Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Jóhann Einvarðsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. hefur lagt hér fram skýrslu um utanríkismál og fylgt henni úr hlaði með ítarlegri ræðu. Skýrsla þessi er vel úr garði gerð og hefur að geyma ýmsar gagnlegar upplýsingar um stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum, svo og mikinn fróðleik um ýmis alþjóðamál. Ég mun ekki fara nema lítillega yfir skýrsluna en drepa þó á nokkur atriði.
    Það eru miklir stormar og miklar sviptingar í hinum alþjóðlega, pólitíska heimi núna þessa dagana og þessar vikurnar og ekki síst í austanverðri Evrópu. Miklar breytingar eiga sér nú stað í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra og svo er komið að ýmis lýðveldi Sovétríkjanna hafa óskað eftir og tilkynnt um sjálfstæði sitt. Hljótum við Íslendingar að aðstoða þau ríki af fremsta megni.
    Ýmis ríki Sovétríkjanna, svo sem Georgía og ýmis fleiri, eru grundvöllur efnahags þess ríkis. En efnahagur Sovétríkjanna er nú kannski það mál sem veldur mestum erfiðleikum í allri endurskipulagningu hjá þeim. Af Eystrasaltsríkjunum, Eistlandi, Lettlandi og Litáen, hafa tvö þegar lýst yfir sjálfstæði sínu. Og Alþingi hefur tekið undir þessar ákvarðanir þeirra með því að senda heillaóskir og aðrar kveðjur til Litáens. Ég lít svo á að Alþingi hafi sýnt dug að við skyldum verða fremstir í flokki og fyrst þjóða til að senda skeyti til litáísku þjóðarinnar. Það hefur komið fram í viðtölum sem fulltrúar þess ríkis hafa átt við okkar fulltrúa að það er mikils metið. Hvort nauðsynlegt er að senda síðan formlega áskorun og viðurkenningu frekar en við höfum þegar gert skal ósagt látið núna. Það þarf þó að athuga það þegar lengra kemur í þessu máli því ekki má heldur valda neinum óróa að óþörfu þannig að til annarra og alvarlegri atburða gæti komið.
    Um framtíð Austur- og Vestur-Þýskalands er það að segja að ég held að allir hljóti að vera sammála um að það styttist mjög í að þau tvö ríki verði sameinuð. Við sameiningu þessara tveggja ríkja verður mikil breyting á valdajafnvægi í Evrópu, svo mikil að á fundum sem ég hef setið, t.d. hjá þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsríkjanna, og þar hafa verið fulltrúar frá Sovétríkjunum, hafa menn velt miklum vöngum yfir því hvaða áhrif þetta hefur, bæði á viðskiptalega og pólitíska framtíð Evrópu. Nú er svo komið að menn láta sér jafnvel detta í hug að slík staða gæti komið upp að Rússar mundu líta á það með velvilja að bandarískur her yrði áfram í Þýskalandi vegna framtíðarinnar.
    En það hefur líka komið fram á þessum fundum að Frakkar, sem sögðu sig úr hernaðarsamvinnu NATO-ríkjanna fyrir nokkuð mörgum árum síðan, eru þegar farnir að ræða þann möguleika að þeir muni óska eftir því að aðild þeirra verði tekin til endurskoðunar og NATO-her verði staðsettur á franskri grundu, m.a. vegna forsögunnar og ýmissa vangaveltna um framtíð og hvaða áhrif sameining þýsku ríkjanna hefur.

    Sama má segja um Suður- og Mið-Ameríku. Þar hafa miklar breytingar átt sér stað á síðustu vikum og mánuðum. Er nú svo komið að sennilega er það einungis á Kúbu sem í dag er forseti eða þjóðarleiðtogi sem ekki er kosinn í frjálsum lýðræðislegum kosningum. En ég ætla ekki að fara mjög ítarlega út í hin stórpólitísku heimsmál. Þeim eru gerð ítarleg skil í skýrslu hæstv. utanrrh.
