Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Matthías Á. Mathiesen:
    Frú forseti. Um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því að Íslendingar tóku stjórn utanríkismála í eigin hendur, nánast tíu dagar til þess að sú hálfa öld sé liðin. Það hefði því að mínum dómi mátt búast við að sú skýrsla sem utanrrh. hefur nú lagt fyrir Alþingi og hér er til umræðu hefði að geyma venju fremur ítarlega umfjöllun um helstu þætti utanríkismála þessa hálfu öld þannig að tækifæri hefði gefist til þess að ræða þennan mikilvæga málaflokk, skiptast á skoðunum um utanríkisstefnu þjóðarinnar á þessum sögulegu tímamótum.
    Það hefði ekki verið óeðlilegt að gerð hefði verið grein fyrir aðdraganda þess að við tókum utanríkismálin í okkar hendur 10. apríl 1940 og síðan þróun mála, um mótun utanríkisstefnu Íslendinga og þróun í þá hálfu öld sem senn er liðin. Við hefðum sjálfsagt getað virt fyrir okkur og metið hvort við höfðumst rétt að í þeim efnum. Við hefðum líka getað rifjað upp ýmislegt sem sagt hefur verið varðandi einstaka þætti utanríkisstefnunnar þegar utanríkismál hafa verið til umfjöllunar á Alþingi þennan tíma. Það hefði að mínum dómi verið mjög skynsamlegt ef hæstv. utanrrh. hefði hagað sinni skýrslugerð að þessu sinni svo, en það er nú ekki og eru að sjálfsögðu á því skýringar sem ég vík að á eftir.
    Engu að síður hefði ég talið að slík söguleg greinargerð, og með því að leggja sérstaka áherslu á einstaka þætti, hefði getað orðið til þess og verður að sjálfsögðu til þess að vekja athygli þeirra sem síðar meir fjalla um þessa hluti hér á Alþingi, til leiðbeiningar og til þess að meta í sambandi við þá þætti sem þá verða á dagskrá.
    Það voru ekki liðin nema níu ár frá því að Íslendingar tóku utanríkismálin í sínar hendur þar til t.d. Atlantshafsbandalagið var stofnað og lýðræðisflokkarnir bundust samtökum um að gerast aðili að því bandalagi. Að vísu voru brotalamir hjá tveimur af þeim þremur. Sjálfstfl. stóð einn heill og
óskiptur, en sem betur fer hefur frá þessum tíma verið heilladrjúgt samstarf þessara flokka og hafi einhvern tíma einhverjir verið vantrúaðir á það sem þá var gert eru a.m.k. hjá sumum þeirra aðrar skoðanir í dag og vonandi verða þær á þeim sömu nótum framvegis.
    Þegar við erum að ræða þessa skýrslu og það eru senn liðin 50 ár frá því að við tókum utanríkismálin í okkar hendur eru auk þess að gerast mjög þýðingarmiklir atburðir í Evrópu og með þeim hætti að aðdragandi þeirra er næstum því jafnlangur eða hálfur fimmti áratugur frá því að fyrstu hugmyndir í sambandi við það sem er að gerast og sýnist vera að gerast nú voru settar fram af þeim vísu stjórnmálamönnum sem þá höfðu gengið í gegnum þann hildarleik sem síðari heimsstyrjöldin var. Það má í rauninni segja að Evrópa sé í endurfæðingu, og í þessari skýrslu er að vísu vikið aftur til ársins 1815 til þess að finna hliðstæðu í sambandi við þær miklu breytingar sem nú eiga sér stað. En það er ekki bara í efnahagssamstarfi og þróun efnahagsmála í Evrópu

þar sem gerast stórir hlutir heldur er og líka mikið að gerast í Austur-Evrópu þar sem hver þjóðin af annarri losar sig nú undan kúgun og áþján kommúnismans.
    Sú skýrsla sem utanrrh. hefur lagt fram á Alþingi stendur því á engan hátt undir þeim væntingum sem menn höfðu að sjálfsögðu gert í tilefni þess að innan tíu daga er, eins og ég gat um í upphafi, liðin hálf öld frá því að Íslendingar tóku utanríkismálin í sínar hendur. Ráðherrann virðist ekki hafa haft metnað til þess að nýta það tækifæri sem felst í framangreindum tímamótum, skyggnast fram á veginn, virða fyrir sér hvernig skynsamlegast væri að halda á hlutunum og reyna að gera sér og öðrum grein fyrir stöðu Íslands í þeirri þróun sem blasir við í Evrópu um þessar stundir.
