Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Það er næstum óþarfi að fara að svara hv. 3. þm. Vestf. Hann var eitthvað að tala um að ég væri skilningssljór um þau atriði sem við höfum verið að tala um. Ég læt aðra um að dæma um það og ætla ekkert að fara að dæma í eigin sök. En hv. þm. tók fram að hann tæki afstöðu eftir málefnum. Það skil ég. Og vegna þess að hann gerir það þá er hann alltaf að taka afstöðu á móti ríkisstjórnarmálum af því að þau eru slæm og ég skil það. En það sem ég skildi ekki var að hv. 3. þm. Vestf. skuli ekki formlega ganga til liðs við stjórnarandstöðuna þegar málum er svo háttað og það getur hver láð mér sem vill þó að ég skilji það ekki.