    Sama segi ég um viðræðurnar milli EB og EFTA og það starf sem við höfum leitt á síðari hluta sl. árs og tökum að sjálfsögðu þátt í af fullum krafti enn innan EFTA. Ég er sammála þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur sett sér í þeirri vinnu. Ég tel að við náum meiru fram í gegnum EFTA-samvinnuna heldur en við gerðum einir í tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið þó svo að ég telji sjálfsagt að ríkisstjórnin haldi því áfram sem hún er þegar með í gangi, eins og fram kom hjá hæstv. sjútvrh. hér áðan, að hafa óformlega tvíhliða viðræður. Það mun að sjálfsögðu koma í ljós hvor leiðin verður árangursríkari í lokin en sjálfsagt er að halda þeim báðum opnum.
    Hv. 14. þm. Reykv. flutti allítarlega skýrslu um aðild Íslands að NATO og þingmannasamtökum NATO-ríkjanna. Er í sjálfu sér ekki mörgu við það að bæta. Það er þó ljóst að tilvera NATO í þessi rúmlega 40 ár sem NATO hefur verið við lýði hefur tryggt frið í þessum heimshluta svo að á því getur ekki nokkur vafi leikið. Það kom fram á fundi sem ég og hv. 14. þm. Reykv. tókum þátt í hjá þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsríkjanna fyrir nokkrum vikum síðan í Belgíu, og á þeim fundi mættu líka fulltrúar frá Æðstaráði Sovétríkjanna, að meginmunur á þessum tveimur hernaðarbandalögum er sá, og það sem þeir öfunda okkur kannski hvað mest af, að frá upphafi hefur verið um verulega mikið pólitískt samstarf að ræða milli ríkja Atlantshafsbandalagsins. Það hefur ekki verið um það að ræða hjá Varsjárbandalaginu. Varsjárbandalagið hefur einungis verið hernaðarbandalag og í reynd ekki meira bandalag en svo að það hefur verið rekið frá einni skrifstofu í Moskvu og þaðan er því stjórnað.
    Núna er ljóst að Varsjárbandalagið er að riðlast. Menn búast jafnvel við því að þarna geti orðið um herlaus ríki að ræða sem kannski yrðu eins og hlutlaus ríki í miðri Evrópu sem mundu þá hugsanlega draga verulega úr þeirri spennu
sem hefur verið milli austurs og vesturs. En það sem skortir á hjá þeim er þetta pólitíska samstarf sem hefur verið milli ríkja Atlantshafsbandalagsins. Ég er sannfærður um að framtíð NATO mun ekki breytast svo mjög mikið á næstu árum. NATO-ríkin munu auka pólitískt samstarf sitt og samstarf á öðrum sviðum og trúlega draga eitthvað úr hernaðarlegu samstarfi vegna þeirra breytinga sem verða í heimsmálunum. En ég er sannfærður um það að NATO mun ekki breytast svo mikið að öðru leyti í náinni framtíð.
    Á þessum fundum sem við höfum tekið átt í höfum við reynt að leggja okkar lóð á vogarskálarnar

með það að koma okkar áhugamálum fram. Það hefur fyrst og fremst verið í afvopnunarmálum og þá ekki síst að fá umræður innan þessara samtaka um afvopnun í höfunum og traustvekjandi aðgerðir hjá sjóherjunum. Það er náttúrlega ljóst og þarf ekki að skýra fyrir hv. alþm. að það er mikið hagsmunamál okkar ríkis sem byggir alla sína tilveru á sjávarfangi að ekki verði hér stórkostleg slys, hvorki kjarnorkuslys vegna vopna eða siglinga kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta, og að nauðsynlegt er að vel sé fylgst með slíkum hlutum. Ég verð að segja að miðað við þá starfsemi sem ég hef tekið þátt í, svokallaða undirnefnd hjá pólitísku nefnd þessara þingmannasamtaka, hefur verið mikill vilji á síðustu mánuðum, og hann aukist, að taka ítarlegri þátt í slíkri umræðu. Menn töldu í upphafi þegar byrjað var að ræða þessa hluti að bandarískir þingmenn mundu leggjast af hörku gegn öllum slíkum hugmyndum. Það hefur ekki orðið svo. Á síðasta fundinum sem haldinn var í Róm í október sl. var m.a. bætt inn í þessar samþykktir okkar um traustvekjandi aðgerðir og afvopnun að fá frá viðkomandi ríkisstjórnum stefnuyfirlýsingu eða framtíðaráætlanir þeirra sem gætu hugsað sér að taka þátt í almennri umræðu um afvopnun á höfunum og ýmsa upplýsingaskyldu á þeim vettvangi. Þetta samþykktu m.a. Bandaríkjamenn. Þetta segi ég hér af því sérstaka tilefni að því hefur mikið verið haldið á lofti að útilokað sé að fá Bandaríkjamenn til viðræðna um þessa hluti.
