Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu eitt af mikilvægustu málum a.m.k. að því er varðar okkur dreifbýlismenn sem eru vegamálin og ég held að gagnrýni hv. síðasta ræðumanns, 2. þm. Norðurl. v., eigi fullkomlega rétt á sér hér á Alþingi. Það er svo að virða sem hv. þm. sem verða ráðherrar skipti um föt og skoðun eftir því hvar þeir eru settir á hverjum tíma. Ég man a.m.k. margar umræðurnar á Alþingi og gagnrýni hv. þm. Alþb. vegna niðurskurðar á fé til vegaframkvæmda. Þá voru þeir að vísu í stjórnarandstöðu og svo hefur verið því miður um flesta, flesta segi ég, þingmenn að þeir hafa skipt um skoðun og föt eftir því hvort þeir voru í stjórnarandstöðu eða stjórnaraðstöðu og þetta er slæmt. ( Landbrh.: Ekki allir skipt um föt.) Jú, þeir hafa skipt um föt sunnudaga á sumum tímum, þeir eru ekki alltaf í sömu fötunum. Ja, ég geri ekki ráð fyrir því. Ég vil ekki ætla mönnum það, ekki þessi 19 ár sem ég hef verið á þingi að þeir hafi setið í sömu fötum.
    En þetta er gangurinn því miður og það er mikið að upplifa það í gegnum árin að menn hagi sér þannig í ákvarðanatöku að það breyti málinu, grundvallarafstöðunni hvort menn eru í stjórnarandstöðu eða stjórnaraðstöðu. Það er erfitt að upplifa slíkt en það hendir allt of marga hv. þm., ég tala nú ekki um þá sem verða hæstv. ráðherrar. Ég er ekki hissa á því þó að almenningur í landinu beri litla virðingu fyrir stjórnmálum og stjórnmálamönnum sem þannig haga sér og það er ekki ástæða til þess að almenningur beri virðingu fyrir slíku.
    Ég er alveg sammála hv. þm. Pálma Jónssyni. Það er auðvitað enginn vandi að skera niður kerfið um 750 millj. sem er verið að útvíkka nú á alla vegu og bæta við. Mér skilst að nú sé verið að setja á stofn eitthvert enn eitt apparatið sem á að sjá um hitt allt sem fyrir er. Eitthvað hlýtur það að kosta. Menn þenja út ríkiskerfið miskunnarlaust en skera niður nauðsynlegustu
framkvæmdir, þær brýnustu. Og það er erfitt a.m.k. fyrir mig sem bý á því landsvæði þar sem vegir eru mjög slæmir, þ.e. þeir sem eru til, að una því að menn gangi fram í þessum efnum með þessum hætti. Það skiptir mig engu máli hverjir það eru sem sitja í ráðherrastólunum hverju sinni. Og þeir sem nú sitja eru síst betri í þessum efnum en aðrir.
    Ég ætlaði ekki að fara í einstaka atriðum út í það mál sem er nú til umræðu. En það er auðvitað nauðsynlegt að þingmenn, ekki síst þeir á landsbyggðinni sem búa við vegleysur og slæma vegi, undirstriki það að þeir ætlast til annars en þess að nú sé skorið niður á þeim svæðum. Sem betur fer er víða búið að koma vegakerfi á landinu í sæmilegt horf. En það eru önnur svæði sem sitja eftir og það nær ekki nokkurri átt að mínu viti að þau svæði sem sitja eftir, eru verst sett, séu meðhöndluð á sama hátt og hin sem eru búin að fá sitt að mestu leyti. Það gengur auðvitað ekki upp. Í því er ekkert réttlæti, í því er engin jafnaðarmennska. En það höfðar kannski ekki til

neins nú í hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Nýr vettvangur, segir hæstv. samgrh. Það kann að vera. Ég heyri það að hæstv. ráðherra hefur trú á því framboði þrátt fyrir allt.
