sinna ýmiss konar einstaklingsfyrirtækjum og einkarekstri.
    Það kom einnig fram í máli þessara ráðamanna að þeir höfðu allir í huga að vinna að því að stjórnarfyrirkomulag landa þeirra og þátttaka almennings í ákvörðunum yrði með þeim hætti að þeir uppfylltu skilyrði til þess að taka þátt í samstarfi Evrópuráðsríkja og stefndu að því að verða þar aðilar.
    Nú í janúarmánuði settu auðvitað mestan svip á

þingið ræður forsætisráðherra Ungverjalands og Póllands og auk þess mikil umræða um þróunina í Mið- og Austur-Evrópu. Pólski forsætisráðherrann tilkynnti að hann mundi þá formlega sækja um fulla aðild að Evrópuráðinu fyrir hönd lands síns en ungverski
ráðherrann hafði gert það í nóvembermánuði og þess vegna eru þau mál nú þegar til umfjöllunar í ráðinu. Þegar slík aðildarumsókn liggur fyrir hefst vettvangskönnun, ef ég má svo segja, af hálfu Evrópuráðsþingmanna. Sérstök nefnd er sett á laggirnar til þess að kanna stjórnarfar og löggjöf þess lands sem í hlut á og gefa síðan skýrslu og gera tillögu um hvort af aðild geti orðið að sinni eða hvort einhver meinbugur sé á.
    Ekki má gleyma að geta þess, frú forseti, að í nóvembermánuði kom til umræðu hið nýja andrúmsloft í Þýskalandi eftir að Berlínarmúrinn hafði verið rofinn. Allar þær hugmyndir sem þá komu upp og voru hjá mörgum mjög óvæntar og spurningar ýmiss konar vöknuðu um hvernig þróunin yrði í framhaldi af þessum gleðilega viðburði. Það þarf ekki að orðlengja það að þarna var um að ræða einhvern mesta gleðiatburð sem menn gátu hugsað sér í sögu Evrópu. Um leið var mönnum ljóst að á þjóðfélögum austur þar þurftu að verða ýmsar breytingar sem yrðu ekki á einum degi. Menn þurftu líka að horfast í augu við vanda sem þyrfti að leysa um leið og það nálgaðist að sameining Þýskalands kynni að standa fyrir dyrum. Það er enn eitt lýsandi dæmi um hina hröðu þróun mála að á þessum tíma þegar þetta gerðist töldu þeir sem best voru taldir að sér í málefnum Þýskalands, þaulreyndir þýskir stjórnmálamenn, þeirrar skoðunar að ekki væri rétt að hrapa að neinu og síst að sameiningu Þýskalands, það gæti orðið er fram liðu stundir, að mörgu þyrfti að hyggja áður. En staðreyndin varð sú að hinn mikli þrýstingur sem varð þegar þessar flóðgáttir opnuðust í Austur-Þýskalandi, hinn mikli þrýstingur sem varð þegar innibyrgð frelsisþrá fékk útrás varð til þess að ekki varð hjá því komist að halda frjálsar kosningar í landinu og leyfa fólkinu sjálfu að ákveða um framtíð sína og það miklu fyrr en ella. Og flestir kusu sameiningu Þýskalands.
    Mig langar til þess á þessu stigi að víkja nokkrum fleiri orðum að málefnum Austur-Þýskalands því að ég held að þau geti ráðið miklum örlögum í Evrópu. Þegar það varð ljóst að fyrir dyrum stæðu kosningar í Austur-Þýskalandi og Austur-Þýskaland hafði sótt um aðild að Evrópuráðinu voru viðbrögð Evrópuráðsins þau að tryggt yrði að vera að þær kosningar færu fram með lýðræðislegum hætti og gætu leitt til eðlilegs fjölflokkakerfis. Í framhaldi af því gerðist það að forseti austurþýska þingsins, Maleuda, bauð tíu manna sendinefnd frá Evrópuráðsþinginu að koma og fylgjast með þessum fyrstu frjálsu kosningum í þýska alþýðulýðveldinu. Niðurstaðan varð sú að í þessa nefnd fóru þingmenn frá pólitísku hópunum á þinginu. Voru þrír úr hópi sósíaldemókrata, tveir frá næstfjölmennustu hópunum,

demókrötum eða íhaldsmönnum, kristilegum demókrötum og frjálslyndum, og einn frá fámennasta hópnum, sem heitir kommúnistar og félagar, ef ég má þýða það svo á íslensku.