    Hvað út úr þessu kemur skal ég ekki fullyrða á þessu stigi. Núna er verið að safna gögnum og undirbúa vorfund þessara samtaka sem haldinn verður í París í maímánuði nk. Þá kemur í ljós hvaða niðurstaða verður á samstarfi okkar á þessum vettvangi. Það er hins vegar ljóst að öll okkar umræða um að taka afvopnun á höfunum upp byggist á því að þetta sé næsta skref þegar lokið er hinum almennu viðræðum og samningum sem núna fara fram í Vínarborg og menn sjá vonandi fyrir endann á.
    Annað mikilvægt atriði í þessu sambandi sem ég tel að væri rétt og nauðsynlegt að koma á á einhvern hátt er alþjóðlegt samstarf um aðgerðir þegar slys verða, svo sem þegar sovésku kjarnorkukafbátarnir sukku --- annar þeirra sökk en það kviknaði í hinum --- til þess að bjarga því úr hafinu þannig að dregið verði úr hættu á að um mengunarslys verði að ræða af þessu sem yrði náttúrlega mjög alvarlegt fyrir okkur.
    Í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli hygg ég að ekki verði verulega miklar breytingar á næstunni. Ég held að það tvennt valdi því að ekki verði um miklar breytingar að ræða. Vonandi tekst að ná samningum um verulega afvopnun í heiminum. En það samkomulag mun byggjast fyrst og fremst á því að gott eftirlit sé haft með því að menn framfylgi því sem samið er um. Þess vegna held ég að varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli muni fá nokkuð breytt en ekki síður mikilvægt verkefni, þ.e. að sinna þessu eftirlitsstarfi. Þar að auki er mikil nauðsyn vegna flutningaleiðanna að vel sé fylgst með frá stöð eins og

á Keflavíkurflugvelli.
    Það ber brýna nauðsyn til þess, og ég tek undir með hv. 3. þm. Vesturl., að Íslendingar taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Þó það sé vegna fæðar okkar og kostnaðar nokkrum vandkvæðum bundið fyrir okkur að sækja slíkar þingmannasamkomur er nauðsynlegt að við reynum að mæta sem oftast og taka virkan þátt í því starfi sem þar fer fram. Og ég held ég geti fullyrt að núverandi sendinefnd hjá þessum þingmannasamtökum hefur, með fullri virðingu fyrir eldri sendinefndum, tekið mun virkari þátt í starfi og hyggst auka það enn. ( MÁM: Ég mótmæli.) Ég bið fyrrv. forseta þessara samtaka velvirðingar en það er svo langt síðan hann var forseti þarna að ég var næstum búinn að gleyma því að hann hafði verið þar. En ég sagði líka: Með fullri virðingu fyrir fyrri sendinefndum á þessum vettvangi. ( MÁM: Afsökunarbeiðnin er tekin til greina.) Ég þakka þér fyrir, 1. þm. Reykn.
