Yfirstjórn umhverfismála
Þriðjudaginn 03. apríl 1990


     Ingi Björn Albertsson (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni þegar ég varð að fresta henni að ég hafði verið að glugga lítillega í nokkrar umsagnir sem borist höfðu hv. allshn. Nd. og fór víða um völl, tók til bæði umsagnir sem voru meðmæltar frv. og umsagnir sem voru andvígar og leiddu í ljós mikinn ágreining og efasemdir um það frv. sem hér er á dagskrá.
    Áður en ég dreg þær svolítið saman vil ég nota tækifærið, úr því að hæstv. forsrh. er hér á meðal vor, til að rifja upp frétt er var í Dagblaðinu hinn 27. mars sl. og bar yfirfyrirsögnina: ,,Skaðabótakröfur vegna áratuga gamalla sorphauga bandaríska hersins á Heiðarfjalli`` og aðalfyrirsögn: ,,Geta valdið PCB-mengun á miðum fyrir Austurlandi.``
    Í þessari frétt er fjallað um mengun sem þessir gömlu sorphaugar bandaríska hersins hafa valdið og áhrif þeirra sem nú eru að koma í ljós. Það segir í fréttinni að þessi mengun muni berast í grunnvatnið undir fjallinu og síðan í vatnslindir og þaðan út í lífríkið og að hætta sé á að mengunin muni síðan berast út í hafið að áliti Dean Abrahamson, sem er prófessor við Minnesotaháskóla og sérfræðingar í menningarmálum. Hann telur að mengun frá sorphaugunum geti haft áhrif á lífríki hafsins og þar með fiskimið undan Austurlandi ef PCB úr stórum rafspennum sem urðaðir voru í
sorpgryfjunum leki út í umhverfið. Hann mun jafnframt hafa bent á að PCB-mengun í hafinu kringum Ísland geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir markað fyrir íslenskan fisk. Og síðan er leitt að því getum að hér sé við mikið vandamál að eiga og erfitt að koma í veg fyrir þær afleiðingar sem hér hefur verið lýst.
    Þess vegna vil ég inna hæstv. forsrh. eftir því og ríkisstjórnina í heild og hef reyndar innt hæstv. umhverfisráðherra eftir því hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar verða við jafnalvarlegu máli og hér er á ferðinni, þar sem fullyrt er að fiskimiðin og lífríki undan Austurlandi séu í verulegri hættu og þar af leiðandi markaðir fyrir íslenskan fisk. Hér er náttúrlega um slíkt stórmál að ræða að ekki er hægt annað en spyrja hæstv. ríkisstjórn hvernig hún hyggist bregðast við þessum fréttum.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um það hvaða afleiðingar þetta getur haft. Það sjá allir í hendi sér að ef fréttir af slíkri mengun í hafinu við Íslandsstrendur fara að berast inn á markaði okkar, til okkar viðskiptavina, þá er voðinn vís og þess vegna jafnvel sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta vildi ég endurtaka hér vegna þess að hæstv. forsrh. var ekki viðstaddur þegar ég fór nánar út í þessa frétt á síðasta fundi. Ég vil sem sagt heyra álit ríkisstjórnarinnar á þeim vanda sem þarna blasir við.
    Ég hafði farið yfir örfáar umsagnir sem bárust hv. allshn. og hugðist á þessum fundi spyrja hæstv. landbrh. nokkurra spurninga er vakna við lestur umsagnar frá landbrn. Sömuleiðis hugðist ég leggja eina eða tvær spurningar fyrir hæstv. heilbrrh. sem

ekki heldur er hér í dag. Enda þótt það hafi, að mér skilst, verið tekið sérstaklega fyrir í ríkisstjórninni nýlega að brýna menn til betri mætingar í þingsölum sé ég ekki þessa tvo heiðursmenn hér í dag. En þeir geta auðvitað verið við störf í Ed. án þess að ég viti af því.
    Hæstv. heilbrrh. hafði fengið áskorun frá Röntgentæknafélagi Íslands um að hætt verði við flutning Geislavarna ríkisins til umhverfisráðuneytis. Við þessu vildi ég heyra viðbrögð ráðherra, hvort hann hafi í hyggju að verða við þessari áskorun. Og ef svo, hvernig hann hyggist standa að því máli. Og ef ekki, hvers vegna. Það hafa verið færð fyrir því fullgild rök að Geislavarnir ríkisins eigi ekki undir neinum kringumstæðum að færa undir nýja ráðuneytið og bent á það að 80% af starfsemi Geislavarna ríkisins heyri undir heilbrigðisgeirann. Ég vona hins vegar að hæstv. ráðherra eigi leið um salinn seinna í dag og þá get ég endurtekið spurninguna til hans.
    Ég hafði farið yfir hvað er umhverfi og hvernig á að fylgjast með umhverfi að mati mætra manna. Ég hafði farið yfir ályktun búnaðarþings þar sem hvatt er til þess að málið verði skoðað betur. Búnaðarþing hvetur til þess að reynt verði að ná sátt um málið og það kannað nánar. Búnaðarþing tekur undir þá hugmynd sem virðist eiga nokkru fylgi að fagna í þinginu bæði hjá stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum að málinu verði frestað og það sett í milliþinganefnd. Það verði unnið betur og komi síðan aftur fyrir þingið á haustdögum í sem mestri sátt allra sem málið snertir. Þessi skoðun á sér, eins og ég segi, víðtækt fylgi og langt út fyrir raðir þingmanna. Ég hygg að víðast hvar í þjóðfélaginu séu menn sáttir við það að vinna málið betur og reyna að gera það í sátt og samlyndi.
    Ég hafði farið yfir umsögn Stéttarsambands bænda þar sem varað er sterklega við öllum breytingum á skipan þeirra mála sem gætu spillt fyrir árangri í þeim efnum. Rannsóknastofnun landbúnaðarins sagði að í ljósi hinna miklu skyldleika sem eru á milli RALA, Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar teldi RALA óheppilegt fyrir starfsemi stofnunarinnar að Skógrækt ríkisins og Landgræðslan
færist undir umhverfisráðuneyti, þar sem veruleg hagræðing væri að því að hafa þessa þrjá þætti undir sama ráðuneyti.
    Umsögn landbrn. var afar athyglisverð og nauðsynlegt að hæstv. landbrh. taki þátt í umræðu og upplýsi þingið um það hvort umsagnir sem frá ráðuneytinu hafa borist séu skoðanir og stefna hæstv. ráðherra því að þar er mjög sterklega varað við flutningi verkefna sem heyra undir landbrn. til umhverfisráðuneytisins. Reyndar byrjar landbrn. á því að benda á reynslu nágrannalanda okkar sem mun vera um 20 ára reynsla og að staðreyndin sé að þessi ráðuneyti hafi víða þanist út með slíkum hraða að með ólíkindum sé og orðið að tröllauknum stofnunum fyrr en varir. En samt ekki náð að verða virkar á þann hátt sem upphaflega var að stefnt og vonir bundnar við. Þetta er í takt við það sem