Forvígismaður þess hóps kallar sig formann ,,Communists and allied`` ef ég má vitna í það skjal sem ég hef hér undir höndum og ég veit satt að segja ekki, frú forseti, hvort það eru fleiri í þeim hópi en þessi formaður. Ég væri satt að segja ekki hissa þó svo væri ekki. En hvað um það, ég hef góða von um að þessi umræddi formaður sé nú óðum að hrinda kommúnismanum af höndum sér eins og fjölmennari hópar hafa gert. En þetta var lítið innskot.
    Það atvikaðist svo að íslenskur þingmaður, sú sem hér stendur, átti þess kost að vera í nefndinni sem fór til Austur-Berlínar til þess að fylgjast með kosningunum. Mig langar til þess í þessari ræðu að greina örlítið frá því vegna þess að ég tel að það samstarf sem þar átti upphaf sitt geti skipt verulegu máli fyrir áframhaldandi samstarf milli Evrópuráðsins og Austur-Evrópuríkjanna. En þessi leiðangur var hinn fyrsti sinnar tegundar af hálfu Evrópuráðsins til Austur-Evrópuríkis.
    Þegar boð austurþýska þingforsetans kom var það orðað svo að nefndinni væri boðið að koma til þess að fylgjast með því að kosningarnar yrðu leynilegar, persónulegar, lýðræðislegar og fjölflokkakosningar. Við töldum það skyldu okkar að hafa samband við eins marga forustumenn stjórnmálaflokka og við gátum. En stjórnmálaflokkarnir voru 24, hvorki meira né minna. Við áttum fundi fyrir kosningarnar með 25 fulltrúum frá 13 framboðslistum, tíminn leyfði ekki meira. Tilgangur okkar var sá að kanna hvort þessir framboðslistar og fulltrúar þeirra hefðu haft öll þau tækifæri sem hægt er að krefjast í lýðræðisríkjum til þess að kynna stefnu sína, flokka og framboð.
    Nú var það svo að framboðsfresturinn var allt að því óeðlilega stuttur. En þó ekki styttri en svo að unnt var að koma öllu því sem þurfti til skila með formlegum hætti en ýmsum reyndist fresturinn nokkuð stuttur til þess að kynna að einhverju gagni stefnu sína og frambjóðendur.
    Skýringar voru á því hvað fresturinn var stuttur. Það hafði staðið til að hafa kosningarnar 13. maí en þegar sýnt var í janúarmánuði að á degi hverjum fóru um 2000 austurþýskir borgarar út úr landinu var ljóst að það hafði alvarlegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf og þjóðlíf í landinu. Því var það að gerð var sú neyðarráðstöfun að flýta nýjum kosningalögum og færa kosningarnar fram um tvo mánuði svo þær voru haldnar 18. mars.
    Í Austur-Þýskalandi hafði hver viðburðurinn rekið annan í frelsisbaráttunni frá því er hún komst í algleyming á haustdögum. Kirkjan skaut skjólshúsi yfir
þá stjórnarandstæðinga sem börðust fyrir auknu frelsi og meira lýðræði og auknum mannréttindum. Smátt og smátt, eftir því sem leið á veturinn, opnuðust möguleikar til þess að tjá sig og hafa áhrif án þess að eiga yfir höfði sér grimmilegar aðgerðir af hendi

valdhafa. M.a. var komið á fót því sem kallað var hringborðið, sem varð vettvangur þar sem stjórnarandstæðingar og stjórnarsinnar gátu skipst á skoðunum og gert ýmiss konar málamiðlanir. Með öðrum orðum við hliðina á þinginu þar sem sósíalistaflokkurinn, arftaki kommúnistaflokksins og raunar kommúnistarnir sem enn voru við völd, þar sem þeir voru allsráðandi og vissir aðrir flokkar með öðrum nöfnum höfðu verið í þeirra skjóli. Þessir aðilar voru ekki einráðir lengur því að valdhafar féllust á það, eftir að Honecker hrökklaðist frá völdum og í kjölfar hans Egon Krenz, að upp var tekið raunverulegt samstarf milli aðila við hringborðið og ríkisstjórnar og gerðar samþykktir um það hvernig haga skyldi m.a. frjálsum kosningum. Sú þróun sem þarna varð varð með þeim hætti að óhætt er að fullyrða að það var þetta sem varð til þess að afstýra því að byltingin í Austur-Þýskalandi yrði blóðug bylting. Ég held að öllum beri saman um að það var þetta sem afstýrði því.