    Af því að ég minntist á Keflavíkurflugvöll vil ég fara örfáum orðum um þá umræðu sem fór fram hér fyrr í vikunni um meintar njósnir á Keflavíkurflugvelli, meintar persónunjósnir, eins og málið var lagt upp þá. Borin var fyrir því frétt í Ríkisútvarpinu sem hafði sínar heimildir úr hinu stóra blaði Washington Post, tveimur greinum sem þar birtust 18. og 19. þ.m. Ég ítreka það sem ég sagði við þær umræður, að í hvorugri þeirra greina er minnst á Ísland nokkurs staðar heldur talað almennt um öryggismálastofnun Bandaríkjanna. Það er líka upplýst af hæstv. utanrrh. að samkvæmt könnun sem hann hefur látið fara fram er ekkert sem bendir til þess að nein tæki séu þarna suður frá sem mögulega séu til þess að nýta við persónunjósnir. Enda
held ég að það væri, eins og einhver góður maður orðaði það, síðasta þjóðfélagið í veröldinni sem ástæða er til að stunda persónunjósnir í því fá þjóðfélög eru opnari en okkar íslenska. Bæði er hægt að segja það um embættismenn og ekkert síður um stjórnmálamenn að alls staðar hafa þeir verið tilbúnir að tjá sig um hlutina þannig að ég efast um að það væri þess virði að eyða miklum fjármunum í persónunjósnir. Hins vegar vil ég taka undir það að ef slíkar njósnir eru stundaðar af þeim suður á Keflavíkurflugvelli og/eða, eins og ég minntist á um daginn, öðrum aðilum, svo sem rússneska sendiráðinu sem er hér mjög stórt og virkt, þá er sjálfsagt að fylgjast með því og grípa þá í taumana svo sem kostur er. En ég hef ekki nokkra trú á því að þetta sé gert, a.m.k. ekki þarna syðra, enda hefur hæstv. utanrrh. staðfest það.
    En eins og ég sagði áðan, hagsmunir Íslendinga lúta ekki aðeins að öryggi hafsvæðanna séð frá hernaðarlegu sjónarmiði, heldur einnig vegna geislavirkra efna, ekki síst vegna slysahættu frá kjarnorkukafbátunum.
    Á undanförnum vikum hefur nokkuð verið rætt um framkvæmdir á vegum Íslenskra aðalverktaka sem unnið hafa fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Ég tel að það væri mjög varhugavert að gera miklar breytingar á þeirri verktakastarfsemi sem fer fram á

Keflavíkurflugvelli. Sú verktakastarfsemi hefur skilað góðum árangri. Mér er kunnugt um að varnarliðið er ánægt með alla samninga sem það hefur gert við Keflavíkurverktaka og Aðalverktaka, en þessir tveir aðilar annast mestallar framkvæmdir þar. Þeir hafa staðið við sína samninga hvað varðar verð, skilatíma verka og annað slíkt. Þess vegna er varhugavert, held ég, að gera þar miklar breytingar á. Ég er hins vegar sammála því að ástæða er til þess að kanna hvort hlutur ríkissjóðs í afrakstrinum gæti ekki orðið stærri en hann er í dag. Ég styð könnun hæstv. utanrrh. á því hvort það gæti náð fram að ganga. En m.a. vegna áhrifa á aðra atvinnustarfsemi á Suðurnesjum þarf að gæta þess að sem minnstar sveiflur séu í framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Þar að auki held ég að til þess að tryggja að forgangur Suðurnesjamanna að verkum á Keflavíkurflugvelli sé sem mestur geti almenn útboð á verkum þar verið mjög hættuleg. Það er því viðbúið að þá kæmu verktakar inn, næðu einstaka verkum, kæmu suður eftir eins og á vertíð og hyrfu síðan fljótt á braut aftur. Það er það stór hópur Suðurnesjamanna sem vinnur þarna suður frá sem hefur verulegar áhyggjur af öllum hugsanlegum stórbreytingum á þessum vettvangi að ég vildi geta aðeins um þetta hér. Hitt er svo annað mál að Íslenskir aðalverktakar ... ( HG: Er ekki um að ræða einhverja aðra verktaka?) Jú, ef það gætu þá verið verktakar sem væru nógu öflugir til að takast á við þessi stóru verk og væru staðsettir suður frá og hefðu sína starfsemi þar. Ég get tekið undir það með hv. þm. Hins vegar ættu Íslenskir aðalverktakar að reyna að deila meiru af sínum undirverktökum á svæðið en gert hefur verið. Og það er rétt sem kom fram á fundi sem ég sat núna fyrir skömmu suður í Keflavík að í reynd hefðu höfuðstöðvar þessa fyrirtækis alltaf átt að vera staðsettar syðra, og eru í raun engin rök fyrir því að hafa þær höfuðstöðvar hér inni í Reykjavík.
