Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég skil bara ekkert í hv. 4. þm. Vestf., fyrrv. forseta Sþ., hvað hann er orðinn glámskyggn og minnislaus á hluti sem eru að gerast hér á Alþingi, að stimpla mig sem einhvern sérstakan stjórnarsinna, mann sem lýsti því yfir strax við myndun þessarar ríkisstjórnar að ég tæki afstöðu eftir málefnum en ekki eftir flokkspólitík. Það er að verða liðið ár frá því að ríkisstjórnin var mynduð og hv. þm. er ekki farinn að hafa áttað sig á því enn eftir nærri heilt ár hvernig sagan er. ( Landbrh.: Eru ekki flokkspólitísk málefni í Alþfl.?) Ég sagði málefnum frá ríkisstjórninni. Ég heyri nú að hæstv. samgrh. er líka orðinn skilningssljór og þeim fjölgar þá hér í þinginu sem hætta að skilja og vita hvað þeir eru að tala um. En ég hélt að þetta væri á hreinu. Og þess vegna er ég andvígur þessu, eins og þetta er hér, af því að þetta er slæmt mál, hv. þm. Þorvaldur Garðar, þó að ríkisstjórnin beri það fram.
    Varðandi Ó-vegina vil ég minna menn á það að Ó-vegafyrirsögnin er hér inni í áætluninni. Það vantar bara upphæðina, það vantar bara krónurnar. Ég sé að hæstv. samgrh. bendir á sig, hann ætlar að skaffa þær. En fyrirsögnin er hér varðandi Ó-vegina. Vel má vera að það sé rétt hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni að menn hafi látið plata sig í fyrra, en þá er hann kannski einn af þeim, en menn láta ekki plata sig trekk í trekk, ekki ár eftir ár. Hafi það verið gert í fyrra með þessum hætti þá verður það ekki gert aftur núna. Fyrir því verður séð. Og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra samgöngumála sjái ekki til þess. Auðvitað má segja að það skipti kannski ekki máli í hvaða lið peningarnir koma ef þeir eru tryggir fyrir það sem á að framkvæma. En ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra sjái til þess að staðið verði við það sem átti að gera og áætlað var á Óshlíð skv. 12 ára áætluninni. Ég trúi bara ekki öðru. Og ég verð a.m.k. að segja það að ef eitthvað er satt í því að
hæstv. ráðherra ætli sér í framboð á Vestfjörðum næst, þá þýddi nú lítið fyrir hann að koma vestur ef hann ekki stendur við þetta, sé eitthvað hæft í þeim sögusögnum. ( Landbrh.: Ertu að bjóða mér þetta?) Nei, ég hef bara lesið þetta, hæstv. ráðherra. ( Landbrh.: Var það ekki einhver annar ráðherra?) Nei, það var ekki einhver annar, það var þessi hæstv. ráðherra sem ég las um. Kannski hefur enginn lesið það nema ég. En ég treysti því og trúi að hæstv. ráðherra sjái til þess að staðið verði við þær framkvæmdir sem búið er að lofa og að Óshlíðin verði ekki skilin eftir í Ó-vegaframkvæmdum sem átti að verða fyrst þegar um málið var talað. Hún var hættulegust. Auðvitað kemur þetta í ljós þegar málið kemur frá hv. fjvn. en enn sem komið er a.m.k. treysti ég hæstv. ráðherra í þessu máli.