    Þegar Evrópuráðsnefndin hafði rætt við fulltrúa og forvígismenn 13 framboðslista endaði nefndin á því að eiga viðræður við fulltrúa kirkjunnar og einmitt þann sem var formaður hringborðsins, ef svo má nefna, séra Ducka. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa átt þess kost einhvern tímann að sjá í sjónvarpi fundi hringborðsins svonefnda sem oft voru haldnir í Dresden. En þessi prestur sagði við okkur: Þið undrist það kannski að þeir sem voru á oddinum í haust, þeir sem leiddu byltinguna, þeir sem komu henni af stað, þeir eru ekki í fremstu víglínu núna á framboðslistum í kosningunum. Það eru ekki þeir sem munu taka við völdum. Og við spurðum: Hvers vegna? Við fengum svarið: Það hefði e.t.v. átt að stofna úr þessu stjórnmálaflokk en niðurstaða okkar varð sú, þegar það var fengið að það yrðu frjálsar kosningar, þá hefði hringborðið náð tilgangi sínum. Og þegar við sáum, sagði séra Ducka, að nú getur fólkið með eigin afli og vilja ráðið því hverjir fara með völd í landinu án afskipta stjórnvalda þá er það fólksins sjálfs að taka við. Við höfum greitt þeim götuna, við höfum opnað dyrnar fyrir þeim og nú vonum við einungis að gæfan fylgi þeim sem völdin fá í hendur.
    Það er ljóst að kirkjan var skjól og skjöldur þeirra sem áttu ekki í neitt hús að venda í sókn sinni til mannréttinda í Austur-Þýskalandi. Í því tilviki var það fyrst og fremst lúterska kirkjan en hún varð samt ekki eins leiðandi í þessu starfi eins og kirkjan í Póllandi því að kaþólska kirkjan þar á sér enn sterkari rætur í hugum fólks með einhverjum hætti og er enn áhrifameiri meðal almennings. En engu að síður skipti kirkjan verulegu máli í þessu sambandi og gegndi reyndar lykilhlutverki á tímabili. Séra Ducka var spurður: Hvaða hlutverki munið þið þá gegna í stjórnmálunum eftir þetta? Því að vitað var að ekki hafði verið mikið um kirkjulega starfsemi í Austur-Þýskalandi kommúnismans. Hann svaraði: Við munum eins og hingað til annast útbreiðslu kristindóms og sálusorgun, bæði fyrir þá sem eru sárir, sem bera sár vegna ofsókna sem þeir hafa orðið

að þola og líka vegna hinna sem bera sár vegna þess að þeir hafa veitt samborgurum sínum sár. Þetta hlutverk sem presturinn, sem hafði verið stjórnmálaleiðtogi í alla þessa mánuði, talaði um var sannarlega ekkert smáhlutverk því það sem hann hafði í huga var ekki síst hin fjölmenna austurþýska öryggislögregla og öll þau mein og allt það samviskubit, allur sá vandi og öll þau sárindi sem í hugum fólks var út af þeirri starfsemi.
    Það var athyglisvert þegar forustumenn framboðslistanna gerðu grein fyrir stefnumálum sínum að þeir stefndu allir að heita má að sameiningu Þýskalands, mismunandi fljótt þó. Nokkrir þeirra voru viðkvæmir fyrir því að sú sameining væri kölluð endursameining, eða sameining á ný, því að það var svo að nokkrir stjórnmálaflokkanna sem þarna áttu hlut að máli og þó einkanlega PDS, stjórnarflokkurinn, taldi Vestur-Þýskaland til útlanda. Aðrir flokkar lögðu á það áherslu að Vestur-Þýskaland væru engin útlönd, þetta væri ein og sama þjóðin og auðvitað eigum við að vera eitt og sama landið, sögðu þeir.