    Hver er ástæðan fyrir þessu? Á hana var bent hér í umræðunum í gær. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin er sjálfri sér sundurþykk í utanríkismálunum eins og svo mörgu öðru. Það hefði verið sársaukafullt fyrir ýmsa ef vikið hefði verið að einstökum þáttum og einstökum afgreiðslum utanríkismála hér á Alþingi með sérstöku tilliti til þess hvað nú er að gerast í Austur-Evrópu.
    Full ástæða hefði verið til þess að rifja upp stofnun Atlantshafsbandalagsins sem slíks, það hafa aðrir aðilar gert hér í umræðunum, og þýðingu þess öryggis- og varnarbandalags sem Íslendingar tóku þátt í frá öndverðu og hafa verið traustir samherjar vestrænna þjóða, grundvallað á samstöðu lýðræðisflokkanna í landinu. En það er engin samstaða í ríkisstjórninni um þessa hluti í dag og það er heldur engin samstaða um skýringar á því í ríkisstjórninni hvort það sem gert var var rétt eða ekki. Það er engin samstaða þar um og hér í umræðunum í gær kveinkaði forsrh. sér undan því þegar á það var minnst og hann lagði á það sérstaka áherslu, hvað eftir annað, að hann hefði ekki orðið var við mikinn ágreining í utanríkismálum á milli sín og hæstv. utanrrh., lengra komst hann nú ekki, og á þá að sjálfsögðu við á milli sín og ráðherra Alþfl. Því var hins vegar eins farið í gær og í dag að ráðherrar Alþb. eru ekki hér viðstaddir til að taka þátt í þessum umræðum. (Gripið fram í.) Það er e.t.v. vegna dagsetningarinnar, 30. mars, sem hv. þm. vekur athygli á og er rétt og ég heyri að hann fylgist
alveg með í sambandi við tímann, að þeir vilja ekki vera hér viðstaddir. Hins vegar var ekki 30. mars í gær svo að sú skýring dugar ekki nema þá fyrir daginn í dag.
    Við urðum hins vegar áþreifanlega vör við það í þessum umræðum þegar hv. 2. þm. Austurl. flutti hér alllanga ræðu, fulltrúi Alþb. í utanrrn. þingsins. Það fór ekki fram hjá neinum sem hann sagði hér í þessum efnum og hann staðfesti einmitt það sem hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, hafði sagt, hversu mikill ágreiningur er um þessi mál í núv. ríkisstjórn. Og hann staðfesti það að sjálfsögðu að þessi skýrsla sem slík hefði ekki verið lögð fyrir þá flokka sem styðja ríkisstjórnina. Það er út af fyrir sig ekki hlutur sem er vanalegt að gera. Hitt liggur þó

ljóst fyrir að í skýrslum ríkisstjórna frá því að farið var að gefa slíkar skýrslur hefur það verið metið svo að hér sé um að ræða skýrslu sem samstarfsflokkar utanrrh.
hafa fyrir sitt leyti fellt sig við. Þessi mikli ágreiningur sem er og hefur verið á milli þessara flokka endurspeglast að sjálfsögðu hjá ráðherrunum sem slíkum og hann kom mjög glögglega fram. Og það var að mínum dómi ekkert sem ekki mátti búast við þegar hv. 2. þm. Austurl. flutti sína ræðu hér í gær og gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum sem í flestöllum atriðum voru önnur en sjónarmið t.d. utanrrh. þegar hann talaði hér. Það er út af fyrir sig ekki gæfulegt að þannig sé háttað málum hjá einni ríkisstjórn að í einu þýðingarmesta máli, þ.e. utanríkismálum, sé slíkur ágreiningur sem raun ber vitni.