stjórnarandstæðingar hafa varað við og ég hef ítrekað varað við. Landbrn. bendir t.d. á að í norska umhverfisráðuneytinu sem stofnað var 1973 starfi nú um 3000 manns og að heildarfjárveitingar til umhverfismála árið 1989 hafi numið 6 milljörðum 378 millj. norskra kr. en umhverfisráðuneytinu sé aðeins ætlaðar 1 milljarður 642 millj. kr. Hinn hluti þessarar miklu fjárveitingar skiptist á umhverfisviðfangsefni til 16 annarra ráðuneyta. Þannig er því fyrir komið í norska stjórnkerfinu.
    Landbrn. gagnrýndi að fá ekki að fjalla um stofnun ráðuneytisins sem slíks en það vekur furðu ráðneytisins hversu margar stofnanir nefndin sem samdi frv. vill setja undir umhverfisráðuneytið. Ráðuneytið segir að gangi slíkt eftir stefni í að umhverfisráðuneytið verði að bákni þannig að mestur hluti mannafla og fjármuna færi í að viðhalda því sjálfu. Ráðuneytið lætur þá skoðun sína í ljós að þessi viðfangsefni eigi að vista innan núverandi ráðuneyta og að umhverfisráðuneyti sem eigi að annast eftirlit, fræðslu, aðhald og samræmingu gagnvart öllum þeim sem gætu með gerðum sínum eða aðgerðarleysi haft áhrif á umhverfi sitt ætti eðli málsins samkvæmt að vera lítið ráðuneyti mannað sérhæfðu starfsliði og ekki að hafa með stjórn stofnana að gera umfram brýna nauðsyn. Og það klykkti út með því að segja að ekkert hafi komið fram sem réttlæti breytta skipan þeirra mála en vitað er að breytingar samkvæmt hugmyndum nefndarinnar varðandi vistun málefna Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins mundu riðla mörgu og rústa margt sem áunnist hefur af því sem telja verður í þágu umhverfismála og gróðurríkara Íslands.
    Hér er náttúrlega, hæstv. forseti, um stór orð að ræða. Landbrn. metur þetta svo að það sé verið að riðla miklu starfi og hreint og beint verið að rústa því. Ég tel nauðsynlgt að hæstv. landbrh. taki þátt í umræðum og láti það koma fram hvort hér séu ekki ábyggilega hans skoðanir á ferðinni. Enda, eins og ég hef áður sagt, í hæsta máta óeðlilegt ef ráðuneytið er að senda frá sér umsagnir sem eru þvert á skoðanir og stefnu ráðherrans. Þangað til annað kemur í ljós hljótum við að telja þetta skoðun hans og stefnu og væntanlega stefnu hans flokks.
    Á það hefur verið bent að embætti yfirdýralækna í nágrannalöndum okkar eru í landbúnaðarráðuneytum nema í Danmörku þar sem það er í dómsmrn. eða, eins og segir í niðurlagi þeirrar umsagnar, að alls staðar eru dýralæknar ráðgefandi um dýravernd. Því teldi ég, sagði Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir, það vera dýraverndunarmálum styrkur hér á landi ef þessi málaflokkur yrði færður til landbrn. eins og í nágrannalöndum okkar og reynst hefur vel. Ég get fyllilega tekið undir það að þann málaflokk megi færa undir landbrn. en ég get ekki séð að hann eigi heima undir umhverfisráðuneyti.
    Dýralæknafélag Íslands taldi það varhugaverða stefnu að samþykkja lög um umhverfisráðuneyti þar sem ekki er sett fram nein umhverfismálastefna og ekki markaðar neinar leiðir til að ná slíkri stefnu og

ekki ákveðið hvernig að framkvæmd og eftirliti umhverfismála skuli yfirleitt staðið.
    Sameiginleg niðurstaða stjórnar Geislavarna ríkisins og forstöðumanns Geislavarna ríkisins var að ekki eigi að flytja starfsemi stofnunarinnar frá því ráðuneyti sem fer með yfirstjórn heilbrigðismála þar sem langstærsti hluti verkefna þeirra stofnunar sé á sviði heilbrigðismála eins og ég hef reyndar komið inn á áður. Og á það er bent að núverandi fyrirkomulag Geislavarna hér á landi sé í samræmi við fyrirkomulag geislavarna annars staðar á Norðurlöndum og var sérstaklega á það bent að yfirstjórn geislavarna í Danmörku og Noregi sé í höndum heilbrigðisráðuneyta landanna þrátt fyrir það að í báðum þessum löndum séu starfandi umfangsmikil umhverfisráðuneyti. Þeir benda einnig á það að 80% af þeirra starfsemi heyra undir heilbrigðismál og aðeins 20% undir aðra liði. Það er þá helst vegna rannsókna á geislavirkum efnum í matvælum.
    Hv. allshn. barst einnig áskorun frá Landspítalanum, röntgendeild, þar sem prófessor í geislalæknisfræði og forstöðumaður röntgendeildar Landspítalans, Ásmundur Brekkan, yfirlæknir röntgendeildar Borgarspítala, Örn Smári Arnarson, og yfirlæknir röntgendeildar Landakotsspítala, Þorkell Bjarnason, skoruðu á hv. allshn. að Geislavarnir ríkisins mættu áfram halda eðlilegum sessi sínum í tengslum við ráðuneyti heilbrigðismála.
    Hjá Hollustuvernd, sem hefur verið mikið ágreiningsefni, hefur mengunarvarnasvið þeirrar stofnunar skorið sig úr. Það hefur getað sætt sig
við að vera flutt undir umhverfisráðuneyti en hin þrjú sviðin ekki og þau talið óæskilegt að tengslin við heilbrigðisráðuneytið minnkuðu eða rofnuðu alveg. Það leiðir hugann að brtt. fulltrúa Kvennalistans, þar sem gert er ráð fyrir að kljúfa Hollustuvernd ríkisins. Þeirri brtt. get ég ekki verið fylgjandi og tel reyndar mjög varasamt, eins og mjög glöggt kemur fram í
röksemdum Hollustuverndar ríkisins þar sem hún varar við því að stofnunin verði klofin og bendir á nokkur dæmi sem vert er að rifja upp. Spurt er m.a. hver ætti þá að fjalla um aðgerðir til að tryggja heilnæmi neysluvatns og hvernig ætti að tryggja samræmi í aðgerðum sem nauðsynlegar væru ef í ljós kæmi að smithætta stafaði af vargfugli sem sækti í æti í ófullnægjandi frárennsli eða í óvarða sorphauga og bæri síðan smit í vatnsból manna og búpenings. --- Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að þegar á að fara að reyna að koma vitinu fyrir hv. þm. Kvennalistans rjúka þeir á braut. Ég ætla nú samt að halda áfram. Þær geta spurst fyrir eða hagað sínu máli hvernig sem þær vilja.
    Það er einnig bent á hvernig ætti að taka á málum ef bensíngeymir læki og bensínið ætti greiða leið niður í grunnvatn og síðan í neysluvatn þéttbýlisstaða. Þetta eru dæmi um spurningar sem vakna ef mengunarvarnir eru klofnar frá almennu heilbrigðiseftirliti. En Hollustuvernd bendir á meira. Í umsögninni segir að önnur ástæða þess að stjórnin telji fráleitt að kljúfa stofnunina sé sú, með leyfi