    En það sem ég ætlaði að gera að aðalumræðuefni hér er í sambandi við Ó-vegina. Nú man ég ekki ártalið hvenær það var tekið inn í vegáætlun, hversu mörg ár eru síðan. Það kann nú hæstv. ráðherra kannski utan bókar og man. En þar var um að ræða þrjá vegi sem voru taldir hættulegastir á landinu og talin brýn þörf á að bæta þar úr. Þessir vegir voru Óshlíð, Ólafsfjarðarmúli og Ólafsvíkurenni ef ég man rétt. Óshlíð var á þeim tíma talin hættulegust af þessum þrem vegum. Og það voru gerðar tillögur um það á sínum tíma af hálfu Vegagerðar hvernig með hana skyldi farið og á sama hátt hvernig með Ólafsvíkurenni yrði farið og Ólafsfjarðarmúla. Vegaframkvæmdum fyrir Ólafsvíkurennið er lokið, nú er vonandi framkvæmdum við jarðgöng í Ólafsfjarðarmúla að ljúka en Óshlíðarvegurinn, þriðji Ó-vegurinn, sem var talinn hættulegastur, situr eftir. Og ég vek athygli á því að í þessari áætlun sem nú er til umræðu er ekki króna í Ó-vegi. Þannig að sá vegurinn sem var talinn hættulegastur þegar upphafið var með Ó-vegina, það á að skilja hann eftir eins og hann er núna og þar mun vanta 300--400 millj. til þess að gera hann í það stand sem Vegagerðin taldi að þyrfti að gera á sínum tíma. Nú er honum úthýst algerlega. Ég bið nú hæstv. samgrh. í fullri vinsemd að skoða þetta mál sérstaklega, hvort það er í raun og veru meining hæstv. ríkisstjórnar, hinnar félagslegu ríkisstjórnar til framtíðar, að standa þannig að málum eins og mér sýnist hér vera gert ráð fyrir að því er varðar Óshlíð.
    Ég lýsi því hér yfir að ég mun ekki standa að neinni samþykkt á vegáætlun ef svona á með að fara þann veg sem var tekinn inn á sínum tíma sem hættulegastur af þessum þremur en á að skilja eftir. Það er á hreinu. Kannski skiptir það ekki máli hvar mitt atkvæði lendir en sannfæringin er þessi og við hana stendur. Og færi betur að aðrir færu eftir sannfæringunni í þessum efnum sem og öðru en ekki eftir einhverju öðru.
    Ég vil trúa því, hæstv. ráðherra samgöngumála, að það verði ekki látið henda að Óshlíðin verði út undan við afgreiðslu vegáætlunar og það verði séð til þess að hún verði áfram á Ó-vegaframkvæmdum og fái það fjármagn sem gert var ráð fyrir þegar framkvæmdir voru hafnar á þessum þrem vegum eins og Vegagerðin gerði ráð fyrir þá. Um annað er ekki að ræða. Það gengur ekki hvað sem menn mjálma um slæmt efnahagsástand. Auðvitað verða menn að vita hverjum það er að kenna og það vita flestir. Það er auðvitað stjórnvöldum að kenna á hverjum tíma að verulegu leyti og það þýðir ekkert að mjálma um að slæmt efnahagsástand verði þess valdandi að þessi þáttur verði skilinn eftir í vegaframkvæmdum, ég tala nú ekki um öll loforðin sem gefin voru á þeim tíma. Og ég spyr menn að því almennt, að vísu eru nú fáir hv. þm. innan dyra, af hverju sem það nú er og engar

getsakir ætla ég að hafa uppi um það. Ég spyr menn: Er það virkilega svo að þetta brýna verkefni, sem eru vegaframkvæmdir á landsbyggðinni, í dreifbýlinu, þurfi að skera niður um 750--800 millj. á þessu ári? Er hvergi annars staðar hægt að taka af? Þarf báknið að þenja sig út um allar trissur, bæta við bákni ofan á það sem fyrir er, sem ég er handviss um að mætti spara um hundruð milljóna ef menn vildu það? Hæstv. fjmrh. ætti að beita sér fyrir að spara í bákninu en ekki bæta við eins og er að gerast. Þar mætti ná þeim peningum sem menn eru hér að tala um að skera niður að því er varðar vegaframkvæmdir á þessu ári.