    Ég vék að því í upphafi að ég hefði talið að hæstv. utanrrh. hefði átt og það verið eðlilegt af hans hálfu að gera miklu ítarlegar grein fyrir þróun mála og samanburði á því með hvaða hætti og hvernig við höfum staðið að hlutum á undanförnum áratugum. Það eru engin sjónarmið sett fram af hálfu ráðherrans að undanskildu þó í varnar- og öryggismálunum en þá kom hv. 2. þm. Austurl. og lýsti sig algjörlega andvígan því sem hér stendur í þessari skýrslu varðandi þau mál. Á bls. 50 stendur, með leyfi forseta:
    ,,Af ofangreindu má ráða að þær breytingar, sem orðið hafa og eru um það bil að eiga sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu, gefi Íslendingum ekki tilefni til að hrófla við því fyrirkomulagi sem þeir hafa stuðst við í öryggis- og varnarmálum undanfarna áratugi. Um varnarstöð Atlantshafsbandalagsins verður fjallað í kaflanum hér á eftir.`` Og hvað segir svo í upphafi þess kafla? Með leyfi forseta:
    ,,Markmið Íslendinga í öryggis- og varnarmálum er að tryggja fullveldi, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar og stuðla að jafnvægi og friði í þessum heimshluta með þátttöku í varnarsamstarfi vestrænna þjóða og vinsamlegum samskiptum við aðrar þjóðir. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 eru grundvöllur öryggismálastefnu Íslands sem byggt verður á nú á tímum örra breytinga á Austur-Evrópu.``
    Hér kemur skýrt fram hvert sjónarmið utanrrh. er. Hér kemur skýrt fram hvernig hann metur þá hluti. En einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar stendur upp og lýsir því yfir að hann sé þessu gjörsamlega ósammála, Ísland eigi að ganga úr Atlantshafsbandalaginu og hér eigi engar stöðvar varnar- og öryggismála að vera og vill á engan hátt fallast á að þetta bandalag hefur átt langstærstan þátt í því hvað nú er að gerast í Austur-Evrópu. Við höfum hlýtt á þingmenn, þá sem kannski hafa ekki verið allt of harðir og ákveðnir, tala um Varsjárbandalag og Atlantshafsbandalag í sama orðinu, tvenn ólík samtök, annars vegar Atlantshafsbandalagið sem öryggis- og varnarbandalag, hins vegar

Varsjárbandalagið til þess að halda í greipum kommúnismans þeim löndum, þeim þjóðum sem Sovétríkin höfðu með valdaráni tekið að lokinni síðari heimsstyrjöld.
    Ísland hefur í vaxandi mæli tekið þátt í þessu samstarfi meðal vestrænna þjóða. Í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þá Geir Hallgrímsson gegndi embætti utanrrh. voru mjög aukin umsvif utanrrn. í því að sinna þessum málum og gera hlutina með þeim hætti að við værum sem allra best færir um að sinna þessum málum og standa að því sem bandalagið væri með á dagskrá hverju sinni.
    Ég undirstrika þetta einfaldlega vegna þess að hér í þessari skýrslu og í umræðum og víða þar sem hæstv. utanrrh. og forsrh. hafa talað hafa þeir gjarnan viljað láta í það skína að það hefðu verið þeir sem hefðu farið að auka þátttöku, auka afskipti og annað eftir því og þar á meðal með því sem þeir kalla tillögum um afvopnun á höfunum, hugmyndir sem settar eru fram í einu orði án þess að menn geri sér grein fyrir því með hvaða hætti þeir hugsa sér að standa að þeim hlutum.
    Ég læt því lokið sem ég vildi segja um þetta atriði og vil þó undirstrika að hér er skýrt kveðið á um áframhaldandi stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum með þeim hætti sem verið hefur. Ég vek hins vegar athygli á því að auðvelt er að finna í þessari skýrslu þar sem um er að ræða frásagnir af hugmyndum hæstv. utanrrh. varðandi frumkvæði Íslands um afvopnun í höfunum en þegar skýrslan er lesin í heild má sjá að þar er verið að þjóna fleiri sjónarmiðum en einu
þannig að það fer ekki alltaf saman og er ekki alltaf samhljóða það sem sagt er í einni setningunni til annarrar.
    Þegar við víkjum að þýðingu Atlantshafsbandalagsins er stutt yfir til þess sem er að gerast í Austur-Evrópu. Hins vegar er í skýrslunni ekki að finna sjónarmið ráðherrans eða mat hans á því hvernig að skuli staðið. Við höfum heyrt um og fylgst með frjálsum kosningum þar eystra og við skynjum vilja Þjóðverja til þess að ná samstöðu og sameinast. Við finnum breytingarnar þegar við komum þangað, og ég verð að segja það eins og er þegar ég fyrir stuttu síðan kom til Tékkóslóvakíu og varð var við þar hversu það hafði glatt þá þjóð að við, Íslendingar, tókum á móti forseta þeirra varð það mjög til þess að auka skilning á því hvert þessi lönd hafa horft og hvar þau hafa séð í raun og veru fyrirmynd að baráttu til þess að öðlast sjálfstæði og komast undan þeirri kúgun sem þau höfðu búið við.
