Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég ætla að svara hér þeim spurningum sem til mín var beint, byrja á því að segja fyrir mitt leyti, sem eru væntanlega engin sérstök tíðindi hér, að að sjálfsögðu tek ég undir með þeim hv. þm. sem lýst hafa vonbrigðum sínum með að ekki hefur á þessu ári reynst unnt að auka fjárveitingar til vegamála eins og að var stefnt skv. vegáætlun. Ég treysti því að allir hv. þm. átti sig á þeim stærðum sem hér eru á ferðinni. Vegáætlun fyrir árin 1989--1992 gerði ráð fyrir verulegri aukningu til vegamála á árinu 1990, en af þeirri aukingu verður nú ekki þar sem, af ýmsum ástæðum sem ég hér áðan rakti, hefur orðið niðurstaðan að beita hinum mörkuðu tekjustofnum Vegagerðarinnar þannig að þeir skili minni tekjum en ætlað var á vordögum 1989 fyrir tæpu ári síðan. Það koma einnig inn í það mál þær tölur sem ég nefndi um samdrátt í bensínsölu o.fl. sem gera það að verkum að þær upphæðir sem vegáætlunin byggði á skilar sér ekki á þessu ári.
    Forsendur eru verulega breyttar að þessu leyti eins og ég gerði grein fyrir og ég vil vegna orða hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssonar taka það fram að ég taldi og tel eðlilegt við slíkar aðstæður að þá komi það mál að nýju fyrir þingið. Það eru fordæmi fyrir öðru þar sem hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. ráðherra á þeim tíma hafa tekið sér talsvert vald í hendur til að breyta áður ákvörðuðum framkvæmdaáformum vegna breytinga í fjárveitingum til vegamála, en þegar um þetta miklar breytingar á forsendum er að ræða tel ég eðlilegt að það mál komi fyrir Alþingi og þess vegna er þessi tillaga um aukavegáætlun hér flutt.
    Það er hins vegar öllum ljóst og þarf ekki að fjölyrða að það er meiri hluti hv. Alþingis sem hefur með samþykkt fjárlagafrv. og afgreiðslu þess í raun breytt þeim forsendum sem síðan liggja til grundvallar vegáætluninni sem hér er til umræðu.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson gerði einnig að umtalsefni upplýsingar sem koma fram í töflu á bls. 5 í þskj. um framreiknuð heildarútgjöld til vegamála á hverju ári frá 1982 til og með áætlunar fyrir árið 1990 og vakti það nokkra undrun hans að árið 1987 sem er annað lægsta ár í þessum efnum sem taflan tekur yfir hafi jafnframt verið metár hvað lagningu bundinna slitlaga snertir. Þetta kann í fljótu bragði að virðast, eins og hv. þm. tók fram, nokkuð sérkennilegt, en er þó engu að síður rétt það er ég best man og á sér skýringar og segir mönnum m.a. hversu varhugaverður mælikvarði í sjálfu sér það eitt er á útgjöld til vegamála eða vegaframkvæmdir hvað mikið var gert í hverjum einstökum framkvæmdaflokki á því ári. Og þetta með bundnu slitlögin er einmitt dæmi um það.
    Ég vil að nokkru leyti taka undir það sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði hér áðan. Það verður að hafa í huga í þessu sambandi þegar samanburður er gerður að það bíða margir mjög dýrir kaflar í almenna vegakerfinu sem af skiljanlegum ástæðum hefur verið tilhneiging til að geyma meðan aðrir og auðunnari

áfangar væru teknir. Það liggur í hlutarins eðli. Þeir sem aka t.d. aðalleiðina norður í land átta sig á því að þar eru nokkrir dýrir og erfiðir kaflar eftir. Nefna má sem dæmi þá kafla sem lengst biðu í Norðurárdal, Bólstaðarhlíðarbrekku vestan í Vatnsskarði og síðan Giljareiti og kafla á Öxnadalsheiði. Allt eru þetta dýrir og erfiðir kaflar þar sem hver kílómetri kostir kannski upp í margfaldar fjárhæðir á við það sem gerist þar sem auðveldastar eru aðstæður á láglendi. Það voru einmitt þeir kaflar sem voru teknir og gerðu það að verkum að menn komust yfir nokkuð langa vegakafla framan af langtímaáætluninni og þar með líka í bundnu slitlagi. Það bíða sem sagt ýmsir slíkir kaflar þar sem bæði vegarstæðið er erfitt og þar sem þarf að brúa.