    Þessari kosningabaráttu, sem við spurðum mjög um hvernig fram hefði farið, lauk þannig á síðustu dögum að allir framboðslistar höfðu fengið tiltekinn tíma í sjónvarpi. Þeir höfðu ekki haft framboðsfundi í venjulegum skilningi en um það spurðum við. Þeim varð á að hlæja þegar við spurðum hvort þeir mættu andstæðingum sínum á opnum fundum. Sú var ekki raunin, en það var hins vegar nýtt að menn gátu tjáð sig opinberlega og á útifundum og talað, sagt meiningu sína af hjartans lyst. Þessari kosningabaráttu lauk á föstudagskvöldi og kosið var svo á sunnudegi. Við fylgdumst með kosningunni sjálfri, en við komum alls á rúmlega 90 kjörstaði eða í 90 kjördeildir vegna þess að við skiptum okkur og fórum tvö og tvö saman í ýmsar áttir í landinu en vorum ekki öll í höfuðborginni. Niðurstaðan af þessum athugunum öllum og aðstöðunni til að kynna sig, svo og fjármögnun kosningabaráttunnar, var sú að þessar kosningar hefðu fullnægt þeim skilyrðum sem við teljum að setja verði til þess að
kosningar teljist leynilegar, frjálsar og lýðræðislegar og leiði til fjölflokkalýðræðis.
    Ég vil gjarnan, frú forseti, ganga frá lítilli skriflegri greinargerð og útbýta meðal þingmanna um þetta mál til að skýra nánar um einstaka flokka en það yrði allt of langt mál í þessari ræðu.
    Nú liggur það fyrir að sams konar starf hefur af hálfu Evrópuráðsins farið fram í sambandi við kosningarnar í Ungverjalandi og veit ég ekki annað en þar sé sams konar niðurstaða. Þegar litið er til þessa er því ástæða til að trúa því í alvöru að almenningur í þessum löndum hafi tekið í taumana, hafi fengið nóg af ófrelsi og yfirgangi kommúnismans og því ómanneskjulega andliti sem hann hefur sýnt og þeirri eymd sem það fyrirkomulag hefur leitt yfir fjölskyldur þessara landa og fólk hefur einfaldlega sagt: Hingað og ekki lengra. Við viljum breyta um kerfi, við viljum auka möguleika fyrir okkur sjálf og fyrir börn okkar. Og við viljum starfa með Evrópu í evrópskum anda.

    Öll þessi bjartsýni er þó undir löngum skugga. Ég get ekki varist því að mér finnast atburðir síðustu daga í Litáen hafa orðið til þess að varpa skugga á þessa gleðilegu þróun. Menn hafa að vísu sagt: Það er unnt að setjast niður og ræðast við um framtíð Litáens. Það gerðist fyrir nokkrum dögum að það var birt mynd á sjónvarpsskerminum af valdhöfum Litáens og fulltrúum hers Sovétríkjanna að ræða um framtíð Litáens. Ef þetta hefðu verið stjórnvöld að ræða við stjórnvöld gegndi öðru máli. En hér voru stjórnvöld að ræða við herforingja með skriðdrekana fyrir utan inni í miðri höfuðborginni og þeir voru að ræða við fulltrúa hers sem var búinn að leggja undir sig allar meiri háttar opinberar byggingar í borginni nema þinghúsið og e.t.v. stjórnarráðið. Það má ef til vill kalla að það sé ekki beitt hervaldi nema skotið sé af fallbyssum eða einhverjir týni lífi. En ég kalla það að beita hervaldi að fara með skriðdreka inn í höfuðborg lands og leggja undir sig opinberar byggingar og segja svo: Nú skulum við semja. Og á meðan á þessu gengur sendir forseti Litáens ákall til lýðræðisríkja í Vestur-Evrópu, til lýðræðisríkja sem eru mánuðum saman búin að telja sig og tjá sig fús til þess að rétta Austur-Evrópuríkjum höndina, að
starfa með þeim, að opna dyr stofnana sinna og verða þeim að liði og leiðbeiningu í nýrri tegund starfsemi, þ.e. í lýðræðislegri starfsemi sem leiðir til mannréttinda einstaklinga. Á meðan á þessu gengur er daufheyrst við þessu kalli.