    Hér hafa menn rætt sérstaklega málefni Litáens og hér hafa menn komið og viljað draga úr því sem lagt hefur verið til að samþykkt yrði, þ.e. að við viðurkenndum Litáen sem fullvalda ríki. Skýringarnar á því eru þær að 1921 hafi Danmörk fyrir hönd Íslands viðurkennt Litáen. Við höfum aldrei viðurkennt það sem gerðist 1940, en ég spyr: Hvað er að því að undirstrika og endurtaka? Ég mótmæli því algjörlega að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn Íslands

meti afstöðu til slíkra mála út frá því sjónarmiði sem fram kom í ræðu utanrrh. í gær að það væri hætta á því að Gorbatsjov mundi missa völdin. Ætla Íslendingar að haga sínum málum með þeim hætti og láta það ráða ferðinni hvort einvaldurinn er þessi eða annar í Sovétríkjunum? Ég er ekki að halda því fram að sá forseti sem Sovétríkin eiga í dag hafi ekki gert margt mjög gott og þá skulum við gera okkur grein fyrir því að það er í samanburði við ýmislegt sem þar var gert miður gott. En að við Íslendingar getum ekki tekið afstöðu til slíkra mála af því að hætta sé á að einn einræðisherra falli úr valdastóli, það er hlutur sem ég get ekki samþykkt.
    Við skulum ekki gleyma því að það voru ýmsir hér sem hældu Ceaucescu á sínum tíma og töldu hann vera frjálslyndasta einvaldinn þarna fyrir austan. ( HG: Var honum ekki veitt orða?) Og var honum ekki veitt orða, spyr einn sem þekkir nú vel til þar fyrir austan. Það kom bara allt annað í ljós, þegar staða mála var upplýst, um þennan mann sem ýmsir vildu hafa og höfðu náið samband við á þeim forsendum að endilega þyrfti að viðhalda hans veldi af því að þetta væri frjálslyndasti forustumaðurinn í ríkjum Austur-Evrópu. Ég segi: Það er ekki okkar að meta og vega hver er við völd í Sovétríkjunum, en við eigum heldur ekki að líta þannig á að við getum ekki viðurkennt og stutt þá aðila sem berjast fyrir sjáfstæði sínu. Við skulum ímynda okkur að Tékkóslóvakía hefði verið innlimuð í Sovétríkin á sama tíma og þeir gerðu valdaránið þar 1948 og þeir stæðu í sömu sporum og þeir í Litáen. Þá væri vísað til þess að þegar við vorum í danska sambandsríkinu hefðu Danir viðurkennt og þess vegna væri ekki ástæða fyrir okkur að endurtaka þá hluti.
    Ég ætlaði síðan, virðulegur forseti, í lok ræðu minnar að víkja að atriðum sem komu upp áðan, þegar hæstv. sjútvrh. skýrði frá fundi varðandi málefni EFTA og Evrópubandalagsins, og ég sé að ráðherrann er hér. Við höfum að undanförnu tekið þátt í þeim viðræðum sem stofnað var til á milli EFTA og Evrópubandalagsins eftir ræðu formanns framkvæmdastjórnarinnar, Delors, fyrir rúmu ári síðan. Áður fyrr höfðu Evrópubandalagsríkin og EFTA-ríkin á fundi í Lúxemborg hafið í raun og veru það starf sem enn hefur verið haldið áfram, þ.e. samræming á málefnum og að koma í veg fyrir og þurrka út hindranir. En með þessari ræðu og því sem henni fylgdi urðu á breytingar. Hvort tveggja var að Evrópubandalagið hafði gert samþykkt um innri markað frá og með 1. jan. 1993 og svo hitt að Delors sá að sjálfsögðu að til þess að styrkja stöðu Evrópu og þess markaðar væri eðlilegt og skynsamlegt að sem nánast samstarf væri á milli Evrópuþjóðanna enda þótt þær væru þá og séu í tveimur viðskiptabandalögum.
    Þessar umræður hafa farið fram á embættismannagrundvelli. Starfa þar nefndir sem hafa gert grein fyrir málunum og nú er talið komið svo að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins vinni að umboði sem hún mun sækja til ráðherranefndar bandalagsins til þess að setjast niður og vinna úr þeim

hugmyndum, þeirri kortlagningu, sem unnið hefur verið að af hálfu embættismannanna.