    Enn eitt atriði í þessu sambandi er vert að hafa í huga sem reyndar er nokkurt áhyggjuefni að mínu mati og getur átt eftir að koma í bakseglin þegar frá líður. Það er einfaldlega sú staðreynd að í viðleitni til að leggja sem mest af bundnum slitlögum, að koma sem mestu af vegakerfinu undir slitlag, hefur borið nokkuð á þeirri tilhneigingu að leggja bundin slitlög jafnvel á vegi sem ekki eru fulluppbyggðir og standast í ákveðnum tilvikum ekki þá staðla sem þó er ætlunin að vinna eftir með nýja vegi um þessar mundir. Þetta mun einfaldlega þýða, vegna þess að þessum vegum er það áfátt að ýmsu leyti, minna burðarlag og/eða beygjur krappari o.s.frv. en ætlunin er, að innan tíðar verður að gera þarna bragarbót og endurbæta þessa vegi þó að þeir hafi um sinn verið lagðir bundnu slitlagi. Ég er ekki að segja að þetta hafi ekki í raun getað verið skynsamleg ákvörðun og eðlileg, en það er rétt að menn hafi þetta í huga þegar þessar samanburðartölur eru nefndar. Ég vona að ég þurfi þá ekki að fjölyrða meira um þetta mál en hafi rökstutt það sæmilega að lengd bundinna slitlaga sem lögð eru á hverju ári eru ekki einhlítur mælikvarði á það hvernig uppbyggingunni miðar í okkar vegakerfi. Þar kemur margt fleira til og ber ekki síður að skoða hvernig áfram hefur miðað við uppbyggingu eða undirbyggingu veganna, brúargerð og það að komast yfir erfið höft sem eru á leiðunum.
    Varðandi umræður og loforð sem hér voru höfð uppi við afgreiðslu vegáætlunar eða fjárlaga á síðasta ári fjölyrði ég ekki um það annað en að rifja upp það sem ég sagði þegar til umræðu var sú ráðstöfun að taka hluta af tekjum af bensíngjaldi og þungaskatti í ríkissjóð sem gert var árið 1989. Ég gaf um það yfirlýsingu hér að það yrði einstök ráðstöfun bundin við árið 1989 og yrði ekki endurtekin og við það er staðið. Tekjur af hinum mörkuðu tekjustofnum, bensíngjaldi og þungaskatti, renna ekki í ríkissjóð á þessu ári og niðurskurður eða samdráttur í vegaframkvæmdum, minni fjárveitingar en ætlaðar voru skv. vegáætlun skýrast af öðrum orsökum eins og ég hef hér gert grein fyrir.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. spurði hvort ætlunin væri að flatur niðurskurður sem heimild, ég vek athygli á því, heimild er gefin fyrir eða ætlunin er að afla heimildar til í fjáraukalögum verði látinn ná yfir

framkvæmdafé vegamála. Ég svara því svo að varðandi þá heimild til niðurskurðar sem áætlað hefur verið að gæti orðið á bilinu 1,5--2,2% hefur það verið mín afstaða og ég hef talað fyrir henni í ríkisstjórninni að það væri ekki hægt að skorast undan því að rekstrarkostnaður hjá Vegagerð ríkisins tæki á sig þennan samdrátt eða niðurreikning eins og annar sambærilegur rekstur af því tagi, en ég teldi ekki eðlilegt að miða við að þessi niðurreikningur yrði látinn ná yfir framkvæmdaliðina sjálfa. Ég hef sem sagt haft þá afstöðu, og henni hefur ekki verið mótmælt, að það yrði gerður greinarmunur á annars vegar rekstrarþáttunum sjálfum, rekstri Vegagerðar ríkisins eins og hverjum öðrum rekstri í þjóðfélaginu á þessu ári, að hann tæki á sig þessa lækkun, enda ætti hann að verða því hagkvæmari sem verðlagshækkanir verða minni, en um framkvæmdaliðina gegnir öðru máli, enda hafa þeir þegar verið skertir og sérstaklega frá því sem reiknað hafði verið með. Ég tel því ekki eðlilegt að til frekari niðurreiknings komi á þeim.
    Það ber einnig að hafa í huga að miklu máli skiptir fyrir framkvæmdagildi fjárveitinga Vegagerðarinnar hvernig útkoma Vegagerðarinnar verður hvað virðisaukaskattsendurgreiðslur snertir. Þar eru ekki enn komnar niðurstöður um ákveðin atriði. Ég nefni þar sérstaklega snjómoksturskostnaðinn. Það er til skoðunar í samráði við sveitarfélögin sem einnig bera þar verulegan kostnað, en þegar liggur fyrir að virðisaukaskattur af sérfræðiþjónustu verður endurgreiddur. En þessi atriði skipta ekki síður máli fyrir útkomuna á þessu ári og hvert raungildi fjárveitinganna verður að endingu.
