Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann teldi að engin vegáætlun hefði staðist á undanförnum árum og engin vegáætlun hefði verið svo úr garði gerð fyrr en þessi sem nú er til meðferðar að þær ,,væntingar``, eins og hann orðaði það, sem þar hefði verið boðið upp á hefðu náðst. Hæstv. ráðherra lét þess og getið að einhverjir hæstv. fyrirrennarar hans, hæstv. samgrh., án þess að hann nefndi það sérstaklega hefðu skorið niður vegáætlun án samþykkis Alþingis. Ég hlýt nú að játa það að ég man ekki eftir þessu, mitt minni brestur til þess að muna hvort þessar fullyrðingar hæstv. ráðherra séu réttar. En það mun vitaskuld gefast tóm til þess að fá upplýsingar um hvort þetta sé rétt hjá hæstv. ráðherra eða hvort hann sé bara að slá þessu fram út í bláinn.
    Það liggur hins vegar fyrir og það er okkur hv. alþm. minnisstætt að þessi hæstv. samgrh. lagði svo fyrir síðasta haust að fresta skyldi eða skera niður tilteknar framkvæmdir. Að einstök verkefni sem voru á vegáætlun ársins 1989 skyldu ekki unnin. Og þetta var sundurgreint í einstaka liði í hverju kjördæmi landsins. Ég fullyrði að það er a.m.k. í fyrsta skipti sem slíkar ákvarðanir hafa verið teknar af samgrh. og það með þeim hætti eins og gerðist í mínu kjördæmi að ekki var haft fyrir því að ræða við þingmenn kjördæmisins. Það er ábyggilega fordæmislaust. Hitt mun ég láta kanna hér á milli umræðna hvort fótur sé fyrir því að fyrirrennarar þessa hæstv. samgrh. hafi fellt niður verkefni á vegáætlun eða minnkað það fé sem ákveðið hafði verið í vegáætlun að verja til einstakra framkvæmda án þess að leitað hafi verið til Alþingis um staðfestingu á því.
    Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi vegáætlun er kannski sú fyrsta sem einungis byggir á fé sem inn kemur vegna svokallaðra sérmerktra
tekjustofna Vegagerðar ríkisins. Og það er einnig minnisstætt að jafnvel það fé var skorið niður í fyrra og teknar af því um 680 millj. kr. beint yfir í ríkissjóð. Það var líka algert einsdæmi. Það hefur aldrei gerst fyrr. Áður var það svo að deilur stóðu um það hér á hv. Alþingi í umræðum um vegáætlun hvort ríkissjóður legði fram nægilega mikið fé til vegamála til viðbótar við hina sérmerktu tekjustofna Vegasjóðs. Um þetta stóðu iðulega og ár eftir ár stórdeilur. Og ríkisstjórn sem ég var stuðningsmaður að lá undir miklum árásum m.a. hv. þm. Alþb. fyrir það að ekki var lagt fram nægilega mikið fé úr ríkissjóði til viðbótar við hina sérmerktu tekjustofna. Þar voru ekki spöruð hin breiðu spjótin í málflutningi, eins og hér var vitnað til af hálfu hv. þm. Karvels Pálmasonar.
    Nú er ekkert um þetta rætt. Nú erum við bara að tala um að það sé staðið við þær ákvarðanir Alþingis sem birtast í þeirri vegáætlun sem í gildi er og samþykkt var 20. maí í fyrra. Og að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðar féllu frá, sem væri auðvitað eðlilegt, þeim fyrirætlunum sem hér eru um niðurskurð til þess að koma áfram þeim þýðingarmiklu verkum sem vegamálin í landinu eru.

Það er ekki verið að tala um það að biðja hæstv. ríkisstjórn að skaffa aukið fé til viðbótar við hina sérmerktu tekjustofna, það er auðvitað eðlilegt að halda þeim í horfinu eins og gert hafði verið ráð fyrir. En áður var það árásarefni þessara hv. þm. úr Alþb. að við skyldum ekki láta nægilega mikið fé, þó það væri nokkuð, úr ríkissjóði til viðbótar við hina sérmerktu tekjustofna. Þetta er því út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra. Hann man nokkuð hvað hann hefur sagt um þessi efni fyrr. Hann segir að þetta sé fyrsta vegáætlunin þar sem ekkert er um það að tala að neitt aukið fé komi og það fé sem áður hafi verið ætlast til að kæmi samkvæmt sérmerktum tekjustofnum það virðist ætla að rýrna ansi mikið í meðförum þessarar hæstv. ríkisstjórnar og þessa hæstv. samgrh.