    Í sambandi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hefur hvað eftir annað komið upp umræða í þinginu um svokallaðan varaflugvöll. Ég vil bara ítreka þá skoðun mína, sem ég hef látið í ljós áður úr þessum ræðustól, að ég tel það vera á valdsviði utanrrh. að taka ákvörðun um hvort heimiluð verði svokölluð forkönnun á varaflugvelli hér á landi. Á því er ekki nokkur vafi og það getur ekki að neinu leyti talist vera brot á stjórnarsáttmálanum þó að hann, þegar þar að kemur, taki þá ákvörðun að heimila þessa forkönnun. Ég tel að það sé brýn nauðsyn, bæði vegna varnarliðsins eins og það er í dag og vegna þess breytta hlutverks sem ég minntist á áðan að gæti orðið hjá varnarliðinu vegna aukins eftirlitsstarfs væntanlega í kjölfar afvopnunarsamninga sem gerðir yrðu innan ekki langs tíma, að varaflugvöllur sé á öðru veðursvæði en Keflavíkursvæðið er á, til öryggis fyrir þá sem stunda þetta eftirlitsstarf. Það sama gildir að sjálfsögðu líka fyrir millilandaflug okkar Íslendinga. Það hafa orðið miklar breytingar á flugflota Íslendinga og eru að verða. Það er meira farið að fljúga á tveggja hreyfla flugvélum til og frá

landinu og er brýnt að þær hafi annan möguleika til að lenda hér á landi en suður í Keflavík.
    Vegna umræðna sem fóru fram um þetta mál fyrir nokkrum vikum, að nægilegt væri að lengja einhvern af þeim flugvöllum sem við eigum þegar, hvort sem það væri á Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki eða í Aðaldal, vil ég minna menn á það þarf fleira en nógu langa flugbraut til þess að það gagnist sem varaflugvöllur fyrir svo stórar flugvélar, hvort sem það eru herflugvélar sem við erum að tala um eða íslenskar millilandaflugvélar. Þeir sem hafa fylgst vel með á Keflavíkurflugvelli vita að það er mikið verk að halda flugbrautum auðum, eyða hálku og hafa flugvöllinn alltaf tilbúinn við erfiðustu skilyrði. Það krefst mikils mannafla
sem þarf að vera til reiðu þegar veðrabreytingar verða. Öll þessi störf sem ég minnist á núna suður á Keflavíkurflugvelli í sambandi við að halda flugvellinum opnum, auðum og hæfum til lendingar, eru unnin af Íslendingum. Það sama mundi að sjálfsögðu gilda líka á þeim varaflugvelli ef af honum yrði.