    Varðandi þann samdrátt á framkvæmdafé sem hér verður á árinu 1990 miðað við vegáætlun fyrir árin 1989--1992, þá mætti auðvitað hafa um það nokkur orð. Það mætti til að mynda og væri fróðlegt fyrir hv. alþm. að gefa yfirlit um hvernig vegáætlanir hvers tíma hafa dugað. Og af því að hér töluðu þingreyndir menn eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. og 1. þm. Vesturl. og hv. 3. og 4. þm. Vestf. hygg ég að þeim muni rifjast það upp ef þeir hugsa sig vel um að því miður hefur áður hent að það hafa litið dagsins ljós á hinu háa Alþingi vegáætlanir sem hafa gefið fyrirheit um allmikið meiri framkvæmdir en síðan hefur orðið raunin á. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram, svo dapurlegt sem það nú er, að engin einasta fjögurra ára vegáætlun sem lögð hefur verið fram á Alþingi frá því að þetta vinnulag var tekið upp hafi síðan ræst. Og hvers vegna leyfi ég mér að halda þessu fram? Af þeirri einföldu ástæðu að allar vegáætlanir fram að þeirri sem hér er til umræðu byggðu á því að ná innan tímabilsins því tilskilda 2,4% marki af þjóðarframleiðslu sem þá var miðað við, núna 2,14% miðað við nýjan mæligrunn þjóðarframleiðslunnar. Og það hefur eins og við vitum aldrei náðst. Það var alsiða og ég man sjálfur eftir vegáætlunum sem hér komu fram þar sem framkvæmdafé var af einhverri tiltekinni upphæð á líðandi ári en strax árið eftir áttu samkvæmt

áætluninni að koma ómældar fjárhæðir úr ríkissjóði til viðbótar hinum mörkuðu tekjustofnum. Þá var bjartsýni manna slík á hverju ári þegar þeir lögðu fram nýja vegáætlun að þeir gerðu ráð fyrir kannski 12, 15 eða 18 hundruð millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til viðbótar fullri nýtingu hinna mörkuðu tekjustofna. En hver hefur síðan orðið raunin á? Markmiðin um 2,4 eða 2,14% af þjóðartekjum hafa aldrei náðst og þessi vegáætlun, fyrir árin 1989--1992, er hin fyrsta sem ekki setur upp slíkar væntingar um að ná þessu marki heldur byggir eingöngu á því að fullnýta hina mörkuðu tekjustofna. Og það er að mínu mati hógværara en um leið raunsærra markmið í ljósi þeirrar tíu ára reynslu sem á þessa tilhögun er komin.
    Ég hygg að menn verði að viðurkenna og horfast í augu við að svona hefur til tekist og reyndar er það nokkuð sláandi þegar það er skoðað á þessari töflu hér á bls. 5 hversu svipað að raungildi framkvæmdafé til vegamála hefur verið allan þennan tíma þegar öllu er á botninn hvolft. Reyndin er sú að menn virðast vera fastir við svipað mark, 4200--4800 millj. kr. miðað við meðalverðlag þessa árs. Á því bili hefur þetta leikið allan tímann frá 1982 til og með 1990.
    Hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason ræddi hér nokkuð um stöðu Vestfjarða í þessu sambandi og margt get ég tekið undir af því sem hann sagði að þar bíður mikið verkefni í uppbyggingu vegamála. Enginn er fúsari til að fallast á það
en ég. Og, hv. þm., ég hef fullan hug á því að koma þar til framkvæmda stórum átökum sem bíða og svara ég þá um leið hv. 4. þm. Vestf. Ég vonast til þess að geta sýnt hér á Alþingi innan fárra daga þingmál sem tengjast þeirri flýtingu jarðganga á Vestfjörðum sem rædd hefur verið. Tímans vegna og eðli málsins einnig tel ég eðlilegra að við ræðum þau viðfangsefni þegar þau birtast í formi væntanlegra frumvarpa hér á hinu háa Alþingi í annarri hvorri hv. þingdeild innan vonandi eins og ég segi, skamms tíma og stendur þá ekki á mér að ræða við Vestfirðinga um þau mál og aðra hv. þm.