    Ég er alveg handviss um það og hef sagt það áður að í ríkiskerfinu mætti a.m.k. fækka um þriðjung og það sæist ekki högg á vatni. Þjónustan yrði alveg sú sama og ekkert verri. En enn er fjölgað, enn bætast við ný stöðugildi þrátt fyrir þær samþykktir sem Alþingi er að gera hér árlega til þess að stöðva þetta. En það bætist við og enginn getur spornað við því, ekki einu sinni hæstv. núv. fjmrh. sem er þó talinn af sumum, ég segi ekki af mér, af sumum talinn vera sá sem hefur hvað mestar líkur á að geta spornað við. ( Gripið fram í: Og ekki af þér?) Ég bætti því við, ekki af mér. Það kemur kannski að því ef hæstv. ráðherrann dugar betur en verið hefur.
    En kerfið þenst út. Það fjölgar á launaskrá hjá ríkinu, það bætast við milljónir og milljónatugir og hundruð milljóna og ég dreg mjög í efa að sú vinna sem þarna er borgað fyrir skili sér að öllu leyti. Og ég held að það verði verðugt verkefni fyrir hæstv. ríkisstjórn, ætli hún sér að halda lífi það sem eftir lifir kjörtímabils, að taka sig saman í andlitinu og breyta og minnka báknið frá því sem nú er en ekki vera að þenja það út eins og mér sýnist allar líkur benda til að gert verði og hefur verið gert.
    En kannski þarf hæstv. ríkisstjórn ekki svona ræðu frá ómenntuðum almúgamanni, kannski duga gáfurnar í stólunum umfram það sem við almúgafólk teljum okkur betur vita. En ég held að menn ættu að hugleiða þetta. Það er engin ástæða til þess að skera niður vegaframkvæmdir á þeim svæðum sem verst búa í vegum um 800 millj. á þessu ári. ( Gripið fram í: Það á að fara að byrja að bora fyrir vestan.) Það kann vel að vera og ekki hefði ég á móti því en menn eru líka með hugmyndir um það að láta Vestfirðinga borga það sérstaklega, að mér heyrist. Ég ætla nú ekki að fara út í þá sálma en ég heyri að hv. þm. Egill Jónsson vill taka þá umræðu hér upp og ég er klár í hana. Mér heyrist að menn vilji láta Vestfirðinga borga það sérstaklega, með sérstökum skatti. En þá spyr ég: Hvað á að gera næst þegar þarf að stækka flugvöllinn á Ísafirði? Verður ekki bætt við 1000 kr. á farmiðann með Flugleiðum? Hvaða fordæmi kynni þetta að verða?
    Ég er hins vegar viss um það að Vestfirðingar hafa aldrei skorast undan því að taka á sig þær byrðar sem þeir eiga að bera en fordæmið getur verið slæmt í þessum efnum, af því hv. þm. Egill Jónsson kom þessu hér að sem ég þakka honum fyrir. En ég hygg nú samt að menn ættu að skoða frekar aðrar leiðir til

flýtingar á framkvæmdum vestra að því er varðar jarðgöng en svona skattlagningu. En ef hún er til þess nauðsynleg og ekkert annað fært, sem ég dreg mjög í efa, hygg ég að Vestfirðingar mundu ekkert skorast undan því. En það yrði slæmt fordæmi fyrir aðrar framkvæmdir í landinu.
    Ég veit ekki til að Norðlendingar hafi þurft að borga neitt meira fyrir Ólafsfjarðarmúlann, það er tekið úr sameiginlegum sjóði. Af hverju Vestfirðingar? Af hverju þeir? Það er kannski af því það fennir meira þar, það snjóar meira, menn eru innilokaðir svo mánuðum skiptir og þá verður að borga meira.
    Nei, ég ætlaði ekki að fara út í þessa umræðu og geri ekki meira af því, það hlýtur að koma til umræðu um þetta mál síðar.
    En ég mótmæli harðlega að Ó-vegaframkvæmdir séu hér skornar niður við trog þar sem eftir er hættulegasti vegurinn sem talinn var í upphafi þegar þessar framkvæmdir voru hafnar, þegar meginhluti af framkvæmdum á honum er eftir. Og ég treysti því að þm. Vestf. allir sem einn, burt séð frá pólitískum viðhorfum í flokkum, standi heilir um það að það kemur ekki til mála að afgreiða vegáætlun með þeim hætti sem hér er lagt til. Ó-vegir verða að vera inni þar til framkvæmdum á Óshlíð er lokið. Og það er engin þörf á því að skera niður
vegaframkvæmdir eins og hér er lagt til, það má taka annars staðar þær upphæðir sem um er að ræða.