    Hér hafa farið fram umræður um þessi mál í þinginu og ákveðin gagnrýni, m.a. frá okkur sjálfstæðismönnum, kom fram hér í umræðunum í desember, og lögð var þar á það áhersla að samhliða þessum viðræðum færu fram af hálfu ríkisstjórnar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagsríkin til að styrkja og tryggja okkar málstað þegar, eins og sagt er, til stykkisins kæmi. Á þingfundi brást þáv. hæstv. utanrrh. ókvæða við og skildi ekki hvers vegna afstaða sjálfstæðismanna væri með þessum hætti. Þessi afstaða var öllum kunn og ég trúi að þetta sé í raun og veru sú afstaða sem ábyrgir aðilar, í hvaða flokki sem þeir eru, sem við stjórnvölinn sitja, vilji hafa og að þeir vilji vinna með þeim hætti. Síðan hafa átt sér stað orðaskipti og orðahnippingar á milli utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Danmerkur varðandi það að danski
utanríkisráðherrann hefur viljað gera athugasemdir við gang mála, við þessa hluti og þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað í Austur-Evrópu á sl. ári og það sem af er þessu, að þær út af fyrir sig geti haft og komi til með að hafa þau áhrif í þessum málum að það sem menn voru að hugsa sér fyrir einu ári sé ekki jafnraunhæft nú og það var þá.
    Nú skal ég ekki blanda mér í deilumál þeirra kolleganna, utanríkisráðherra Íslands og Danmerkur. En ég trúi ekki öðru en að ábendingar danska utanríkisráðherrans séu gerðar af velvilja til Norðurlandabúa og til Norðurlandanna. Ég bendi á að hann hefur öðrum fremur um langan tíma verið mikill talsmaður samstarfs Evrópuþjóða og velt því fyrir sér með hvaða hætti það yrði eflt í framhaldi af starfi þeirra sem, eins og ég orðaði það, gengu í gegnum hildarleikinn mikla og get ég þar vísað til þess sem þeir sögðu Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, og Robert Schuman sem var utanríkisráðherra Frakka og einn af þeim sem voru í forustu fyrir Evrópuráðinu og Evrópusamstarfi. En ég trúi ekki öðru en þar sé góð meining og þar sé eitthvað það sem hann telji að menn þurfi að horfast í augu við og gera sér grein fyrir.
    Mér er ljóst að á fundi utanríkisráðherra í Portúgal komu athugasemdir frá utanríkisráðherrum Svíþjóðar, Finnlands og Íslands. En um leið og sænski utanríkisráðherrann var kominn heim til sín fékk hann þar vissar ábendingar og þær hafa þeir menn skrifað sem telja sig vera vel að sér í þessum hlutum. Það ætti þá ekki eftir að koma á daginn að það væri einmitt danski utanríkisráðherrann sem hefði rétt fyrir sér í þessu efni.
    Ég er þeirrar skoðunar að við höldum að sjálfsögðu áfram þessum viðræðum og það hefur komið skýrt fram. En ég er líka þeirrar skoðunar að við höldum áfram viðræðum við stjórnmálamenn í hinum einstöku Evrópubandalagsríkjum og náum eins sterkri stöðu og samstarfi við þá eins og mögulegt er. Hæstv. sjútvrh. gerir ráð fyrir fundi með kollega sínum frá Evrópubandalaginu og það er fyrirhuguð ferð forsrh.

til að hitta formann framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og ég geri ekki ráð fyrir því að þetta séu ferðir til annars en að undirstrika það sem við leggjum áherslu á í þessum málum, þ.e. sérstöðu Íslands.