    Varðandi Óshlíð sem hv. 3. þm. Vestf. gerði að nokkru umtalsefni er rétt að skýra það nánar, hafi það ekki komist nægilega vel til skila, að með þeirri breytingu sem varð á uppsetningu vegáætlunar á síðasta ári hverfur svonefndur Ó-verkefnaflokkur út sem sérstakur flokkur í vegáætlun og þar verður veruleg breyting á uppsetningu mála. Inn kemur og sameinast í svonefndum stórverkefnaflokki jarðgangagerð, stærstu brýr og framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Sömuleiðis varð breyting á uppsetningu hins almenna hluta verkefnanna þar sem bundin slitlög eru felld saman við almenn verkefni og skýrir þetta vonandi að nokkru leyti hvers vegna Ó-vegir hverfa út eftir árið 1989. Þannig færast til að mynda þær fjárveitingar sem áður voru til Ólafsfjarðarmúla undir verkefninu Ó-vegir yfir í svonefndan stórverkefnaflokk. ( KP: Hvar er Óshlíðin?) Síðan kemur að því, hv. þm. Samkvæmt vegáætlun 1989 átti að veita undir liðnum Ó-vegir til Óshlíðar 17 millj. kr. Óshlíð kemur síðan inn í almenn verkefni

undir sínu veganúmeri og undir Vestfjörðum vegur nr. 25 og á öllum árunum 1990, 1991 og 1992 eru fjárveitingar til framkvæmda í Óshlíð 13 millj. kr. á hverju ári. Það er því ekki svo, eins og hv. þm. virðist hafa óttast, að Óshlíðin hafi bara gleymst og horfið út úr vegáætlun vegna þessara breytinga, heldur færist hún til og það eru þrátt fyrir allt ætlaðar nokkrar fjárveitingar til áframhaldandi framkvæmda þar, enda að sjálfsögðu nauðsynlegt. Eins og hv. þm. réttilega benti á er ekki komin fullnægjandi lausn, svo að vægt sé til orða tekið, þrátt fyrir þær framkvæmdir sem þar hafa verið og það hlýtur að verða verkefni á næstu árum að reyna að bæta þá mannvirkjagerð sem þar er komin og reyndar er unnið að því og hefur verið unnið að því. Þar hafa verið prófaðar ýmsar grjótvarnir og fleira eins og ég veit að hv. þm. þekkir og það hlýtur að þurfa að hanna þá frekari framkvæmdir hvort sem það verða viðbótarveggsvalir, öflugri grjótvarnir eða hvað það nú verður sem mönnum þykir vænlegast að gera þar til að draga úr slysahættu og auka notagildi vegarins.
    Ég vona að þetta skýri að nokkru þá breytingu sem hefur átt sér stað. Ég ætlast hins vegar ekki til þess að hv. þm. sé endilega ánægður með þær upphæðir sem þarna eru á ferðinni. Það er örugglega satt og rétt sem hann hér sagði að þarna þyrftu að koma til á næstu árum verulegar fjárhæðir til þess að unnt sé að koma þessum erfiða vegi í viðunandi horf.
    Hv. 7. þm. Norðurl. e. nefnd hér þá samræmingu samgöngumálanna sem oft hefur áður komið til umræðu á hv. Alþingi. Ég vil bara svara hv. þm. því til að sú nefndaskipan sem hún taldi að þyrfti að koma til er þegar til orðin og reyndar geri ég mér vonir um að sérstakur starfshópur sem unnið hefur að því verkefni um nokkurt skeið að samræma og gera tillögur um samræmda samgöngustefnu undir vinnuheitinu ,,Samgöngur og fjarskipti á nýrri öld`` skili áliti á fyrri hluta þessa árs þar sem reynt er að taka heildstætt á samgöngumálunum í þessum efnum.
    Varðandi það sem hv. 7. þm. Norðurl. e. sagði um samdrátt í störfum eða atvinnu vegna fjárveitinga til vegamála á þessu ári vísa ég til þess sem áður hefur komið fram í mínu máli að framkvæmdirnar verða á mjög svipuðu róli og þær voru á síðasta ári og ætti því ekki af þeim sökum að verða samdráttur í störfum. Fjárveitingarnar eru af sömu stærðargráðu og þær voru á síðasta ári og reyndar svipaðar og þær hafa verið um nokkurt árabil, eins og ég kom að áðan. Ég vona að svar mitt hafi verið nægjanlegt fyrir hv. 4. þm. Vestf. hvað varðar tillöguflutning um flýtingu jarðgangaframkvæmda á Vestfjörðum og ég tek það fram að í því svari felst jafnframt að þingmál sem tengist hugmyndum um jarðgangagerð undir Hvalfjörð verður vonandi samferða til hv. Alþingis.
    Að lokum vegna þess sem hv. 3. þm. Vestf., sem mér verður hér tíðvitnað í, sagði um það hvort nokkuð væri hæft í því að ég hygðist bjóða mig fram á Vestfjörðum við næstu kosningar ( KP: Það er ekki rétt orðað, hæstv. ráðherra.) Nú, þá vil ég taka það fram að ef ég á að skoða þetta sem sérstakt heimboð

af hálfu hv. 3. þm. Vestf. er ég ákaflega stoltur yfir að fá slíkt sérstakt heimboð til framboðs í kjördæmi af sitjandi þingmanni þar. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar taka það skýrt fram til að forðast allan misskilning að ég er ákaflega ánægður með það kjördæmi sem ég sinni nú þingstörfum fyrir, Norðurl. e., og í mínum huga hafa ekki verið nein áform um að færa mig þaðan um set á meðan ég nýt trausts íbúa þar um slóðir til þess að gegna þingstörfum fyrir þá.