    Í sambandi við flugvöllinn vil ég líka minnast á það að við höfum átt mjög gott samstarf og þegar gert vissan samstarfssamning milli íslenskra stjórnvalda og björgunarsveitarinnar á Keflavíkurflugvelli. Þar höfum við notið mikillar aðstoðar þegar á hefur þurft að halda og hafa þeir alltaf verið boðnir og búnir til að hjálpa. Ég hef velt því fyrir mér og reyndar hefur verið lögð fram þáltill. af hv. 3. þm. Austurl. og mér um að kanna hvort unnt væri að koma á alþjóðlegu samstarfi til þess að tryggja veru öflugs björgunarliðs hér vegna þessa mikla flugsvæðis og hafsvæðis sem er í kringum landið. Ég held að það ætti líka, þegar og ef slík könnun fer í gang, að kanna hvort ekki væri unnt að koma á frekari samvinnu við bandarísk yfirvöld á Keflavíkurflugvelli sem hugsanlega gæti leitt til þess að Íslendingar tækju að sér rekstur þessarar flugsveitar að verulegu eða öllu leyti. Þetta þykir kannski fráleitt við fyrstu sýn en ég minni á það að fyrst þegar Íslendingar fóru að starfa í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli þótti alveg fráleitt að ræða um það að Íslendingar tækju við bæði stjórn og starfsmannahaldi hjá slökkviliðinu. En annað hefur komið í ljós og Íslendingar eru þar nú í öllum störfum, háum sem lágum, þó að slökkviliðið tilheyri að sjálfsögðu yfirstjórn varnarliðsins á vellinum. Ég tel því ekki útilokað að Íslendingar gætu tekið að verulegu eða jafnvel öllu leyti við rekstri þessara björgunarþyrla fyrir varnarliðið svipað og við gerum með slökkviliðið. Þótt það væri í smáum stíl til að byrja með mundu Íslendingar öðlast þar mikla reynslu í rekstri slíkra tækja og skipulagi þess starfs sem þar fer fram.
    Í þessu sambandi vil ég minnast á það líka að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum gerðu fyrir allmörgum árum samstarfssamning við slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli, þ.e. slökkviliðið í Sandgerði, brunavarnir Suðurnesja og slökkviliðið í Grindavík,

samstarfssamning sem kveður á um á hvern hátt heimilt skuli vera að kalla til aðstoðar hvor hjá öðrum og hvernig yfirstjórn er við hvert óhapp í hverju tilfelli. Hefur sá samningur tekist mjög vel og verið mjög áfallalaus í öllum rekstri.
    Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er nýreist og nýtekin til starfa suður frá svo sem allir vita, hefur gerbreytt allri starfsaðstöðu vegna farþegaflugs og fragtflugs og í reynd líka komið því fram sem menn vonuðust alltaf eftir og var megintilgangurinn, að skilja að herstarfsemina og hið almenna farþegaflug. Þessi flugstöð hefur að ýmsu leyti reynst mjög vel og mætti að mínu viti auka rekstur hennar með því að koma rekstrinum þar á eina hendi. Nú er öll þjónusta í flugstöðinni rekin af einu flugfélagi sem notar flugstöðina og hinn almenni rekstur flugstöðvarinnar er undir stjórn flugvallarstjórans eða Flugmálastjórnar. Ég tel að allur rekstur flugstöðvarinnar ætti að vera á einni hendi. Á þann hátt væri hægt að gerbreyta heildarrekstrinum og fullreyna möguleika til fjölgunar lendinga á vellinum. Því ég tel að það sé langt í frá fullreynt hvort ekki sé unnt að fjölga lendingum frá því sem er í dag.
    Samkeppnin á milli flugvalla er mikil um þessar mundir, m.a. vegna breytts flugvélakosts eins og ég minntist á fyrr í ræðu minni. Tveggja hreyfla flugvélar eru núna miklu meira notaðar til þess að fljúga yfir Atlantshafið en var áður og við stöndum þar að sjálfsögðu í samkeppni við flugvelli í Skotlandi, Írlandi og víðar. Með því að hafa þetta á einni hendi gætu skapast enn meiri möguleikar á því að taka þátt í þeirri samkeppni en er í dag.
    Menn hafa talað um það og eins og kemur reyndar fram í ríkisreikningnum síðasta ár og í fjárlögum þessa árs fjárvöntun í rekstri flugstöðvarinnar, ef ég man þessa tölu rétt, upp á um það bil 80 millj. kr. Ég vil ekki líta svo einfalt á dæmið. Ég nefni í því sambandi að rekstur Fríhafnarinnar, sem er að sjálfsögðu ríkisfyrirtæki líka, skilaði um eða yfir 100 millj. kr. meiri tekjum á síðasta ári en áætlað var. Ég tel að tekjur ríkissjóðs af rekstri flugstöðvarinnar og ríkisfyrirtækja í flugstöðinni ættu að sjálfsögðu að skoðast í einu ljósi þannig að menn séu að meta það hvort sá rekstur í heild borgi sig fyrir ríkissjóð eða ekki. Það er ekki nóg að taka eina stofnun út úr. Þetta mundi allt einfaldast ef komið á fót einni yfirstjórn á rekstri flugstöðvarinnar.