    Hér í dag gerði hæstv. sjútvrh. grein fyrir fundi sem embættismenn af hálfu Íslands og Evrópubandalagsins sátu og vék að niðurstöðu í þeim efnum og með hvaða hætti sú niðurstaða hefði verið. Það kom mér ekkert á óvart sem þarna er sagt né það sem ráðherrann skýrði frá. Þetta hefur verið skoðun embættismanna Evrópubandalagsins. Þeir hafa haldið þessu fram. Þeir eru ekki bara að þessu núna. Við höfum báðir, hæstv. sjútvrh. og ég, setið fundi þar sem nákvæmlega þessi sjónarmið sem hér eru á blaði komu fram. Það er svo annað sem kemur fram þegar stjórnmálamennirnir tala saman og ég hef þá tilfinningu að þegar Christophersen, danski fulltrúinn í framkvæmdastjórninni, var hér í opinberri heimsókn og hæstv. iðnrh. var í gagnkvæmri heimsókn hjá honum í Brussel, að eftir þann fund hafi einhverjir ætlað að þessi sjónarmið sem embættismennirnir túlka verði ekki höfð að leiðarljósi þegar kemur að lokum þessara mála. Og ég undirstrika það sem hæstv. utanrrh. sagði hér og staðfesti þá skoðun okkar sjálfstæðismanna að það er ekki um að ræða annaðhvort EFTA- og Evrópubandalagsviðræður eða tvíhliða viðræður. Það er hvort tveggja. Ég hef skilið það svo og hæstv. forsrh. hefur einmitt líka vikið að því að það væri þannig. Þessir tveir fundir sem ég vék að áðan sem hæstv. sjútvrh. verður með og hæstv. forsrh. eru að sjálfsögðu grundvallaðir á því að menn ætla sér að gera hvort tveggja. Eða, ég spyr, hugsa menn sér að bíða til ársins 1993 eða 1994? Hugsa menn sér ekki að nota tímann ef skoðanir þessara embættismanna sem gerð var grein fyrir hér áðan af hæstv. sjútvrh. eiga að ráða, ætla menn þá bara að bíða og sjá hvernig þetta endar allt saman? Og hvað geta menn þá gert 1993/1994? Hvað halda menn að íslenskt efnahagslíf geti tapað miklu á þessum tíma? Það liggur alveg ljóst fyrir að hér er um stórar upphæðir að ræða sem við vildum gjarnan að skiluðu sér í íslenskt þjóðarbú.
    Ég efast ekki um það að hæstv. sjútvrh. gefst ekki upp fyrir þessari embættismannaskoðun sem hér er á blaði. Svo þekki ég hann af hans störfum að ég er ekki í neinum vafa um að það kemur ekki til greina, enda teldi ég að ef ein ríkisstjórn hygðist gefast upp fyrir slíku væri náttúrlega betur fyrir okkur Íslendingum komið að hún hyrfi frá, nema það sé af öðrum ástæðum líka, það væri betur fyrir okkur komið af öðrum ástæðum. En látum það vera, það vitum við.
    En ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram varðandi þessa frásögn sem ég met að hæstv. sjútvrh. hafi verið að flytja hér áðan. Ég tek það ekki fyrir hans skoðun. Ég spyr: Er það ekki ásetningur hæstv. sjútvrh. og annarra ráðherra að halda áfram þeim viðræðum sem þeir hafa, og aðrir sem hafa sinnt þessum hlutum, staðið í, halda þeim áfram til þess að

skapa stöðu fyrir okkur þegar til kastanna kemur? Á meðan ég fæ ekki önnur svör trúi ég ekki að það hafi verið ætlan hæstv. sjútvrh. þegar hann kom hér áðan að hann væri að tilkynna einhverja uppgjöf. Það met ég ekki svo. Ég met að hann hafi viljað gera mönnum grein fyrir hvað hefði verið að gerast. Hér voru menn til
viðræðna. Það vissu allir. Það var ákveðið sem gerðist á þeim fundi og ég met það og við metum það að hæstv. sjútvrh. kemur til Alþingis og gerir grein fyrir því og lætur alþingismenn fá vitneskju um það sem þar hefur verið að gerast. Mér er ljóst að fjölmiðlar eru á eftir ráðherrum og því sem er að gerast á þeirra vegum og þess vegna segi ég það, við metum það við hæstv. sjútvrh. þegar hann gerir í þinginu grein fyrir þessum hlutum, en við metum það ekki svo að hvorki hann né aðrir ráðherrar séu að gefast upp í þessum málum.
    Virðulegur forseti. Ég gerði kannski meira grein fyrir þessum hlutum vegna þess sem hér kom fram áðan. En ég endurtek það sem ég sagði í upphafi. Ég hefði vænst þess af hæstv. utanrrh. nú tíu dögum áður en 50 ár eru liðin síðan við tókum utanríkismálin í okkar hendur, Íslendingar, að skýrsla hans hefði verið reisnmeiri í þeim efnum en raun ber vitni.