forseta, ,,að henni er ætlað að hafa yfirumsjón með og samræma eftirlit á sviði matvæla, almenns heilbrigðiseftirlits, eiturefnaeftirlits og mengunareftirlits en beint eftirlit á þessum sviðum er að stærstum hluta á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. Ef stofnun yrði klofin þyrfti heilbrigðiseftirlitið að bera mál sín undir tvö ráðuneyti, annars vegar vegna innra umhverfis og hins vegar vegna ytra umhverfis. Fullvíst er að það mundi valda verulegum erfiðleikum að þjóna samtímis tveimur ráðuneytum, sérstaklega í málum sem væru á mörkum þess að falla undir innra eða ytra umhverfi.``
    Og þriðja ástæðan sem stjórn Hollustuverndar tilgreinir er að ,,ef eftirlitshlutverki heilbrigðisnefndanna yrði breytt þannig að þeim væri ekki ætlað að skipta sér af mengun í ytra umhverfi þá yrði ríkið væntanlega að stofna nýtt eftirlitskerfi og taka þar með eftirlitsskyldu og ábyrgð frá sveitarfélögunum. Þessi kostur er ekki fýsilegur í dag enda leiddi hann trúlega til þess að kostnaður mundi aukast, tengsl við sveitarfélögin mundu rofna, verksvið eftirlitsaðila mundu skaras,t auk þess sem það tæki nokkur ár að þjálfa nýja eftirlitsmenn,,, segir í umsögninni. Með þessum rökum, sem ég geri að mínum, get ég ekki stutt brtt. Kvennalistans.
    Framkvæmdastjórar og forstöðumenn fagsviða Hollustuverndar sendu inn sínar umsagnir eins og ég hef farið yfir. Eiturefnaeftirlitið taldi hugtakið umhverfismál ekki skilgreint. Heilbrigðiseftirlitssvið lýsti yfir andstöðu við hugmyndir um flutning Hollustuverndar yfir í fyrirhugað umhverfisráðuneyti og vakti athygli á að mestur hluti starfsemi stofnunarinnar er ekki á sviði umhverfismála. Þeir tóku fram að ekki séu fordæmi þess í öðrum löndum, svo vitað sé, að matvælaeftirlit heyri undir umhverfisráðuneyti. Rannsóknastofan tók undir álit heilbrigðiseftirlitssviðs. Mengunarvarnir töldu hins vegar mikilvægt að sameina sem flesta þætti umhverfismála í einu ráðuneyti. Þeir drógu hins vegar í efa að það væri rétt að flytja stofnunina í heilu lagi undir umhverfisráðuneyti, töldu að matvæla- og heilbrigðiseftirlit ætti fremur heima undir heilbrrn., sbr. reynslu Dana, en matvælaeftirlit var þar nýlega tekið undan umhverfisráðuneytinu og flutt í heilbrrn. ( Forseti: Forseti telur sér skylt að benda hv. þm. á það að hann er nú í annað skipti að fara yfir þær umsagnir sem borist hafa í dagskrármálinu sem er hér til umræðu og er það talsvert á skjön við viðurkenndar þinghefðir.) Ef hæstv. forseti hefur hlustað á mál mitt man hann það að ég sagði í upphafi að ég væri að draga saman niðurstöðu úr þeim umsögnum sem ég hef farið yfir. Ef hæstv. forseti álítur að ég hafi farið yfir allar þessar blaðsíður sem hann sér fyrir framan mig á 20 mínútum er það ekki rétt ályktað. Ég er aðeins að draga saman meginniðurstöður úr einstaka umsögnum, annað ekki. Ég tel það alls ekki á skjön við neinar þinghefðir þó að ég sé ekki reyndur maður í þinginu.
    Ég skal ljúka yfirferð um Hollustuvernd, en engu að síður geta þess í lokin að sú skoðun nýtur