    Vissulega má segja að mörg þessara ríkja viðurkenndu aldrei innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin, ekki þegar hún varð og þau meira að segja mótmæltu henni sum. En síðan er mikið vatn runnið til sjávar. Síðan hafa samskipti farið fram við Sovétríkin að meðtöldum Eystrasaltsríkjunum og enginn minnst á það sérstaklega að þau væru hvað sem tautaði sjálfstæð ríki, ekki þeir sem áttu skipti við þau. Og það má líka vera að menn geti vitnað til þess nú, árið 1990, að Danir, sem einhvern tíma fyrr á tíð hefðu verið kallaðir danska mamma í þessu sambandi sem hér hefur verið vitnað til þeirra. Vegna þess að Danir viðurkenndu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna 1921 þurfa Íslendingar ekki að gera það í dag --- er efnislega viðhorf núverandi ríkisstjórnar Íslands
    Nú má vel vera að unnt sé að færa fram einhver brot af rökum fyrir þessu og segjum svo jafnvel að rökin séu þau að þetta kunni að vera lögfræðilega rétt. En hvað er þá á móti því að land eins og Ísland, að íslenska sjálfstæða ríkið sem fékk sitt endanlega sjálfstæði á þeim tímum þegar ekki var hægt að setjast niður að samningaborði og á þeim tímum þegar við áttum allt undir því að við fengjum viðurkenningu annarra, að við fengjum skilning og viðurkenningu á því að við sóttum rétt okkar í söguleg rök, við byggðum á sögulegum og menningarlegum rétti rétt eins og Litáen. Og við fengum viðurkenningu frá mörgum ríkjum og við fögnuðum því. En núna, við sem fengum fullt sjálfstæði 1944 frá Dönum, sem höfðu viðurkennt sjálfstæði Litáens 1921, við fáumst ekki einu sinni til þess að ítreka þá afstöðu, að taka

það sérstaklega fram að við sem sjálfstætt ríki teljum sjálfsagt að viðurkenna sjálfstæði Litáens.
    Og mikil hörmung var að heyra --- ég bið afsökunar, hæstv. forseti, að ég skuli orða það svo --- að heyra hæstv. ráðherra ríkisstjórnar okkar bera þetta saman við afstöðu Bandaríkjamanna eða það hvort Bandaríkjamenn viðurkenni eða viðurkenni ekki. Auðvitað finnst okkur að þeir hefðu átt að gera það, en hvað um það, þetta er þeirra ákvörðun. Við erum ekki Bandaríkin. Við erum sjálfstætt, íslenskt ríki sem skiljum það hvað er að vera undirokaður og þurfa frelsi til þess að efla velsæld í landi sínu. Við þurfum ekki annað en að hugsa svolítið um hvað okkur var kennt í Íslandssögu þegar við vorum ung og hvað við erum að kenna krökkunum okkar í Íslandssögu til þess að sjá að þetta er gersamlega augljóst mál. Ég get ekki að því gert að mér þykir þessi afstaða hæstv. ríkisstjórnar heldur heimóttarleg. Þess vegna er ég hjartanlega fegin því að hv. utanrmn. og Alþingi allt samþykkti það strax á fyrsta fundi eftir að við fréttum um sjálfstæðisyfirlýsingu Litáens að senda þingi þess lands kveðjur, óska eftir góðu samstarfi við það og árna þinginu heilla í tilefni af
þessari ákvörðun. Ég vonast þess vegna enn þá til þess að hæstv. ríkisstjórn fallist á þá hugmynd sem sett er fram í þáltill. sem borin er fram af hv. 1. þm. Suðurl. og nokkrum öðrum þingmönnum þannig að við höfum sóma af. Mér þykir það vera líkast því sem við séum að hlaupast undan merkjum að geta ekki rétt fram höndina með þessum hætti.