    Ég man eftir því að ekki er langt síðan að vegáætlun var tekin upp með afbrigðilegum hætti á milli reglulegrar endurskoðunar. Það mun hafa verið á Alþingi 1988, þar sem vegáætlun fyrir árið 1988 var brotin upp, án þess að um reglulega endurskoðun væri að ræða, undir forustu þáv. samgrh. Matthíasar Á. Mathiesen. En það var ekki til niðurskurðar. Það var til þess að ráðstafa auknu fjármagni, það var til þess að verja meira fé til vegamála og vegaframkvæmda en vegáætlunin sem í gildi var gerði ráð fyrir. Það má segja að ólíkt hafist þeir að, hæstv. fyrrv. samgrh. Matthías Á. Mathiesen og sá hæstv. samgrh. sem nú situr, Steingrímur J. Sigfússon, því með afbrigðilegum hætti hafa þeir báðir brotið upp gildandi vegáætlun. Annar þeirra, Matthías Á. Mathiesen, til þess að auka það fjármagn og auka við þær framkvæmdir sem gildandi vegáætlun gerði ráð fyrir, en núv. hæstv. samgrh. Steingrímur J. Sigfússon til þess að skera niður það fé og til þess að draga úr þeim framkvæmdum sem gildandi vegáætlun gerir ráð fyrir. Þetta hefði hæstv. samgrh. átt að rifja upp einnig hér áðan og taka þetta til marks um að hér væri með einstæðum hætti haldið á málum.
    Ég tek það svo að hæstv. ráðherra hafi svarað fsp. minni um hinn flata niðurskurð á þann veg að hann ætlist ekki til að sá flati niðurskurður nái
yfir fé til vegaframkvæmda. Það hefði vissulega verið fróðlegt að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh., ef hann hefði setið hér í sæti sínu, hver væri hans skoðun á því máli. Því stundum ber það við að þó að sagt sé að þessir tveir hæstv. ráðherrar séu í sama flokki, og vel má vera að þeir séu það enn þá, þá ber þeim ekki saman eða a.m.k. því sem kemur frá fjmrn. annars vegar og samgrn. hins vegar hefur ekki alltaf borið saman. Það hefði því verið fróðlegt að heyra einnig svör hæstv. fjmrh. við þessari fsp.
    Ég vil svo í lokin rifja það upp að við umræðu um vegáætlun fyrir ári gaf hæstv. samgrh. fyrirheit um það að svokölluð langtímaáætlun skyldi endurskoðuð og það verk yrði þá hafið. Nú mælir hann fyrir þessu vandræðamáli sínu hér í dag og segist vera í þann veginn að skipa nefnd og ætlar sér núna næstu daga að biðja stjórnmálaflokkana sem eiga fulltrúa hér á hinu háa Alþingi að tilnefna fulltrúa í nefnd sem eigi

að hafa með höndum að endurskoða fjárhagslegan grundvöll, eins og hann orðaði það, langtímaáætlunar í vegamálum og þá væntanlega langtímaáætlun. Ég tel að þarna hafi verið farið nokkuð hægt í að standa við þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra gaf í fyrra og er það þó meinlausara en ýmislegt annað sem brugðist hefur í því sem hæstv. ráðherra lýsti þá yfir. Það er hins vegar lítilþægt af hv. 1. þm. Vesturl., þeim ágæta hv. þm. og félaga mínum úr fjvn., þeim mikla áhugamanni um vegamál, að kalla þetta einhverja sárabót fyrir þann mikla niðurskurð sem er verið að framkvæma í þessum málaflokki.
    Ég hefði trúað að hv. 1. þm. Vesturl., sá mæti maður, hefði haft um þetta efni einhver önnur orð. Ég hlýt svo að sakna þess að ekki hefur tekið þátt í þessari umræðu og ekki verið í þingsalnum einn af þingmönnum Vestlendinga, ágætur þingmaður Skúli Alexandersson, hv. 4. þm. Vesturl. og þingmaður Alþb., vegna þess að á undanförnum árum hefur hann látið vegamál mjög til sín taka í ræðustól á Alþingi. Ég minnist þess að hann flutti mikla ræðu við afgreiðslu vegáætlunar í fyrra þar sem hann lýsti áhuga síum og vilja sinna flokksmanna til þess að gera stórvirki í þessum efnum þó nú hefði tekist verr en skyldi og ,,þeirra verk um sinn``, eins og hann orðaði það þá, verið minni en hugur þeirra stæði til. Nú hefði ég viljað að þessi hv. þm. og ágæti áhugamaður um vegamál hefði komið í ræðustól í dag og lýst því hvernig þetta sem hann kallaði ,,samdrátt um sinn`` ætlaði að líta út í framtíðinni ef svo heldur fram sem horfir undir forustu flokksbróður hans og þessarar hæstv. ríkisstjórnar. En því miður er ekki því að heilsa, hv. þm. Skúli Alexandersson hefur ekki séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu og kannski má segja lái honum hver sem vill.