meirihlutafylgis innan stjórnar þeirrar stofnunar að Hollustuvernd heyri áfram undir heilbr.- og trmrn.
    Landlæknir varaði við að Geislavarnir ríkisins og Hollustuvernd ríkisins yrðu færðar. Þær tvær stofnanir ættu heima áfram undir yfirstjórn heilbrigðismála, enda yfirgnæfandi meiri hluti þeirra verkefna þessara tveggja stofnana á sviði heilbrigðismála og hluti heilbrigðisþjónustunnar í landinu.
    Ég skal, hæstv. forseti, reyna að flýta mér sem mest ég má. Ég heyri að málið þolir enga bið og skal stytta mál mitt verulega. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég hef áður sagt að ég furða mig á því að Samband ísl. sveitarfélaga skuli ekki hafa talið sér fært að taka afstöðu til þessa máls. Þeir segja reyndar orðrétt: ,,Stjórnin harmar að ekki skuli hafa verið unnið að
þessu mikilvæga máli í nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu því umhverfismál eru mikilvægur þáttur sveitarstjórnarmála.`` Um þetta hafði ég spurt hæstv. forsrh. og hann svarað því til að samstarf hefði verið haft við sveitarfélögin í landinu. En samkvæmt því sem fulltrúi þeirra, Magnús E. Guðjónsson, segir í bréfi dags. 23. jan. 1990 virðist svo ekki hafa verið. Veit ég ekki hvor fer með rangt mál en veit það hins vegar að annar aðilinn á það til að gleyma hlutum.
    Á það hefur verið bent að í frv. vanti sérstök ákvæði um stofnun og tilflutning á stöðugildum og rekstrarfé frá öðrum ráðuneytum í samræmi við minni verkefni þeirra. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur boðist til að verða hv. allshn. innan handar við að forma þær breytingar og ég lýsi því hér með yfir að ég mun óska eftir að fá þær breytingar útlistaðar á fundi hv. nefndar að lokinni 2. umr. og mun því ekki fjalla meira um það í ljósi þess hversu mjög er ýtt við þingmönnum þessa dagana út af þessu máli.
    Hæstv. forseti. Ég hef oft sagt það og reyndar fleiri að umhverfisráðuneytið sé ákveðin greiðsla í deild Borgaraflokksins fyrir að veita þessari hörmulegu ríkisstjórn tryggari þingstyrk en áður. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort flokkunum í ríkisstjórninni hefur nú fjölgað um einn, tvo eða þrjá í ljósi þeirra frétta sem berast nú úr herbúðum Borgaraflokksins og ekki ljóst lengur hverjir eiga aðild að þeim flokki, ekki einu sinni ráðherrarnir sjálfir.
    Ég ætla að leyfa að fara hér yfir fyrirspurn sem lögð var fram á þinginu 1988--1989. Svarið var á þskj. 1259. Fyrirspurnin var til forsrh. um ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland. Fyrirspurnin hljóðaði svo:
    ,,Hvað líður undirbúningi stjórnvalda fyrir ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 18. mars 1987?``
    Fyrirspurnina lagði hv. þm. Friðrik Sophusson fram. Í svari forsrh. segir m.a.:
    ,,Þingsályktunin var send forsætisráðuneytinu með bréfi dags. 10. apríl 1987. Til sérstakra undirbúningsaðgerða hefur samt sem áður ekki komið enn, hvorki af hálfu fyrrverandi né núverandi

ríkisstjórnar. Málið hefur þó alloft verið rætt.
    Óskað hefur verið umsagnar Siglingamálastofnunar ríkisins um ályktunina. Umsögnin, sem dagsett er 18. maí 1989, er svohljóðandi:
    ,,Að mati Siglingamálastofnunar ríkisins væri bæði eðlilegt og sjálfsagt með hliðsjón af vaxandi mengun sjávarins og hagsmuna Íslands varðandi verndun hafsins að íslensk stjórnvöld hefðu frumkvæði að því að halda hér ráðstefnu sem fjallaði um varnir gegn mengun sjávar í Norðaustur-Atlantshafi. Markmið slíkrar ráðstefnu ætti að vera fyrst og fremst að afla gagna til stefnumótunar og tillöguflutnings á alþjóðavettvangi um auknar varnir gegn mengun hafsins. Til þess að auka líkur á því að það markmið náist þarf ráðstefnan að vera alþjóðleg og skírskota fyrst og fremst til faglegrar umfjöllunar um helstu þætti mengunarvandans eins og hann blasir við. Þess vegna telur stofnunin að það mundi takmarka þátttöku og áhuga á ráðstefnu af þessu tagi ef hún fjallaði eingöngu um geislavirk efni því staðreynd er að það eru fjölmörg önnur vandamál sem við blasa og sum ef til vill enn alvarlegri, eins og t.d. mengun af völdum lífrænna þrávirkra klórsambanda, svo sem PCB, DDT og DIOXIN, þó ekki sé á neinn hátt dregið úr hættunni sem fylgir losun geislavirkra efna í sjó.
    Að mati Siglingamálastofnunar koma til greina tvenns konar ráðstefnur. Annars vegar ályktunarhæf ráðstefna þar sem saman kæmu t.d. ráðherrar, vísindamenn og embættismenn allra þeirra þjóða sem eiga hagsmuna að gæta á Norðaustur-Atlantshafi þar sem áhersla yrði lögð á að móta sameiginlega stefnu gagnvart alþjóðlegu starfi. Hins vegar væri um að ræða hreina faglega ráðstefnu vísindamanna þar sem leitast yrði við að varpa ljósi á ástand mála á þessu hafsvæði. Auk þess mætti leggja sérstaka áherslu á umfjöllun um áhrif mengunarefna á lífríki hafsins, en slík umfjöllun á fjölsóttri ráðstefnu gæti orðið til þess að renna stoðum undir nauðsyn þess að tekin verði upp öflug sönnunarbyrði vegna losunar efna í hafið. Slíkt hlýtur að teljast verulegt kappsmál fiskveiðiþjóðanna við Norður-Atlantshaf því enn eru mörg ríki, þar á meðal stór iðnríki, þeirrar skoðunar að nota skuli hafið til förgunar úrgangs eins lengi og ekki er sýnt fram á að það valdi mengun sjávar.
    Fyrri leiðin hefur m.a. þá ókosti að um er að ræða mörg ríki með ólík sjónarmið á mengunarvandanum og erfitt væri að ábyrgjast fyrir fram afgerandi ályktanir frá ráðstefnunni nema undirbúningur og fyrirliggjandi gögn væru þeim mun afdráttarlausari um nauðsyn aðgerða. Ef hins vegar tækist að ná afgerandi samstöðu um aðgerðir á slíkri ráðstefnu gæti framhaldið leitt af sér hraðari viðbrögð á alþjóðavettvangi. Ljóst er að kanna þyrfti vilja viðkomandi ríkja áður en ákveðið yrði að boða til slíkrar ráðstefnu. Seinni leiðin er hins vegar ekki eins áhættusöm hvað árangur varðar og krefðist ekki eins mikils undirbúnings af Íslands hálfu.
    Æskilegt væri að miða tímasetningu ráðstefnunnar nokkuð við það sem er að gerast á þessu sviði í næsta