    Ég mælti áður með því að fullreynt yrði að fjölga lendingum á flugvellinum. Ég er þá fyrst og fremst að tala um farþegaflutninga vegna þess að af þeim má hafa bæði miklar tekjur í lendingargjöldum og þjónustugjöldum, sem þarf þó auðvitað að gæta fyllsta hófs í þannig að við séum samkeppnishæfir, og líka þeim viðskiptum sem farþegar eiga innan flugstöðvarinnar við íslensk fyrirtæki þar. En það sama gildir um vöruflutninga. Það þarf að skapa enn betri aðstöðu fyrir vöruflutninga, bæði að því er varðar útflutning og innflutning og líka vegna umskipunar á milli landa, svokallaðra transit-flutninga. Tollvörugeymslu þarf að sjálfsögðu að koma upp á

flugvallarsvæðinu hið fyrsta. Og í framhaldi af því hlýtur að koma ítarleg könnun og helst framkvæmd á þeim hugmyndum sem uppi hafa verið og m.a. var samþykkt þáltill. um í þinginu, að koma á tollfrjálsu iðnaðarsvæði í nágrenni flugstöðvarinnar.
    Þá held ég að líka beri að kanna hið fyrsta hvort ekki er unnt að koma upp sómasamlegri afgreiðslu fyrir innanlandsflugið þarna suður frá. Ég held að
menn hafi vænst þess að þegar nýja flugstöðin yrði tekin í gagnið gætu a.m.k. farþegar sem færu í þessar fáu ferðir sem eru farnar á þotu milli Akureyrar og Reykjavíkur gengið á milli flugvélar og flugstöðvar innan dyra eins og þeir væru að fara til útlanda. En svo er ekki og er það hönnunargalli út af fyrir sig á þeirri byggingu. Það skapar vissa hættu að hleypa mönnum inn í svokallaðan transit-sal og þess vegna hefur verið farið með fólk annaðhvort í rútu beint út að flugvél eða það látið labba. Nú færist í vöxt að flogið sé beint á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er þegar búið að úthluta sérleyfi þarna á milli. Ég tel því að kanna ætti hið allra fyrsta hvort ekki er hægt að koma upp aðstöðu annaðhvort í sjálfri flugstöðvarbyggingunni eða byggja sjálfstætt afgreiðsluhús fyrir innanlandsflug við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Ég læt þetta gott heita um þessa hluti. Um Norðurlandasamstarfið ætla ég ekki að hafa mörg orð. Það samstarf er orðið mjög umfangsmikið og þó svo að það kosti bæði mikinn tíma og fjármuni að taka þátt í því, en það er stundað bæði af þingmönnum, ríkisstjórn, embættismönnum og ýmsum opinberum stofnunum, held ég að þetta samstarf skili sér að ýmsu leyti bæði fjárhagslega og í ýmsum öðrum atriðum mjög vel fyrir íslenska ríkið. En mér er enn í huga, eins og ég gat um hér í fyrra í sambærilegri tölu, vegna þess hversu umræða á vettvangi Norðurlandaráðs er að færast meira yfir í alþjóðamál og utanríkismál en verið hefur og jafnvel öryggismál, hvort ekki væri rétt að kanna þá tilhögun að málefni Norðurlandasamstarfsins heyrðu eins og önnur utanríkismál undir utanrrn. Ég er þeirrar skoðunar að kanna beri til hlítar hvort það sé ekki rétt. Ég skil viðhorf þeirra sem hafa andmælt því, eins og kom fram í umræðunum í fyrra, en ég vil meina að svo miklar breytingar hafi orðið á þessu samstarfi að rétt sé að taka það til athugunar aftur.
    Að svo mæltu þakka ég að lokum, hæstv. forseti, hæstv. utanrrh. fyrir ítarlega skýrslu og læt máli mínu lokið.