    Eða hvað skyldi hæstv. ríkisstjórn vilja gera ef það verður næstu daga, sem sagt er að allar horfur séu á, að Eistlendingar muni líka lýsa yfir sjálfstæði. Það er alveg ljóst að Eistlendingar hafa stigið hvert skrefið af öðru og sérstaklega nú í vetur í þá átt að afla sér sjálfstæðis. Og þar í landi hefur farið fram mikil barátta fyrir því að efnahagslíf í Eistlandi geti orðið óháð Sovétríkjunum þannig að hægt sé að virkja getu og þekkingu einstaklinga þar í landi til þess að sjá um atvinnustarfsemina. Til þess að þeir fái að finna hvers virði það er að bera í senn ábyrgð og sjá afrakstur af störfum sínum og fá hvatningu eins og í frjálsu markaðsefnahagslífi. En það er ljóst að það er þetta sem Eistlendingar hafa verið að vinna að. Og þess vegna getur það mætavel farið svo að upp komi sams konar staða þar í landi.
    Nú legg ég ekki dóm á það hvar Gorbatsjov stendur í þessu munstri. Það er ljóst að skriðdrekar komu inn í miðja Vilnius. Það er líka ljóst að Gorbatsjov hefur sannarlega stutt með ýmsum hætti þær hugmyndir fólks að sækja til aukinna mannréttinda, að breyta starfsemi sinni í þá átt sem gerist hér á Vesturlöndum. Ég er þeirrar skoðunar að Gorbatsjov hafi átt stóran hlut ef ekki stærstan í því að efla með mönnum kjark til þess að berjast fyrir þessum hugmyndum sem svo lengi hafa verið barðar niður hjá borgurum þessara landa. Hitt er svo annað mál að það er erfitt að gera sér grein fyrir því hver staða hans er meðal annarra valdhafa Sovétríkjanna. Vissulega hefur hann fengið mikið vald og aukið vald

undanfarið, en engu að síður þegar litið er til þeirra atburða sem orðið hafa í ýmsum Austur-Evrópuríkjum má eins vel ætla að púðurtunnur finnist meðal almennings í Sovétríkjunum eða í miðstöð þess stórveldis.
    Þess vegna held ég að það hafi alls ekki hættu í för með sér gagnvart Gorbatsjov eða Sovétríkjunum að Eystrasaltsríki fái stuðning Vesturlanda í sjálfstæðisviðleitni sinni, m.a. viðurkenningu Vesturlanda og það þess heldur ef um er að ræða smáríki eins og Ísland sem hefur þó allar ástæður til þess að sýna þessu sérstakan skilning vegna sögu sinnar. Ég er þeirrar skoðunar ef Eystrasaltsríkin gætu vitnað til slíks pólitísks stuðnings, vitnað til þess að þau hefðu fengið siðferðilegan stuðning frá löndum sem ættu sér sögu, sem hefur orðið til þess að auka skilning á þessum aðstæðum. Ég held að slíkt gæti einmitt orðið til þess að valdhafar í Sovétríkjunum og þá sérstaklega Gorbatsjov sæju að það er raunverulegur kraftur í þeim skoðunum á Vesturlöndum sem hafa að leiðarljósi frjálst efnahagslíf og mannréttindi í réttarríki. Ég hygg að það sé miklu sterkara, líka gagnvart Sovétríkjunum og það auðveldi valdhöfum þar að skýra það fyrir starfsbræðrum sínum og systrum að á slík tilmæli verði að fallast ef þeir ætli sér að halda áfram með glasnost og perestrojku.
    Hæstv. utanrrh. kann að telja þessar skoðanir léttvægar vegna þess að þær hafa ekki leitt til þeirrar niðurstöðu sem ég er að tala um, a.m.k. í öðrum ríkjum. En ég segi það enn og aftur, aðstaða okkar hér á Íslandi er önnur og saga okkar er önnur. Og við eigum lítils skjóls að vænta í veröldinni ef við eigum ekki samstarf og viðurkenningu vísa hjá þeim þjóðum sem líkt hugsa og við. Þess vegna langar mig til að ljúka þessum orðum mínum á því að vitna til orða finnsks þingmanns í greinargerð um Eystrasaltsríkin: ,,Frelsi ríkja felst ekki í einangrun. Frelsi ríkja felst í því að vera fullgildur aðili í samstarfi frjálsra ríkja og ríkjabandalaga.``