nágrenni okkar. Þannig má geta þess að nú er
vitað um eftirfarandi alþjóðlega fundi og ráðstefnur um mengunarvarnir sjávar á næstu missirum.`` Og síðan kemur nokkur upptalning á slíkum ráðstefnum sem ég ætla mér ekki að telja hér upp, en í lokin segir, með leyfi forseta:
    ,,Ætla má að lágmarksundirbúningur fyrir alþjóðlega ráðstefnu um mengun sjávar þar sem eingöngu yrði fagleg umfjöllun sé um 12 mánuðir frá því að ákvörðun væri tekin um að halda hana hér. Með vísun til þess og hins að mikið er að gerast á þessum vettvangi hér á landi eða í næsta nágrenni okkar seinni hluta þessa árs og fyrri hluta árs 1990 sýnist ekki skynsamlegt að stefna að því nú að halda slíka ráðstefnu fyrr en í fyrsta lagi seinni hluta árs 1990 eða fyrri hluta árs 1991. Undirbúningur að ályktunarhæfri ráðstefnu tæki eflaust mun lengri tíma og jafnvel álitamál hvort fagleg ráðstefna þyrfti ekki einmitt að koma til áður en boðað yrði til slíkrar ráðstefnu.``
    Núverandi forsrh. hefur í ríkisstjórn rætt um að haldin verði hér á landi alþjóðleg ráðstefna um verndun hafsins, helst á næsta ári.``
    Þannig var svarið en ekkert skeði. Ráðstefnan var ekki haldin og því var sett fram fyrirspurn á ný á þessu þingi sem nú stendur yfir og við henni barst svo svar sem er efnislega mjög svipað en þar segir svo í niðurlagi:
    ,,Með hliðsjón af framansögðu og þeim sjónarmiðum sem fram komu í svari við fyrirspurn sama fyrirspyrjanda á síðasta þingi er af hálfu Siglingamálastofnunar ríkisins talið heppilegt að stefna að ráðstefnu vísindamanna um varnir gegn mengun sjávar í apríl eða maí 1991 og hefja þegar athugun og undirbúning með það að leiðarljósi.
    Af hálfu stjórnvalda hefur
umhverfisráðherra verið falið að vinna að undirbúningi ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland á grundvelli nefndrar þingsályktunar frá 18. mars 1987 í samvinnu og samráði við Siglingamálastofnun ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Geislavarnir ríkisins og Háskóla Íslands.``
    Og nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. umhvrh. hvað þessum undirbúningi líði og hvort þessi ráðstefna verði haldin hér á þessu ári eins og tvíboðað er í svari frá forsrh.
    Hæstv. forseti. Það hefur greinilega legið mikið á að koma þessu ráðuneyti á laggirnar og menn bera greinilega mismunandi mikið traust til þessa nýja ráðuneytis. Þannig hefur komið fram að menntmrn. þurfti að flýta sér svo mikið við að setja reglugerð sem kemur inn á svið hins nýja ráðuneytis að það breytti hrafni í máv og gerði hrafna, sem eru eftir því sem ég best veit spörfuglar, að mávategund. Vantraustið á umhverfisráðuneytið var það mikið að þeir gátu ekki beðið, því að þessi reglugerð er sett núna fyrir örfáum vikum síðan og kemur beint inn á verksvið umhverfisráðuneytisins. Samkvæmt henni verður veiðistjóri að hafa samráð við menntmrn. um allar þær aðgerðir sem þessi sérstaka reglugerð kveður

á um sem er um eyðingu svartbaks og hrafns með sérstökum hætti. Á þetta hefur verið bent áður og reyndar furðulegt að slík fáviska skuli koma fram frá einu ráðuneyti.
    Nokkuð hefur verið um það fjallað að fresta þessu máli svo til öllu til haustsins. Menn hafa bent á það að ráðuneytið hafi nú þegar veruleg verkefni sem fram komi í þeirri reglugerð sem sett var 23. febr. 1990 en verkefni umhverfisráðuneytisins eru skilgreind í fimm liðum. Undir það tekur reyndar hv. þingflokksformaður Borgfl. í ræðu uppi í Ed. þegar hann gerir grein fyrir atkvæði sínu um stofnun ráðuneytisins. Þá segir hv. þingflokksformaður Guðmundur Ágústsson, og er hann að svara hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur í leiðinni, með leyfi forseta:
    ,,Ég kvíði því ekki, eins og fram kom hjá hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur, að væntanlegur umhverfisráðherra hafi ekki næg verkefni þegar ráðuneytið hefur verið sett á stofn. Þess bíða einmitt mjög stór verkefni, samræmingarverkefni, fræðsluverkefni og önnur verkefni sem brýnt hefur verið að taka á í umhverfismálum.``
    Þarna tekur sjálfur þingflokksformaður Borgfl., ef hann er það enn þá og ef flokkurinn er enn þá til, undir það að nú þegar eru komin næg verkefni til hæstv. umhvrh. og því alls ekki brýnt að vera að samþykkja þann lagabálk sem við erum hér að fjalla um. Til vara getum við samþykkt frv. að því tilskildu að þær brtt. sem ég stend að ásamt hv. þm. Ólafi G. Einarssyni og Friðjóni Þórðarsyni verði samykktar. En reglugerðin gefur ráðherranum sem sagt næg verkefni. Það þarf ekki að tína út úr því neitt sérstakt. Hann hefur með fræðsluþáttinn að gera samkvæmt þessari reglugerð. Hann hefur með alþjóðasamskipti að gera, og hygg ég að þar verði ráðherrann mjög upptekinn, og fjölda marga aðra þætti sem ég ætla ekki að fjalla mikið nánar um hér.
    Ég gagnrýndi, hæstv. forseti, mjög í upphafi ræðu minnar fyrir nokkrum dögum vinnubrögðin í nefndinni og ætla því til frekari stuðnings að kíkja hér aðeins á þær umræður sem fóru fram í Ed. um svipað málefni. Það var okkar mat, stjórnarandstæðinga, að bæði frv. um stofnun ráðuneytisins sem slíks og einnig þetta frv. hér um flutning verkefna til ráðuneytisins bæri að ræða saman, enda var gefið fyrir því fordæmi þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir málunum og gerði það á þá lund að hann mælti fyrir þeim báðum samtímis og taldi það eðlilegt,
sem og forseti þessarar ágætu deildar sem heimilaði þá málsmeðferð. Að því loknu skildu hins vegar leiðir og málin fengust ekki rædd saman eins og eðlilegt hefði verið. Ég hef áður sagt að ef farið hefði verið að óskum stjórnarandstöðunnar í því og farið eftir fordæmi hæstv. forsrh. væri þetta mál fyrir löngu komið út úr þessari deild. En það var sem sagt slegið á útrétta samnings- og sáttahönd stjórnarandstöðunnar og því hefur þurft að ræða þessi mál hvort í sínu lagi með þeim afleiðingum að umræða hefur orðið ívið lengri en gengur og gerist kannski. Hv.

