Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram hjá stjórnarandstæðingnum hv. 2. þm. Norðurl. v. og ég tek líka undir þá gagnrýni sem kom fram hjá stjórnarstuðningsmanninum hv. 3. þm. Vestf. þó að hann gengi sýnu lengra í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina en hv. 2. þm. Norðurl. v. Hv. 3. þm. Vestf. heldur nú hverja ræðuna af annarri fyrir vantrausti á hæstv. ríkisstjórn. Það undrar okkur ekki sem erum í stjórnarandstöðunni heldur undrar okkur meira á því hvað hv. þm. geti fengið sig lengi til þess að vera stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar.
    Hv. 3. þm. Vestf. vék að Óshlíðinni og ég tek undir allt sem hv. þm. sagði umn það mál. Aðalatriðið er eins og kom glögglega fram hjá hv. 3. þm. Vestf. að á sínum tíma var ákveðið að taka þrjár framkvæmdir undir hinar svokölluðu Ó-vegaframkvæmdir, Óshlíðina, Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúla. Og það var nú svo að þegar fyrst var byrjað að tala um þetta þá var fyrst byrjað að tala um Óshlíðina. En í framkvæmd hefur þetta orðið þannig að þeir sem voru fyrstir hafa orðið hinir síðustu. Þannig er nú ástatt með Óshlíðina eins og hv. 3. þm. Vestf. lagði áherslu á. Það er ekki nema hálfnað verk sem þar er búið að vinna.
    Nú er gert ráð fyrir því að framkvæmdir verði ekki undir þessu nafni, Ó-vegir, en það breytir engu um það að við verðum að gera ráð fyrir því að það verði haldið áfram með framkvæmdirnar á Óshlíðarvegi eins og það hefði ekki verið breytt um neina nafngift. Ég vil láta það koma hér fram að fyrir nokkrum dögum vorum við þingmenn Vestfjarða allir á fundi með vegagerðarmönnum þar sem þetta mál kom sérstaklega til umræðu. Við þingmenn Vestfjarða lögðum áherslu á það að það væri ekki unandi við annað en það yrði haldið áfram með Óshlíðarframkvæmdirnar eins og ekkert hefði í skorist. Þá eigum við við að það verði haldið áfram í eðlilegri röð, að það þurfi ekki nú að ákveða einhverja nýja framkvæmdaröð á stórverkefnum þar sem Óshlíðarframkvæmdin kæmi seint og síðar meir.
    Ég leyfi mér að vona og ég veit að við gerum það allir þingmenn Vestfjarða að það verði engin svik eða brigðmælgi varðandi Óshlíðarveginn, það verði ekki hvikað frá því sem áður og fyrir löngu var búið að ákveða.
    Jarðgöngin á Vestfjörðum hafa komið hér lítillega til umræðu. Ég skal ekki fara að ræða það mál hér. Ég hef þegar á þessum stað lýst skoðun minni á hugmyndum hæstv. samgrh. um að flýta framkvæmdum við jarðgöngin á Vestfjörðum og fært fram þakkir hæstv. ráðherra til handa fyrir þetta frumkvæði. Ég geng út frá því að hæstv. ráðherra komi þessu máli í höfn með því að fara þá leið sem hann hefur sjálfur lagt áherslu á, að það yrði útvegað nýtt fjármagn til þessara framkvæmda án þess að það yrði dregið úr öðrum framkvæmdum á Vestfjörðum sem þegar hafa verið ákveðnar eða framkvæmdum í öðrum kjördæmum sem þegar hafa verið ákveðnar.

Þetta er eitt mikilverðasta mál, leyfi ég mér að fullyrða, sem við stöndum frammi fyrir í vegamálum.
    Ég vildi núna aðeins leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hverjar væru fyrirætlanir hans um næstu viðbrögð og næstu aðgerðir í þessum málum varðandi flýti jarðganganna fyrir vestan. Ég geri ráð fyrir því að það mál þurfi að koma fyrir Alþingi og að það þurfi að afgreiða fyrir lok þessa þings. Ég vildi leyfa mér aðeins að spyrja hæstv. ráðherra hvernig verði brugðist við þessu og ég spyr í fullu trausti þess að hæstv. ráðherra komi þessum fyrirætlunum sínum í framkvæmd.