þingflokksformaður Borgfl. sagði í Ed. þann 21. febr., með leyfi forseta:
    ,,Jafnhliða umfjöllun um það frv. sem hér er til umræðu var fjallað um fylgifrv., 128. mál þingsins. Var það óhjákvæmilegt svo nefndarmenn gætu betur gert sér grein fyrir umfangi og starfssviði hins nýja ráðuneytis. Náðist um það samstaða í nefndinni að fjalla um málin saman svo að ekki þyrfti, þegar fylgifrv. kæmi til deildarinnar, að kalla sömu aðilana fyrir aftur.``
    Þarna heldur hv. þingflokksformaður og nefndarformaður allshn. Ed. því vinnulagi sem við stjórnarandstæðingar fórum fram á hér í Nd., að málin fengju að fylgjast að, og tekur því undir þær kröfur okkar. En hann segir meira, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hl. allshn. er þeirrar skoðunar, þar sem umfjöllun um frv. er lokið í nefndinni, að taka beri það á dagskrá í þingdeildinni. Deilur urðu að vísu innan nefndarinnar um hvort bíða ætti með frv. þetta til þess tíma er fylgifrv. kæmi til Ed. og afgreiða málin samtímis úr deildinni. Stjórnarandstaðan lagði á það áherslu með þeim rökstuðningi að til lítils væri að stofna umhverfisráðuneyti ef verkefni væru engin. Má það til sanns vegar færa og staðfesti formaður þeirrar nefndar er samdi frv. að hugsun nefndarinnar hafi verið sú að frv. þessi fylgdust að.``
    Enn kemur það fram, það kemur fram alls staðar, að það var ætlunin allan tímann að þessi tvö frv. fylgdust að og því með öllu óskiljanlegt að stjórnarliðar og ríkisstjórn skyldu ekki vilja taka undir þá kröfu stjórnarandstæðinga að svo yrði, en þeir verða náttúrlega að sitja uppi með það.
    Hæstv. forsrh. tók ekki mjög virkan þátt í þeirri umræðu. Hann sagði hins vegar eftirfarandi um Brundtland-skýrsluna sem mikið hefur verið vitnað til og ég skal viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel. Ég hef að vísu hlustað á mál manna og aðeins lært vonandi af því. Hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar veit ég að margir ráðherrar hafa lesið hana [þ.e. Brundtland-skýrsluna] og hún var höfð sem grundvallarplagg ásamt ýmsu fleiru í því starfi sem nefndin vann sem frumvörpin samdi.``
    Forsrh. er hér að segja að Brundtland-skýrslan hafi verið, eins og hann segir, grundvallarplagg við samningu þessa frv. og í starfi nefndarinnar í heild. Ég vil því fara fram á það að hv. allshn. verði útveguð Brundtland-skýrslan og ekki á einhverju erlendu tungumáli, við erum hér í íslenska þjóðþinginu. Við hljótum að geta fengið það grundvallarplagg sem liggur að baki öllum þessum málaflokki til umfjöllunar í nefndinni og til kynningar. Annað finnst mér í hæsta máta óeðlilegt. Og ég spyr, kannski af fávisku minni, hæstv. forseta hvernig það er, þegar því er lýst yfir að ákveðin plögg leggi grunninn undir frumvörp, hvort það sé ekki réttur nefndarmanna í þeim nefndum sem um málin fjalla að fá þau grundvallarplögg til skoðunar og til að meta og þá einnig hvort það sé ekki réttur skilningur minn að það eigi að vera á móðurmálinu, á íslensku. --- Hefur

hæstv. forseti enga skoðun á því? ( Forseti: Er hv. þm. að hefja beinar viðræður við forseta deildarinnar? Ber að skilja þetta svo?) Nei, ég leyfði mér að bera fram tvær spurningar til hæstv. forseta. ( Forseti: Forseti getur upplýst það vegna þessarar fyrirspurnar að það hefur aldrei komið fram ósk af hálfu hv. þm., hvorki þess sem í ræðustól stendur eða frá öðrum þingmönnum, til forseta þingsins um það að Brundtland-skýrslan verði þýdd og afhent þingmönnum. Þetta er eina svarið sem forseti getur gefið.) Ég var bara, hæstv. forseti, að inna eftir því hvort það væri ekki rétt að nefndin fengi hana og hvort hún gæti fengið hana. Og ég leyfi mér þá að skilja svarið á þann hátt að við getum fengið skýrsluna þýdda til að skoða hana og yfirfara.
    Hæstv. hagstrh. lagði ekki mikið til málanna í þessari umræðu annað en það að hann viðurkenndi að hann hefði verið eitthvað óþolinmóður og fundist málin kannski ganga stundum of hægt, eins og hann sagði, en hafði þó þann fyrirvara á að það ætti ekki við um umræðuna í Ed. vegna þess að hún væri yfirleitt málefnalegri en í Nd. en það kynni að stafa af því, eins og hann sagði, að hann ætti sjálfur sæti í Ed., sem er nú ágætis einkunn, bæði á Nd. og á sjálfan sig.
    Það eru fleiri sem gagnrýna vinnubrögðin en stjórnarandstæðingar. Hv. stjórnarliði af og til og stjórnarandstæðingur af og til Karvel Pálmason var mjög harðorður við þessa umræðu uppi í Ed. um umhverfismálin. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Ekki skal ég lengja mjög þessa umræðu þó að vissulega væri til þess ástæða að fjalla nokkuð um þá einkennilegu málsmeðferð sem mér sýnist hér vera viðhöfð.
    Ég vil í fyrsta lagi viðurkenna það að ég hef eiginlega aldrei verið sannfærður um ágæti þess að stofna eitt ráðuneyti í viðbót sem héti umhverfisráðuneyti. Þeim málum má koma við með öðrum hætti. Öllum er auðvitað ljóst að umhverfið þarf að vernda og bæta. En ég vil líka viðurkenna að ég beitti mér ekki gegn því í þingflokki Alþfl. og hafði ekki við það athugaemdir þegar þessi tvö mál komu saman inn í þingflokkinn og voru afgreidd þar.
    Nú er allt annað uppi á teningnum í þessum efnum. Ég heyrði það fyrir rúmri viku síðan í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að hæstv. ríkisstjórn legði höfuðáherslu á það nú að fá afgreitt það mál eitt og sér sem hér er á dagskrá. Hitt liggur líklega eitthvað, nema rétt sé sem haft er eftir hæstv. hagstofuráðherra og væntanlegum umhverfisráðherra, skilji maður þetta rétt, að málin eigi að fylgjast að út úr Ed.
    Mér finnst að hér sé verið að misbjóða þingmönnum almennt í vinnubrögðum og hér eigi flokkspólitísk sjónarmið að ráða. Vinnubrögð af þessu tagi, að haga málum með þessum hætti, eru auðvitað að misbjóða þinginu sem slíku. Og í mínum huga ber þetta allt of mikinn keim af mikilli kaupmennsku og hégómagirni tiltekinna einstaklinga sem hér eiga hlut að máli.``
    Og hv. þm. klykkir síðan út með því að segja, með

leyfi forseta: ,,Og þetta á ekki að vera nein viðskiptavara milli flokka í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu eins og mér finnst málið bera æðimikinn keim af í þessum efnum.``
    Það er því ljóst að það er ekki eingöngu við stjórnarandstæðinga að eiga í þessum málum heldur einnig stjórnarliða sem hafa verulegar efasemdir og athugasemdir við þetta mál allt, eins og t.d. hv. þingflokksformaður Alþb. sem hefur lýst yfir óánægju með afgreiðslu málsins, enda lýsti hún því yfir í frétt 21. febr. að henni fyndist eðlilegra að þessi tvö frv. fylgdust að og þannig yrði pakkinn allur tilbúinn til samþykktar í Ed. í heild sinni. En þar segir Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Alþb., að meðal margra þingmanna stjórnarinnar megi greina óánægju með hvernig ætlunin sé að standa að samþykkt frv. um breytingu á Stjórnarráði Íslands og stofnun umhverfisráðuneytis. Ætlunin sé að fá fyrst í gegn stofnun ráðuneytis en geyma til næsta þings hvernig málum verði skipað í hinu nýja ráðuneyti enda ljóst að mikill ágreiningur sé um þau mál. Þetta var fyrir rúmum mánuði síðan eða fimm vikum. Þá er þingflokksformaður stjórnarflokks, Alþb., að ýja að því að geyma ætti þetta mál til næsta þings. Síðan lýsir hún því yfir, eins og við höfum margoft gert, að þessi frv. hefðu átt að fylgjast að og það væri óeðlilegt, eins og var á þeim tíma, að stofna ráðuneyti án verkefna.
    Ég hef hér undir höndum frétt frá 1. mars 1990 þar sem er viðtal við Gro Harlem Brundtland og einnig hæstv. umhvrh. og kemur þar m.a. fram að skýrsla Gro Harlem Brundtland sé biblía ráðherrans. Ég ætla vegna þess skilnings sem ég lagði í svar forseta rétt áðan að geyma mér þessa frétt þar sem ég tel að hv. allshn. muni fá Brundtland-skýrsluna til umfjöllunar og lestrar og að hugsanlega geti þessi frétt verið komin í annað ljós eftir þann lestur, en engan veginn er hún gleymd.
    Í viðtali við hæstv. umhvrh. í DV, ég hef því miður ekki dagsetninguna á því, þar sem verið er að tala um gróðurvernd og hugmyndir ráðherrans í þeim efnum, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ég sé það t.d. fyrir mér að ef það er eitthvert landsvæði sem við viljum taka til meðferðar getum við boðið það út eða þá samið við Landgræðsluna eða jafnvel samið um það við bændur sem eru í námunda við þetta svæði að þeir sjái um þetta fyrir okkur.``
    Ég óska eftir útskýringum hæstv. umhvrh. á því hvað hann meinar þegar hann er að tala um að bjóða þessa hluti út. Ég skil þann þátt að semja við Landgræðsluna og ég skil þann þátt að semja við bændur en ég skil ekki hvernig ráðherrann sér það fyrir sér að bjóða þetta verkefni út. Ég óska því eftir nánari útskýringu ráðherrans á því.
    Hæstv. forseti. Undanfarið hefur umræðan nokkuð snúist um utanríkismál. Þar hefur verið rætt um samskipti okkar við og hugsanlega framtíðarþátttöku í Evrópubandalaginu og jafnvel inngöngu þar eða einhvers konar samstarf. Evrópubandalagið hefur að sjálfsögðu sérstaka stefnu í umhverfismálum sem fram

kemur í mjög stuttu máli í bók Gunnars G. Schram um Evrópubandalagið sem er afar fróðleg. Ég ætla að leyfa mér að glugga lítillega í það en þar er einnig örstutt söguleg skýring. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í Rómarsáttmálanum er engin ákvæði að finna sem fjalla um umhverfismál og nauðsyn þess að vernda líf, land og vatn innan bandalagsríkjanna. Ber það vitni um það hve miklu minni áhersla var lögð á verndun umhverfisins í almennri umræðu og af hálfu stjórnvalda á þeim árum sem Rómarsáttmálinn var undirbúinn.
    Úr þessu hefur nú verið bætt af hálfu bandalagsins. Í einingarlögum Evrópu, sem bandalagið samþykkti árið 1986, er sérstaklega fjallað um umhverfisvernd og nauðsyn hennar. Verður að þeim ákvæðum vikið hér á eftir. Umhverfismálin komust þó á dagskrá bandalagsins fyrir allmörgum árum. Á fundi leiðtoga bandalagsríkjanna, sem haldinn var árið 1972, voru þau til umræðu og þar ákveðið að fela stofnunum bandalagsins að móta stefnuna í umhverfismálum og hefja þar nauðsynlegar aðgerðir. Þann 22. nóv. 1973 var fyrsta umhverfisverndaráætlun bandalagsins samþykkt að tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Í kjölfarið fylgdu síðan aðrar slíkar áætlanir og nú er fjórða umhverfisverndaráætlun bandalagsins í gildi, frá árinu 1987 til ársins 1992.
    Meginefnið í fyrstu umhverfisverndaráætluninni var m.a. eftirfarandi:
    1. Koma í veg fyrir og draga úr mengun.
    2. Viðhalda vistfræðilegu jafnvægi og vernda lífríkið.
    3. Stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda náttúrunnar og koma í veg fyrir að nýtingin valdi umhverfisskaða.
    4. Tekið verði tillit til umhverfisverndarsjónarmiða við bæja- og landskipulag.
    5. Vinna að lausn umhverfisvandamála í samvinnu við ríki utan Evrópubandalagsins, einkum og sér í lagi á sviði alþjóðastofnana.
    Eftir þessum meginmarkmiðum, og öðrum sem sett voru í síðari áætlunum, hefur verið unnið að umhverfisverndarmálum innan bandalagsins frá árinu 1973. Sett hafa verið meira en 100 lög um einstök svið umhverfisverndarmála, m.a. um starfsemi fyrirtækja, gæðaeftirlit, staðla o.fl.
    Svo sem fyrr sagði er fjallað um umhverfismál í einingarlögum Evrópu sem sett voru af hálfu bandalagsins 1986. Í þeim lögum er því lýst yfir að markmið Evrópubandalagsins í umhverfismálum sé eftirfarandi:
    Að viðhalda, vernda og bæta ástand umhverfisins.
    Að stuðla að umbótum í heilbrigðismálum.
    Að tryggja að náttúruauðlindir séu nýttar af fyrirhyggju og skynsemi.
    Þegar litið er til starfs Evrópubandalagsins að umhverfismálum á liðnum árum má segja að þar beri hæst baráttan við þau mörgu og miklu vandamál sem mengun hefur valdið í öllum bandalagsríkjunum svo sem í öðrum iðnaðarríkjum. Jafnframt hefur bandalagið í þessum efnum lagt áherslu á að tryggja

skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda aðildarríkjanna. Á það fyrst og fremst við um málefni á sviði landbúnaðarins en einnig að því er varðar vernd fiskistofnanna með takmörkunum á fiskveiðum innan hinnar sameiginlegu 200 sjómílna lögsögu bandalagsins.
    Þáttaskil urðu í störfum EB að umhverfismálum sumarið 1989. Þann 21. júní samþykkti framkvæmdastjórn bandalagsins að leggja til við ráðið að komið yrði á fót nýrri stofnun, Umhverfismálastofnun Evrópu. Er gert ráð fyrir að þessi nýja stofnun verði formlega stofnuð snemma árs 1990. Ríkjum utan Evrópubandalagsins, og þá fyrst og fremst EFTA-ríkjunum, mun verða boðin aðild að þessari nýju alþjóðastofnun, þar á meðal Íslandi.
    Þetta nýja framtak EB á sviði umhverfismála endurspeglar hve mikilvæg hin einstöku ríki bandalagsins telja umhverfismálin vera og nauðsyn þess að vera á varðbergi í þeim efnum. Í þeirri ákvörðun að bjóða öðrum ríkjum aðild að stofnuninni felst viðurkenning á því að umhverfismálin eru alþjóðleg í eðli sínu. Öll ríki Evrópu þurfa að leggjast á eitt til að árangur náist í þessum efnum innan álfunnar.
    Samhliða hinni nýju stofnun verður sett á laggirnar eftirlits- og upplýsingarkerfi í umhverfismálum sem starfrækt verður í náinni samvinnu við stofnunina (European Environment Agency and the European Environment Monitoring and Information Network).
    Meginhlutverk hinnar nýju Umhverfismálastofnunar er að veita bandalagsríkjunum og bandalaginu sjálfu liðsinni við að ná þeim markmiðum í umhverfisvernd sem fram koma í samningi bandalagsríkjanna og þeim áætlunum sem það hefur gert á þessu sviði. Að þessu verður unnið m.a. með því að láta EB, aðildarríkjum þess og öðrum þátttökuríkjum í té sem fyllstar og hlutlægastar upplýsingar um ástand í umhverfismálum sem orðið geta grundvöllur stefnumótunar og framkvæmda þessara ríkja í umhverfisverndarmálum. Jafnframt mun stofnunin gera umhverfisspár sem veitt geta leiðbeiningar um nauðsyn verndaraðgerða í framtíðinni, samhæfa upplýsingakerfi aðildarríkjanna í umhverfisverndarmálum og eiga aðild að alþjóðlegum umhverfisáætlunum. Sérstök áhersla mun í störfum stofnunarinnar verða lögð á eftirfarandi fjóra málaflokka: (a) varnir gegn loftmengun; (b) verndun vatns; (c) ástand gróðurs og jarðvegs; (d) landnýtingu og nýtingu auðlinda.
    EB bindur miklar vonir við starf hinnar nýju stofnunar að umhverfisvernd, ekki síst hins nýja eftirlits og upplýsingakerfis aðildarríkjanna á þessu sviði. Slíkt kerfi er ekki til en talið er að það geti mjög auðveldað aðildarríkjunum og bandalaginu sjálfu að greina hvar aðgerða er brýnust þörf og meta á þann hátt grundvöll raunhæfra aðgerða.``
    Síðan er hér, hæstv. forseti, listi yfir helstu verkefni sem ég ætla ekki að fara yfir þótt ekki sé hann nú ýkja langur. Þar eru verkefnin talin, vatnsmengun, loftmengun, hávaði, hættuleg efni og sorp og náttúruvernd.

    Eins og fram kom í þessari stuttu lesningu er gert ráð fyrir að nýrri stofnun verði komið á fót snemma á þessu ári. Vel má vera að það sé þegar búið að stofna hana. Einnig kemur fram að Íslandi muni verða boðin aðild að þessari alþjóðastofnun. Um þetta tvennt vildi ég spyrja hæstv. umhvrh., í fyrsta lagi hvort búið sé að koma þeirri stofnun sem hér er um fjallað á laggirnar og einnig hvort Ísland verði aðili að þeirri stofnun eða ekki. Og ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. umhvrh. sé í húsinu. ( Forseti: Forseti skal upplýsa það að hæstv. umhvrh. kom til forseta og greindi honum frá því að hann þyrfti að bregða sér út í Landsbanka til að ganga frá víxli. Forseti tók þessa afsökun og fjarvistarbeiðni mjög til greina, enda hefur hann ríkan skilning á slíkum vandamálum. Og forseti vill heimila hv. ræðumanni, ef hann er ekki ánægður með fjarvist hæstv. umhvrh., sem yrði í hæsta lagi í 10 mínútur, að standa í ræðustól á meðan.) Og tala væntanlega?
    Hæstv. forseti. Ég er nú enn í fyrri ræðu þannig að ég get mjög auðveldlega endurtekið þessa spurningu mína til hæstv. umhvrh. í seinni ræðu minni og einnig í raun og veru það sem ég á eftir að segja sem er reyndar fjölmargt. En ég tel að hæstv. umhvrh. þurfi að vera viðstaddur þessa umræðu og hlýða á mál manna þegar verið er að fjalla um jafnmikilvægt mál og raun ber vitni og mikilvægt fyrir hann sem slíkan. Við erum hér að vinna dag og nótt fyrir hæstv. umhvrh. Ég ætla mér þess vegna ekki að tala hér fyrir tómum stóli hæstv. ráðherra. Mér er sama þótt aðrir stólar séu tómir en ekki hæstv. ráðherra. Ég ætla hins vegar ekki að fara fram á að fá að fresta ræðu minni, ég hygg að það fáist ekki í gegn, og ætla því að segja henni lokið að sinni.